Stjórnendur nýja flugfélagsins Play hafa náð 27 til 37 prósent kostnaðarlækkun á samningum sínum við flugmenn og flugliða, miðað við þá samninga sem WOW air hafði verið með við þær starfsstéttir. Auk þess ætlar flugfélagið að ná betri nýtingu á áhöfnum sínum með þeim samningum sem félagið hefur gert, en í þeim felst að það náist 800 til 900 klukkustunda nýting á hverja áhöfn á ári. Til samanburðar nái Icelandair 550 klukkustunda nýtingu út úr sinum áhöfnum að meðaltali.
Því liggur fyrir að starfsmenn Play munu fá minna borgað en starfsmenn WOW air fengu og munu vinna mun meira en sambærilegir starfsmenn Icelandair gera. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu sem Íslensk verðbréfa unnu og kynntu fyrir væntanlegum fjárfestum í Play í síðustu viku. Kynningin, sem Kjarninn hefur undir höndum, er kirfilega merkt trúnaðarmál.
Sambærilegir samningar og flugfélög gera í Dublin
Þar segir enn fremur að þessir samningar hafi þegar náðst við Íslenska flugstéttarfélagið, ÍFF, sem var áður stéttarfélag flugmanna WOW air. Á kynningu sem forsvarsmenn Play héldu á þriðjudag kom fram að flugfélagið hefði þegar gengið til samninga við ÍFF um gerð kjarasamninga við bæði flugmenn og flugliða.
Í kynningu Íslenskra verðbréfa segir að mikil jákvæðni hefði ríkt beggja megin borðsins þegar þessir samningar voru teiknaðir upp. „Þessir samningar eru sambærilegir við það sem flugfélög eru að gera t.d. í Dublin og á öðrum hagkvæmum flugrekstrarstöðum.“
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) sá tilefni til að senda frá sér tilkynningu vegna ofangreindra áforma þar sem sambandið gerði kröfu um að kjarasamningar yrðu frágengnir áður en fyrsta flugið yrði flogið. „ASÍ mun ekki láta það yfir íslenskt launafólk ganga að félagsleg undirboð og lögbrot fyrirtækja eins og Primera Air verði endurtekin eða látin átölulaus af stjórnvöldum.“
Áætla að Play verði verðmætara en Icelandair
Kjarninn greindi frá því í gærkvöldi að áform Play gerðu ráð fyrir því að innan þriggja ára verði félagið komið með tíu flugvélar í rekstri og að verðmiðinn á félaginu, miðað við rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBIDT.) upp á 100 milljónir Bandaríkjadala, eða um 12,5 milljarða króna, geti numið um 630 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 78 milljörðum króna, í lok árs 2022.
Play leitar nú viðbótar fjármagns til þess að hefja rekstur og starfsemi, en nú þegar hefur það tryggt sér 40 milljónir evra, jafnvirði um 5,5 milljarða króna, frá breska fjárfestingasjóðnum Athene Capital, að því fram kemur í kynningargögnum fyrir fjárfesta.
Um lánsfjármögnun er að ræða sem hægt er að auka upp í 80 milljónir evra, eða sem nemur rúmlega 11 milljörðum króna.
Unnið að verkefninu í nokkra mánuði
Íslensk verðbréf koma að því að fjármagna það sem útaf stendur, eins og fram kom á kynningarfundinum á þriðjudag, en í máli Arnars Más Magnússonar forstjóra, kom fram að horft sé til þess að erlendir fjárfestar komi með 80 prósent fjármagns og 20 prósent komi frá innlendum aðilum.
Auk Arnars Más verða þeir Sveinn Ingi Steinþórsson, sem verður fjármálastjóri, Bogi Guðmundsson, sem mun halda utan um lögfræðisviðið, og Þóróddur Ari Þóroddsson, sem verður meiðeigandi, í stjórnendateymi félagsins.
Unnið hefur verið að stofnun félagsins í nokkra mánuði undir heitinu WAB Air, en það stóð fyrir „We Are Back“. Lykilfólk í hópnum á bakvið stofnun félagsins eru fyrrverandi stjórnendur hjá WOW air. Til að byrja með ætlar Play að gefa eitt þúsund frí flugmiða til þeirra sem skrá sig á heimasíðu félagsins nú, en vefslóð hennar verður www.flyplay.com.
Í kynningunni kemur fram að lykilstjórnendur hafi „aðgang að fyrrverandi starfsmönnum WOW air, þmt. flugmönnum og flugliða. WOW fjárfesti 15m USD í þjálfun starfsmanna á sinni starfsævi. WAB [nú Play] þarf þriggja daga in-house námskeið til að áhafnir verði tilbúnar í fyrsta flug.“
Fjárfestar eiga að geta margfaldað fjárfestingu sína
Í kynningunni er miðað við að fjárfestar sem komi inn í félagið í upphafi muni geta fengið 12 til 13 földun á fjárfestingu sína á innan við þremur árum, gangi áætlanir félagsins eftir og að gefnum forsendum fyrir verðmati.
Mögulegar leiðir út úr fjárfestingunni, svokallaða „exit“, eru sagðar vera: Bein sala á félaginu, samruni við annað félag í svipuðum rekstri, arðgreiðslur sem borgi upp fjárfestinguna eða skráning á markað.