Ísland mitt á spennusvæði í norðri
Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, er á leið til Íslands 4. september í opinbera heimsókn. Titringur hefur verið vegna komu hans, og spurt er; hvert er hans meginerindi? Heimsóknin ber upp á sama tíma og Bandaríkin hafa sýnt málefnum norðurslóða vaxandi áhuga. Viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna hefur aldrei verið nánara en nú, eftir mikinn vöxt í komu Bandaríkjamanna til Íslands.
Þó Donald Trump Bandaríkjaforseti steli oftar en ekki sviðsljósinu þá á það ekki alltaf við. Á dögunum var það Grænland, en þó á þeim forsendum að Trump hafði lýst yfir áhuga á því að ríkissjóður Bandaríkjanna hreinlega keypti landið með öllu tilheyrandi. Hugmyndinni var mætt með háði í Grænlandi og raunar Danmörku einnig, enda þótti hugmyndin fjarri raunveruleikanum, beinlínis móðgandi. Brandarar flugu í fjölmiðlum, og var því meðal annars velt upp í danska blaðinu Politiken hvort Grænland gæti ekki keypt Bandaríkin frekar.
Vinaríki þrátt fyrir allt
Forsætisráðherra Danmerkur, Mette Fredriksen, var ósátt við yfirlýsingar Trumps um áhugann á Grænlandi og einnig þegar hann ákvað að aflýsa opinberri heimsókn sinni til Danmerkur. Hún sagði Bandaríkin vinaríki Dana, og það væri móðgandi að aflýsa heimsóknum á síðustu stundu, útaf einhverju sem ekki væri hægt að taka alvarlega.
Engu að síður hefur Trump sagt að þau hafi skilið í góðu og að opinber heimsókn muni fara fram á öðrum tíma.
Þessi áhugi á Grænlandi – sem fyrst var greint frá í fréttum Washington Post og Wall Street Journal – hefur sett stöðu norðurslóða í nýtt samhengi og umræða um þær er nú komin inn á hitakort helstu umfjöllunarefna þegar kemur að utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Áhuginn er hluti af alþjóðapólistíkum breytingum þar sem norðurslóðir eru sífellt að verða eftirsóknarverðara svæði fyrir stór fyrirtæki og þjóðríki. Opnun siglingarleiða, mögulegar ónýttar náttúruauðlindir og góð staðsetning fyrir herstöð á ófriðartímum, hafa verið nefndar sem ástæður fyrir því að Bandaríkin horfi nú meira til norðurslóða.
Varnarmálaráðherrann sýndi klærnar
Hugmyndin um að Bandaríkin kaupi Grænland er ekki ný af nálinni. Harry Truman vildi að Bandaríkin keyptu Grænland fyrir 100 milljónir Bandaríkjadala, um 12,5 milljarða króna, árið 1946. Þá var staðan í heiminum óstöðug enn eftir seinna stríð, sem lauk 1945. Truman taldi að Bandaríkin gætu betur tryggt hagsmuni sína með því að eiga Grænland, og til framtíðar yrði það til þess að auka líkur á að Bandaríkin gætu tryggt frið og öryggi.
Í umfjöllun PolitiFact, sem meðal annars hefur hlotið Pulitzer verðlaun fyrir umfjöllun sína um alþjóðamál, segir að áhugi Bandaríkjanna á auknum umsvifum á norðurslóðum hafi glögglega sést við mörg tilefni að undanförnu.
Þannig hafi James Mattis, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, haft bein afskipti af því þegar Kínverjar voru að reyna að auka umsvif sín með fjármögnun innviðaframkvæmda á Grænlandi. Þetta gerðist meðal annars þegar kínverskur verktaki sótti það fast að fá að byggja flugvöll, en Mattis lét embættismenn vernarmálaráðuneytisins hafa beint samband við Dani og koma í veg fyrir að Kínverjar fengju að breiða úr sér enn meira. Að lokum fór það svo að Danir breyttu aðferðinni við fjármögnun framkvæmdanna, og urðu að hluta eigendur að verkefninu beint og fjármögnuðu það einnig en ekki Kínverjar.
Mattis er sagður hafa rætt töluvert um norðurslóðir á tiltölulega stuttum starfstíma sínum í varnarmálaráðuneytinu, en hann sagði af sér vegna ágreinings við Trump og hans helstu ráðgjafa 21. desember í fyrra. Áhuginn byggir meðal annars á auknum hernaðarumsvifum Rússa og Kínverja á öllum norðurslóðum. Frá því að bandaríski herinn fór frá Íslandi árið 2006 hafa umsvif Rússa og Kínverja aukist á norðurslóðum.
Einkum á þetta við um síðasta áratug, og virðast Bandaríkjamenn óttast að sama staða geti myndast á norðurslóðum og í Suður-Kínahafi. Þar er vígbúnaðarkapphlaup og deilur um yfirráðasvæði í algleymingi og ekki sér fyrir endann á þeitti stöðu. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gerði þetta meðal annars að umtalsefni í ræðu sinni í maí þegar Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu. Í ræðunni sagði hann meðal annars: „Viljum við að norðurslóðir þróist með sama hætti og í Suður-Kínahafi?“ Síðan sagði hann að Rússar hefði verið að auka umsvif sín og Bandaríkin myndu nú einbeita sér meira af því að byggja upp sterkari samvinnu við ríki á norðurslóðum, og nefndi Grænland sérstaklega í því samhengi.
Ísland er í lykilstöðu
Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu í maí og má segja að það sé í lykilhlutverki þegar kemur að því að byggja upp samvinnu ríkja sem eiga aðild að því. Ríkin sem eiga aðild að ráðinu eru Norðurlöndin; Ísland, Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Finnland; ásamt Bandaríkjunum, Rússlandi og Kanada. Samanlagður íbúafjöldi þessara landa er 534 milljónir, eða svipaður íbúafjöldi og nemur löndunum sem eru í Evrópusambandinu. Það er um 7 prósent af heildaríbúafjölda jarðar.
Þrjú ríki eru aðilar að Evrópusambandinu af þeim sem eru í ráðinu, Svíþjóð, Danmörk og Finnland. Langfjölmennast er Bandaríkin með 327 milljónir íbúa og síðan Rússland með 144 milljónir.
Oftast nær, frá stofnun 1996, hefur tekist að hafa samvinnuna þétta og hafa yfirlýsingar landanna verið sameiginlegar um meginmarkmið. Breyting varð á í þetta sinn, í fyrsta skipti frá stofnun, en Bandaríkin settu sig upp á móti ýmsum atriðum í hinni sameiginlegu yfirlýsingu, þar á meðal tilvísunum í loftslagsmál. Eftir sem áður lýstu allir ráðherra, í sérstakri ráðherrayfirlýsingu, yfir vilja til samstarfs um mikilvæg málefni Norðurslóða.
Vaxandi viðskiptasamband
Eitt atriði hefur breyst verulega á undanförnum árum, þegar Ísland og Bandaríkin eru annars vegar. Viðskiptasamband þjóðanna hefur gjörbreyst og raunar kúvenst. Það er nú orðið mun umfangsmeira en það var, og má segja að hagvaxtarskeiðið á undanförnum árum - frá 2011 til og með 2018 – hafi ekki síst byggt á sterkar viðskiptasambandi við Bandaríkin. Ferðamenn frá Bandaríkjunum hafa þar verið í lykilhlutverki. Frá árinu 2010 hefur vöxturinn í ferðaþjónustu verið ævintýralegur en hann hefur ekki síst byggt á betri flugsamgöngum til Bandaríkjanna. WOW air byggði meðal annars um lofbrú til Bandaríkjanna, en fall félagsins hefur verið töluvert áfall þegar kemur að tengingu við Bandaríkin.
Icelandair hefur einnig byggt upp sterka loftbrú við Bandaríkin, en samdrátturinn miðað við tölurnar frá ágúst í fyrra til júlí á þessu ári hefur ekki verið eins mikill og óttast var í fyrstu eftir fall WOW air í mars.
Samtals fækkaði komum Bandaríkjamanna um 7,1 prósent á fyrrnefndu tímabili miðað við árið á undan. Engu að síður eru bandarískir ferðamenn langsamlega fjölmennasti hópurinn sem heimsækir Ísland. Á fyrrnefndu tímabili komu 581 þúsund bandarískir ferðamenn til landsins eða um 27,3 prósent af heildinni. Næst á eftir Bandaríkjamönnum koma Bretar, en þeir voru 275 þúsund, eða um 11 prósent af heild.
Íslensk ferðaþjónusta – og þar með landið allt – á því mikið undir því að loftbrúin haldist góð við Bandaríkin. Samhliða þessum mikla vexti í komum Bandaríkjamanna til landsins hafa önnur viðskipti, með vörur og þjónustu, einnig verið að vaxa. Vöxturinn hefur verið á bilinu 20 til 30 prósent á árunum 2016 til 2018. Í þessum vexti er loftbrúin lykilatriði þar sem vöruflutningar hafa aukist umtalsvert með henni.
Sóknarfæri fyrir hendi
Þrátt fyrir að viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna sé í miklum blóma þessi misserin, og hafi aldrei verið mikilvægara fyrir Ísland, þá eru margvísleg tækifæri fyrir hendi í að styrkja það. Þetta á einkum við um vöruútflutning, sjávarafurðir þar á meðal. Þrátt fyrir að Bandaríkin sé mikilvægt markaðssvæði, þá er það ekki eins og stór markaður og það gæti verið, með öflugara markaðs- og sölustarfi. Bretland, Spánn og í seinni tíð Austur-Evrópuríki sömuleiðis, eru mikilvægari þegar kemur að sjávarafurðum.
Ísland hefur færi á að ræða viðskiptasambandið við Mike Pence og hans föruneyti. Nýr sendiherra, Jeffrey Russ Gunter, hefur talað fyrir því við íslensk stjórnvöld – á fundum og á öðrum vettvangi þar sem viðræður hafa átt sér stað – að hann vilji styrkja samband ríkjanna, á breiðum grunni. Vinaþjóðasamband Íslands og Bandaríkjana eigi sér langa sögu, og það sé hans markmið - og bandrískra stjórnvalda – að styrkja það.
Opnun siglingarleiða og orkan
Líkt og Pompeo kom inn á í ræðu sinni á fundi Norðurskautsráðsins í maí, þá hefur vaxandi athygli verið á norðurslóðum vegna siglinga bæði austur og vestur yfir. Siglingarleiðirnar eru taldar vera framtíðarflutningaleiðir og gæti farið svo að mikil tækifæri skapist sökum þessa fyrir ríki á norðurslóðum. Ísland er þar á meðal, og það sama á við um Grænland, Færeyjar, Noreg og Skotland, svo dæmi séu nefnd.
Stórfyrirtæki fylgjast grannt með þróun mála á svæðinu, ekki einunigs á sviði flutninga heldur einnig olíuviðskipta og orkuviðskipta. Eins og marg hefur komið fram þá eru lagning sæstrenga, til að selja um rafmagn, eitt af því sem gæti orðið stórt mál á norðurslóðum í framtíðinni. Að mörgu leyti er það þegar orðið það en Norðmenn vinnu nú eftir áætlun um að koma upp sex sæstrengjum til að selja rafmagn til Evrópu en sá fyrsti sem lagður var frá Noregi til Rotterdam í Hollandi hefur reynst mun ábatasamari fyrir Noreg heldur en áætlanir gerðu ráð fyrir í upphafi.
Auk þess byggir ákvörðun Norðmanna um lagningu sæstrengja á því að með því að útvega Evrópu rafmagn sem kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum, meðal annars vatnsafli og vindorku, þá sé Noregur að leggja sitt af mörkum til að skipta út mengandi orku og hjálpa til við að nýta orku betur, sem er eitt stærsta viðfangsefni samtímans og lykilatriði í alþjóðlegum aðgerðum til að sporna gegn mengun og orkusóun.
Samkvæmt skrifum PolitiFact hafa bandarísk yfirvöld meðal annars rætt um að Grænland geti orðið mikilvægt í framtíðinni til að útvega umheiminum rafmagn. Það muni geta í raun virkað eins og batterý í umheiminn. Áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi byggir meðal annars á þessu mati, þó það vegi þyngra að tryggja það að Bandaríkin ráði yfir umráðasvæðinu frekar en Kínverjar eða Rússar.
Rússar ögra Norðmönnum
Heræfingar Rússa við landamæri Noregs í norðurhluta Noregs hafa valdið miklum titringi í norskum stjórnmálum og hafa yfirmenn norska hersins sagt að Rússar séu að ögra Noregi og NATO með æfingum sínum.
Síðast um miðjan ágúst þá hófust umfangsmiklar heræfingar Rússa í Noregshafi, og lét Haakon Brun-Hansen, flotaforingi í norska hernum, hafa eftir sér í viðtali við norska ríkisútvarpið að með þessu væru Rússar að loka aðgangi NATO að Eystrasalti, Norðursjó og Noregshafi á mikilvægum tímum fyrir stöðu mála á norðslóðum. Æfingin – eða aðgerðin, eftir því hvernig á það er litið - er verulega umfangsmikil en um 30 herskip Rússa taka þátt í henni. Þar á meðal eru kafbátar, birgðaskip og tundurspillir af stærstu gerð.
Hansen sagði í viðtali að mikilvægt væri fyrir Noreg að taka þessu ekki af léttúð. Þetta væru ögranir við landið. Með þaulskipulögðum aðgerðum væru Rússar sífellt að sækja í sig veðrið á norðurslóðum og væru alls staðar að sjá til þess að hagsmunir þeirra væru ofar hagsmunum annarra þjóða á svæðinu.
Í norðri, við landamæri Noregs og Rússlands, hafa verið sérstaklega umfangsmiklar heræfingar undanfarna mánuði og var meðal annars þúsund manna herðlið þar við æfingar, með þátttöku tíu herskipa, í sumar. Æfingarnar fóru fram á herstöðvum Rússa og á Kamstjaka-skaga, en margar herstöðvar Rússa hafa að undanförnu verið vopnvæddar með nýjum vopnum og öll aðstaða verði bætt til muna. Nú er ekki hægt að segja eins og sagt var fyrir tíu árum um her Rússa, að hann væri einfaldlega með léleg vopn og ekki líklegur til þess að ógna neinum. Þvert á móti hefur rússneski herinn verið að ganga í gegnum uppfærsluáætlun sem er farinn að skila árangri.
Hansen lét hafa eftir sér í viðtalinu, að Noregur væri að upplifa spennu á þessu svæði vegna legu sinnar en spennuþrungin staða - með vígbúnaðarkapphlaupi - væri hluti af stórveldaslag, þar sem Bandaríkin, Rússaland og mögulega Kína væru undir. Hansen sagði að Noregur gæti beitt sér til að stuðla að meiri stöðugleika á svæðinu, og það væri hlutverk sem þyrfti að taka alvarlega.
Rússar hafa einnig verið að vígbúast með uppsetningu á skotpöllum fyrir skammdrægar flaugar skammt frá landamærum Noregs og Finnlands. Yfirstjórn Norðurflota Rússa tilkynnit nýverið um þessar aðgerðir og sagði þær lið í því að verja lofthelgi Rússa á þessu svæði, en þessi skotpallur verður á Petsamó-svæðinu, skammt frá landamærunum nágrannanna. Herstöð Rússa, sem meðal annars mun þjónusta þetta svæði, er einungis 10 kílómetrum frá landamærum Noregs, samkvæmt umfjöllun Barent Observer, sem fjallar um varnarmál á þessu svæði.
Getur smáríkið stillt til friðar og samstarfs?
Eitt af því sem íslensk stjórnvöld munu vafalítið undirbúa, áður en Mike Pence varaforseti kemur til Íslands, 4. september, er hvernig þau eigi að koma fram með sín sjónarmið þegar kemur að stöðu mála á Norðurslóðum. Sem leiðtogaþjóð í Norðurskautsráðinu þá getur Ísland haft mikil áhrif á það hvernig samstarf þjóða verður á þessu svæði á næstunni.
Enginn hefur áhuga á vígbúnaðakapphlaupi á norðurslóðum, en að hluta til - þegar horft er til stöðunnar í norðurhluta Noregs og Rússlandi, þá er það þegar hafið. Miklar æfingar rússneska hersins á sjó segja líka sína sögu. Valdabrölt stórvelda heimsins teygir nú anga sína, í það minnsta að hluta, til Íslands. Fyrir friðelskandi smáríki eins og Íslands getur skapast tækifæri til að jákvæð áhrif, með samtölum við Pence og föruneyti hans. Á sama tíma og rætt er um hvernig megi tryggja hið mikilvæga og ört vaxandi viðskiptasamband Íslands og Bandaríkjanna.
Lesa meira
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars