Mynd: Úr safni

Ekki hlutverk Seðlabankans að útdeila réttlæti í samfélaginu

Seðlabankinn telur að fjárfestingarleiðin hafi verið réttlætanleg aðgerð vegna þess að hún vann á aflandskrónuvandanum, Þau neikvæðu áhrif sem hún hafði á tekju- og eignaskiptingu og á getu auðmanna til að koma fé úr aflandsfélögunum í vinnu á Íslandi vegi minna á vogarskálunum. Seðlabankinn hefur birt skýrslu um fjárfestingarleiðina.

Seðlabanki Íslands telur að fjárfestingarleiðin og ríkisbréfaleiðin sem hann stóð fyrir á árunum 2011 til 2015 til að vinna á þeim aflandskrónuvandanum og stuðla að afnámi hafta, hafi þjónað tilgangi sínum. 

Gjaldeyrisútboðin sem leiðirnar fólu í sér hefðu beinst að vanda sem ekki hafi verið auðveldlega leystur með öðrum hætti nema á mjög löngum tíma. Aðgerðunum hafi vissulega fylgt „ýmis neikvæð hliðaráhrif, eins og algengt er um aðgerðir af þessu tagi en þau jákvæðu áhrif sem að var stefnt með aðgerðunum vega þó þyngra á vogarskálunum.“

Þetta kemur fram í skýrslu sem Seðlabankinn birti síðdegis í dag um þátt gjaldeyrisútboða í lausn greiðslujafnaðarvandans sem Íslands stóð frammi fyrir eftir hrun síðdegis. 

Þar segir enn fremur að rétt sé „að halda því til haga að það voru ekki eingöngu umdeildir auðmenn sem voru í þeirri stöðu að eiga óskilaskyldan gjaldeyri. Töluverður fjöldi Íslendinga sem áttu fasteignir erlendis vegna búsetu seldu fasteignir í tengslum við búferlaflutninga til Íslands og tóku þátt í fjárfestingarleiðinni. “

Íslendingar fluttu inn tugi milljarða og fengu virðisaukningu

Í skýrslunni er fjallað um hluta þeirrar gagnrýni sem fjárfestingarleiðin hefur fengið á undanförnum árum, en leiðin bauð völdum hópi upp á glugga í gegnum fjármagnshaftavegginn sem umlukti íslenskt efnahagslíf á þessum árum.

Alls fóru fram 21 útboð eftir fjár­­­­­­­fest­ing­­­ar­­­­leið­inni frá því í febr­­­­úar 2012 til febr­­­­úar 2015, þegar síð­­­­asta útboðið fór fram. Allt í allt komu um 1.100 millj­­­­ónir evra til lands­ins á grund­velli útboða fjár­­­­­­­fest­ing­­­­ar­­­­leið­­­­ar­inn­­­­ar, sem sam­svaraði 206 millj­­örðum króna. Leiðin stóð upphaflega einungis þeim til boða sem áttu 50 þúsund evrur í lausu fé utan Íslands. Þau mörk voru síðar lækkuð í 25 þúsund evrur. Því var það afmarkaður hópur fólks sem hafði aðgang að töluverðu lausu fé sem gat nýtt sér leiðina. 

794 inn­­­­­­­lendir aðilar komu með pen­inga inn í íslenskt hag­­­­kerfi í gegnum útboð fjár­­­­­­­fest­ing­­­­ar­­­­leiðar Seðla­­­­banka Íslands. Pen­ingar þeirra námu 35 pró­­­­sent þeirrar fjár­­­­hæðar sem alls komu inn í landið með þess­­­­ari leið, en hún tryggði allt að 20 pró­­­­sent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir pen­ing­anna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 millj­­­­arða króna fyrir þann gjald­eyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur sam­­­­kvæmt skil­­­­málum útboða fjár­­­­­­­fest­ing­­­­ar­­­­leið­­­­ar­inn­­­­ar.

Afslátt­­­ur­inn, eða virð­is­aukn­ing­in, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjald­eyr­inum á skráðu gengi Seðla­­­­bank­ans er um 17 millj­­­­arðar króna.

Hluti fjármunanna komu frá aflandssvæðum og sumir þeirra einstaklinga sem nýttu sér leiðina voru aðilar sem annað hvort voru til rannsóknar vegna efnahagsglæpa á þeim tíma eða stóðu í umfangsmiklu uppgjöri við kröfuhafa sína sem töldu sig ekki hafa vitneskju um eignir þeirra erlendis. 

Kjarninn hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum um hvaða einstaklingar það eru sem fengu að nýta sér fjárfestingarleiðina en Seðlabankinn hefur borið fyrir sig trúnað og neitað að veita þær upplýsingar. 

Óæskileg hliðaráhrif

Í skýrslu Seðlabankans er viðurkennt að flestar efnahagslegar ráðstafanir sem gripið sé til hafi einhver óæskileg hliðaráhrif. Líklegt sé að það eigi einnig við um fjárfestingarleiðina. 

Í skýrslunni er síðan talið upp að í útboðum leiðarinnar hafi falist hvati til þess að flýta ákvörðunum um fjárfestingu í því skyni að nýta rétt til að kaupa krónur með afslætti. „Í einhverjum tilvikum kann það að hafa leitt til þess ákvörðun um fjárfestingu varð ekki eins vönduð og ella hefði orðið og það skapað rekstrarvanda síðar.“

Þá segir að fjárfestingarleiðin hafi sett aðila sem áttu óskilaskyldan erlendan gjaldeyri í betri stöðu til að kaupa kaupa innlendar eignir á lágu verði og gengi. „Áhrif þess á eignaskiptingu kunna að vera neikvæð. Í kjölfar efnahagskreppu geta aðilar sem eru í sterkri lausafjár- og eiginfjárstöðu jafnan eignast eignir á hagstæðu verði, jafnvel þótt slíkri fjárfestingu sé ekki beint í farveg sem takmarkar seljanleika fjárfestingar, eins og gert var í tilfelli ríkisbréfa- og fjárfestingarleiðar. Þótt deila megi um sanngirni þess var fátt sem Seðlabankinn gat gert til þess að stuðla að sanngjarnari útkomu innan þess lagaramma sem hann starfar undir og án þess að ganga gegn því markmiði aðgerðanna að stuðla að stöðugleika. Í stöðugleikanum felast afar brýnir almannahagsmunir sem vega verður á móti óæskilegum tekjuskiptingaráhrifum, enda kemur óstöðugleikinn oft niður á þeim sem síst skyldi og hafa takmörkuð úrræði eða þekkingu til að verja hagsmuni sína,“ segir í skýrslunni. 

Líklega kom stærri hluti úr skattaskjólum

Seðlabankinn viðurkennir einnig að gagnrýni á heimild félaga með aðsetur á lágskattarsvæðum til þátttöku í fjárfestingarleiðinni hafi verið eðlileg í ljósi sögunnar. 

Í skýrslunni segir að þáttur slíkra aflandsfélaga hafi einungis verið 2,4 prósent af heildarfjárfestingu í gegnum fjárfestingarleiðina og að ítrustu kröfur voru gerðar til þess að peningaþvættisathugunum. 

Seðlabankinn telur þó vandséð hvernig hann hefði átt að koma í veg fyrir fjárfestingu aflandsfélaganna. „Í fyrsta lagi hefði þurft að vera heimild til þess í lögum sbr. það sem áður er rakið varðandi lögbundin valdmörk stjórnvalda. Í öðru lagi er ólíklegt að það hefði þjónað nokkrum tilgangi að hafa slíka heimild í lögum. Möguleikinn á slíku var raunar ræddur í undirbúningsferlinu, en niðurstaðan var að slíkt ákvæði væri tilgangslaust. Hefði félögum frá slíkum svæðum verið meinað að taka þátt í útboðunum hefði þeim verið í lófa lagið að flytja fjármuni sína til OECD-ríkis fyrir útboðið og taka þannig þátt. Við það hefði slóð fjármunanna mögulega rofnað og skattrannsóknarstjóri ekki fengið upplýsingar frá Seðlabankanum um tilvist þessara aflandsfélaga þó vissulega hefðu upplýsingar um endanlega eigendur fjármuna legið fyrir í báðum tilvikum. Þetta kann að skýra þá staðreynd að tiltölulega lágt hlutfall fjárfestingar kom frá skattaskjólum. Flestir þeirra sem höfðu eitthvað að fela í skattaskjólum hafa sennilega ekki viljað sýna á spilin.“

Engar tilkynningar um peningaþvætti

Kjarninn greindi frá því í janúar 2017 að Seðlabankinn hefði litið svo á að það væri fjármálafyrirtækjanna sem sinntu hlutverki milliliða að ganga úr skugga um að þeir fjármunir sem notaðir voru til að kaupa krónur í gegnum fjárfestingarleiðina væru fengnir með löglegum hætti, að af þeim hefðu verið greiddir skattar og að þeir væru ekki með réttu eign annarra, t.d. kröfuhafa viðkomandi. Engar tilkynningar vegna peningaþvættis bárust til peningaþvættisskrifstofu vegna fjárfestingarleiðarinnar.

Allt eftirlit Íslendinga með peningaþvætti fékk raunar falleinkunn hjá alþjóðlegu samtökunum Financial Action Task ­Force (FATF) í fyrra sem kröfðust þess að umfangsmiklar úrbætur yrðu gerðar, annars yrði Ísland sett á lista yfir ósamvinnuþýð ríki. Fjármálaeftirlitið hefur frá þeim tíma framkvæmd athuganir á því hvernig fjármálafyrirtæki hafi staðið sig í vörnum gegn peningaþvætti. Fjármálaeftirlitið hefur birt niðurstöðu úr einni athugun, á stöðu mála hjá Arion banka. Sú niðurstaða, sem lá fyrir í janúar síðastliðnum, var á þá leið að fjölmargar brotalamir væru á þeim vörnum hjá bankanum. Meðal annars hefði bankinn ekki metið með sjálf­stæðum hætti hvort upp­lýs­ingar um raun­veru­lega eig­endur við­skipta­vina væru réttar og full­nægj­andi. 

Ekki hlutverk Seðlabankans að útdeila réttlæti

Í skýrslunni segir að það sé ekki hlutverk Seðlabanka Íslands að útdeilda réttlæti í samfélaginu „með því að greina á milli æskilegra og óæskilegra fjárfesta, verðugra og óverðugra.“ Það sé ekki úrlausnarefni hans. „Önnur stjórnvöld og stofnanir hafa hlutverki að gegna við að framfylgja lögum landsins, m.a. Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri, lögregla, saksóknarar og svo dómstólar sem endanlega kveða á um sekt manna og réttarstöðu þeirra gagnvart lögum og stjórnvöldum. Seðlabankanum er ekki heimilt að fara inn á valdsvið þeirra þvert á öll sjónarmið um lögbundna stjórnsýslu og valdmörk stjórnvalda. Þá hefði Seðlabankinn ekki heldur getað aflað upplýsinga um fjárfesta frá lögreglu eða saksóknara, og á grundvelli þess útilokað fjárfesta sem kynnu að hafa verið til rannsóknar hjá öðrum stjórnvöldum, og tekið þannig afstöðu til sektar eða sýknu. Fyrir því skorti lagagrundvöll.“

Af þessum ástæðum hafi skilyrði fyrir þátttöku í fjárfestingarleiðinni að langmestu leyti verið formlegs eðlis og ekki efnisleg hvað varðar stöðu þátttakenda eða einstakar fjárfestingar. „Seðlabankanum hefði ekki verið stætt á öðru. Bankinn hefur þó lögum samkvæmt hlutverki að gegna við eftirlit með lögum um gjaldeyrismál og rannsóknir á brotum á þeim lögum eða reglum sem á þeim byggja. Því voru málefnaleg rök fyrir því að bankinn setti ákvæði í skilmála fjárfestingarleiðar þess efnis að aðilar mættu ekki hafa verið kærðir til lögreglu, ákærðir af handhafa ákæruvalds eða sætt rannsókn hjá Seðlabankanum vegna meintra brota á lögum um gjaldeyrismál.“

Hefði tafið fyrir aðgerðinni að horfa til áhrifa á auðskiptingu

Hluti af gagnrýninni sem sett hefur verið fram á fjárfestingarleiðina er að hún hafi leitt til aukinnar misskiptingar auðs og tekna og jafnvel fært auð til auðkýfinga á lágskattasvæðum.

Seðlabankinn segir að það sé ekki hans að taka afstöðu til slíks eða beita sér gegn, heldur Alþingis. „Hefði það verið vilji Alþingis að útboðin tækju mið af tekjuskiptingarsjónarmiðum hefði löggjöfin þurft að mæla fyrir um það. Seðlabankanum var ekki falið það verkefni að taka tillit til tekjuskiptingarsjónarmiða og það hefði verið mjög óvenjulegt, ef ekki einsdæmi, að fela seðlabanka slíkt vald. Slíkar áherslur hefðu mögulega bitnað á framkvæmd aðgerðarinnar og tafið óþarflega fyrir.“ 

Seðlabankinn gengst þó við því að ekki sé hægt að útiloka að gjaldeyrisútboðin hafi skekkt skiptingu tekna og auðlegðar með einhverjum hætti.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar