Ríkisstjórnarflokkarnir þrír fengu alls um ellefu milljónir króna í styrki frá lögaðilum í sjávarútvegi á árinu 2018. Um er að ræða útgerðarfyrirtæki, fiskvinnslur, fyrirtæki sem starfa í fiskeldi og eignarhaldsfélög í eigu stórra eigenda útgerðarfyrirtækja.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í útdráttum úr ársreikningum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna sem birtir voru á heimasíðu Ríkisendurskoðunar í gær.
Mest fékk Sjálfstæðisflokkurinn frá slíkum fyrirtækjum, eða tæplega 5,3 milljónir króna. Það þýðir að helmingur þess fjármagns sem greiddur var frá fyrirtækjum í sjávarútvegi til ríkisstjórnarflokkanna þriggja fór til Sjálfstæðisflokksins. Af þeim 20 lögaðilum sem gáfu flokknum lögbundinn hámarksstyrk, 400 þúsund krónur, komu níu úr sjávarútvegsgeiranum. Framlög þeirra fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins námu 24 prósent af öllum framlögum lögaðila, sem voru alls rúmlega 22,3 milljónir króna.
Framsóknarflokkurinn fékk næst mest stjórnarflokkanna frá sjávarútveginum, eða rúmlega 3,8 milljónir króna. Af þeim sjö lögaðilum sem gáfu flokknum 400 þúsund krónur voru sex úr sjávarútvegi. Alls námu framlög lögaðila til Framsóknar 9,5 milljónum króna í fyrra og því voru styrkir úr sjávarútvegi, eða 40 prósent allra styrkja frá lögaðilum.
Vinstri græn fengu alls tæplega 1,9 milljónir króna frá sjávarútvegsfyrirtækjum og fjórir af þeim fimm lögaðilum sem gáfu flokknum 400 þúsund króna framlag komu úr þeim geira. Alls voru framlög lögaðila til Vinstri grænna rúmlega 3,3 milljónir króna og af þeirri upphæð kom tæplega 56 prósent frá fyrirtækjum í sjávarútvegi.
Stærstu sjávarúrvegsfyrirtæki gáfu flestum
Af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins gaf Samherji öllum flokkunum þremur í fyrra. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn fengu 400 þúsund krónur frá sjávarútvegsrisanum og Framsóknarflokkurinn 200 þúsund.
Sjávarútvegsfyrirtækið Bergur-Huginn er síðan með 2,3 prósent kvótans en það er að öllu leyti í eigu Síldarvinnslunnar. Það félag gaf Sjálfstæðisflokknum 400 þúsund krónur.
Kaupfélag Skagfirðinga, sem á sjávarútvegsfyrirtækið FISK-Seafood sem heldur á 5,34 prósent heildarkvótans, gaf Framsóknarflokknum 200 þúsund krónur en hinum tveimur ríkisstjórnarflokkunum 400 þúsund krónur á árinu 2018. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með fimm prósent heildaraflahlutdeild. Vinnslustöðin gaf Sjálfstæðisflokknum 400 þúsund krónur í fyrra.
Ísfélag Vestmannaeyja gaf bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki 400 þúsund krónur.
Framsókn fékk líka hámarksframlag frá Skinney Þinganes, Eskju, Arnarlaxi, Ramma og Löxum-fiskeldi.
Vinstri græn fengu 400 þúsund krónur frá HB Granda, sem í dag heitir Brim, auk þess sem Brim, sem í dag heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur, gaf þeim 200 þúsund krónur.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk líka 400 þúsund krónur frá HB Granda, Þorbirni, Hval, Gjögur og eignarhaldsfélaginu Hlér ehf., sem er í eigu eins eiganda Nesskipa.
Fá aðallega fjármuni frá ríkinu
Meginþorri fjármagns sem fer í rekstur stjórnmálaflokka kemur hins vegar nú úr ríkissjóði. Árið 2018 var fyrsta árið í rekstri þeirra stjórnmálaflokkanna sem eiga fulltrúa á þingi frá því að framlög til þeirra úr ríkissjóði voru hækkuð um 127 prósent, að tillögu sex flokka sem sæti eiga á Alþingi. Framlög úr ríkissjóði til flokkanna átta á þingi áttu að vera 286 milljónir króna í fyrra en urðu 648 milljónir króna eftir að sú ákvörðun var tekin. Einu flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins.
Tekjur Vinstri grænna voru alls 146,7 milljónir króna í fyrra. Að uppistöðu komu þær tekjur úr ríkissjóði, eða 124,5 milljónir króna. Það þýðir að 85 prósent af tekjum flokksins komu úr sameiginlegum sjóðum.
Vinstri græn fengu 16,9 prósent í síðustu kosningum og ellefu þingmenn kjörna.
Rekstur Vinstri grænna kostaði alls 112 milljónir króna í fyrra og því skilaði reksturinn töluverðum hagnaði eða alls 33,6 milljónum króna. Flokkurinn skuldaði 7,4 milljónir króna í lok síðasta árs og lækkuðu skuldir hans milli ára úr 37,5 milljónum króna.
Tekjur Sjálfstæðisflokksins voru alls 367,6 milljónir króna í fyrra en alls komu 180,7 milljónir úr ríkissjóði. Það þýðir að tæpur helmingur af tekjum flokksins komu úr sameiginlegum sjóðum. Tekjur flokksins jukust um 48,2 prósent frá árinu 2017 en þá voru þær 248,1 milljón króna.
Rekstur flokksins kostaði alls 373,7 milljónir króna í fyrra. Flokkurinn skuldaði 430,9 milljónir króna í lok síðasta árs og hækkuðu skuldir hans milli ára úr 421,8 milljónum króna.
Framsóknarflokkurinn tapaði rúmlega tveimur milljónum króna í fyrra, samkvæmt ársreikningi, en ríkisframlög voru bróðurpartur tekna flokksins. Tæplega 80 milljónir komu til flokksins úr ríkissjóði, í samanburði við 44 milljónir árið 2017. Heildartekjur flokksins námu 121 milljón í fyrra.
Auk ríkisstjórnarflokkanna hefur verið birtur útdráttur úr ársreikningi Viðreisnar, sem Kjarninn fjallaði ítarlega um á miðvikudag. Fjallað verður um ársreikninga annarra flokka sem eiga sæti á þingi þegar útdrættir úr þeim verða birtir á heimasíðu Ríkisendurskoðunar.