Fyrir rétt um ári síðan, 2. nóvember 2018, var greint frá því opinberlega að Síminn hefði tryggt sér sýningarréttinn að enska boltanum frá og með tímabilinu 2019 til 2020, eða því sem nú stendur yfir. Sýn, áður Stöð 2 Sport, hafði þá haldið á sýningarréttinum síðan 2007 og efnið hafði verið eitt af krúnudjásnunum í íþróttadagskrá félagsins.
Þáverandi framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn, Björn Víglundsson, sagði að það hefði einfaldlega komið ofurtilboð úr annarri átt. Hlutabréf í Sýn féllu um 7,3 prósent þennan sama dag.
Á því ári sem liðið er frá þessum tíðindum hefur markaðsvirði Sýnar rúmlega helmingast og er nú um 8,1 milljarður króna. Síminn hefur ekki gefið það upp opinberlega hvað hann greiddi fyrir réttinn að enska boltanum.
Óvíst hvernig myndi fara
Í samrunaskrá vegna kaupa á miðlum 365, sem var óvart birt á vef Samkeppniseftirlitsins með trúnaðarupplýsingum vorið 2017, kom fram að um þrjú þúsund áskrifendur væru að Sportpakka Stöðvar 2 og tæplega 1.400 manns með Risapakkann, sem innihélt einnig íþróttastöðvarnar.
Það lá hins vegar ekki strax fyrir hvernig Síminn ætlaði að nýta sér þessa vöru sem hann hafði tryggt sér réttinn á, né hvort félaginu tækist að gera það með arðvænlegum hætti.
Sumarið 2019 var loks sýnt á spilin. Verðinu á nýstofnaðri Síminn Sport, sem myndi sýna leiki úr ensku úrvaldsdeildinni, yrði stillt í hóf og stök áskrift seld á 4.500 krónur. Á sama tíma var hins vegar greint frá því að allir áskrifendur að Sjónvarpi Símans Premium, sem voru þá þegar 35 til 40 þúsund, myndu fá aðgang að enska boltanum. Um leið var mánaðarverðið fyrir þá þjónustu hækkað úr fimm þúsund krónum í sex þúsund krónur.
Ef vel til tækist, og enginn viðskiptavinur myndi hætta í Premium áskrift vegna hækkunarinnar, myndi Síminn þegar vera búinn að tryggja sér 420 til 480 milljónir króna í viðbótartekjur á ári með henni.
Um tuttugu prósent aukning hjá Símanum
Ljóst var að áhrifin af þessari vendingu myndu ekki koma fram að fullu fyrr en á þriðja ársfjórðungi 2019, enda byrjar enska úrvalsdeildin ekki að rúlla fyrr en í ágústmánuði. Því var beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir uppgjörum Símans og Sýnar fyrir tímabilið sem hófst í byrjun júlí og lauk í septemberlok.
Síminn birti fyrst, í síðustu viku. Þar kom fram að tekjur hans vegna sjónvarpsþjónustu hefði aukist um 19,6 prósent á fjórðungnum miðað við sama tímabil í fyrra, eða um 233 milljónir króna. Þær voru í heild 1.423 milljónir króna á ársfjórðungnum.
Sjö prósent samdráttur hjá Sýn
Hjá Sýn, sem birti sitt uppgjör í gær, var sagan önnur. Þar lækkuðu tekjur vegna fjölmiðlarekstur um 144 milljónir króna miðað við þriðja ársfjórðung í fyrra, eða um sjö prósent. Samtals námu tekjur Sýnar vegna fjölmiðla 1.946 milljónir króna og engin ein tekjustoð félagsins dróst meira saman í krónum talið en fjölmiðlareksturinn. Hann nær til annarra fjölmiðla samstæðunnar en bara sjónvarpsstöðva. Miðlar Sýnar eru Stöð 2, Stöð2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og Xið 977. Félagið er því líka með umtalsverðar tekjur af útvarpsrekstri og rekstri fréttamiðilsins Vísis.
Á þriðja ársfjórðungi 2018 höfðu tekjur Sýnar vegna fjölmiðla verið 76 prósent hærri en tekjur Símans vegna þeirrar tekjustoðar. Í ár voru fjölmiðlatekjur Sýnar 37 prósent hærri en helsta keppinautarins. Bilið á milli þeirra minnkaði 377 milljónir króna.
Hagnaður Símans var 2,3 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum þessa árs á meðan að hagnaður Sýnar var 384 milljónir króna á sama tíma, en hann kemur til vegna þess að bókfærður var söluhagnaður upp á 817 milljónir króna vegna samruna dótturfélags í Færeyjum. Án þessa bókfærða söluhagnað vegna þeirrar sölu væri tap Sýnar á fyrstu níu mánuðum ársins 433 milljónir króna.