Pexels

Stöðvalaus rafhlaupahjól í Reykjavík

Mikil aukning hefur orðið á stöðvalausum rafhlaupahjólum í evrópskum borgum undanfarna mánuði. Hjólin hafa notið vinsælda sem umhverfisvænn kostur til að fara styttri leiðir. Þrír aðilar, þar af einn erlendur, hafa óskað eftir því að starfrækja stöðvalausa hjólaleigu í Reykjavík en verklagsreglur um þjónustuna voru samþykktar í byrjun júlí í borgarráði.

Gríðarleg aukning hefur orðið á stöðvalausum hjólum í evrópskum borgum að undanförnu, bæði hjólum og rafhlaupahjólum. Hjólin hafa notið vinsælda sem umhverfisvænn kostur og þykja nýtast vel sem samgöngubót. Í Reykjavík munu borgarbúar geta von bráðar ferðast um á rafhlaupahjólum sem þeir taka tímabundið á leigu. Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í síðustu viku verklagsreglur um starfsemi stöðvalausa hjólaleiga. Að minnsta kosti þrír þjónustuaðilar hafa óskað eftir að starfrækja stöðvalausar hjólaleigur í borginni, þar á meðal einn erlendur aðili.

Má ekki skilja þau eftir hvar sem er

Umhverfis og skipulagsvið Reykjavíkurborgar lagði fram verklagsreglur fyrir starfsemi stöðvalausa hjólaleigu á borgarlandi Reykjavíkur í byrjun júlí. Tilgangur verklagsreglnanna er að tryggja gagnsætt og opið verklag þegar þjónustuaðili óskar eftir að starfrækja stöðvalausa hjólaleigu með reiðhjólum, hlaupahjólum eða öðrum sambærilegum léttum farartækjum, án fastra hjólastöðva innan borgarlands Reykjavíkur. 

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulag- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.
Bára Huld Beck

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulag- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar segir að það séu spennandi tímar um þessar mundir í borginni þar sem fólk og fjölbreyttari fararmátar fái sífellt meira vægi. „Frábært dæmi um það er sú göngugötuvæðing sem hafin er og svo það að von bráðar geta borgarbúar ferðast um á rafmagnshjólum og rafmagnshlaupahjólum sem þeir eiga ekki sjálfir heldur taka tímabundið á leigu,“ segir Sigurborg Ósk í fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar um verkalagsreglurnar.

Í verklagsreglunum er tekið fram að í lok hvers mánaðar skal þjónustuaðili upplýsa Reykjavíkurborg um nýtingu á flotanum fyrir viðkomandi mánuð. Ef nýting flotans er undir tveimur ferðum á dag að meðaltali þrjá mánuði í röð án eðlilegra útskýringa áskilur borgin sér rétt til að afturkalla afnotaleyfið. Við þetta skilyrði telur Reykjavíkurborg að landsvæðið nýtist betur í aðrar athafnir. 

Jafnframt er greint frá því í verklagsreglunum hvernig skilja megi við hjólin. „Reglunar eru settar til að hjólin valdi ekki hættu eða óþarfa óþægindum fyrir aðra umferð og að almennt gildir sú regla að sýna verði tillitsemi og almenna skynsemi þegar skilið er við hjól,“ segir í reglunum. 

Í reglunum segir meðal annars að ekki skuli skilja við hjól á grasi eða möl lengra en 2 metra frá næsta stíg. Þá má ekki skilja hjólin eftir í gróðurbeðum eða á verndarsvæðum eða innan við 50 metra frá strandlínu, tjörn eða árbakka, til að hindra að þriðji aðili varpi ekki hjólinu í vatnið. Verklagsreglurnar voru samþykktar í borgarráði í byrjun júlí en Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að endurskoða verklagsreglurnar með hliðsjón af reynslu og nýjum upplýsingum.  

Vonandi fyrstu 100 hjólin í lok sumars

Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og skipulagsviði Reykjavíkurborgar hafa að minnsta kosti þrír aðilar, þar af einn erlendur lýst yfir áhuga um að starfrækja stöðvalausar hjólaleigur í Reykjavík. Einn þeirra er fyrirtækið Hopp.

Eiríkur Nílsson, einn af stofnendum Hopps, vinnur nú að því ásamt samstarfsfólki sínu í hugbúnaðarfyrirtækinu Aranja að koma á laggirnar leigu stöðvalausa rafhlaupahjóla. Rafhlaupahjól Hopp verða ekki innflutt hjól frá öðru erlendu fyrirtæki heldur sérhönnuð hjól sem Aranja hefur hannað í samstarfi við framleiðendur hjólanna. 

Eiríkur segir í samtali við Kjarnann að þetta muni verða stöðvalaus hlaupahjól eins og staðan er núna. Skráðir notendur geta þá með appi séð hvar næsta hjól er staðsett og hversu mikil hleðsla er eftir á hjólinu. Notandinn finnur hjólið, skannar QR-kóðann á hjólinu og keyrir af stað. Notandinn á síðan að geta skilið við hjólið þar sem honum hentar og hjólunum er síðan safnað saman og hlaðin á nóttunni eftir þörfum. 

Eiríkur segir að markmiðið hafi verið að fyrstu hundrað stykkin af hjólunum kæmu til landsins í júli en vegna tafa hjá framleiðanda þá sé ólíklegt að hjólin komi í þessum mánuði og jafnvel ekki heldur í ágúst. Hjólin eiga að komast um það bil 50 kílómetra á einni hleðslu og ráða við þyngd upp á 140 kíló. Þau eru einnig vatnsheld og byggð til að þola mikið álag.

Að lokum segir Eiríkur það vera frábærar fréttir að verklagsreglur um hjólin hafi verið samþykkt í borgarráði. Hann bendir hins vegar á að það verði áhugavert að sjá hvort að krafan um að minnsta kosti verði farnar að meðaltali tvær ferðir á hverju hjóli á dag sé raunhæf. Hann segir að til að mynda hafi WOW hjólin aðeins verið notuð að meðaltali einu sinni á dag. 

Þýska fyritækið Tier er fyrirtæki sem býður nú upp á rafhlaupahjólaleigu í yfir 33 borgum í Evrópu. Fyrirtækið hefur vaxið hratt en á innan við ári hafa verið farnar 3 milljónir ferða á aðeins Tier hlaupahjólum.
TIER

Herða reglur um hlaupahjólin

Síðustu mánuði hafa stöðvalausar rafhlaupahjólaleigur skotið upp hausnum í mörgum borgum í Evrópu. Á afar skömmum tíma hafa hjólin orðin stór þáttur í samgöngukerfum borganna en hjólin þykja handhægur ferðamáti sem flestir ráða við og er oft markaðssett sem viðbót við aðrar samgöngur. 

Útbreiðslu hjólanna hefur þó fylgt margskonar vaxtarverkir. Takmarkaðar reglugerðir hafa leitt til þess að vegna fjölda nýrra þjónustuaðila eru of mörg hjól í borgunum og þau skilin eftir þar sem þau hindra aðra vegfarendur. 

Í frétt danska ríkisútvarpsins um málið segir að rafhlaupahjól hafa notið mikilla vinsælda í Kaupmannahöfn síðustu mánuði en í kjölfar mikilla kvartanna hafi nú verið lögð fram reglugerð þar sem lagt er til að aðeins verði leyfð 200 rafhlaupahjól í miðbænum en 3000 rafhlaupahjól í öðrum hverfum í borginni. Rafhlaupahjólaleigurnar hafa hins vegar kvartað yfir því að þessi reglugerð geti verulega skert aðgengi notenda að hjólunum en markmiðið er að notendur geti nánast alltaf fundið hjól í nærumhverfi sínu.

Samkvæmt umfjöllun Euronews hefur ekki aðeins verið kynnt hertari löggjöf um rafhlaupahjól í Danmörku en í kjölfar dauðaslyss í París hefur verið kynnt nýtt lagafrumvarp um hjólin í Frakklandi. Samkvæmt frumvarpinu verður hámarkshraði hjólanna 20 kílómetrar á klukkustund og aðeins 8 kílómetrar á svæðum þar sem mikinn fjöldi gangandi vegfaranda má finna. Auk þess verður bannað að leggja hjólunum nema á ákveðnum svæðum og bannað verður að keyra hjólin á gangstéttum. 

Í Þýskalandi og Svíþjóð hafa einnig verið samþykktar nýjar reglugerðir um rafhlaupahjól. Þar á meðal 20 kílómetra hámarkshraða og bann við hjólunum á gangstéttum. Enn fremur er verið að undirbúa svipaðar reglugerðir á Spáni og Ítalíu. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBirna Stefánsdóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar