Þrálátur orðrómur er um það að umfangsmiklar uppsagnir séu í farvatninu hjá Arion banka sem kynntar verða samhliða miklum breytingum á skipulagi bankans. Vefurinn Mannlíf.is greindi frá því í gær að allt að 80 manns yrði sagt upp í dag mánudag, en samkvæmt upplýsingum frá bankanum er það ekki rétt. Þegar spurt var hvort uppsagnir væru væntanlegar síðar í vikunni fengust þau svör að stefnumótunarvinna væri í gangi innan bankans.
Það á ekki að koma neinum á óvart að til standi að fækka starfsfólki hjá Arion banka.
Raunar hefur það legið fyrir opinberlega í meira en ár að það sé stefna bankans að draga verulega úr rekstrarkostnaði, og það verður fyrst og síðast gert með því að fækka starfsfólki.
Alls störfuðu 880 manns hjá Arion banka um mitt þetta ár. Starfsmönnum hafði þá fækkað um 50 á einu ári.
Yfirlýst markmið að auka arðsemi umtalsvert
Í aðdraganda þess að Arion banki var skráður á markað um mitt síðasta ár var send út tilkynning þar sem kom fram að markmið bankans yrði að vera með arðsemi eigin fjár sem væri yfir tíu prósent, en hún hafði verið 3,6 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018.
Uppgjör bankans vegna síðasta árs olli miklum vonbrigðum. Arðsemin var einungis 3,7 prósent og hagnaður ársins 7,8 milljarðar króna. Það var 6,6 milljörðum krónum minna en árið áður.
Stór ástæða þessa var sú að þrír stórir viðskiptavinir bankans lentu í verulegum vandræðum, eða fóru beinlínis á hausinn með tilheyrandi útlánatöpum og afskriftum á kröfum.
Þar var um að ræða United Silicon, Primera Air og loks WOW air.
Arðsemin áfram slök
Á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 nam hagnaður bankans alls 3,1 milljarði króna en var fimm milljarðar króna á sama tímabili í fyrra.
Í fjárfestakynningu sem haldin var vegna þessa uppgjörs sagði að lækkandi rekstrarkostnaður myndi áfram verða eitt helsta áhersluatriði í að ná betri rekstrarárangri. Það yrði gert með niðurskurðaraðgerðum og áframhaldandi áherslu á innleiðingu stafrænna lausna.
Ýmislegt gert en hefur ekki dugað til
Í takti við þær yfirlýsingar sem gefnar voru í aðdraganda skráningar þá hefur verið ráðist í ýmsar breytingar hjá Arion banka.
Til að ná því markmiði að vera með arðsemi eigin fjár sem er tíu prósent hefur bankinn verið að breyta fjármögnun sinni með umfangsmikilli útgáfu víkjandi skuldabréfa, lækkun hlutafjár með endurkaupum á bréfum hluthafa, útgreiðslu arðs og aukinni áherslu á stafræna þjónustu.
Þá vill bankinn selja ýmsar eignir. Á meðal þeirra eru Valitor, Stakksberg, sem heldur á kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík, og áðurnefnt TravelCo.
Allt þetta hefur þó ekki dugað til. Sú lækkun sem orðið hefur á rekstrarkostnaði hefur einungis skilað kostnaðarhlutfalli hans niður í 54,2 prósent. Yfirlýst markmið bankans er að vera með það undir 50 prósent í nánustu framtíð.
Það markmið mun einungis nást með fækkun starfsfólks.
Miklar breytingar í efsta laginu
Hingað til hafa hræringarnar að mestu verið í yfirstjórn Arion banka. Frá byrjun marsmánaðar og fram í aprílmánuð var ákveðið að skipta um framkvæmdastjóra sjóðstýringarfyrirtækis Arion banka, stjórnarformann bankans og bankastjóra hans.
Benedikt Gíslason var ráðinn nýr bankastjóri og hóf störf í byrjun júlí. Kjarninn hafði greint frá því rúmum tveimur mánuðum áður en að tilkynnt var um ráðningu Benedikts, að hann væri efstur á blaði stjórnar í starfið. Hann sagði í yfirlýsingu eftir að fyrsta uppgjörið undir hans stjórn var birt að afkoma bankans væri einfaldlega ekki nógu góð.
Á allra síðustu vikum hafa tveir framkvæmdastjórar, þær Jónína S. Lárusdóttir sem stýrði lögfræðisviði bankans og Rakel Óttarsdóttir sem stýrði upplýsingatæknisviði hans, hætt störfum hjá Arion banka.
Almennu starfsfólki hefur einnig verið sagt upp. Í lok maí fengu níu starfsmenn, flestir sem störfuðu í höfuðstöðvum bankans, reisupassann. Þegar tekið var tillit til þess hvernig starfsmannavelta hafði verið nýtt til að fækka störfum þá fækkaði störfum á öðrum ársfjórðungi um 20.
Nú er búist við því að stærri skref verði stígin og að mögulega séu fjöldauppsagnir fyrirhugaðar hjá bankanum.