Lífeyrissjóðir landsins lánuðu alls 7,7 milljarða króna til sjóðsfélaga sinna í júnímánuði. Þar af voru rúmlega 5,2 milljarðar króna verðtryggð útlán en tæplega 2,5 milljarðar króna óvertryggð. Það þýðir að tvær af hverjum þremur nýjum krónum sem lífeyrissjóðir landsins lánuðu til sjóðsfélaga í mánuðinum voru verðtryggðar krónur. Þetta má lesa úr nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um lífeyrissjóðakerfið.
Frá því að lífeyrissjóðirnir fóru að bjóða upp á óverðtryggð húsnæðislán haustið 2015 þá hafa verðtryggðu lánin nær alltaf verið vinsælli hjá sjóðsfélögum þeirra. Breyting varð á því síðla árs í fyrra, nánar tiltekið í nóvember 2018, þegar tekin óverðtryggð lán voru nánast sama upphæð og þau sem voru verðtryggð. Í desember sama ár gerðist það svo í fyrsta sinn að sjóðsfélagar lífeyrissjóða tóku hærri upphæð óverðtryggða að láni innan mánaðar en verðtryggða. Í þeim mánuði voru rúmlega 60 prósent allra útlána lífeyrissjóða óverðtryggð. Þá hafði verðbólga hækkað nokkuð skarpt á skömmum tíma eftir að hafa verið undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans árum saman. Í júlí 2018 fór hún yfir það markmið í fyrsta sinn í meira en fjögur ár og í desember mældist hún 3,7 prósent.
Færa sig með verðbólguþróun
Í janúar 2019 var verðbólgan enn há, mældist 3,4 prósent, og sjóðsfélagar héldu því áfram að taka frekar óverðtryggð lán en verðtryggð, enda hefur verðbólga bein áhrif á þróun höfuðstóls verðtryggðra lána. Það var þó augljóslega að færast meira öryggi í húsnæðismarkaðinn vegna þess að heildarlántaka fór úr tæplega 9,1 milljarði króna í janúar úr tæplega 5,1 milljarði króna í mánuðinum á undan, og var umtalsvert hærri en í janúar 2018.
Í febrúar 2019 var hærri heildarupphæð tekin að láni hjá lífeyrissjóðum til húsnæðiskaupa en í saman mánuði árið áður en áhuginn á verðtryggðum lánum jókst og fleiri lántakendur tóku slík lán en óverðtryggð. Sú staða hefur haldist síðustu mánuði og viðsnúningurinn náði hámarki í júní þegar um 67 prósent allra nýrra útlána lífeyrissjóða voru verðtryggð.
Heildarupphæð lántöku sjóðsfélaga hefur þó verið lægri frá byrjun mars og út júní en hún var á sama tímabili í fyrra. Það vekur athygli þar sem fjöldi nýrra útlána hefur aukist milli ára. Á fyrri hluta ársins 2018 veittu lífeyrissjóðir landsins alls 3.577 ný útlán en á sama tímabili í ár voru þau 3.756 alls.
Lífeyrissjóðirnir bjóða best
Lífeyrissjóðir hafa boðið upp á bestu kjör á húsnæðislánum sem hægt er að fá hérlendis á undanförnum árum, fyrir þá sem uppfylla skilyrði þeirra. Þau eru fyrst og fremst að lántaki hafi greitt í viðkomandi lífeyrissjóð og eigi umtalsvert eigið fé, en flestir sjóðirnir takmarka lánveitingar sínar við 65 til 70 prósent af kaupverði.
Óverðtryggðir vextir hafa líka lækkað mjög skarpt. Lífeyrissjóður verzlunarmanna lækkaði til að mynda fasta óverðtryggða vexti sína um miðjan síðasta mánuð og fóru þeir þá úr 6,12 prósentum í 5,14 prósent, sem þýðir um 16 prósent lækkun.
Eftir þá breytingu eru þeir vextir hagstæðustu föstu óverðtryggðu vextir sem standa íslenskum íbúðarkaupendum til boða. Birta býður hins vegar upp á betri breytilega óverðtryggða vexti til þeirra sjóðsfélaga sem uppfylla skilyrði til lántöku. Þeir geta fengið allt að 65 prósent af kaupverði á 4,85 prósent vöxtum hjá þeim sjóði. Sú breyting átti sér stað í byrjun júlí.
Bestu verðtryggðu vextir sem viðskiptabanki býður eru hjá Landsbankanum, sem lánar grunnlán á 3,25 prósent vöxtum. Hann býður líka best allra viðskiptabankanna þegar kemur að óverðtryggðum vöxtum, eða 5,58 prósent.