Lífeyrissjóður verzlunarmanna greindi frá því í morgun að sjóðurinn hefði breytt lánareglum sínum og lækkað fasta vexti á verðtryggðum lánum. Breytingarnar á lánsréttinum fela í sér að skilyrði fyrir lántöku eru þrengd mjög og hámarksfjárhæð láns er lækkuð um tíu milljónir króna. Þá hefur sjóðurinn ákveðið að hætta að lána nýjum lántakendum verðtryggð lán á breytilegum vöxtum, en þau hafa verið einna hagkvæmustu lánin sem í boði hafa verið á undanförnum árum. Vextir þeirra lána standa áfram í stað í 2,26 prósentum þrátt fyrir að stýrivextir hafi lækkað tvívegis frá því að þeir voru festir þar í byrjun ágúst og aðrir lífeyrissjóðir hafi lækkað sína breytilegu verðtryggðu vexti skarpt. Lægstu slíkir sem nú eru í boði eru 1,64 prósent.
Í frétt sem sjóðurinn birti í morgun segir enn fremur að mánuðina júlí, ágúst og september hafi umfang lánsumsókna þrefaldast miðað við sama tíma í fyrra. „Öll fyrirliggjandi gögn benda til áframhaldandi vaxtar. Þessi vöxtur leiðir að óbreyttu til ójafnvægis í áhættudreifingu sjóðsins og því óhjákvæmilegt að stjórn bregðist við því.“
Því hefur verið ákveðið að þrengja mjög rétt til lántöku hjá sjóðnum, en áður gat hver sem er sem hafði greitt einu sinni til hans tekið þar lán. Nú þurfa sjóðfélagar að hafa greitt iðgjöld í sex af tólf síðastliðnum mánuðum, að hafa greitt iðgjöld í 36 mánuði fyrir umsókn eða makalífeyrisþegar þar sem maki lánsumsækjanda hafði átt lánsrétt. Þá er veiting nýs láns til endurfjármögnunar eldra láns hjá lífeyrissjóðnum háð því skilyrði að viðkomandi sé með virkan lánsrétt.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur líka ákveðið að halda vöxtum á óverðtryggðum lánum með föstum vöxtum til þriggja ára áfram í 5,14 prósent með því að breyta því hvernig þeir eru ákveðnir. Gömlu lánareglurnar voru þannig að kjörin ákvörðuðust á þróun ríkisskuldabréfaflokks (RIKB 31) þrjá almanaksmánuði aftur í tímann með ákveðnu álagi. Miðað við útreikninga Kjarnans hefðu óverðtryggðu föstu vextirnir átt að lækka í tæplega 4,7 prósent ef gömlu lánareglunum hefði verið fylgt. Þess í stað eru þeir, líkt og áður sagði, áfram 5,14 prósent.
Ekki í takti við það sem lagt var upp með
Hámarksfjárhæð lána er lækkuð úr 50 milljónum króna í 40 milljónir króna, eða um 20 prósent. Þá eru fastir verðtryggðir vextir lækkaðir í 3,2 prósent en breytilegir verðtryggðir vextir halda áfram að vera 2,26 prósent.
Ákvörðun um að hækka vexti á þeirri lánategund í 2,26 prósent var tekinn á stjórnarfundi 24. maí síðastliðinn og samhliða var ákveðið að hætta að að láta ávöxtunarkröfu ákveðins skuldabréfaflokks stýra því hverjir vextirnir eru og í stað þess myndi stjórn sjóðsins ákveða þá. Þegar þessi ákvörðun var tekin voru verðtryggðir vextir Lífeyrissjóð verzlunarmanna þeir lægstu sem íbúðarkaupendum stóðu til boða.
Eftir umtalsverða reikistefnu tóku nýir stjórnarmenn á vegum VR sæti í stjórn sjóðsins í lok ágúst síðastliðins. Síðan þá hafa vextirnir sem ollu stjórnarskiptunum, á breytilegum verðtryggðum lánum, hins vegar ekki haggast og nú hefur bæst við að þetta lánaform stendur ekki lengur nýjum lántakendum til boða.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að þessi staða sé ekki í takti við það sem lagt var upp með þegar skipt var um fólk í stjórninni. Sérfræðingar sjóðsins hafi hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að hann gæti ekki lánað mikið meira. „Það þarf að fara í kerfisbreytingu á útlánum lífeyrissjóða til sjóðfélaga og færa þau í samræmi við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur.“