Árið 2011 kynntu bæjaryfirvöld í Frederikssund á Norður – Sjálandi ákvörðun um að byggja frá grunni nýtt hverfi suðaustan við bæinn. Þar var stórt óbyggt landsvæði og bæjaryfirvöldin hugsuðu stórt, og langt, fram í tímann. Fyrsta skrefið var að velja þessu nýja svæði nafn og eftir samkeppni varð nafnið Vinge fyrir valinu. Bæjaryfirvöld sögðu nafnið lýsa flugi fugla, lagt væri upp í ferð með tiltekinn áfangastað en leiðin væri ekki alveg skýrt afmörkuð. Konan sem sendi inn tillöguna um nafnið Vinge sagði að hún hefði einfaldlega séð gítar með þessu nafni og fundist það sniðugt.
Næsta skref var að velja hönnuði að svæðinu. Efnt var til samkeppni og tillaga arkitektastofunnar Henning Larsen architects varð fyrir valinu. Henning Larsen arkitektar hafa hannað fjölmargar þekktar byggingar víða um heim, þar á meðal tónlistarhúsið Hörpu, í samvinnu við íslensku arkitektastofuna Batteríið.
20 þúsund íbúar og nokkur þúsund störf
Vorið 2013 kynntu bæjaryfirvöld i Frederikssund og Henning Larsen arkitektar skipulagshugmyndir og áætlanir fyrir þetta nýja svæði, Vinge. Áætlanir gera ráð fyrir að árið 2035 verði um 20 þúsund íbúar á svæðinu, í einbýlis-, rað- og fjölbýlishúsum og þar verði einnig fyrirtæki, með að minnsta kosti 4 þúsund starfsmenn.
Lestarstöðin
Ein helsta forsenda þess að fólki og fyrirtækjum þyki fýsilegt að koma sér fyrir í nýjum hverfum eru tryggar og greiðar almennings samgöngur og vegakerfi. Vegakerfið á þessu svæði er ágætt og ný brú yfir Hróarskeldufjörðinn verður opnuð á næstunni. Arkitektarnir gerðu ráð fyrir stórri verslanamiðstöð í miðbæ Vinge og hún myndi tengjast nýrri lestarstöð. Slík stöð er ekki einhliða ákvörðun bæjaryfirvalda, þar þarf ríkið að koma til skjalanna ásamt Dönsku járnbrautunum. Allt tók þetta sinn tíma en árið 2016 lá ákvörðun um lestarstöðina fyrir. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 55 milljónir danskra króna (rúmlega 1 milljarður íslenskur).
Undirbúningur framkvæmda hófst skömmu síðar og þegar hefur verið varið um það bil 17 milljónum danskra króna til verksins.
Fjármögnun
Þegar áætlanirnar um Vinge svæðið voru kynntar kom fram að þær framkvæmdir sem bæjarfélagið Frederikssund yrði að takast á hendur varðandi uppbygginguna, götur, lagnakerfi o.s.frv. yrðu fjármagnaðar með sölu byggingalóða til verktaka og annarra fyrirtækja. Bæjaryfirvöld í Frederikssund töldu fyrirfram að auðvelt myndi reynast að selja byggingalóðirnar í þessu nýja hverfi. Fjarlægðin frá Vinge til miðborgar Kaupmannahafnar er innan við 50 kílómetrar og margir sem vinna í borginni ferðast mun lengra til vinnu á degi hverjum.
Í trausti þess að allt gengi þetta eftir, fólk og fyrirtæki myndu flykkjast til Vinge, var farið af stað með undirbúningsframkvæmdir á svæðinu. Lóðir voru boðnar til sölu og samningar gerðir við verktaka varðandi gatnagerð og annað það sem sneri að sveitarfélaginu.
Allt gengið á afturfótum
Bjartsýni bæjaryfirvalda í Frederikssund varðandi Vinge verkefnið reyndist ekki á rökum reist. Áhugi verktaka fyrir að byggja reyndist mjög takmarkaður og þar að auki hurfu tveir stórir verktakar frá í miðjum klíðum. Þeir sögðu að ekki hefði verið búið að ganga endanlega frá samningum, þar hefðu verið allt of margir lausir endar og bærinn tregur til að semja. Þess vegna hefðu þeir ekki átt annars úrkosti en segja sig frá verkinu.
Stjórnmálamenn hikandi en bæjarstjóri bjartsýnn
Vandræðagangurinn varðandi Vinge hefur ekki farið fram hjá stjórnmálamönnunum. Og nú hika þeir varðandi framhaldið. Nokkrir þingmenn hafa lýst því yfir að ekki komi til greina að halda framkvæmdum við lestarstöðina áfram fyrr en ljóst verði að fleira fólk flytji til Vinge og íbúarnir að minnsta kosti orðnir 2 þúsund. Sumir úr hópi þingmanna hafa jafnvel látið í ljós efasemdir um að Vinge verði nokkurn tíma að veruleika, svæðið verði draugaborg, eins og einn þeirra orðaði það.
Undanfarið hefur bæjarstjórn Frederikssund fundað stíft með þingmönnum, verktökum, forsvarsmönnum byggingarsamvinnufélaga og ýmsum fleirum. Bæjarstjórinn í Frederikssund segist bjartsýnn á að brátt fari hjólin að snúast og kveðst sannfærður um að Vinge verði eftirsótt hverfi innan fárra ára.