Nýr kafli var ritaður í sögu kísilmálmverksmiðjunnar United Silicon í síðustu viku, þegar Arion banki, sem reynt hefur að selja hana um nokkuð langt skeið, færði niður virði verksmiðjunnar um 1,5 milljarða króna. Það gerist þrátt fyrir að bankinn hafi verið að fjárfesta í úrbótum á henni til að reyna að koma verksmiðjunni aftur í starfhæft, og söluhæft, ástand.
Rúm þrjú ár eru síðan að kísilmálmverksmiðjunni, sem er staðsett í Helguvík á Suðurnesjum, var lokað. Félagið utan um rekstur hennar var svo sett í þrot í janúar 2018.
Fjölmargir töpuðu háum fjárhæðum á ævintýrinu. Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem fjárfesti 1.178 milljónum króna í United Silicon, hefur fært niður virði þeirra hlutabréfa og skuldabréfa sem sjóðurinn á í félaginu um 100 prósent. Sömu sögu er að segja af Eftirlaunasjóði félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA). Þar nemur niðurfærslan einnig 100 prósentum.
Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ) fjárfesti einnig í verkefninu. Arion banki rekur alla sjóðina þrjá, starfsfólk bankans gegnir stjórnunarstöðum í þeim og þeir eru til húsa í höfuðstöðvum hans í Borgartúni.
Eignir rekstrarfélags United Silicon, sem samanstanda af óstarfhæfri verksmiðju og öllu sem henni tengist, voru færðar yfir í félag í eigu stærsta kröfuhafa hennar, Arion banka, sem átti veð í undirliggjandi eignum. Hann afskrifaði 4,8 milljarða króna vegna verkefnisins en bókfærði verksmiðjuna á 5,2 milljarða króna í árslok 2017. Á þeim tíma var líka útistandandi lánsloforð og ábyrgðir upp á 900 milljónir króna.
Í reikningum bankans hefur gætt bjartsýni um að hægt verði að koma henni í rekstur að nýju og selja hana til nýrra eigenda. Opinberlega hefur Arion banki greint frá því að á þriðja tug aðila hafi lýst einhverskonar áhuga á kaupum á henni.
Áfram veginn
Í lok árs 2018 hafði virði Stakkbergs, eignarhaldsfélagsins sem stofnað var utan um verksmiðjuna í Helguvík, hækkað í 6,5 milljarða króna. Í ársreikningi Arion banka fyrir það ár sagði að salan á Stakksbergi hefði seinkað nokkuð, ekki síst vegna flókins regluverks, en að bankinn ynni „ákveðið að framgangi sölunnar og að hún verði eins fljótt og kostur er.“
Mikil andstaða er hins vegar gagnvart því að verksmiðjan verði endurræst á meðal íbúa í Reykjanesbæ, við hlið Helguvíkur. Þar hafa félagasamtök krafist þess að fram fari bindandi íbúðarkosning um hvort að starfsemin fái að þrífast á svæðinu. Þau vilja enn fremur að starfsleyfi verksmiðjunnar verði afturkallað.
Um miðjan desember það ár greindi Kjarninn frá því að Arion banki hefði engan hug á því að láta undan þeim óskum. Í bréfi sem Stakksberg sendi til Skipulagsstofnunar í fyrra sagði: „Verksmiðjan hefur þegar verið byggð á lóðinni fyrir um 22 milljarða króna. Um er að ræða réttindi sem njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og atvinnuréttindi sem njóti verndar 75. gr. stjórnarskrár. Um slík réttindi verði ekki kosið í almennum kosningum að mati Stakksberg ehf.“
Virðið hélt áfram að hækka
Í lok mars, þegar þriggja mánaða uppgjör Arion banka fyrir árið 2019 var birt, var virði Stakksberg komið upp í tæplega 6,9 milljarða króna. Unnið var að endurbótum á verksmiðjunni sem metnar voru á 4,5 milljarða króna. Þær endurbætur voru í samræmi við skilyrði sem Umhverfisstofnun hafði sett þegar hún samþykkti úrbótaáætlun fyrir verksmiðjuna. Á meðal þess sem stefnt var að því að gera vegna þessa var að byggja 52 metra háan skorstein sem draga ætti úr mengun frá verksmiðjunni, þar á meðal lyktamengun. Til samanburðar er Hallgrímskirkja 74,5 metrar á hæð.
Í hálfsársuppgjöri Arion banka var ekki lengur hægt að sjá hvað bankinn metur Stakksberg á. Ástæðan er sú að Stakksberg er í eigu annars eignarhaldsfélags bankans, Eignabjargs, og inn í það félag var búið að bæta annarri eign, Sólbjargi ehf. Það félag heldur á eftirstandandi eignum TravelCo, sem Arion banki sat uppi með vegna annars viðskiptavinar sem hann hafði lánað mikið fé en farið hafði í þrot, Primera Air-samstæðunnar. Samanlagt virði þessara tveggja félaga var sagt 8,8 milljarðar króna í lok júní síðastliðins.
Virðið fært niður
Á mánudag var svo greint frá því, með afkomuviðvörun til Kauphallar Íslands, að neikvæð áhrif af aflagðri starfsemi og eignum til sölu á afkomu Arion banka á þriðja ársfjórðungi 2019 næmi þremur milljörðum króna. Þar munaði mestu um alls 1,5 milljarða króna niðurfærslu á virði Stakksbergs.
Í tilkynningunni segir orðrétt: „Vegna erfiðra markaðsaðstæðna, m.a. lágs sílikonverðs á heimsmarkaði, niðurfærir Arion banki eignir Stakksbergs um 1,5 milljarð króna. Stakksberg er eignarhaldsfélag um sílikonverksmiðju í Helguvík sem er í söluferli. Unnið hefur verið að undirbúningi sölu verksmiðjunnar m.a. með umhverfismati og nýjum samningum við orkufyrirtæki.“
Benedikt Gíslason, sem tók við stöðu bankastjóra Arion banka í sumar, sagði í kjölfarið í samtali við RÚV að hann hefði enn trú á því að hægt yrði að selja kísilmálmverksmiðjuna. „Við verðum að láta á það reyna. Við eigum þessa eign í bókum og tókum hana yfir vegna rekstrarörðugleika og það er okkar hlutverk að reyna að koma henni í verð.“