Þangað til fyrir örfáum árum hefðu flestir Íslendingar látið segja sér það tvisvar að skortur á sandi væri eitthvað sem gæti orðið vandamál. Hér á Íslandi hefur sandur þótt fremur óskemmtilegt fyrirbæri, og auk þess þykir mörgum hann ljótur á litinn. Oftast kolsvartur og drungalegur og þegar um hann er fjallað er það sjaldnast í jákvæðum tóni. „Það er myrkur og þoka og meinlegir skuggar á Mýrdalssandi og hvergi skjól að fá“ sungu þeir Bubbi og Rúnar í GCD.
Mýrdalssandur er kannski þekktastur íslenskra sanda, ekki síst vegna draugatrúar sem lengi var við hann tengd. Dæmi eru um rútubílstjóra sem neituðu að aka sandinn í myrkri. Sömuleiðis er vitað til að fólk hafi ekki þorað út úr bíl í myrkrinu á sandinum ef skipta þurfti um dekk heldur beðið birtingar í bílnum. En þeir eru fleiri stóru sandarnir á Íslandi: Skeiðarársandur, Breiðamerkursandur, Sólheimasandur og Hólasandur koma fyrst upp í hugann en íslensku sandarnir eru fleiri. Og svo eru það allar fjörurnar, bæði margar og langar. Það er sem sé ekki skortur á sandi á Íslandi og þótt mikið sé byggt er óhætt að fullyrða að ekki verði hér skortur á sandi um ófyrirsjáanlega framtíð.
Fyrstu kynni margra af sandi eru sandkassarnir sem hafa um áratuga skeið verið vinsælir meðal barna, og þau stuttu telja sig iðulega þurfa að bragða á honum. Komast þá fljótt að því þótt gaman sé að moka er sandurinn ekki ætlaður til átu. Íslendingar líta almennt ekki á sand sem verðmæti, hann er bara þarna og notaður í steinsteypu, við vegagerð og fleira. En þótt Íslendingar líti ekki á sand sem sérstök verðmæti gildir ekki það sama um margar aðrar þjóðir. Það er nefnilega komið í ljós að sandurinn er ekki óþrjótandi, að minnsta kosti ekki sandur sem hentar til mannvirkjagerðar.
Singapúr
Flest ríki sem þurfa að flytja inn sand nota hann í húsbyggingar og önnur mannvirki. Smáríkið Singapúr í Suðaustur – Asíu flytur inn meiri sand en nokkurt annað ríki í heiminum. Sá sandur sem Singapúrarnir flytja inn fer ekki nema að litlu leyti í hús, hann fer að mestu leyti í það að stækka landið. Íbúafjöldi Singapúr hefur meira en þrefaldast síðan landið sagði skilið við Bretland árið 1963 og nú losar íbúafjöldinn 6 milljónir. Stjórnvöld hafa einungis eitt úrræði til að bregðast við þessari miklu fjölgun í landi sem þegar er mjög þéttsetið: stækka landið í sjó fram. Og, það er nákvæmlega það sem Singapúrarnir hafa gert og á síðustu árum hefur flatarmál þessa litla lands (sem er nú 725 ferkílómetrar) aukist um meira en 20 prósent.
Þessa landfyllingu, sem er að mestu gerð úr sandi hafa þeir orðið að flytja inn. Sandurinn hefur verið fluttur inn frá Indónesíu, Malasíu, Kambódíu og Tælandi. Þessi innflutningur hefur ekki allur verið fluttur inn samkvæmt lögum og reglum. Sem dæmi má nefna að fyrir nokkrum árum sögðust yfirvöld hafa flutt inn 3 milljónir tonna sands frá Malasíu en samkvæmt upplýsingum malasískra yfirvalda var innflutningurinn 133 milljónir tonna. Mismunurinn 130 milljónir tonna, af ólöglegum sandi. Þessum sandi er öllum mokað upp af ströndum landsins og þegar magnið er svona gífurlegt hefur það áhrif. Sömu sögu er að segja frá Indónesíu, yfirvöld þar segja að að sandnámið skapi mikinn vanda á láglendum eyjum.
Hvað með Sahara og sandana á Arabíuskaganum?
Flestir hafa séð myndir frá Sahara eyðimörkinni og sandauðnunum á Arabíuskaganaum og því má spyrja hvort ekki sé hægt að flytja eitthvað úr þessum risasandbingjum þangað sem þörf er á. Svarið við því er að vissulega væri það hægt en gallinn er, svo ótrúlega sem það kann að hljóma, að sandurinn í Sahara og á Arabíuskaganum er ónothæfur í steinsteypu. Hann er einfaldlega of mjúkur og fíngerður. Sandurinn í hæstu byggingu heims Burj Khalifa í Dubai (829,8 metrar á hæð) var fluttur inn frá Ástralíu, sandurinn á heimaslóðum var ónothæfur.
Kínverjar steypa og steypa
Á undanförnum árum hefur mikið verið fjallað um þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað í Kína. Þar fjölgar þeim, sem flytja úr sveitunum í þéttbýlið, um milljónatugi árlega og húsnæðisþörfin því mikil. Og það þarf ekki bara að byggja hús, það þarf líka að leggja vegi. Undanfarin ár hafa Kínverjar árlega lagt 146 þúsund kílómetra af steyptum götum (steypti kaflinn fyrir botni Berufjarðar er sem dropi í hafið) og Kínverjar gera ráð fyrir að þessi uppbygging vegakerfisins haldi áfram í mörg ár. Það segir líka sitt að á árunum 2011 – 2014 notuðu Kínverjar meira magn steinsteypu en Bandaríkjamenn gerðu alla 20. öldina. Kínverjar eru enn sem komið er sjálfum sér nógir um sand og það gildir líka um Indverja.
Veldur áhyggjum
Í nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum kemur fram að árið 2060 verði árleg notkun sands 82 milljarðar tonna. Og þetta mikla sandnám sé meira en jörðin getur með góðu móti borið. Í skýrslunni kemur fram að sumsstaðar sé byggt miklu meira íbúðarhúsnæði en þörf sé fyrir og brýnt sé að kunna sér hóf í þeim efnum og jafnframt beri að endurnýta byggingaefni í auknum mæli.
Skýrsluhöfundar segja að umfjöllun um þetta mikilvæga efni, sandinn, hafi fram til þessa verið verið takmörkuð. Nauðsynlegt sé að það breytist og reyndar sjáist þess nú merki að þjóðir heims séu að átta sig á nauðsyn þess að bregðast við, sandurinn sé að renna úr stundaglasinu.