Hvað er eiginlega að gerast í hagkerfinu?
Það má til sanns vegar færa að staðan í íslenska hagkerfinu sé góð, eins og stjórnmálamenn hafa haldið fram að undanförnu. En það er líka ekki gott að átta sig á því hvernig staðan er í raun og veru. Ítrekaðar leiðréttingar Hagstofu Íslands á útreikningum hafa kannski ruglað einhverja. Svo hafa hrannast upp óveðurský á alþjóðamörkuðum. Sagan sýnir að það getur haft mikil áhrif á Íslandi.
Virði aflaheimilda í landinu, miðað við síðustu viðskipti með þær, er nú um 1.200 milljarðar króna. Það er sambærilegt og virði eigna orkufyrirtækjanna í landinu, en það nemur nú um 1.200 milljörðum. Þar af er virði eigna Landsvirkjunar, miðað við bókfært verð, 562 milljarðar, og virði eigna Orkuveitu Reykjavíkur, 340 milljarðar.
Þá nemur samanlagt markaðsvirði skráðu félaganna á aðallista kauphallarinnar um 1.200 milljörðum. Útlán Landsbankans til viðskiptavina og lánastofnana, nema samanlagt sömu upphæð; um 1.200 milljörðum. Samanlagt eru þetta 4.800 milljarðar króna, sem er sambærilegt og sem nemur heildareignum lífeyrissjóðanna, en þeir eiga um helming af öllum skráðum hlutabréfum í kauphöllinni.
Önnur deild
Þessar tölur gefa ákveðna mynd af undirliggjandi verðmætum í hagkerfinu. Upphæðirnar eru háar, t.d. þegar horft er til virðis aflaheimilda en segja má að útgerðarfyrirtækin í landinu, einkum þau stærstu, séu í allt annarri deild þegar kemur að fjárhagslegum styrk, en flest fyrirtæki í landinu.
Á hagvaxtarskeiðinu frá 2011 og fram til 2018 styrktust stoðirnar í hagkerfinu verulega. Ævintýralegur vöxtur í ferðaþjónustu kom á besta tíma í endurreisnarstarfinu eftir hrunið, og endurskipulagningin á fjármálakerfinu - með stöðugleikaframlögum frá slitabúum föllnu bankanna - skilaði miklum ávinningi fyrir ríkissjóð og almenning.
En nú eru breyttir tímar. Fall WOW air og loðnubrestur höfðu mikil áhrif til hins verra, en einnig má segja að það hafi verið kominn tími til þess að hægja á hjólum atvinnulífsins sem höfðu snúist á fullri ferð, með miklum hagvexti og hækkun fasteignaverðs sem ekki átti sér fordæmi í þróuðum ríkjum. Vorið 2017 mældist árshækkun fasteignaverðs 23,5 prósent, sem hvergi í heiminum var eins mikil.
Á rúmum tveimur árum er staðan nú þannig að fasteignaverð stendur í stað, og hefur ekki hækkað að raunvirði í eitt ár. Hagvaxtarspár hafa flestar verið á þann veg að á þessu ári verði hagvöxtur á bilinu -0,4 prósent til 0,2 prósent hagvöxtur. Þrátt fyrir að oft sé á það minnst, að staðan sé góð í hagkerfinu, þá er þetta mesta kúvending í hagvexti, miðað við árið á undan, sem nokkurt Evrópuríki er að glíma við þessi misserin.
Árið 2018 var hagvöxtur 4,6 prósent og sköpuðust á árinu 6.500 ný störf, samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Nú er öldin önnur, og bendir flest til þess að stöðnun sé í kortunum næstu misseri. Störfum er tekið að fækka í hagkerfinu, bæði innflutningur og útflutningur eru í samdrætti, og blikur eru á lofti í mörgum geirum þar sem hagræðing er ýmist í undirbúningi eða að komast til framkvæmda.
Hver er landsframleiðslan?
Hagstofa Íslands hefur á skömmum tíma birt leiðréttingar á hagtölum sínum. Nú síðast voru það tölur um veltu greiðslukorta. Komið hefur í ljós villa í birtum tölum um veltu greiðslukorta. Áður birtar tölur byggðu á villu í gögnum frá greiðslukortafyrirtækjum. Sú villa hefur nú verið leiðrétt. Velta erlendra greiðslukorta í ágúst minnkaði um 2,7% frá fyrra ári. Í júlímánuði var lækkunin 0,7% samanborið við sama mánuð árið áður. Í þessum tölum hafa viðskipti við íslensk flugfélög verið tekin út úr veltunni, til að gefa betri mynd af eyðslu útlendinga á Íslandi,” sagði í leiðréttingunni, en fyrri tölur höfðu sýnt nokkra aukningu í eyðslunni, eða um 4,7 prósent, og voru það talin vera afar jákvæð tíðindi í ljósi þeirra hremminga sem höfðu átt sér stað í ferðaþjónustunni.
Önnur leiðréttingin frá Hagstofunni, sem birtist 3. september síðastliðinn, varðaði landsframleiðsluna í landinu, en líkt og með tölurnar um greiðslukortanotkun ferðamanna þá hafði töluverð umræða átt sér stað um stöðu mála út frá þessum tölum. Vanmat hafði þá verið í fyrri útreikningum á fjármunamyndun í hagkerfinu. Landsframleiðslan var því mun meiri á 2. ársfjórðungi, en fyrri tölur Hagstofunnar höfðu sagt til um. „Talnaefni á vef Hagstofunnar hefur verið uppfært í samræmi við þetta. Hagstofu Íslands þykir miður að mistök hafi orðið og reynir eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig,” sagði meðal annars á vef Hagstofunnar.
Leiðréttingin á rætur að rekja til mistaka sem urðu til þess að fjármunamyndun tímabilsins reyndist vanmetin um sem nemur 9,1 milljarði króna á verðlagi ársins.
Áhrifin koma fram í tveimur undirliðum fjármunamyndunar, fjármunamyndun hins opinbera og í atvinnuvegafjárfestingu, nánar tiltekið í fjármunamyndun í skipum og flugvélum. Eftir leiðréttingu mælist 16,6 prósent vöxtur í fjármunamyndun hins opinbera og 26,5 prósent samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu.
„Samdráttur í heildarfjármunamyndun mælist 9,2 prósent, borið saman við 14,2 prósent samkvæmt áður birtum niðurstöðum. Eftir leiðréttingu mælist vöxtur landsframleiðslunnar 2,7 prósent að raungildi á 2. ársfjórðungi, samanborið við 1,4 prósent samkvæmt áður birtum niðurstöðum. Landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 jókst um 0,9 prósent borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2018 en samkvæmt áður birtum niðurstöðum mældist breyting landsframleiðslunnar 0,3 prósent á tímabilinu.
Landsframleiðslan á 2. ársfjórðungi 2019 jókst að raungildi um 2,7 prósent frá sama ársfjórðungi fyrra árs. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 0,2 prósent. Vöxtur einkaneyslu mældist 2,2 prósent og samneyslu 3,1 prósent en fjármunamyndun dróst saman um 9,2 prósent.
Samdráttur mældist í bæði inn- og útflutningi, eins og áður segir. Útflutningur dróst saman um 6,9 prósent en samdráttur í innflutningi mældist nokkru meiri, eða 12,4 prósent. Vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður um 9,4 milljarða króna á tímabilinu, en vöxtur landsframleiðslunnar á 2. ársfjórðungi skýrist aðallega af jákvæðum áhrifum utanríkisviðskipta.
Vextir lækka og hvað svo?
Vextir hafa farið lækkandi í síðustu vaxtaákvörðunum peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands og hafa þær verið kærkomnar fyrir efnahagslífið. Það er sjaldan sem þær aðstæður hafa skapast á Íslandi, þar sem stjórnvöld og hið opinbera almennt - ríki og sveitarfélög - vinna í takt með seðlabankanum.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, og Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, minntust báðir á þetta þegar þeir komu fyrir þingnefnd til að ræða um stöðu efnahagsmála. Ásgeir hefur þó sagt, að hann telji líklegt að staðan geti breyst, og að hún sé mögulega of góð til að vera sönn, eins og hann orðaði það.
Þó vextir hafi lækkað, og þar með létt á greiðslubyrði lána heimila og fyrirtækja, þá hafa sést augljós merki um kólnun í fjárfestingu fyrirtæki, þegar rýnt er í bækur bankanna. Nýjar tölur Seðlabanka Íslands, sem voru birtar í vikunni, sýna að hrein ný útlán banka til fyrirtækja hafa dregist mikið saman á þessu ári, miðað við árið í fyrra.
Á fyrstu átta mánuðum ársins tók fyrirtæki 82,6 milljarða í ný lán, en með hreinum nýjum lánum er átt við ný lán að frádregnum uppreiðslum lána.
Á sama tíma í fyrra voru ný útlán 172,4 milljarðar, og er samdrátturinn því rúmlega 50 prósent milli ára. Sé horft til síðustu tólf mánaða, samanborið við ár þar á undan, þá hafa verið veitt ný lán upp á 118,9 milljarða samanborið verið 242 milljarða á tímabilinu á undan.
Þetta bendir eindregið til þess að fyrirtæki haldi að sér höndum þegar kemur að fjárfestingu og vexti, og styður við það mat viðmælenda Kjarnans, að hagræðing sé nú víða í kortunum. Heimilin í landinu virðast einnig vera að halda að sér höndum, þegar horft er sértækt á lántökurnar. Þar eru sveiflurnar þó mun minni, en hrein ný útlán til heimila á þessu ári hafa numið 93,6 milljörðum samanborið við rúmlega 100 milljarða á sama tíma í fyrra.
Meginvextir Seðlabankans eru 3,5 prósent en verðbólga mælist á sama tíma 3,2 prósent. Í sögulegu tilliti eru raunvextir hér á landi með allra lægsta móti, sem ætti að geta stutt við viðspyrnu í efnahagslífinu, þó ekki sjáist mikil einkenni um það ennþá.
Frekar er hægt að draga þá ályktun, að áföllin sem fall WOW air og loðnubrestur voru fyrir þjóðarbúið hafi reynst minni en margir héldu, en á sama tíma er of snemmt að segja til hvernig lendingin verður þegar öll kurl eru komin til grafar. Eitt af því sem óvissa er um, er hvernig vinnumarkaðurinn þróast, en mikill straumur starfsfólks erlendis frá til Íslands virðist nú á undanhaldi.
Á undanförnum árum hafa yfir 70 prósent nýrra skattgreiðenda á hverju ári komið erlendis frá, ekki síst frá Austur-Evrópu, og þá til að vinna í mannvirkjageira og ferðaþjónustu, þar sem flest ný störf hafa orðið til.
Þetta hafa verið miklar og sögulegar breytingar fyrir íslenskt samfélag en hópur innflytjenda hér á landi telur nú yfir 47 þúsund manns, og eru Pólverjar fjölmennastir eða rúmlega 20 þúsund. Þessi mikli straumur til landsins hefur verið hluti af þeim miklu umsvifum sem hafa verið í hagkerfinu á undanförnum árum, en atvinnuleysi hefur verið lítið sem ekkert, eða á bilinu 2 til 3 prósent. Atvinnuleysi hefur farið lítið upp á við, og mælist rúmlega 4 prósent, en að sama skapi eru mun færri ný störf að verða til, og þá kemur það fram í því að færri flytja til landsins til að vinna.
Búast má við því að atvinnuleysistölur hækki eitthvað á næstunni. Í liðinni viku var ráðist í stórfelldar uppsagnir í fjármálakerfinu þar sem 134 misstu vinnuna og viðbúið er að störfum í ferðaþjónustu, sem mörg hver eru mönnuð með erlendum ríkisborgurum, geti fækkað þegar líður á árið.
Óveðurský erlendis frá
Á alþjóðamörkuðum hafa verið að hrannast upp óveðurský að undanförnu. Eitt þeirra var heldur óvænt, og birtist meðal annars í drónaárás uppreisnarmanna Húta á olíuframleiðslu Aramco í Sádí-Arabíu. Olíuverð rauk upp strax í kjölfarið, enda stöðvaðist um 6 prósent af olíuframleiðslu heimsins við þessa árás, og áhrifin því gríðarleg. Hækkunin var um 20 prósent strax í kjölfar atburðarins, og hefur ekki að öllu leyti gengið til baka, þó nú virðist ljóst að Aramco verði einhverjar vikur og mánuði að koma framleiðslunni í samt lag. Í umfjöllun Foreign Policy hefur komið fram, að drónaárásin hafi dregið fram hversu mikil völd eru hjá Sádí-Araböum, þegar kemur að olíuframleiðslunni, og einnig hversu eldfimt ástandið er í landinu og nágrannasvæðum í Jemen og Íran. Bandaríkin hafa beint spjótum sínum að Íran, og sagt opinberlega og formlega að ábyrgðin á árásinni liggi þar.
Þó Ísland sé blessunarlega ekki beinn aðili að þessum átökum, þá hafa allar sveiflur á olíuverði - einkum miklar og hraðar - áhrif á Íslandi. Hátt olíuverð er hamlandi fyrir Ísland, og ýtir undir verðbólguþrýsting. Sé litið til verðs á hráolíu um þessar mundir, það er verð á tunnunni, þá er það ekki verulega hátt um þessar mundir, þrátt fyrir hækkun í kjölfar árásarinnar á Aramco, eða um 55 Bandaríkjadalir á tunnuna. Hæst hefur það farið yfir 120 Bandaríkjadali á undanförnum áratug, en algengt verð er í kringum 65 til 70 Bandaríkjadali. Önnur óveðurský snúast um ganga mála í stjórnmálum og hvernig stefnan mun þróast í helstu viðskiptalöndum Íslands, Bretlandi og Bandaríkjunum. Ótrúleg atburðarás hefur verið í Bretlandi í tengslum við Brexit, en fimm vikna þingrof sem Boris Johnson, forsætisráðherra, greip til í byrjun mánaðarins var dæmt ólöglegt af Hæstarétti Bretlands og hóf þingið störf strax á miðvikudag í kjölfarið. Þetta er áfall fyrir Johnson og ríkisstjórn hans, sem framfylgir stefnu um að fara úr Evrópusambandinu á haustmánuðum. Niðurstaðan getur hins vegar grafið undan stefnu Johnson, og mögulega honum sjálfum, sem leiðir þá mögulega til þess að Brexit frestast enn frekar. Fyrir Ísland eru miklir hagsmunir í húfa enda Bretland lengi verið eitt okkar helsta viðskiptaland, ekki síst þegar kemur að ferðaþjónustu og sölu sjávarafurða. Tollastríð Bandaríkjanna og Kína er síðan annað óveðurský, sem sést frá Íslandi - eins og raunar öllum öðrum löndum. Ekki sér fyrir endann á því ennþá, en tollastríðið hefur leitt til erfiðleika í heimsbúskapnum þar sem dregið hefur úr eftirspurn vegna erfiðleika við alþjóðleg viðskipti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sagt að tollastríðið sé einn helsti óvissuþátturinn fyrir þróun efnahagsmála, og það sé nú þegar farið að hafa slæm áhrif. Allir tapi á tollastríðum til lengdar. Fyrir lítið eyríki í N-Atlantshafinu þá geta sviptingar í alþjóðaviðskiptum - eins og Kína og Bandaríkjanna - haft mikil áhrif á gang efnahagsmála. T.d. er ferðaþjónusta viðkvæm fyrir því þegar eftirspurn dregst saman í stórum hagkerfum, þar sem kaupmáttur fólks er stór áhrifaþáttur að baki því þegar fólk ákveður hvert það vill ferðast.Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði