Alþjóða efnahags- og framfarastofnunin OECD segir í nýrri skýrslu um íslensk efnahagsmál að lífskjör og velferð á Íslandi séu mikil og með því besta sem þekkist. Helstu efnahagslegu ógnir sem landið standi frammi fyrir séu hart Brexit, frekari niðursveifla í ferðaþjónustu og brestur í veiðum.
Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, er staddur hérlendis og kynnti skýrsluna á fréttamannafundi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu síðdegis í dag.
OECD gagnrýnir líka ýmislegt í íslensku efnahagslífi. Stofnunin segir að reglugerðaumgjörðin um það sé of ströng, að launahækkanir ættu að fylgja framleiðnivexti og að draga þurfi úr eignarhaldi ríkisins á bönkum með því að framfylgja þeim áætlunum sem séu til staðar um einkavæðingu þeirra. Heimild er á fjárlögum til að selja allt hlutafé í Íslandsbanka og allt að 34 prósent hlut í Landsbankanum.
Lífskjör með þeim bestu
Skýrslan er ítarleg, alls 121 blaðsíða, en OECD gefur út slíkar ríkisskýrslur á tveggja ára fresti. Síðasta skýrsla um Ísland var birt í júní 2017.
Fram undan sé hægari vöxtur en á undanförnum árum, vegna gjaldþrots WOW air í lok mars og loðnubrests. Samkvæmt skýrslunni eigi að búast við 0,2 prósent hagvexti í ár og 2,2 prósent á næsta ári. Þessari þróun muni fylgja aukið atvinnuleysi.
Flestar spár greiningaraðila hérlendis hafa reiknað með samdrætti á árinu 2019. Í nýjustu útgáfu Peningamála Seðlabanka Íslands er til að mynda búist við 0,2 prósent samdrætti í ár. Ekki kemur fram í skýrslu OECD hvaðan tölur stofnunarinnar um væntan hagvöxt koma.
Jöfnuður og hagvöxtur geta farið saman
Í skýrslunni segir að á Íslandi sé lítill ójöfnuður og að á Íslandi ríki meira jafnræði milli þegnanna en í nær öllum öðrum löndum innan OECD. Hér sé atvinnuþátttaka mikil og að jöfnuður launa sé einnig mikill. Þetta sé merki þess að jöfnuður og sterkur hagvöxtur geti farið saman.
Að mati OECD er vöxturinn á Íslandi grænn, sérstaklega vegna þess að hér sé framleidd sjálfbær orka sem seld sé til notenda. Á það er þó bent í skýrslunni að útblástur gróðurhúsalofttegunda sé að aukast hérlendis.
Selja sig niður í bönkum
OECD finnur þó að ýmsu hérlendis. Stofnunin segir að reglugerðarumhverfið sé of íþyngjandi og að það eigi vera meira í takt við þarfir lítils og opins efnahagskerfis. Of mikið regluverk dragi úr framleiðni og samkeppnishæfi innlendra fyrirtækja.
Þá gætu bætti samskipti við verkalýðsfélög einnig hjálpað til við að auka samkeppnishæfni Íslands. Of oft eigi sér stað einhvers konar höfrungahlaup í kjölfar gerðar kjarasamninga. Þeim samningum sem voru undirritaðir í apríl, við um helming íslensks vinnumarkaðar, er þó sérstaklega hrósað fyrir að tengja launaþróun framtíðarinnar við hagvöxt með beinum hætti.
Þá er það mat OECD að frammistaða Íslands í menntamálum sé veik, of marga námsmenn skorti sterka kjarnafærni þegar skólaskyldu lýkur og að börn innflytjenda sýni lakari niðurstöðu en börn annarra. Stofnunin mælir með að gæði kennslu verði aukin með fjárfestingu og þróun í kennslu og að staða barna innflytjenda verði bætt með því að bjóða upp á áhrifaríkari tungumálanámskeið fyrir þau.
Fjármagna samgöngur með veggjöldum
OECD leggur einnig til að Ísland bæti það hvernig opinberu fé er eytt. Ekki sé nægjanlega miklar kröfur gerðar á að því sé eytt með nytsamlegum hætti þótt að slíkar kröfur séu í orði til staðar í gerð fjárlagaáætlunar. Stofnunin leggur til að eftirlit með notkun fjármuna verði hert í heilbrigðis- og menntamálum sérstaklega, en þar er um að ræða tvo af fjárfrekustu málaflokkum ríkisrekstursins.
Lagt er til að Ísland auki fjárfestingar í innviðum samgangna, orkumála og fjarskipta og að það verði ráðist í innheimtu veggjalda til að stýra eftirspurn og fjármagna fjárfestingu í samgönguframkvæmdum.
Þá leggur OECD til, í ljósi þess að fjöldi landsmanna sem eru á örorku hefur tvöfaldast á 20 árum, að örorkulífeyriskerfið verði endurskipulagt með það að leiðarljósi að greiða fyrir endurkomu á vinnumarkaðinn. Samhliða eigi að þrengja skilyrði fyrir töku örorkulífeyris og styðja fólk frekar til þess að halda áfram í vinnu.