Hagstofa Íslands hefur birt leiðréttingu á útreikningum sínum á veltu erlendra greiðslukorta.
Fyrri frétt stofnunarinnar sem birt var 13. september hafði sagði að velta erlenda greiðslukorta hérlendis, sem segir meðal annars til um hversu mikið ferðamenn eyða á Íslandi, hafi aukist um 4,7 prósent í ágúst 2019. Nú hefur sú frétt verið leiðrétt og Hagstofan segir nú að velta erlendra greiðslukorta hafi minnkað um 2,7 prósent. Því skeikaði 7,4 prósentustigum á fyrri útreikningum og þeim nýju og fyrir liggur að eigendur erlendra greiðslukorta eyddu minna í ágúst 2019 en í ágúst 2018, ekki meira.
Þá liggur nú fyrir að vöxturinn í veltu erlendra greiðslukorta var ekki 5,1 prósent í júlímánuði líkt og fyrri tölur höfðu haldið fram heldur lækkaði veltan um 0,7 prósent. Þar er um viðsnúning upp á 5,8 prósentustig að ræða. Í þessum tölum hafa viðskipti við íslensk flugfélög verið tekin út úr veltunni, til að gefa betri mynd af eyðslu útlendinga á Íslandi.
Í frétt Hagstofunnar sem birtist í fag segir að áður birtar tölur hafi byggt á villu í gögnum frá greiðslukortafyrirtækjum en að sú villa hafi nú verið leiðrétt.
Reiknuðu hagvöxt vitlaust, tvisvar
Þann 3. september síðastliðinn leiðrétti Hagstofa Íslands tölur um hagvöxt á öðrum ársfjórðungi sem hún birti upphaflega nokkrum dögum áður. Í ljós hafði komið að hagvöxtur á ársfjórðungnum var 2,7 prósent en ekki 1,4 prósent líkt og sagði í fyrri tilkynningu hennar.
Þegar sú tilkynningin var birt voru fyrri niðurstöður um hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi einnig leiðréttar. Í endurskoðaðri niðurstöðu Hagstofunnar kom í ljós að hagvöxtur á fyrstu þremur mánuðum ársins hafi verið neikvæður um 0,9 prósent en ekki jákvæður um 1,7 prósent líkt og fyrri niðurstöður hafi sagt til um.
Því liggur fyrir að Hagstofa Íslands hefur reiknað út rangan hagvöxt fyrir báða þá ársfjórðunga sem liðnir eru á þessu ári.
Í frétt á vef stofnunarinnar vegna þessa sagði: „Hagstofu Íslands þykir miður að mistök hafi orðið og reynir eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.“
Að teknu tilliti til breytinganna liggur fyrir að hagvöxtur á fyrri hluta árs var ekki 0,3 prósent líkt og fyrri birtar niðurstöður höfðu sagt til um, heldur 0,9 prósent.
Mismunandi skekkjur
Skekkjan í útreikningum stofnunarinnar vegna hagvaxtar fyrsta ársfjórðungs, sem var upp á 2,6 prósentustig, var vegna þess að „gögn innihalda upplýsingar um umfang og framvindu byggingarframkvæmda sem náðu yfir lengra tímabil en samsvarar viðmiðunartímabili þjóðhagsreikninga. Hefur það nú verið leiðrétt á grundvelli nýrra gagna. Samkvæmt endurskoðun mældist vöxtur íbúðafjárfestingar á 1. ársfjórðungi 22,2 prósent borið saman við 58,4 prósent samkvæmt áður útgefnum tölum.“
Skekkjan í útreikningum á hagvexti á öðrum ársfjórðungi átti rætur sínar að rekja til „mistaka sem urðu til þess að fjármunamyndun tímabilsins reyndist vanmetin um sem nemur 9,1 milljarði króna á verðlagi ársins. Áhrifin koma fram í tveimur undirliðum fjármunamyndunar, fjármunamyndun hins opinbera og í atvinnuvegafjárfestingu, nánar tiltekið í fjármunamyndun í skipum og flugvélum. Eftir leiðréttingu mælist 16,6 prósent vöxtur í fjármunamyndun hins opinbera og 26,5 prósent samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu. Samdráttur í heildarfjármunamyndun mælist 9,2 prósent, borið saman við 14,2 prósent samkvæmt áður birtum niðurstöðum. Eftir leiðréttingu mælist vöxtur landsframleiðslunnar 2,7 prósent að raungildi á 2. ársfjórðungi, samanborið við 1,4 prósent samkvæmt áður birtum niðurstöðum. Landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 jókst um 0,9 prósent borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2018 en samkvæmt áður birtum niðurstöðum mældist breyting landsframleiðslunnar 0,3 prósent á tímabilinu.“