Sviptingar

Þann 21. september næstkomandi kjósa flokksmenn Venstre í Danmörku nýjan formann og varaformann. Kosningarnar koma í kjölfar mikilla átaka sem leiddu til afsagnar formanns og varaformanns flokksins.

Lars Løkke Rasmussen
Lars Løkke Rasmussen
Auglýsing

Þingkosningar og stjórnarskipti ásamt átökum og innanflokkserjum í danska Venstre flokknum hafa séð til þess að danskir fjölmiðlar hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af þeirri gúrkutíð sem iðulega einkennir sumarmánuðina.

Í þingkosningunum 5. júní í sumar féll minnihlutastjórn Lars Løkke Rasmussen. Sú stjórn samanstóð af þremur flokkum úr bláu blokkinni svonefndu: Venstre (sem er hægri miðjuflokkur), Íhaldsflokknum og Frjálsræðisbandalaginu. Stjórnin naut stuðnings Danska Þjóðarflokksins, sem á síðasta kjörtímabili var næst fjölmennastur á danska þinginu, Folketinget, en vildi ekki eiga aðild að stjórninni. Danski Þjóðarflokkurinn galt afhroð í kosningunum í sumar og það ásamt miklu fylgistapi Frjálsræðisbandalagsins varð til þess að Løkke stjórnin (eins og hún var kölluð) féll.

Blokkirnar tvær

Flokkarnir á danska þinginu skiptast í tvær „blokkir“ bláa og rauða. Þeirri bláu tilheyra hægri flokkarnir svonefndu en vinstri flokkarnir þeirri rauðu. Venstre er stærsti flokkur bláu blokkarinnar en Socialdemokratiet stærsti flokkur þeirrar rauðu. Utan blokkanna stendur svo Danski Þjóðarflokkurinn sem hefur stutt ríkisstjórnir bláu blokkarinnar. Ríkisstjórn Lars Løkke 2015 til 2019 var í flestum málum háð Danska Þjóðarflokknum sem hafði 37 þingmenn, þremur fleiri en flokkur forsætisráðherrans. Lars Løkke Rasmussen dró ekki dul á að iðulega væri erfitt að hafa slíkan „aftursætisbílstjóra“ en átti ekki annarra kosta völ.

Auglýsing

Hugmyndin um stjórn yfir miðjuna

Þegar leið að kosningunum í júní síðastliðnum bentu skoðanakannanir til þess að Danski Þjóðarflokkurinn myndi tapa miklu fylgi og stjórn Venstre missa völdin.

Lars Løkke sá hvert stefndi og nokkru fyrir kosningar nefndi hann í viðtali að kannski væri kominn tími til að hugsa stjórnmálin uppá nýtt. Hvort til dæmis væri hægt að mynda stjórn yfir miðjuna. Þessar vangaveltur formanns Venstre vöktu takmarkaða hrifningu margra flokksmanna Venstre og Kristian Jensen varaformaður flokksins vísaði öllum slíkum hugmyndum á bug. Athygli vakti líka að Lars Løkke hafði gefið í skyn að hann gæti ef til vill hugsað sér starf hjá Evrópusambandinu. Þetta mátu margir svo að kannski væri kominn tími til breytinga í flokknum.

Átakafundir og afsögn

Í fyrstu viku ágústmánaðar var mikið um fundahöld hjá Venstre, formleg og óformleg. Á fundi þingflokksins 5. ágúst fór fram kosning í stjórn þingflokksins, Lars Løkke lagði mikla áherslu á að Inger Støjberg fyrrverandi ráðherra innflytjendamála fengi þar sæti en þingflokkurinn hafnaði henni. Þann 9. ágúst hélt þingflokkur Venstre fund, svokallað sommermøde. Hefð er fyrir slíkum fundum þar sem línur flokksins varðandi komandi þing eru lagðar. Á þessum fundi urðu hörð átök, Claus Hjort Frederiksen, fyrrverandi ráðherra og einn helsti áhrifamaður flokksins, deildi hart á Kristian Jensen varaformann, sagði gagnrýni hans á hugmyndir Lars Løkke um stjórnarsamstarf yfir miðjuna óboðlega. Kristian Jensen dró ekki yfirlýsingar sínar til baka en lýsti stuðningi við flokksformanninn, Lars Løkke. Stjórnmálaskýrendur sögðu greinilegt að allt væri uppíloft hjá Venstre og stutt væri í ,,uppgjör“ eins og það var orðað, mjög væri farið að hitna undir Lars Løkke. Þeir reyndust sannspáir.

Lars Løkke Rasmussen Mynd: EPA

Á fundi 30. ágúst var hart tekist á. Seint um kvöldið var fundi frestað og haldið áfram morguninn eftir. Niðurstaðan var að boða til landsfundar 21. september, og þar yrði einungis eitt mál á dagskrá: kosning formanns og varaformanns. Lars Løkke var mjög andsnúinn þessu, vildi fá að flytja landsfundinum skýrslu (beretning) um störf sín sem formanns. Þessari kröfu hans var hafnað. Þegar Lars Løkke varð ljóst hvernig staðan væri tilkynnti hann afsögn sína og gekk á dyr, bakdyramegin, og birti skömmu síðar stutta orðsendingu á Twitter. Kristian Jensen varaformaður tilkynnti sömuleiðis, með grátstafinn í kverkunum, afsögn sína. Draumur hans um að taka við formennsku í Venstre af Lars Løkke, þegar þar að kæmi, var skyndilega að engu orðinn.

Hver verður formaður?

Eftir að þeir Lars Løkke Rasmussen og Kristian Jensen höfðu tilkynnt afsögn sína hófust vangaveltur um hver, eða hverjir, myndu taka við.

Einn þeirra sem lengi hefur verið talað um að myndi, í fyllingu tímans, veljast til forystu í Venstre er Jakob Ellemann-Jensen. Sjálfur hafði hann lítið gefið fyrir slíkt tal, hélt sig algjörlega utan við allar deilur innan flokksins og tjáði sig aldrei um afstöðu sína til hugmynda Løkke um samstarf við sósíaldemókrata.

Í viðtölum fjölmiðla við þingmenn og áhrifafólk innan Venstre eftir afsögn Lars Løkke og Kristian Jensen var Jakob Ellemann-Jensen sá eini sem nefndur var þegar rætt var um nýjan formann. Sjálfur fór hann sér hægt, sagði að flokksmenn þyrftu að átta sig á breyttum aðstæðum, „líta yfir fjörðinn“ eins og hann komst að orði. Hart var hinsvegar lagt að honum að segja af eða á um hug til formennskunnar og sl. þriðjudag tilkynnti Jakob Ellemann-Jensen að hann sæktist eftir formennsku í Venstre. Formannskosningin fer fram, eins og áður var nefnt, 21. september á landsfundi flokksins í Herning á Jótlandi. Rétt til setu á fundinum eiga 850 fulltrúar.

Þegar þetta er skrifað hefur enginn annar en Jakob Ellemann-Jensen boðið sig fram til formennsku í Venstre.

Jakob Ellemann-Jensen Mynd: EPA

Stjórnmálin í fjölskyldunni

Jakob Ellemann-Jensen var ekki ókunnugur stjórnmálunum þegar hann ákvað að hasla sér völl á þeim vettvangi. Faðir hans er Uffe Ellemann-Jensen sem var formaður Venstre um fjórtán ára skeið 1984 til 1998 og þar áður utanríkisráðherra um 11 ára skeið. Hálfsystir Jakobs (samfeðra) er Karen Ellemann þingmaður Venstre og fyrrverandi ráðherra, hún er fjórum árum eldri en Jakob, fædd 1969.

Móðir Jakobs er Alice Vestergaard, fyrrverandi ritstjóri og yfirmaður hjá TV2 sjónvarpsstöðinni.

Jakob, sem er 45 ára, tvígiftur og þriggja barna faðir, ætlaði ekki að helga líf sitt stjórnmálum. Hann gekk í herinn 19 ára gamall árið 1992 og lauk þar störfum árið 2000, þá sem yfirmaður í danska herliðinu í Bosníu-Herzegovínu. Samhliða hermennskunni lauk hann meistaraprófi í viðskiptalögfræði. Ungur að aldri gerðist hann félagi í Venstre en sagði sig úr flokknum árið 2007 vegna stefnu flokksins í málefnum innflytjenda. Eftir að Lars Løkke Rasmussen tók við forsætisráðherraembættinu af Anders Fogh Rasmussen gekk Jakob aftur til liðs við Venstre og var kjörinn á þing árið 2011. Árið 2015 varð hann pólitískur talsmaður flokksins en var skipaður umhverfis- og matvælaráðherra árið 2018 og gegndi því embætti fram til kosninga 2019. Jakob þykir um margt líkjast föður sínum, mælskur, orðfimur og með góða kímnigáfu. „Ég ætlaði ekki í stjórnmálin en endaði samt þar,“ sagði hann fyrir skömmu í viðtali við dagblaðið Politiken.

Það vantar líka varaformann

Á landsfundi Venstre þann 21. september næstkomandi verður, auk formannsins, kosinn nýr varaformaður í stað Kristian Jensen. Strax var nefnd til sögunnar, sem líklegur kandidat, Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra innflytjendamála. Hún er sá kandidat sem flestir stjórnmálaskýrendur telja að verði kjörinn varaformaður á landsfundinum. Sophie Løhde fyrrverandi ráðherra nýsköpunarmála er einnig talin líklegur kandidat, hún þótti standa sig vel sem ráðherra. Sömuleiðis hefur nafn Stephanie Lose verið nefnt. Hún situr ekki á þingi en er formaður svæðasambands danskra sveitarfélaga (regioner). Hún þykir hafa staðið sig mjög vel í því starfi en hefur lýst yfir að hún sækist ekki eftir varaformannsembættinu. Karsten Lauritzen fyrrverandi skattamálaráðherra hefur einnig verið nefndur sem hugsanlegur varaformaður. Hann tók við skattaráðuneytinu eftir kosningarnar 2015. Starfsemi skattsins (Skat) var þá ein rjúkandi rúst eftir margra ára niðurskurð og misheppnaðar skipulagsbreytingar. Því fer fjarri að starfsemi skattsins sé komin í gott lag en ýmislegt færðist þó til betri vegar í ráðherratíð Karsten Lauritzen.

Inger Støjberg Mynd: Wiki Commons/News Oresund

Jakob Ellemann-Jensen hefur sagt að verði hann kjörinn formaður Venstre geti hann vel hugsað sér Inger Støjberg sem varaformann sér við hlið. Sem ráðherra innflytjendamála í stjórn Lars Løkke þótti hún mjög stíf og ósveigjanleg. Svo mjög að stundum þótti pólitískum andstæðingum og sérfræðingum í lögum vafi leika á hvort sumar ákvarðanir og fyrirskipanir ráðherrans stæðust lög. Fyrir nokkrum dögum ákvað meirihluti á danska þinginu að skipa sérstaka nefnd til að rannsaka tilteknar ákvarðanir hennar í málefnum innflytjenda. Ákvarðanir sem umboðsmaður þingsins hafði lýst ólöglegar.

Ýmsir í „baklandi“ flokksins hafa lýst óánægju með að Jakob Ellemann-Jensen skuli hafa nefnt Inger Støjberg sem æskilegan varaformann verði hann sjálfur kjörinn formaður. Það sé landsfundarins að kjósa forystuna, en ekki að leggja blessun sína yfir tiltekinn frambjóðanda, sem formanninum þóknist.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar