Alls eru átta forstjórar eða framkvæmdastjórar ríkisfyrirtækja með hærri mánaðarlaun en ráðherrar landsins, að forsætisráðherra undanskildum. Sex þeirra eru með hærri laun en forsætisráðherra.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar, um launabreytingar forstjóra og framkvæmdastjóri ríkisfyrirtækja.
Mánaðarlaun allra ráðherra nema Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, að fastri mánaðarlegri kostnaðargreiðslu meðtaldri, eru 1.866 þúsund krónur. Katrín hefur tæplega 200 þúsund krónum meira í laun á mánuði, eða 2.061 þúsund krónur.
Lögum um kjararáð var breytt í ágúst 2009. Þá ákvað ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, í kjölfar hrunsins og þeirra aðhaldsaðgerða sem ríkissjóður þurfti að grípa til, að kjararáð myndi einnig „ákveða laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu félaga sem undir þessa málsgrein falla.“
Samkvæmt lögunum átti kjararáð að gæta þess að „ákveða laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu félaga sem undir þessa málsgrein falla.“
Birna með hæstu launin
Í svari Bjarna til Þorsteins kemur fram að hæst launaðasti forstjóri ríkisfyrirtækis í apríl síðastliðnum hafi verið Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. Hún er með 3.865 þúsund krónur í mánaðarlaun en laun hennar hafa lækkað um tæpa milljón frá því í júní 2017, þegar ákvarðanir um laun ríkisforstjóra voru færðar frá kjararáði og yfir til stjórna fyrirtækja sem ríkið á. Laun hennar voru lækkuð síðla árs í fyrra. Hinn ríkisbankastjórinn, Lilja Björk Einarsdóttir sem stýrir Landsbankanum, kemur þar á eftir með 3.800 þúsund krónur á mánuði. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, var með 3.405 þúsund krónur í laun á mánuði og Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, með 2.880 þúsund krónur.
Forstjóri Isavia fékk greitt 2.508 þúsund krónur í laun í apríl en ekki er tilgreint hvort að um sé að ræða greiðslur til Björns Óla Haukssonar, sem lét að störfum 17. apríl síðastliðinn, eða þeirra sem önnuðust daglegan rekstur þar til að Sveinbjörn Indriðason, þáverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs fyrirtækisins, var ráðinn í starf forstjóra í sumar.
Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri RÚV, þáði 1.979 þúsund krónur í mánaðarlaun í apríl síðastliðnum og Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, var með 1.935 þúsund krónur á mánuði.
Laun hækkuðu um 82 prósent
Tilefni fyrirspurnar Þorsteins var að fá fram svör frá ráðherra um launabreytingar ríkisforstjóra frá því að ákvörðun um laun þeirra var færð undan kjararáði og til stjórna ríkisfyrirtækja um mitt ár 2017. Í svarinu kemur í ljós að laun bankastjóra Landsbankans hækkuðu mest frá þeim tíma og fram í apríl síðastliðinn, eða um 1.711 þúsund krónur. Það er launahækkun upp á 82 prósent á tæpum tveimur árum.
Forstjóri Landsvirkjunar hækkaði um 63 prósent í launum á sama tímabili, eða um 1.316 þúsund krónur á mánuði.
Forstjóri Landsnets fékk einnig afar ríflega hækkun, alls upp á 1.153 þúsund krónur, eða 67 prósent.
Laun þriggja framkvæmdastjóra lækkuðu á tímabilinu. Mest lækkuðu laun bankastjóra Íslandsbanka, eða um 946 þúsund krónur á mánuði. Laun framkvæmdastjóra Nýs Landsspítala ohf. og framkvæmdastjóra Þróunarfélags Keflavíkur lækkuðu einnig á tímabilinu, en um minni upphæðir.