Hagnaður Samherja vegna ársins 2018 nam samtals um 11,9 milljörðum króna. Eigið fé samstæðunnar var 110,7 milljarðar króna um síðustu áramót. Þetta kemur fram í ársreikningum Samherja hf., sem heldur utan um þorra starfsemi samstæðunnar á Íslandi og í Færeyjum, og Samherja Holding ehf., sem heldur meðal annars utan um eignarhluti Samherja í dótturfélögum í Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og í fjárfestingafélagi á Íslandi.
Hagnaður Samherjasamstæðunnar hefur þar með numið yfir 112 milljörðum króna á átta árum, frá árinu 2011 og fram til loka síðasta árs. Hagnaðurinn dróst lítillega saman milli áranna 2017 og 2018, en hann var 14,4 milljarðar króna á fyrra árinu.
Helstu eigendur og stjórnendur Samherja eru frændurnir, forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson og útgerðarstjórinn Kristján Vilhelmsson. Þeir eiga samtals 65,4 prósent í samstæðunni. Helga S. Guðmundsdóttir, fyrrverandi eiginkona Þorsteins Más, á 21,3 prósent.
Til viðbótar á félagið Bliki ehf. 11,7 prósent hlut í Samherjasamstæðunni. FramInvest Sp/f er skráð fyrir 27,5 prósenta hlut í Blika. Það félag er skráð í Færeyjum. Þorsteinn Már er helsti skráði stjórnandi þess félags.
Stórir í Högum og Eimskip
Hluthafafundir Samherja samþykkti 11. maí 2018 að Samherjasamstæðunni yrðiskipt upp í tvennt. Skiptingin var látin miða við 30. september 2017. Eftir það er innlendu starfsemin og starfsemi fyrirtækisins í Færeyjum undir hatti Samherja hf. en önnur erlend starfsemi og hluti af fjárfestingarstarfsemi á Íslandi í félaginu Samherji Holding ehf. Á meðal þeirra eigna sem færðar voru þangað yfir voru eignarhlutir Samherja í dótturfélögum í Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og í fjárfestingafélagi á Íslandi.
Félögin tvö stunda ekki einungis viðskipti með sjávarafurðir. Samherji hf. á til að mynda stóran hlut í smásölurisanum Högum, en það er fjórði stærsti hluthafi þess með 9,26 prósent eignarhlut. Samherji Holding ehf. er síðan stærsti einstaki eigandi hlutabréfa í Eimskip, með 27,1 prósent eignarhlut. Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja, er stjórnarformaður Eimskips og í janúar í ár var Vilhelm Már Þorsteinsson, frændi þeirra, ráðinn sem forstjóri skipafélagsins.
Ófjárhagslegar upplýsingar
Síðasta blaðsíðan í ársreikningum beggja félaga samstæðunnar, Samherja hf. og Samherja Holding ehf., er undirlögð undir ófjárhagslega upplýsingagjöf. Þar er meðal annars greint frá því að félög innan samstæðunnar hafi undanfarið unnið að margvíslegum stefnum og áætlunum sem eigi það sammerkt að styðja beint eða óbeint hver við aðra. „ Má þar nefna innleiðingu á viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegu og kynbundnu áreiti og ofbeldi, mannréttindastefnu, stefnu í vinnuverndar- og öryggismálum, jafnréttisáætlun, persónuverndarstefnu og fleira. Vinna við framangreindar stefnur og áætlanir er vel á veg komin og er stefnt að því að þær verði innleiddar á árinu 2019.“
Samherjasamstæðan segist telja að samfélagsleg ábyrgð sé ekki einungis ábyrgð heldur að í henni felist einnit tækifæri til að bæta velferð nærsamfélagsins. „Samstæðan leggur sitt af mörkum til að efla komandi kynslóðir og stuðla að framförum í samfélaginu og hefur Samherji veitt styrki til ýmissa samfélagsverkefna.“
Fjallað um siðferði, spillingu og mútur
Þá er sérstaklega fjallað um siðferði, spillingu, mútur og mannréttindi í ársreikningunum.
Þar segir að Samherjasamstæðan virði „almenn mannréttindi, rétt allra til félagafrelsis og kjarasamninga. Áhersla er lögð á að verktakar og undirverktakar fari eftir gildandi lögum er varðar alla sína starfsmenn, hvort sem það eru þeirra launþegar eða eigin undirverktakar.“ Samstæðan hafi þó ekki sett sér skrifleg viðmið um siðferði, spillingu, mannréttindi eða mútur en að vinna við það hafi verið í gangi og ljúki væntanlega á árinu 2019.