Miðflokkurinn höfðar mun meira til landsmanna yfir fimmtugu, en Píratar sækja nær allt sitt fylgi til þeirra sem eru undir þeim aldri. Fylgi stjórnarflokkanna þriggja er nokkuð svipað hjá hópunum tveimur en Samfylkingin er mun sterkari hjá eldri hópum samfélagsins en þeim yngri.
Þetta er meðal þess sem má lesa úr gögnum sem MMR hefur tekið saman fyrir Kjarnann úr þeim könnunum á fylgi stjórnmálaflokka sem framkvæmdar hafa verið frá 12. ágúst til 16. september 2019.
Stöðugleiki hjá ríkisstjórnarflokkunum
Ef einungis þeir sem væru 50 ára og eldri myndu kjósa væri gamli fjórflokkurinn með 62,2 prósent atkvæða.
Eini flokkurinn úr þessu mengi sem nýtur meiri stuðnings hjá fólki undir fimmtugu en hjá þeim sem eru yfir þeim aldri eru Vinstri græn.
Mestur er munurinn hjá Samfylkingunni. Hún mælist með 19 prósent fylgi hjá aðspurðum yfir 50 ára en einungis 13,1 prósent hjá yngri hópnum. Því er stuðningurinn hjá þeim eldri við flokkinn 45 prósent meiri en hjá hinum yngri. Stuðningur Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem er stærsti flokkur landsins hjá báðum hópum, er mun jafnari eftir aldursflokkum, þótt báðir njóti meiri stuðnings hjá hinum eldri en þeim yngri.
Sveiflur hjá flokkum sem stofnaðir voru eftir 2012
Flokkarnir sem stofnaðir hafa verið síðan árið 2012, og eiga sæti á þingi, eru fjórir. Hjá þeim koma mismunandi áherslur aldurshópa mun skýrari í ljós en hjá flestum af gömlu flokkunum.
Fylgi Miðflokksins mælist til að mynda nánast tvisvar sinnum meira hjá kjósendum yfir fimmtugu en þeim sem eru undir þeim aldri. Alls segjast 9,1 prósent landsmanna sem eru á aldrinum 18 til 49 ára að þeir styðji flokk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hjá þeim sem eru eldri en 50 ára er stuðningurinn hins vegar 17,3 prósent.
Staðan hjá Pírötum er þveröfug. Báðir flokkar njóta mun meiri stuðnings hjá þeim sem eru undir fimmtugu en þeim landsmönnum sem eru yfir þeim aldri. Hjá yngri hópnum segjast 16 prósent ætla að kjósa Pírata, sem gerir flokkinn að þeim næst stærsta í þeim aldurshópi. Hjá aðspurðum yfir 50 ára er það hlutfall sem ætlar að kjósa Pírata 6,1 prósent sem gerir hann að minnsta flokknum sem næði manni inn á þing ef kosið yrði í dag.
Allra nýjustu flokkarnir ná betur til yngra fólks
Viðreisn er einnig með mun meiri stuðnings hjá fólki undir fimmtugu en þeim sem eru yfir þeim aldri, en eldri hópurinn er líklegri til að kjósa Flokk fólksins en sá yngri. Síðarnefndi flokkurinn nýtur þó ekki nægjanlegs fylgi til að ná inn á þing eins og stendur.
Sósíalistaflokkur Íslands, sem náði inn manni í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík í fyrra, mælist heldur ekki með nægjanlegt fylgi til að ná inn á þing, en er merkjanlega sterkari hjá yngri kjósendum en þeim eldri.
Vert er að taka fram að fleiri einstaklingar tilheyra yngri hópnum sem svaraði könnuninni, um 60 prósent, en þeim eldri, sem telur um 40 prósent landsmanna.