Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin um þátttöku Íslands í kínverska innviða og fjárfestingaverkefninu Belti og braut. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, þakkaði Íslendingum fyrir að hafa ekki tekið þátt í verkefninu þegar hann ræddi við fréttamenn fyrir utan Höfða, fyrir fund hans með íslenskum ráðamönnum og fulltrúum íslensks viðskiptalífs.
Í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Kjarnans um málið segir að þátttaka Íslands í Belti og braut hafi verið til skoðunar af hálfu íslenskra stjórnvalda um nokkra hríð. Hið sama gildi um flest nágrannaríki Íslands. „Engin endanlega afstaða hefur verið tekin til málsins en við höfum lagt áherslu á að núverandi samningar sem við höfum við Kínverja, til að mynda fríverslunarsamningur, komi að fullu til framkvæmda. Okkur hefur raunar orðið nokkuð ágengt í þeim efnum, eins og menn þekkja."
Vilja endurvekja Silkileiðina
Belti og Braut er verkefni sem hefur verið ráðandi í utanríkisstefnu Kína frá árinu 2013. Nafnið vísar til hinnar fornu Silkileiðar sem tengdi Kína við umheiminn og verkefnið snýst um að endurvekja hana. „Beltið“ er vísun í svokallaðan silkiveg á landi en „braut“ í silkileið á sjó, til dæmis í formi hafna.
Verkefnið er afar víðfeðmt og nær frá Kína til Evrópu og Austur-Afríku, auk þess sem það nær til fjölmargra Asíuríkja. Að minnsta kosti 68 ríki hafa skrifað undir þátttöku í verkefninu og saman mynda ríkin um 40 prósent landsframleiðslu heimsins. Það felur í sér stóraukna fjárfestingu eða lánveitingar frá kínverskum fyrirtækjum, að mestu ríkisfyrirtækjum, til að byggja upp innviði á borð við hafnir, lestarteina, hraðbrautir og flugvelli. Auk þess á þátttaka að geta hraðað aukningu á viðskiptum milli þátttökuríkja við Kína, einn stærsta markað í heimi.
Vilja fá Ísland með
Á norðurslóðum er búist við aukinni skipaumferð eftir því sem ís á svæðinu bráðnar. Að sigla frá Kína til Evrópu í gegnum þennan heimshluta myndi stytta flutningstíma til muna sé miðað við núverandi flutningaleiðir. Þar með getur fjárhagslegur hvati að flytja vörur um svæðið myndast. Ísland, vegna staðsetningar sinnar, er því orðið ansi eftirsóknarverður þátttakandi í verkefninu.
Í janúar 2018 gáfu kínversk stjórnvöld út sína fyrstu norðurslóðastefnu. Í henni segjast þau vilja gera norðurslóðir hluta af Silkiveginum á ís eða Silkivegi norðurslóða og þar með hluta af Belti og braut. Enn fremur titla kínversk stjórnvöld Kína sem „nærríki norðurslóða“ í stefnu sinni.
Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, sagði í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans í ágúst að íslensk stjórnvöld séu opin fyrir þátttöku í Belti og braut. „Í dag hefur Kína skrifað undir samstarfssamninga á grundvelli Beltis og brautar við 127 ríki og 29 alþjóðlegar stofnanir. Viðskiptamagn á milli Kína og landa sem eru hluti af Belti og braut er meira en sex billjón Bandaríkjadala og fjárfestingar meira en 80 milljarðar Bandaríkjadala.“