Í nýju frumvarpi um lagabreytingar vegna jöfnunar lífeyrisréttinda, sem nú er til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda, er lagt til að hækkun á lágmarksiðgjaldi sem skylda er að greiða til lífeyrissjóðs verði hækkað úr tólf prósent í 15,5 prósent af heildarlaunum. Þetta er gert í þeim tilgangi að jafna lífeyrisréttindi.
Um er að ræða aðgerð sem er hluti af þeim pakka sem stjórnvöld samþykktu að ráðast í vegna lífskjarasamninganna svokölluðu, sem undirritaðir voru í apríl. Þar sögðust stjórnvöld ætla að setja það í forgang að skylda greiðslur í lífeyrissjóð til að vera 15,5 prósent af heildarlaunum en að heimilt yrði að skipta hinu lögbundna iðgjaldi þannig að tólf prósent færi til öflunar réttinda í samtryggingardeild lífeyrissjóðs og allt að 3,5 prósent gæti farið í öflun réttinda í svokallaðri tilgreindri séreign.
Eftirlaun gætu orðið hærri en lokalaun
Um mikla breytingu er að ræða. Ef skyldusparnaður er hækkaður svona mikið mun það þýða að greiðslur vegna hans munu aukast um 29 prósent. Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og fyrrverandi stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða, hefur skilað umsögn um frumvarpið þar sem segir það stóra ákvörðun að hækka skyldusparnað svona mikið. Hann bendir á að í kynningu á málinu komi ekkert fram um ætluð áhrif á eftirlaun fólks né áhrif á hagkerfið í heild. Með útreikningum sýnir hann fram á að eftirlaun geti orðið á mörkum þess að vera of mikil verði breytingin á lögum. Með séreignarsparnaði geti lífeyrir orðið umtalsvert hærri en lokalaun, en almennt sé talið vel ásættanlegt að slíkur sé á bilinu 60 til 80 prósent af þeim.
Gæti eytt öllu svigrúmi til sparnaðar
Gunnar segir að þegar „eftirlaunsparnaður er orðinn um fimmtungur launa er ólíklegt að einstaklingur hafi svigrúm til að vera með mikinn eða einhvern annan sparnað. Þvert á móti má benda á að líklegra er að hækkun skyldusparnaðar leiði til aukinnar skuldsetningar einstaklinga framan af starfsævinni, til dæmis ef þeir vilja kaupa fasteign til að búa í. Loks má færa sterk rök fyrir því að það sé óheppilegt að lífeyrissjóðir og vörsluaðilar lífeyrissparnaðar stýri megninu af sparnaði einstaklinga en það getur leitt til einsleitra fjárfestinga og að flestar fjárfestingarákvarðanir séu teknar af fáum stórum stofnanafjárfestum.“
Í ljósi þess að hversu stór breytingin yrði, ef frumvarpið yrði að lögum og hækkun á skyldusparnaði yrði hækkuð um tæp 30 prósent, leggur Gunnar til að málið verði undirbúið vel og að stjórnvöld vinni greiningu á sparnaðarþörf einstaklinga og áhrifum hækkunarinnar á fjármál einstaklinga. Auk þess verði lagt hagrænt mat á stækkun lífeyriskerfisins og þróun fjárfestingaþarfar ásamt líklegum áhrifum á hagkerfið.