Á stjórnarfundi í VR í kvöld verður lögð fram tillaga þess efnis að stéttarfélagið gerist fjárhagslegur bakhjarl neytenda í baráttunni gegn smálánum. Í því mun felast að VR, í samstarfi með Neytendasamtökunum, mun leggja út fyrir kostnaði vegna lögfræðivinnu og dómsmála sem þarf að höfða til að koma í veg fyrir að smálánafyrirtæki og þeir sem sinna innheimtu fyrir þau geti haldið áfram að innheimta okurvexti frá lántökum.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir markmiðið með þessari ákvörðun VR að algjört stöðvun verði á greiðslum á öðru en höfuðstól til smálánafyrirtækja eða innheimtufyrirtækja sem starfi fyrir þau.
Vilja stöðva „glæpafyrirtæki“
Hann segir að fyrirtækið Almenn innheimta ehf., sem er í eigu lögmannsins Gísla Kr. Björnssonar, hafi þráast við að sýna fram á sundurliðaðan kostnað af þeim kröfum sem gerðar hafi verið á lántakendur smálána. „Við munum taka upp hanskann fyrir þetta fólk sem aðrir hafa brugðist og snúa við sönnunarbyrðinni þannig að hún færist yfir á innheimtuna. Hún þarf að sýna fram á lögmætið. Við munum hvetja fólk til að greiða ekki af lánunum nema að það verði sundurliðaður allur kostnaður sem liggur að baki þeim.“
Slíkur kostnaður hafi ekki fylgt kröfunum hingað til en það hafi hins vegar ekki komið í veg fyrir að bankar landsins hafi spilað með í innheimtu fyrirtækjanna, sem Ragnar Þór kallar „glæpafyrirtæki“.
Hann telur að Almenn innheimta ehf. sé í herferð við að ná inn sem mestu af útistandandi meintum skuldum á næstu vikum áður en að nýtt frumvarp sem á að koma í veg fyrir starfsemi smálánafyrirtækja, sem verður lagt fram í haust, verður samþykkt.
Nær til allra smálánataka
Málið hefur ekki átt sér langan aðdraganda en Ragnar Þór hefur fundað með forsvarsmönnum Neytendasamtakanna undanfarna daga til að forma það. „Við höfum fylgst með baráttu Neytendasamtakanna og getuleysi löggjafans viðað sporna við þessu, Bankarnir virðast svo án athugasemda skuldfæra af reikningum þessa fólks þrátt fyrir mjög veikar lagaheimildir. Nú verður þetta stöðvað.“
Heildarendurgreiðslur hærri en lög leyfa
Neytendasamtökin hafa staðið í baráttu við smálánafyrirtæki hérlendis árum saman, og hefur meiri þungi færst í hana á síðustu mánuðum. Þau sendu frá sér tilkynningu í síðasta mánuði þar sem þau skoruðu á Almenna innheimtu ehf. að stöðva tafarlaust innheimtu á smálánaskuldum sem byggðu á ólögmætum lánum. Fyrir lægi að vextir á smálánum væru margfalt hærri en heimilt væri samkvæmt lögum. Þrátt fyrir það virðist ekkert fá stöðvað Almenna innheimtu við að innheimta þessi ólöglegu lán.
Á Íslandi má kostnaður vegna neytendalána, smálán falla undir þá skilgreiningu, einungis vera 50 prósent ofan á stýrivexti Seðlabanka Íslands á ársgrundvelli. Neytendasamtökin hafa hins vegar undir höndum gögn sem sýna að heildarendurgreiðslur lántakenda eru mun hærri en lög leyfa, jafnvel þó miðað sé við hæstu löglegu vexti. Þrátt fyrir það heldur Almenn innheimta áfram innheimtu sinni á ólöglegum vöxtum og hótunum um skráningu á vanskilaskrá Creditinfo, samkvæmt tilkynningu Neytendasamtakanna.
Creditinfo hefur staðfest að ekki verði skráð frekari vanskil á fólk vegna smálánaskulda nema höfuðstóll kröfunnar sé í vanskilum. Því hvetja Neytendasamtökin þá einstaklinga sem eru á vanskilaskrá vegna smálánaskuldar að sendu póst á Creditinfo og fara fram á að vera tekin af skrá.
Bótaskylda gæti hafa skapast
Neytendasamtökin hafa jafnframt beint þeim tilmælum til lántakenda, sem greitt hafa hærri upphæð til baka en sem nemur lánsupphæð, að fara fram á skýra sundurliðun frá Almennri innheimtu ehf. Fyrirtækið hefur hins vegar gefið sér allt að þrjá mánuði til að veita þessar upplýsingar sem neytendasamtökin segja að lántakendur eiga rétt á.
„Það vekur furðu að fyrirtækið hafi ekki tiltæka sundurliðun á kröfum sem það telur sér þó fært að innheimta. Þá telja Neytendasamtökin í hæsta máta óeðlilegt að innheimta vanskilakostnað á kröfur sem byggja á ólögmætum lánveitingum. Slíkt geti ekki verið löglegt,“ segir í tilkynningunni.
Nú eru Neytendasamtökin komin með öflugan fjárhagslegan bakhjarl sem getur fylgt slíkum málum eftir.
Fleira ungt fólk í skuldavanda
Kjarninn greindi frá því í júlí að á árinu 2019 hefðu borist 258 umsóknir um greiðsluaðlögun til Umboðsmanns skuldara. Greiðsluaðlögun er úrræði fyrir einstaklinga sem eiga í verulegum greiðslu- og skuldavanda. Mikil fjölgun hefur orðið í umsóknum um greiðsluaðlögun hjá yngsta aldurshópnum, 18 til 29 ára, en umsækjendur úr þeim hópi voru 27 prósent allra umsækjenda í fyrra.
Í yngsta aldurshópnum voru 79 prósent umsækjenda með skyndilán og voru 22 prósent af heildarskuldum umsækjanda tilkomin vegna smálána á þessu aldursbili.