Íslendingar sem hafa búið samfellt í 16 ára eða lengur erlendis munu ekki lengur fá að taka þatt í kosningum á Íslandi, listar framboða munu þurfa að liggja fyrir 29 dögum fyrir kjördag í stað átta vikna og þeir sem þurfa aðstoð við að kjósa munu hafa val um hver hjálpar þeim.
Þá verður kosningaathöfninni sjálfri breytt, sett verður á fót ný sjálfstæð stjórnsýslustofnun með fimm manna stjórn sem mun kallast kosningastofnun og ný áfrýjunarnefnd sem hægt verður að áfrýja niðurstöðum hennar til.
Þetta er á meðal þeirra tillagna sem starfshópur um endurskoðun kosningalaga hefur unnið síðastliðin ár. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis eru hugmyndir starfshópsins enn á umræðustigi og tillögurnar því enn í mótun. Starfshópurinn mun skila af sér endanlegum tillögum, í formi frumvarps, til Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, á fullveldisdaginn 1. desember næstkomandi.
Tillögur fyrri vinnuhóps einnig lagðar til
Í október í fyrra skipaði forseti Alþingis starfshóp um endurskoðun kosningalaga. Hann átti að fara yfir tillögur fyrri hóps um málið, kanna kosti þess að setja heildarlöggjöf um kosningar og skoða, eftir því sem tími og aðstæður leyfðu, kosti rafrænnar kjörskrár. Hópurinn á að skila tillögum í formi frumvarps í síðasta lagi 1. desember 2019.
Í byrjun ágúst síðastliðinn skilaði hópurinn minnisblaði til forseta Alþingis þar sem farið var yfir stöðuna á vinnu hans. Kjarninn kallaði eftir því að fá minnisblaðið afhent.
Í því er farið yfir helstu tillögur starfshópsins. Þar kemur fram að hann hafi ákveðið að leggja tillögur fyrri vinnuhóps um „endurskoðun alþingiskosningalaga frá 2016 til grundvallar vinnu sinni. Einnig hefur starfshópurinn farið yfir þær athugasemdir ÖSE, kjörbréfanefndar og landskjörstjórnar um meinbugi á löggjöf eða framkvæmd kosninga og tekið tillit til þeirra við gerð tillagna sinna. Enn fremur hefur verið ákveðið að stefna beri að einni kosningalöggjöf í stað fjögurra. Í smíðum er því frumvarp til heildarlaga um allar kosningar sem taka til kosninga til Alþingis, sveitarstjórna, forsetakjörs og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.“
Ný kosningastofnun verður til
Önnur helstu atriði sem eiga að vera í nýrri kosningalöggjöf eru til að mynda uppsetning á miðlægri kosningastofnun að norrænni fyrirmynd. Tillögur vinnuhópsins gera ráð fyrir sjálfstæðri stjórnsýslustofnun með fimm manna stjórn þar sem þrír stjórnarmenn yrðu kosnir af Alþingi, einn yrði tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einn tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins. Þessi breyting mun kalla á endurskoðun á hlutverki landskjörstjórnar.
Hópurinn leggur einnig til breytingar á atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Í tillögunni felst að slíkt atkvæðagreiðsla hefjist 29 dögum fyrir kjördag í stað átta vikna eins og nú er, og á þeim tíma þurfi að liggja fyrir hvaða listar eru í framboði.
Þá stendur til að breyta kosningaathöfninni sjálfri. Í tillögum starfshópsins kemur fram að lagt sé til að fyrirkomulagið verði þannig að „ kjósandi fái kjörseðil afhentan við komu í kjördeild, hann kýs í einrúmi í kjörklefa, gerir grein fyrir sér hjá kjörstjórn og eigi hann rétt á að greiða atkvæði samkvæmt kjörskrá stimplar kjörstjórn á bakhlið kjörseðils. Loks leggur kjósandi kjörseðil í atkvæðakassann. Með þessari breytingu er ekki þörf á sérstöku bókhaldi eða uppgjöri um dreifingu, afhendingu og notkun kjörseðla.“
Missa kosningarétt eftir 16 ár í útlöndum
Kosningarétti Íslendinga sem búsettir eru erlendis verður breytt með þeim hætti að eftir 16 ára samfellda búsetu erlendis missi þeir kosningarétt til Alþingis, forsetakjörs og til þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum. Með breytingunni fellur einnig brott ákvæði kosningalaga um umsóknarferli þeirra sem búsettir eru erlendis til að komast á kjörskrá hjá Þjóðskrá Íslands.
Nýtt fyrirkomulag fyrir þá sem þurfa á aðstoð við að kjósa verður tekið upp, verði tillögur hópsins að lögum. Í því felst að kjósendur geti haft val um að njóta aðstoðar eigin aðstoðarmanns eða kjörstjórnar.
Á fundum sem haldnir hafa verið eftir að minnisblaðinu var skilað inn hefur líka verið rætt um að flýta forsetakosningunum sm fyrirhugaðar eru næsta sumar og halda þær að vori. Sömuleiðis hefur verið rætt um að færa sveitarstjórnakosningar fram í apríl í stað þess að halda þær í maí, eins og nú tíðkast.