Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur tekið kæru Ólafs Ólafssonar vegna fjárfestingaumsvifa tveggja hæstaréttardómara í Al Thani-málinu svokallaða til skoðunar. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir að dómstóllinn hafi sent málsaðilum bréf fyrr í þessum mánuði þar sem þess var farið á leit við íslenska ríkið að kanna hvort að hægt yrði að ná sátt við Ólaf, sem myndi grundvallast á t.d. skaða- eða miskabótum. Auk þess var þremur spurningum beint til málsaðila, meðal annars um hver fjárfestingaumsvif dómaranna tveggja, Markúsar Sigurbjörnssonar og Árna Kolbeinssonar, voru. Ef sátt næst ekki fyrir 2. desember mun dómstóllinn taka málið til frekari efnismeðferðar.
Í Al Thani-málinu voru þrír af æðstu stjórnendum Kaupþings, þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson ákærðir ásamt Ólafi Ólafssyni, einum stærsta eiganda bankans fyrir hrun, fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og hlutdeild í umboðssvikum.
Fréttir frá lokum árs 2016
Kæran til Mannréttindadómstólsins byggir á fréttaflutningi sem átti sér stað í lok árs 2016. Þann 5. desember það ár var greint frá því í fréttum Stöðvar 2 og síðan Kastljósi að Markús Sigurbjörnsson, þá forseti Hæstaréttar, hefði átt hlutabréf í Glitni fyrir hrun og síðar fjárfest um 60 milljónum króna í verðbréfasjóði í rekstri Glitnis. Í Kastljósi var enn fremur greint frá því að Ólafur Börkur Þorvaldsson, sem gegnt hefur embætti hæstaréttardómara frá árinu 2003, hafi einnig átt hlutabréf í Glitni um tíma á árinu 2007. Hann seldi bréf sín í lok þess árs og fjárfesti í verðbréfasjóði innan Glitnis. Í Fréttablaðinu daginn eftir var svo sagt frá því að hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Ingveldur Einarsdóttir og Árni Kolbeinsson, sem nú er hættur störfum, hafi einnig öll átt hlutabréf í Glitni á árunum 2007 og 2008. Allir dómararnir fimm hafa dæmt í málum sem tengjast Glitni, bæði fyrir og eftir hrun. Þar á meðal eru sakamál gegn starfsmönnum eignastýringar Glitnis. Dómararnir lýstu ekki yfir vanhæfi í neinu þeirra mála.
Gögnin sem birt voru í umræddum fréttum sýndu samskipti Markúsar við eignastýringu Glitnis. Á meðal þeirra voru tölvupóstar og skjöl sem hann undirritaði til að veita heimild til fjárfestingar. Gögnin eru bundin bankaleynd og alls ekki aðgengileg mörgum. Starfsmenn slitastjórnar Glitnis eftir hrun hafa þó mögulega getað flett þeim upp í kerfum bankans auk þess sem starfsmenn eignastýringar Glitnis fyrir hrun gátu nálgast þau.
Opinberanirnar vöktu mikla athygli og sköpuðu mikla umræðu um hæfi hæstaréttardómara til að dæma í málum sem tengdust þeim bönkum sem þeir hefðu átt hlutabréf í.
Markús sendi frá sér yfirlýsingu daginn eftir umfjöllunina þar sem hann sagðist hafa tilkynnt nefnd um dómarastörf um sölu á hlutabréfum í sinni eigu þegar viðskiptin áttu sér stað, og hann hafi fengið leyfi nefndarinnar þegar honum áskotnaðist þau. Hann hafi hins vegar ekki þurft að tilkynna um hvernig hann ráðstafaði peningunum eftir söluna. Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, sagði sagði saman dag að ljóst væri að upplýsingum um hlutabréfaeign dómara hafi verið komið á framfæri við fjölmiðla í þeim tilgangi að hafa áhrif á störf dómstóla og hugsanlega auka möguleika á því að mál verði endurupptekin. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, sagði blasa við að Markús hefði verið vanhæfur til að dæma í hrunmálum.
Þann 9. desember greindi DV síðan frá því að hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson hefðu átt hlut í Landsbankanum við fall bankans. Þeir hefðu báðir verið í fimm manna dómi Hæstaréttar sem dæmdi ýmsa fyrrverandi stjórnendur Landsbanka Íslands seka um markaðsmisnotkun og umboðssvik í Hæstarétti í október 2015 og í febrúar 2016.
Umfjöllunin leiddi til þess að dómarar við Hæstarétt voru látnir birta hagsmunaskráningu sína opinberlega, og hefur það þegar verið gert á heimasíðu réttarins síðan þá.
Ekki í fyrsta sinn hjá MDE
Endurupptökunefnd hefur áður hafnað kröfum sakborninga í Al Thani-málinu um endurupptöku þess fyrir íslenskum dómstólum, sem byggðu meðal annars á upplýsingum um fjárfestingar dómara.
Í apríl á þessu ári komst Mannréttindadómstóll Evrópu hins vegar að því að efast mætti um hvort Árni Kolbeinsson, einn þeirra fimm dómara sem kváðu upp sakfellingardóm í Hæstarétti í Al Thani-málinu og annar þeirra sem nú er undir í málinu sem verið er að skoða, hafi verið nægilega óhlutdrægur til að dæma í málinu. Ástæðan fyrir því er sú að Kolbeinn Árnason, sonur hans, starfaði sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs slitabús Kaupþings á árunum 2008 til 2013. Hann starfaði einnig hjá Kaupþingi áður en skilanefnd var skipuð yfir bankann.
Mannréttindadómstóllinn hafnaði hins vegar öðrum atriðum sem fjórmenningarnir sem hlutu dóm í Al Thani-málinu kærðu til hans með afgerandi hætti. Þau atriði snéru að því að þeir töldu að brotið hefðu verið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar með tilliti til aðgangs þeirra að gögnum, hvort þeir hefðu fengið nægan tíma til að undirbúa málsvörn sína og að þeir hafi verið hindraðir í að leiða fram vitni í málinu. Þar var sérstaklega átt við Al Thani sjálfan og aðstoðarmann hans, Sheik Sultan Al Thani. Þá töldu fjórmenningarnir að brotið hefði verið á þeim þegar símtöl þeirra við lögmenn hefðu verið hlustuð. Í því tilfelli taldi Mannréttindadómstóllinn að mennirnir hefðu átt að fara í skaðabótamál fyrir íslenskum dómstólum.
Því var niðurstaða dómstólsins að öðru leyti sú að málsmeðferð íslenskra dómstóla í Al Thani-málinu hafi að öðru leyti verið eðlileg.