Kínverskir ferðamenn, iðulega með fullar hendur fjár, hafa á síðustu árum orðið æ meira áberandi í stórborgum Evrópu. Tölur sýna að Kínverjum sem ferðast til Vesturlanda hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Ástæðan fyrir þessari miklu fjölgun er bættur efnahagur almennings í landinu og þar er orðin til fjölmenn millistétt sem hefur mikið á milli handanna. Kínversku ferðamennirnir fara iðulega um í stórum hópum, þeir fylla litlar sérverslanir og kaupa dýra merkjavöru, fatnað, úr, skartgripi og snyrtivörur.
Höfundur þessa pistils var fyrir skömmu á ferð í París og í hinni þekktu stórverslun Galeries Lafayette voru Kínverjar mjög áberandi í hópi viðskiptavina. Í versluninni eru heimsþekkt fyrirtæki, Gucci, Yves Saint Laurent, Chanel og fleiri slík, með sérstakar deildir. Pistlahöfundur veitti því athygli að við deildir tískufyrirtækjanna voru biðraðir, og hleypt inn í hollum, meirihlutinn Kínverjar.
Ekki bara úr og töskur
En Kínverjar eru ekki bara að kaupa úr og töskur til að taka með sér heim. Þeir hafa á allra síðustu árum keypt mörg stór fyrirtæki, og hluta fyrirtækja, á Vesturlöndum og seilast þannig víða til áhrifa. Franska dagblaðið Le Monde birti fyrir skömmu lista yfir frönsk fyrirtæki sem Kínverjar hafa fjárfest í að undanförnu og þar kennir margra grasa. Kínverjar eiga til að mynda rétt tæpan helming, 49.99 prósent, í flugstöðinni í Toulouse (um hana fóru 10 milljónir manna í fyrra). Tölvufyrirtækið Linxens keyptu Kínverjar fyrr á þessu ári, þeir eiga matvælafyrirtækið St-Hubert, umbúðafyrirtækið Axilone og tvær stórar hótelkeðjur. Þeir eiga ennfremur 14 prósenta hlut í bílaframleiðandanum PSA Renault Citröen Peugeot, sem eftir fyrirhugaða sameiningu við Fiat og Chrysler verður fjórði stærsti bílaframleiðandi heims. Knattspyrnufélagið Sochaux-Montbéliard (sem leikur í 2. deild) er að fullu í eigu Kínverja og svona mætti áfram telja.
Landakaup
Í áðurnefndri umfjöllun Le Monde kemur fram að kínverskt fyrirtæki eigi um það bil 3 þúsund hektara ræktunarlands í Suður- og Mið- Frakklandi. Það er svo sem ekki ýkja stórt landsvæði enda virðast Frakkar ekki hafa miklar áhyggjur af þessum landakaupum. Þessir 3 þúsund hektarar eru hefðbundið landbúnaðarland þar sem einkum er ræktað nautgripafóður. Það eru hinsvegar annars konar jarðakaup sem vakið hafa athygli og umræður í Frakklandi.
Kínverjar hafa keypt nær 200 franska vínbúgarða
Vínbóndinn Loic Grassin seldi fyrir nokkru búgarð sinn á Medoc svæðinu skammt frá Bordeaux. Afi Grassin hafði keypt búgarðinn sem er aldagamall, og hefur ætíð heitið Chateau Senilhac árið 1938.
Rithöfundurinn Philippe Sollers, sem einnig er þekktur víndómari, skrifaði borgarstjóranum í Bordeaux opið bréf. Þar mótmælti hann því að skyndilega væri hægt að breyta um nafn á aldagömlum búgörðum, bara si svona. „Ég er fæddur og uppalinn í Bordeaux og get fullyrt að ég hafi aldrei séð tíbeska antilópu og ekki heldur keisarakanínu. Er ekki hægt að stöðva þetta og láta hin aldagömlu nöfn halda sér“ spyr Philippe Sollers í bréfinu til borgarstjórans.
Af hverju þessi nafnabreyting
Jean -Philippe Beja, franskur háskólaprófessor sérfróður um kínversk málefni, sagði i viðtali við franskt dagblað að með því að skíra búgarðana áðurnefndum dýranöfnum og fleiri slíkum væri ætlunin að tengja vínin við Kína. Um það bil 80 prósent þess víns sem framleitt er á búgörðum í eigu Kínverja eru flutt til Kína og selt þar. ,,Ég held hinsvegar að það að skíra búgarðana, og þar með vínið, þessum dýranöfnum hafi þveröfug áhrif. Kínverjar eru spenntir fyrir því sem erlent er, ekki síst franskt“ sagði franski prófessorinn.
Sumir hafa sett gömlu skiltin upp aftur
Sú gagnrýni sem fram hefur komið á nafnabreytingar á frönsku vínbúgörðunum hefur ekki farið framhjá kínversku eigendunum. Sumir þeirra, sem höfðu breytt um nafn á búgörðunum hafa fjarlægt „nýju“ skiltin og sett þau gömlu upp aftur.
Skiptar skoðanir um kaup Kínverja
Meðal Frakka eru skiptar skoðanir á kaupum Kínverja á frönskum vínbúgörðum. Sumum þykir það jaðra við landráð að selja Kínverjum, aðrir segja það sjálfsagðan hlut. Allir eru þó sammála um að mikilvægast sé að orðspor franskra vína, ekki síst Bordeaux, bíði ekki hnekki. Ein ástæða þess að franskir vínbændur ákveða að selja búgarða sína í stað þess að láta eignina ganga til erfingjanna eru háir erfðafjárskattar. Frönsk stjórnvöld hafa margoft verið hvött til að breyta reglunum varðandi erfðafjárskatt en fram til þessa hefur það ekki gerst. Á Bordeaux svæðinu eru um það bil 6 þúsund vínbúgarðar, þeir um það bil 200 sem nú eru í eigu Kínverja eru því rétt rúm 3 prósent heildarfjöldans.