Alls voru heildartekjur þeirra 0,1 prósent landsmanna sem höfðu mestar tekjur í fyrra, 238 fjölskyldur, 45,5 milljarðar króna í fyrra. Þar af voru 25,8 milljarðar króna fjármagnstekjur, eða um 57 prósent allra tekna þess hóps. Fjármagnstekjur eru vaxtatekjur, arður, söluhagnaður og leigutekjur utan rekstrar. Þ.e. tekjur sem viðkomandi hafa af eignum og fjárfestingum, en ekki launatekjur. Í heild hafði íslensk þjóð 137,8 milljarða króna í fjármagnstekjur. Það þýðir að um 19 prósent allra fjármagnstekna sem urðu til á Íslandi á árinu 2018, og runnu til einstaklinga, fóru til þessara 238 fjölskyldna.
Þegar ríkasta eitt prósent landsmanna er skoðað, alls 2.380 fjölskyldur, kemur í ljós að heildartekjur þeirra á árinu 2018 voru 146,8 milljarðar króna. Þar af voru fjármagnstekjur 48,1 milljarður króna, eða um þriðjungur tekna þeirra. Alls þénaði ríkasta eitt prósent landsmanna því 35 prósent af öllum fjármagnstekjum sem runnu til einstaklinga í fyrra.
Ríkustu fimm prósent landsmanna, alls 11.900 fjölskyldur, höfðu 394 milljarða króna í heildartekjur í fyrra. Þar af voru 70,2 milljarðar króna fjármagnstekjur. Það þýðir að rúmur helmingur allra fjármagnstekna sem urðu til á Íslandi í fyrra fóru til ríkustu fimm prósent landsmanna.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um skuldir og eignir landsmanna sem birt var á föstudag á vef Alþingis.
Mest af nýjum auði lendir hjá hinum efnuðustu
Kjarninn greindi frá því á laugardag að ríkustu 0,1 prósent landsmanna sem telja fram hérlendis framteljenda hafi átt 260,2 milljarða króna í lok árs 2018 í eigin fé. Alls jókst eigið fé þeirra – eignir þegar búið er að draga frá allar skuldir – um 23,6 milljarða króna í fyrra. Frá árinu 2010 hefur eigið fé ríkasta 0,1 prósent landsmanna aukist um 98 milljarða króna, eða 68 prósent.
Ríkasta eitt prósent landsmanna áttu alls 802,1 milljarð króna í lok síðasta árs, tæplega 84 milljörðum krónum meira en árið áður. Auður þessa hóps hefur aukist um 353 milljarða króna frá árslokum 2010, eða um 78 prósent.
Hlutfallslega lækkar hlutur allra ofangreindra hópa lítillega af heildareigin fé þjóðarinnar milli ára.
Vert er að taka fram að eigið fé ríkustu hópa landsmanna er stórlega vanmetið. Öll verðbréfaeign (hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum, eignarskattsfrjáls verðbréf, stofnsjóðseign og önnur verðbréf og kröfur) er nefnilega metin á nafnvirði, en ekki markaðsvirði.
Eignarhluti landsmanna í lífeyrissjóðum eru ekki taldar með í ofangreindum tölum, en samanlagt áttu þeir sjóðir 4.797 milljarðar króna í lok ágúst síðastliðins og eru langstærstu fjárfestar í landinu.
Kjarninn fjallaði ítarlega um baráttuna um stjórn lífeyrissjóðina sem nú stendur yfir í fréttaskýringu sem birtist á föstudag.