Lágfargjaldaflugfélagið Play mun byrja að selja flugferðir strax og flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu fyrir starfsemi þess verður komin í hús. Vinna við öflun þess hefur staðið yfir frá því í júní og er nánast lokið. Leyfið verður gefið út þegar Play hefur lokið hlutafjármögnun sinni.
Play hefur þegar tryggt sér 40 milljón evra, um 5,5 milljarða króna, lánsfjármögnun frá breska fjárfestingarsjóðnum Athene Capital, sem hefur á móti kauprétt á tíu prósent hlut í flugfélaginu. Sú fjármögnun er stækkanleg upp í 80 milljónir evra, um ellefu milljarða króna, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
En á þó eftir að fjármagna 12 milljónir evra, tæplega 1,7 milljarða króna, í eigin fé fyrir Play og Íslensk verðbréf hafa gert einkasölusamning við Play um að tryggja það fjármagn. Þeir sem leggja það til munu eignast 50 prósent í Play á móti Neo ehf., félagi lykilstjórnenda þess. Hlutur beggja mun þynnast niður í 45 prósent ef Athene Capital ákveður að nýta kauprétt sinn.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í fjárfestakynningu sem Íslensk verðbréfa unnu og kynntu fyrir væntanlegum fjárfestum í Play í síðustu viku. Kynningin, sem Kjarninn hefur undir höndum, er kirfilega merkt trúnaðarmál.
Leita að einkafjárfestum
Í kynningunni segir að Íslensk verðbréf muni stofna samlagshlutafélag um fjárfestinguna í helmingshlutnum í Play og 2 stjórnarmenn af 5. Breski fjárfestingarsjóðurinn mun skipa einn stjórnarmann og Neo ehf. mun skipa tvo. Þar kemur einnig fram að fjárfestingarsjóðurinn TFII slhf., sem er í stýringu hjá Íslenskum verðbréfum, sé áhugasamur um að leggja til að minnsta kosti tíu prósent af þeirri upphæð sem vantar í verkefnið.
með fyrirvara um samþykki hagsmunaráðs og stjórnar, þar sem stjórnendur sjóðsins telji verkefnið vera nægilega arðbært að teknu tilliti til áhættu.
Í kynningunni stendur enn fremur að þar sem tímaramminn fyrir söfnun hlutafjár sé stuttur, og fjárhæðin, um 1,7 milljarðar króna, sé frekar lág, þá sé frekar leitað til einkafjárfesta og fjárfestingafélaga. „Lífeyrissjóðir og tryggingafélög eru líklega ekki svigrúm til að taka svona fjárfestingaákvörðun nægilega hratt þó svo að slíkir aðilar væru ákjósanlegir fjárfestar í svona þjóðhagslega hagkvæmu verkefni.“
Í kynningunni er miðað við að fjárfestar sem komi inn í félagið í upphafi muni geta fengið 12 til 13 földun á fjárfestingu sína á innan við þremur árum, gangi áætlanir félagsins eftir og að gefnum forsendum fyrir verðmati.
Áætla að Play verði verðmætara en Icelandair
Kjarninn greindi frá því í gærkvöldi að áform Play gerðu ráð fyrir því að innan þriggja ára verði félagið komið með tíu flugvélar í rekstri og að verðmiðinn á félaginu, miðað við rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBIDT.) upp á 100 milljónir Bandaríkjadala, eða um 12,5 milljarða króna, geti numið um 630 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 78 milljörðum króna, í lok árs 2022.
Til samanburðar er Icelandair, með verðmiða upp á 40,7 milljarða króna, miðað við verðið eins og það var við lokun markaða í gær.