Fólk myndi taka þessu miklu alvarlegar ef lýst væri yfir neyðarástandi
Daði Víðisson, ungur aðgerðasinni í loftslagsmálum, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hittust og ræddu um loftslagsmál. Þau sammæltust um að von og samstaða væri mikilvæg í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og að nauðsynlegt væri að lýsa yfir neyðarástandi.
Á sólríku eftirmiðdegi hittust Daði Víðisson, 8. bekkingur í Hagakóla og loftslagsaðgerðasinni, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, á kaffihúsi í miðbænum og ræddu loftslagsmál.
Daði hefur mætt í hádeginu á nánast hverjum einasta föstudegi síðan í vor fyrir utan Alþingi og mótmælt ásamt skólasystkinum sínum og krafist róttækari aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum. Rósa Björk hefur sjálf verið óhrædd við að kalla eftir því að stjórnvöld, þar á meðal hennar eigin flokkur sem situr nú í ríkisstjórn, geri enn meiri þegar kemur að loftslagsmálum.
Kjarninn fékk að fylgjast með þessum tveimur ræða um von og vonleysi, nauðsyn þess að lýsa yfir neyðarástandi og framtíðaraðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum.
Daði: Finnst þér að þinn flokkur hafa gert nóg í loftslagsmálum?
Rósa Björk: Nei, mér finnst ég og minn flokkur ekki hafa verið gera alveg nóg í loftslagsmál. Ég held að við getum gert meira. Þó svo að ég sé ánægð með þá aðgerðaáætlun sem flokkurinn hefur sett fram í loftslagsmálum þá hef ég verið pínku gagnrýnin á það að við þurfum að gera meira og hraðar.
Daði: Finnst þér yfirlýsing neyðarástands vera þörf?
Rósa Björk: Já, reyndar er ég á þeirri skoðun. Það hafa mörg þing erlendis, borgir og jafnvel lönd lýst yfir neyðarástandi. Ég held að það skipti svolitlu máli að lýsa yfir neyðarástandi vegna þess að þá þýðir það að við erum að setja þunga á þetta mál. Ég er líka eiginlega bara á þeirri skoðun að við séum í neyðarástandi þegar kemur að loftslagsmálunum. Þá eigum við bara að kalla þetta það sem það er, ekki tipla á tánum í kringum það.
Hér er neyðarástand og við þurfum að bregðast mjög hratt við. Það er ekkert verið að ógna neinum eða að hræða neinn þó að við lýsum yfir neyðarástandi. Eins og ég segi það hafa önnur þjóðþing, borgir og bæir erlendis verið að lýsa yfir neyðarástandi. Af hverju ættum við ekki gera það, þegar staðan er eins og hún er í loftslagsmálum?
Daði: Já, ég get verið sammála þér þarna. Þetta er bara já, algjört neyðarástand.
Ég er líka eiginlega bara á þeirri skoðun að við séum í neyðarástandi þegar kemur að loftslagsmálunum. Þá eigum við bara að kalla þetta það sem það er, ekki tipla á tánum í kringum það.
Daði: Ert þú með einhverjar hugmyndir til að minnka neyslu á kjöt- og mjólkurafurðum?
Rósa Björk: Já, ég er með nokkrar hugmyndir. Ég held að þegar að það kemur að ríkinu og opinberum stofnunum þá getum við gert ýmislegt. Til að mynda getum við sett reglur um að í mötuneytum á vegum ríkisins og í opinberum stofnunum bjóðum við ekki upp á kjöti – bjóðum minna af því eða höfum meiri grænmetisrétti en við gerum. Við þyrftum að auka hlut grænmetis og minnka hlut kjöts.
Síðan er ég er líka með hugmynd um það, þar sem við hérna á Íslandi búum við svo góðar aðstæður þegar kemur að matvælaframleiðslu, að við þyrftum að vera duglegri í því að framleiða meira grænmeti. En hvernig getum við aukið framleiðsluna? Við framleiðum nú þegar mikið af grænmeti vegna þess að við eigum heitt vatni og orku.
Grænmetis- og matvælaframleiðendur hafa nú kvartað yfir því í nokkur ár að rafmagns- og orkuverð til þeirra sé alltof hátt. Þannig að ef við myndum lækka þetta rafmagnsverð og orkuverð til framleiðanda á grænmeti þá gætu verið byggð fleiri gróðurhús og þá myndi það auka framleiðslu á grænmeti. Ég held að það myndi bæði auka framleiðsla á Íslandi og líka gera framleiðsluna fjölbreyttari.
Við höfum gert þetta þegar kemur að stóriðjum, við höfum lækkað raforkuverð til stóriðju og þess vegna er það svo ótrúlega skrítið að við höfum ekki gert þetta varðandi matvælaframleiðslu, það er lækkað verð til þeirra sem rækta grænmeti í gróðurhúsum.
Daði: Af hverju er ekki búið að uppfylla allt sem kemur fram í Parísarsáttmálanum?
Rósa Björk: Það er ennþá smá tíma áður en við þurfum að uppfylla allt það sem við höfum skrifað undir í Parísarsamkomulaginu. En til þess að við gerum það, til þess að við minnkum útblástur um þessar tvær gráður þá þurfum við heldur betur að spýta í lófana, heldur betur að fara að labba svolítið hraðar og eiginlega bara hlaupa. Ég myndi vilja setja skatta á flug og að það væri skylda að kolefnisjafna allar ferðir opinberra stofnana og ríkisins. Mér finnst einnig að það ætti að vera skylda að vera með rafmagnsbíla í sveitarfélögum og ríki. Það er að vísu smá vísir að þessu í aðgerðaáætlun um loftslagsmál en þarna þurfum við enn og aftur að gera betur.
Við þurfum einnig að taka stóriðjuna út fyrir sviga og taka þess í stað svolítið hressilega á henni. Ég trúi því að í staðinn fyrir stóriðju þá þurfum við að skipta efnahag okkar upp þannig að við ætlum að vera með græn störf í náttúru- og umhverfisvernd. Og líka það sem kallað er græn nýsköpun þegar minni fyrirtæki starfa í tengslum við umhverfisvernd og sjálfbærni. Ég held að það sé fullt af tækifærum fyrir okkur til að gera okkur svolítið meira gildandi þarna.
Það fyllir mig von að krakkar eins og þú séu að berjast fyrir hraðari og meiri aðgerðum þegar kemur að loftslagsmálum.
Daði: Finnst þér of seint að byrja núna á einhverjum aðgerðum eða hefur þú ennþá von?
Rósa Björk: Nei, ég hef nefnilega ennþá von. Stundum missi ég alveg rosalega mikið vonina og hugsa bara okei við erum alltof sein. En það hefur orðið svo ótrúleg vitundarvakning á síðasta ári sem Greta Thunberg hefur leitt. Hún er svo mögnuð og sýnir okkur að einstaklingur getur hreyft yfir mörgum. Svo skiptir svo miklu máli hvað við gerum.
Það er ár síðan hún var ein fyrir framan sænska þingið, alein með eitt spjald. Núna ári síðar eru milljónir manna um allan heim að krefjast hraðari og meiri aðgerða til þess að takast á við loftslagsbreytingar. Það fyllir mig von.
Það fyllir mig von að krakkar eins og þú séu að berjast fyrir hraðari og meiri aðgerðum þegar kemur að loftslagsmálum.
Áður en ég fór á þing var ég blaðakona og fréttakona. Þar á undan var ég líka fjallaleiðsögumaður og vann í nokkur sumar upp á Vatnajökli. Síðasta sumar fór ég í kringum Vatnajökul og skoðaði skriðjökla sem ég hafði ekki heimsótt í nokkur sumar. Þá sá sé hversu ótrúlega mikið þeir voru búnir að bráðna og fylltist ég þá miklu vonleysi. Ég varð svolítið döpur ... eiginlega svolítið mikið.
Ég er búin að vera hugsa um þetta síðustu daga, varðandi vonleysi og vonina. Ég held að til þess að við náum að breyta ástandinu þá verðum við að ná að nýta vonleysi til að leysa úr læðingi þennan kraft að „heyrðu nú við þurfum við bara að gera ýmislegt.“ Og þar held ég að von okkar liggi.
Daði: Vilt þú auka fræðslu í grunnskólum, menntaskólum og háskólum um loftslagsmál?
Rósa Björk: Já, heldur betur, finnst þér það ekki líka?
Daði: Jú, ég get bara sagt af minni reynslu og mér finnst ekkert verið að tala um þetta beint eða eitthvað mikið.
Rósa Björk: Hvenær finnst þér að við ættum að byrja að tala um loftslagsmál?
Daði: Bara sem fyrst, vegna þess að þetta er í gangi núna. Á meðan við erum að tala þá er verið að losa fullt af koltvísýring út í loftið. Við þurfum eiginlega bara að vakna sem fyrst og gera eitthvað í þessu.
Rósa Björk: Ég er alveg sammála þér. Ég held að því fyrr því betra. Ég held að það þurfi einnig að efla þessi tengsl fólks og krakka, jafnvel bara meira og strax á leikskóla- og grunnskólaaldri. Efla tengsl krakka við náttúruna. Svo þú fáir svolítið góða tilfinningu fyrir náttúrunni og fáir þessa væntumþykju fyrir henni. Ef okkur þykir vænt um náttúruna þá held ég að það séu meiri líkur á að við berjumst fyrir henni.
Daði: Já, heyrðu geggjað. Ég er ekki með fleiri spurningar. Ert þú með einhverjar spurningar?
Rósa Björk: Já, mig langaði að spyrja þig af því þú ert yngri en ég. Ert þú vonlaus eða vongóður?
Daði: Ég veit það ekki alveg. Við verðum auðvitað að gera betur. Þegar maður sér hluti í ákveðnu ljósi þá missir maður vonina en ég held að við þurfum bara að standa saman og vera með von og vilja til að gera þetta. Vera með vilja til að bjarga mannkyninu.
Rósa Björk: Ég held að þetta sé lykilorð sem þú ert að tala um; að við verðum að standa saman. Við getum ekki gert þetta eitt og eitt heima hjá okkur, verðum að standa saman og þrýsta á breytingar. Það sem hefur verið að gerast núna með loftslagsverkföllunum, það er verið að þrýsta á að bregðast hraðar við og bregðast við með meiri afgerandi hætti. Við erum líka alltaf að fá meiri og meiri upplýsingar um hversu miklu hraðar þetta er að gerast en við héldum. Við höfum ekkert rosalega mikinn tíma en við höfum ennþá tíma til þess að bregðast við.
Rósa Björk: Hvað finnst þér um þau sem draga úr og efast um loftslagsbreytingar, finnur þú fyrir því, eru ekki krakkar á þínum aldri svolítið sammála um að við þurfum að berjast fyrir þessu?
Daði: Jú, ég held að flestir – allavega á mínum aldri – viti af þessu og hugsi um þetta og trúi á þetta. Örugglega einhverjir sem gera það ekki.
Rósa Björk: Já, misheit í baráttunni.
Rósa Björk: Af því ég er stjórnmálakona og þú eftir nokkur ár ferð að kjósa. Nú verður þú eiginlega að segja mér hvað þú vilt að ég geri á þing. Þú mátt líka senda mér bréf.
Daði: Já, bara þrýsta á aðgerðir. Líka hugmyndirnar sem þú hefur komið með, halda áfram með eitthvað svona.
Rósa Björk: Þú myndir halda að það að lýsa yfir neyðarástandi myndi ýta svolítið hressilega við.
Daði: Já, það myndi líka vekja fólk. Myndi fræða fólk meira um þetta og fólk myndi taka þessu miklu alvarlegar ef lýst væri yfir neyðarástandi.
Rósa Björk: Þú sendir mér svo bara fleiri hugmyndir. Ég læt þig fá netfangið mitt og þú skrifar mér þegar þú kemur heim ef þér dettur eitthvað fleiri í hug.
Rósa Björk: Takk fyrir spjallið og gangi þér vel.
Daði: Takk, sömuleiðis.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Öfgafullar hitabylgjur 160 sinnum líklegri vegna loftslagsbreytinga
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
23. desember 2022Trú og náttúra
-
22. desember 2022Tíu jákvæðar fréttir af dýrum
-
18. desember 2022Kemur að skuldadögum
-
17. desember 2022Vilja flytja út íslenska orku í formi fljótandi metangass
-
13. desember 2022Vindurinn er samfélagsauðlind