Samsett mynd

Eðlisbreyting á akstursgreiðslum til þingmanna eftir að þær voru gerðar opinberar

Greiðslur til þingmanna vegna aksturs hafa dregist verulega saman eftir að ákveðið var að birta þær á vef Alþingis. Í ár nema greiðslur vegna notkunar eigin bifreiðar 14 prósent af því sem þær námu árið 2017. Sá sem fékk hæstu endurgreiðslurnar á því ári hefur ekki fengið eina krónu í endurgreiðslu vegna eigin bifreiðar í ár.

Á fyrstu sjö mán­uðum árs­ins 2019 fengu þing­menn lands­ins alls tæp­lega 2,4 millj­ónir króna end­ur­greiddar frá Alþingi vegna akst­urs eigin bif­reiða. Ef end­ur­greiðslur verða sam­bæri­lega næstu fimm mán­uði árs­ins munu heild­ar­greiðslur vegna akst­urs eigin bif­reiða verða um 4,1 milljón króna á þessu ári. 

Alls hafa þing­­menn síðan til við­­bótar leigt sér bíla­­leig­u­bíla fyrir 11,1 millj­­ónir króna á fyrstu sjö mán­uðum árs­ins og fengið um 1,8 milljón króna end­ur­greiddar vegna elds­neytis­kostn­að­ar, greiðslna vegna notk­unar á jarð­göngum og töku leigu­bíla. Fram­reiknað má búast við því að heild­ar­kostn­aður þing­manna vegna akst­urs verði um 26,1 milljón króna. 

Allt árið 2018 námu greiðslur vegna notk­unar á eigin bif­reiðum 8,4 millj­ónum króna og því ættu þær að óbreyttu að helm­ing­ast milli ára. Þá not­uðu þing­menn líka bíla­leigu­bíla fyrir alls 19,3 millj­ónir króna og fengu end­ur­greiðslur vegna elds­neyt­is, jarð­ganga og leigu­bíla upp á tæp­lega 3,2 millj­ónir króna. Sam­an­lagt var því kostn­að­ur­inn í fyrra 30,7 millj­ónir króna.

Þegar notk­unin er borin saman við árið 2017, þegar end­ur­greiðslur úr opin­berum sjóðum vegna notk­unar þing­manna á eigin bif­reiðum námu sam­tals 29,6 millj­ónum króna, þá hefur orðið eðl­is­breyt­ing. Væntar greiðslur í ár eru um 14 pró­sent af því sem var end­ur­greitt í vasa þing­manna vegna kostn­aðar sem varð til við notkun á eigin bif­reiðum á því ári. Þá námu með­al­greiðslur á mán­uði 2,4 milj­ónum króna, sem er sama upp­hæð og þing­menn hafa kraf­ist end­ur­greiðslu á frá byrjun árs og út júlí­mánuð 2019. 

Þetta má sjá í tölum um greiðslur til þing­manna sem birtar eru á vef Alþingis.

Gegn­sæi skilar sér

Þegar kostn­aður vegna bíla­leigu­bíla, elds­neyt­is, jarð­ganga og leigu­bíla er tal­inn með var kostn­að­ur­inn vegna akst­urs þing­manna á árinu 2017 alls 42,7 millj­ónir króna. Kostn­að­ur­inn hefur því dreg­ist sam­an, í krónum talið og án til­lits til verð­bólgu, um tæp­lega 40 pró­sent. 

Vert að taka fram að árið 2017 var ansi sér­stakt. Þá voru ein­ungis 66 þing­fund­ar­dagar og 14 dagar teknir frá undir nefnd­ar­fundi. Ástæðan var vegna stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræðna eftir kosn­ing­arnar 2016, sem dróg­ust inn á árið 2017, stjórn­ar­slita í sept­em­ber 2017 og svo kosn­inga í októ­ber 2017, sem leiddu í kjöl­farið til nýrra stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræðna sem lauk ekki fyrr en 30. nóv­em­ber það ár. Til við­bótar fór þing­menn í jóla­frí, páska­frí og langt sum­ar­frí. Þeir unnu því ekki mikið á árinu 2017. 

Því er ljóst að í kjöl­far mik­illar umfjöll­unar fjöl­miðla um akst­­ur­s­­kostnað Alþing­is­­manna, sem var opin­ber­aður í fyrsta sinn í byrjun árs í fyrra, þá hefur end­­ur­greiðslu­beiðnum þing­­manna vegna not­k­unar á eigin bílum fækkað veru­­lega. Raunar hefur allur kostn­aður vegna akst­urs þing­manna dreg­ist umtals­vert sam­an. 

Þetta má sjá í upp­­lýs­ingum um laun og kostn­að­­ar­greiðslur þing­­manna sem birtar eru á vef Alþing­­is.

Almenn­ingi neitað um upp­lýs­ingar árum saman

Fjöl­miðlar reyndu árum saman að fá upp­­lýs­ingar um hvaða þing­­menn fái end­­ur­greiðslu vegna akst­­urs, en án árang­­urs. Kjarn­inn fjall­aði til að mynda um málið í frétta­­skýr­ingu árið 2015 þar sem fram kom að alls 28 þing­­menn hefðu fengið end­­ur­greiðslu á árinu 2014, þar af 18 yfir eina milljón króna. Ekki var hins vegar hægt að fá upp­­lýs­ingar um hvaða þing­­menn var að ræða. Þær upp­­lýs­ingar þóttu þá sem nú of per­­són­u­­leg­­ar.

Í byrjun febr­­úar 2018 svar­aði for­­seti Alþing­is fyr­ir­­­spurn Björns Leví Gunn­­­ar­s­­­sonar, þing­­­manns Pírat­­­ar, um akst­­­ur­s­­­kostn­að.

Í svari for­­­seta var greint frá því hversu háar greiðslur þeir tíu þing­­­menn sem fengu hæstu skatt­lausu end­­­ur­greiðsl­­­urnar þáðu á síð­­­­­ustu fimm árum. Ekki var hins vegar greint frá nafni þeirra. Í töl­unum mátti þó sjá að fjórir þing­­menn sem þáðu hæstu end­­ur­greiðsl­­urnar fengu sam­tals 14 millj­­ónir króna, eða tæp­­lega helm­ing allra end­­ur­greiðslna vegna akst­­urs.

Reiði þegar greiðslur voru opin­ber­aðar

Upp­­lýs­ing­­arnar vöktu upp mikla reiði og ásak­­anir um mög­u­­lega sjálftöku þing­­manna. Í kjöl­farið varð það krafa þings, þjóðar og fjöl­miðla að allar greiðslur vegna akst­­urs yrðu gerðar opin­berar og að þær yrðu per­­són­u­­grein­an­­leg­­ar. Þá varð það einnig krafa að allar aðrar greiðslur sem þing­­menn fá vegna starfa sinna yrðu gerðar opin­ber­­ar, sund­­ur­lið­aðar og mörg ár aftur í tím­ann. Hvort sem um væri að ræða hús­næð­is­­styrk, greiðslur vegna flugs eða kostn­aður vegna bíla­­leig­u­bíla. Allt ætti að koma upp á borð­ið.

For­sætis­nefnd ákvað að bregð­­ast við og allar upp­­lýs­ingar um kostnað sem fylgir störfum þing­­manna er nú birtur mán­að­­ar­­lega. Auk þess var ákvæði í reglum um þing­fara­kostn­að, sem fjallar um bíla­­leig­u­bíla, gert skýr­­ara til að tryggja að slíkir séu frekar teknir en að þing­­menn séu að nota eigin bif­­reið­­ar. Breyt­ing­­arnar náðu einkum til þing­­manna sem falla undir svo­­­kall­aðan heim­an­akst­­­ur, þ.e. akstur til og frá heim­ili dag­­­lega um þing­­­tím­ann. Það eru þing­­­menn sem búa í nágrenni Reykja­víkur (á Suð­­­ur­­­nesjum, Vest­­­ur­landi, Árnes­­­sýslu o.s.frv.). Akstur á eigin bif­­­reið­um, sem kemur til end­­­ur­greiðslu, varð eftir breyt­ing­­arnar bund­inn hámarki við 15.000 km. Eftir þann kíló­­metra­­fjölda á skrif­­stofa Alþingis láta umræddum þing­­manni í té bíla­­leig­u­bíl.

Ásmundur fékk hæstu greiðsl­urnar

Sá þing­maður sem þáð hafði hæstu greiðsl­urnar vegna akst­urs var Ásmundur Frið­riks­son, þing­maður Sjálf­stæð­is­flokks. Sam­kvæmt svari for­seta hafði hann keyrt alls 47.644 kíló­metra á árinu 2017 og fengið rúm­lega 4,6 millj­ónir króna end­ur­greitt vegna þessa. Frá 2013 og út árið 2017 námu end­ur­greiðslur til Ásmundar alls 23,5 millj­ónum króna vegna notk­unar hans á eigin bif­reið. 

Í lok nóv­­em­ber 2018 end­­ur­greiddi Ásmundur skrif­­­stofu Alþingis 178 þús­und krónur vegna ferða sem honum hafði verið end­­­ur­greiddar á árinu áður. Þetta gerði hann vegna þess að honum hafi orðið það ljóst „að það gæti orkað tví­­­­­mælis að blanda saman ferðum mínum um kjör­­­dæmið og ferðum á sama tíma með töku­­­fólki ÍNN.“

Frá því að akst­urs­málið var opin­berað í byrjun árs 2018 hafa orðið stakka­skipti á akst­urs­greiðslum til Ásmund­ar. Í fyrra fékk hann sam­tals end­ur­greiddar 684 þús­und krónur vegna notk­unar á eigin bif­reið auk þess sem kostn­aður vegna leigu á bíla­leigu­bílum var tæp­lega 1,2 millj­ónir króna. Þá nam elds­neytis­kostn­aður 639 þús­und krónum og akst­ur­kostn­aður Ásmundar því sam­tals rétt yfir 2,5 millj­ónum króna. Greiðslur til hans vegna akst­urs nán­ast helm­ing­uð­ust milli ára.

Hættur að nota eigin bif­reið

Í ár hefur dregið enn meira úr end­ur­greiðslum til Ásmund­ar. Raunar hefur hann ekki fengið eina krónu end­ur­greidda vegna notk­unar á eigin bif­reið. Kostn­aður vegna bíla­leigu­bíla og elds­neyt­is, sem hann hefur fengið greiddan úr opin­berum sjóð­um, nemur sam­tals tæp­lega 1,4 millj­ónum króna vegna fyrstu sjö mán­aða árs­ins 2019. Haldi notkun Ásmundar áfram með sama hætti má ætla að árlegur akstur hans muni kosta skatt­greið­endur um 2,4 millj­ónir króna. 

Hann er sem stendur í öðru sæti yfir þá þing­menn sem hafa fengið hæstu end­ur­greiðsl­urnar vegna akst­urs á árinu. Fyrir ofan hann er sam­flokks­maður hans Vil­hjálmur Árna­son, en greiðslur vegna bíla­leigu­bíla og elds­neytis til hans fram til júlíloka 2019 námu sam­tals rúm­lega 1,5 milljón króna. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar