Baráttan um lífeyrissjóðina að hefjast af alvöru
Lífeyrissjóðir landsins eru stærstu fjárfestar og lánveitendur á Íslandi. Þeir eru í eigu sjóðsfélaga en ný og róttæk verkalýðsforysta er á þeirri skoðun að atvinnurekendur hafi allt of mikil áhrif innan þeirra. Í undirbúningi, og í sumum tilvikum í framkvæmd, er að auka áhrif verkalýðshreytingarinnar og sjóðsfélaga í sjóðunum og láta þá horfa af meiri alvöru til annarra þátta en arðsemi í starfsemi sinni.
Eignir íslenskra lífeyrissjóða voru 4.797 milljarðar króna í lok ágúst síðastliðins. Til að átta sig á því hversu hratt eignir kerfisins eru að vaxa nægir að nefna að þær fóru fyrst yfir eitt þúsund milljarða króna í byrjun árs 2005 og yfir tvö þúsund milljarða króna í byrjun árs 2011. Frá því í nóvember 2012 hafa eignirnar tvöfaldast. Sjóðirnir eiga nú rúmlega þriðjung heildarfjármuna á Íslandi.
Þótt lífeyrissjóðirnir hafi verið duglegir að fjárfesta erlendis eftir að höftum var lyft þá eru eignir lífeyrissjóðakerfisins að uppistöðu enn innanlands, eða um 71 prósent. Alls eiga sjóðirnir 3.418 milljarða króna af eignum í íslensku hagkerfi. Það eru tvöfalt fleiri krónur en lífeyrissjóðirnir bókfærðu sem innlendrar eignir í maí 2009.
Stíf fjármagnshöft gerðu sjóðunum erfitt fyrir í fjárfestingum og þeir höfðu ekki marga aðra kosti en að binda þá peninga sem streymdu frá sífellt fleiri greiðendum í þeim innlendu fjárfestingum sem buðust. Sjóðirnir keyptu skuldabréf af miklum móð og eignuðust þar með stóran bita í skuldum bæði opinbera og einkageirans. Alls eiga þeir nú tæplega tvö þúsund milljarða króna í innlendum markaðsskuldabréfum og víxlum. Það þýðir að þeir eiga um 75 prósent allra slíkra hérlendis.
Til viðbótar hafa lífeyrissjóðirnir, sérstaklega á allra síðustu árum, verið leiðandi á íbúðalánamarkaði og þar af leiðandi tekið sér stöðu sem stórir beinir lántakendur íslenskra heimila. Það hafa þeir gert með því að bjóða upp á miklu betri vaxtakjör en bankar og fyrir vikið hefur hlutfall skulda heimila við lífeyrissjóði farið úr tíu prósentum í 21 prósent frá árinu 2016.
Á mannamáli þýðir það að lífeyrissjóðirnir eru stærstu innlendu lánveitendur íslenska þjóðarbúsins.
Undirstaðan í íslensku atvinnulífi
Stór hluti íslenskra fyrirtækja var í vandræðum eftir bankahrunið. Það hafði einkennst af miklum lántökum sem í einhverjum tilfellum höfðu nýst í fjárfestingar en í flestum tilfellum voru notaðar í að kaupa fyrirtæki á yfirverði og setja síðan hið keypta sem veð fyrir endurgreiðslu. Sumarið 2011 birti Samkeppniseftirlitið niðurstöður rannsóknar sem það gerði á stöðu 120 stórra fyrirtækja á völdum samkeppnismörkuðum. Um var að ræða stærstu fyrirtækin á hverjum markaði fyrir sig. Þar sagði að 68 prósent þessara fyrirtækja hefðu verið undir beinum eða óbeinum yfirráðum banka eftir hrunið. Talið er að yfirfæra hafi mátt þetta hlutfall á atvinnulífið í heild.
Því voru stórir bitar á fyrirtækjamarkaði í höndunum á endurreistum bönkum sem þurftu að endurskipuleggja þau og selja. Það var í mörgum tilvikum gert í gegnum hlutabréfamarkað. Og kaupendurnir að hlutabréfum í fyrirtækjunum sem búið var að þrífa voru að uppistöðu íslenskir lífeyrissjóðir.
Í dag, rúmum níu árum eftir að endurvakning þess markaðar hófst að nýju, er heildarvirði þeirra 24 félaga sem skráð eru á aðalmarkað og First North tæpleg 1.200 milljarðar króna. Lífeyrissjóðirnir eiga samanlagt 550,7 milljarða króna í innlendum hlutabréfum og til viðbótar 104,9 milljarða króna í hlutdeildarskirteinum í sjóðum sem fjárfesta í slíkum. Samanlagt eiga lífeyrissjóðirnir því, beint og óbeint, rúmlega helming allra hlutabréfa í landinu.
Flest félögin á aðalmarkaði eru rekstrarfélög á fákeppnismarkaði sem eru aðallega með innlenda starfsemi. Þar er að finna smásölufyrirtæki, eldsneytissala, fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki, tryggingarfélög, flutningafyrirtæki og nokkur stór fasteignafélög, svo fátt eitt sé nefnt. Flest fyrirtækin eiga ekki mikla vaxtarmöguleika í alþjóðlegu samhengi. Líklega er það fyrst og síðast Marel, sem er nú tvískráð í Hollandi, sem gæti flokkast með þannig möguleika.
Fyrir vikið er um að fyrirtæki sem hafa áhrif á daglegt líf flestra landsmanna með einum eða öðrum hætti. Og þau eru, að uppistöðu, í eigu lífeyrissjóða sem sömu landsmenn eiga.
Brugðist við í orði
Í ljósi þessa hefur krafan á að lífeyrissjóðir beiti sér með virkari hætti í þeim félögum sem þeir fjárfesta í aukist til muna á undanförnum árum. Getur lífeyrissjóður í eigu almennings enda einungis gert þá kröfu að fjárfesting hans skili arðsemi þegar að starfsemi fyrirtækjanna sem hann fjárfestir í hefur bein áhrif á lífsgæði og kjör sjóðsfélaga? Getur hann látið ótalið þegar forstjórar taka sér laun sem eru í engu samræmi við það sem er að eiga sér stað annarsstaðar í hagkerfinu? Og svo framvegis.
Slikar kröfur leggjast ofan á alþjóðlega kröfu á þá sem stýra fjárfestingum og fjármagni um að sýna aukna samfélagslega ábyrgð í verki með því að skilyrða þátttöku sína í verkefnum við uppfyllingu sjálfbærnismarkmiða, t.d. varðandi aukið kynjajafnrétti eða umhverfisáherslur.
Brugðist hefur verið við þessari kröfu í orði að einhverju leyti. Lífeyrissjóðir hafa sett sér stefnur um ábyrgar fjárfestingar þar sem umhverfismál, félagsleg málefni og stjórnarhættir eru öll atriði sem þeir eiga að líta til í fjárfestingum sínum. Auk þess hafa sumir þeirra sett sér hluthafastefnur um hvernig sjóðirnir eiga að beita sér sem eigandi til að uppfylla þau markmið.
Það á við um alla þrjá stærstu sjóðina: Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og Gildi. Þeir eru líka aðilar að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgðar fjárfestingar auk þess sem flestir lífeyrissjóðir landsins eru meðlimir í Iceland SIF, samtökum sem hafa þann tilgang „að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar.“
Á borði hefur hins vegar verið lítið um að lífeyrissjóðirnir hafi beitt sér mikið til að sveigja félög sem þeir fjárfesta í til samfélagslegra áherslna. Það sést til að mynda best á því að ekki ein kona er forstjóri í skráðu félagi og einungis 20 prósent framkvæmdastjóra innan þeirra eru konur. Það er helst að það hafi gerst hjá Gildi, sem ákvað að selja hluti sína í Brimi vegna endurtekinna viðskipta félagsins við önnur í eigu forstjóra og stærsta eiganda Brims.
Við eigum Ísland, við eigum bara eftir að taka það
Mikil undiralda hefur myndast vegna þessarar stöðu. Ein birtingarmynd hennar er að mun róttækari og herskrárri verkalýðsforysta hefur komist til valda í stærstu verkalýðsfélögum landsins og innan Alþýðusambands Íslands. Og hún telur sig geta tekið til sín miklu meiri völd um hvernig samfélagið þróast.
Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinasambands, sem tapaði formannskosningum í ASÍ í fyrra náði ágætlega utan um þessa afstöðu á fundi sem Efling stóð fyrir á meðan að formannsbaráttan stóð yfir. Þar sagði hann: „Stundum þegar ég vil fá jarðtengingu við hvað ég er að gera þá fer ég í bækur sem hafa verið skrifaðar, t.d. saga verkalýðsfélaganna. Fyrsta verkalýðsfélagið fyrir austan er stofnað 1896. Þegar maður les fundargerðir frá fyrstu fundunum ... þetta er fólk sem bjó í nánast moldarkofum, áhyggjuefnin voru hvort að börnin fengu mat daginn eftir. Menn voru settir út á kaldan klaka og fengu ekki atvinnu ef þeir voru í forystu fyrir verkalýðsfélagið. Í dag, félögin sem þetta fólk stofnaði, við eigum Ísland. Það eina sem við eigum eftir að gera er að taka það.“
Mótframbjóðandi Sverris, Drífa Snædal sem síðar vann formannskosningarnar, sagðist vera honum sammála.
Verkalýðsforystan getur mjög sýnilega haft áhrif á fjárfestingastefnu lífeyrissjóða, enda skipar hún fjölda stjórnarmanna í sjóðina. Efling hefur til að mynda mikil áhrif í stjórn Gildis og hefur þegar látið kjósa Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðing hjá félaginu, í stjórn hans.
VR er komið enn lengra í ferli sínu til að hafa veruleg áhrif innan Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Þar skipar VR helming stjórnarmanna og er með stjórnarformannssætið sem stendur. Viðmælendur Kjarnans segja ljóst að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafi lengi haft það að meginstefnu að hafa meiri áhrif á það hvernig þessi næst stærsti lífeyrissjóður landsins, með um 800 milljarða króna eignir, beitir sér í íslensku samfélagi.
Eftir að Ragnar Þór var endurkjörinn formaður fyrr í ár, og kjör annarra stjórnarmanna skömmu síðar styrkti stöðu hans verulega, hafa verkin verið látin tala.
Fyrstu skrefin stigin, stóru skrefin framundan
Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna í júní síðastliðnum var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða. Áður hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána.
Ragnar Þór sagði, þegar þetta stóð yfir, að líklega væri það eina leiðin til raunverulegra breytinga að sjóðfélagar lífeyrissjóðanna kjósi stjórnir þeirra beint. Þannig væri hægt að aftengja atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna sem hann sagði að væri í ákveðinni mótsögn við sjálfa sig sem fjármagnseiganda. Skömmu síðar sagði hann að þau ítök sem atvinnurekendur hafi náð innan lífeyrissjóðanna séu engan veginn ásættanlegt og að það hljóti að vera markmið verkalýðshreyfingunnar að losa sjóðinn undan því oki.
Skömmu síðar sagði hann að þau ítök sem atvinnurekendur hafi náð innan lífeyrissjóðanna séu engan veginn ásættanlegt og að það hljóti að vera markmið verkalýðshreyfingunnar að losa sjóðinn undan því oki.
Viðmælendur Kjarnans segja að í undirbúningi séu miklar breytingar hjá lífeyrissjóðnum, gangi áform VR eftir. Þar verði litið bæði fram á við, með breyttum áherslum í fjárfestingum og beitingu hluthafavalds, og aftur á bak með rannsóknum á gjörningum sem grunur sé um að hafi ekki verið framkvæmdir með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi. Þar er efst á blaði salan á hlut Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í Bakkavör sem Ragnar Þór hefur opinberlega sagt að gæti verið eitt stærsta fjársvikamál Íslandssögunnar og farið fram á opinbera rannsókn á hvort lífeyrissjóðir hafi verið blekktir.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði