Líklegt er að gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum verðir áfram sterkt, horft til næstu ára. Þetta getur sett þrýsting á útflutningsgreinar og dregið úr samkeppnishæfni þeirra.
Þetta er meðal þess sem gert er að umtalsefni í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka.
Í skýrslunni kemur fram að flest bendi til þess að vaxtastig verði lágt horft til næstu missera, enda hefur efnahagsreikningur þjóðarbússins sjaldan eða aldrei litið betur út.
Evran kostar um þessar mundir 135 krónur en Bandaríkjadalur 124,3 krónur.
„Raungengi krónu er nú mun nær jafnvægi en það var árin 2017–2018. Raungengið er þó fremur hátt í samanburði við síðustu áratugi, sér í lagi á mælikvarða hlutfallslegs launakostnaðar. Við teljum að raungengið verði áfram hátt í sögulegu samhengi. Hrein eignastaða hagkerfisins er betri en hún hefur verið í sögu lýðveldisins. Um mitt árið 2019 námu erlendar eignir umfram skuldir ríflega 1/5 af VLF. Seðlabankinn hefur einnig úr myndarlegum gjaldeyrisforða að spila til að afstýra gengishruni vegna tímabundins fjármagnsflótta,“ segir í skýrslunni.
Gert er ráð fyrir að það dragi nokkuð úr þrótti hagkerfisins á þessu ári miðað árið á undan, og að samdráttur verði í landsframleiðslu upp á 0,1 prósent. Flestar hagspár sem birst hafa að undanförnu gera ráð fyrir svipuðum veruleika.
Það er að það verði stöðnun í hagkerfi þegar kemur að landsframleiðslu og að slíkt verði einnig uppi á teningnum á fasteignamarkaði, en þjóðhagspá Íslandsbanka gerir ekki ráð fyrir að fasteignaverð hækki neitt á þessu ári, en að síðan þokist það hægt upp á við samhliða batnandi efnahag þjóðarinnar. Hagvöxtur verður 1,3 prósent á næsta ári og 2,8 prósent 2021, gangi spáin eftir.
„Stoðir hagkerfisins eru í flestum skilningi traustar og horfur eru um ágætan vöxt til lengri tíma. Því ætti áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi að vera nægur til að vega upp það útflæði sem verður vegna vilja lífeyrissjóðanna til að fjárfesta út fyrir landsteinana og ekki verður fjármagnað með viðskiptaafgangi. Verulegar verðlags- og launahækkanir hér á landi umfram nágrannalönd myndu hins vegar auka þrýsting á nafngengið til lækkunar þar sem þær leiða til samsvarandi hækkunar á raungengi að öðru óbreyttu,“ segir í skýrslunni.
Gert er ráð fyrir að samdráttur verði í útflutningi á þessu ári sem nemur um 6 prósentum miðað við í fyrra, og þar spilar nokkuð sterkt raungengi stóra rullu. Spáin gerir hins vegar ráð fyrir aukningu um lítið eitt á næsta ári, eða 1,1 prósent.
Spáin gerir ráð fyrir að raunvaxtastig verði áfram lágt, eða í kringum 1 prósent á næstu árum. Eins og greint var frá í morgun ákvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að lækka meginvexti í 3,25 prósent en verðbólga mælist nú 3,1 prósent.