Ný útlán lífeyrissjóða til sjóðsfélaga, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, drógust saman um 15 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 miðað við sama tímabil í fyrra. Frá byrjun árs og til loka septembermánaðar 2019 lánuðu sjóðirnir 65,9 milljarða króna til sjóðsfélaga, að uppistöðu vegna húsnæðiskaupa, en á sama tímabili 2018 námu útlánin 77,9 milljörðum króna. Því er klár samdráttur að eiga sér stað í útlánum lífeyrissjóða til sjóðsfélaga samhliða því að stærstu lífeyrissjóðirnir hafa gert þröskuldana sem þarf að klífa til að fá lán hjá þeim hærri.
Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um lifeyrissjóðakerfið sem birtar voru í lok síðustu viku. Útlán í septembermánuði voru 12 prósent lægri í ár en í fyrra. Það er þó aukning frá þeirri stöðu sem var uppi í sumar, þegar samdrátturinn var sem mestur. Í júlí, júlí og ágúst 2018 lánuðu lífeyrissjóðirnir alls 29,8 milljarða króna til sjóðsfélaga sinna. Á sama tímabili í ár lánuðu þeir 21,4 milljarða króna.
Þrátt fyrir að upphæðirnar sem sjóðirnir hafa lánað hafi dregist verulega saman er fjöldi veittra lána á fyrstu níu mánuðum ársins nánast sá sami og hann var á sama tímabili í fyrra, eða 5.765. Það eru einungis 14 færri lán en lífeyrissjóðir landsins veittu á fyrstu þremur árfsfjórðungum ársins 2018. Meðaltalslánveiting er því að dragast verulega saman. Hún var 13,5 milljónir króna í fyrra en er 11,4 milljónir króna nú, og 16 prósent lægri en á sama tímabili í fyrra.
Taka verðtryggðra lána eykst á ný
Athygli vekur að ásókn landsmanna í óverðtryggð lán er meiri á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 en hún var á sama tímabili í fyrra. Þá voru um 76 prósent allra útlána lífeyrissjóða verðtryggð en í ár hafa 61 prósent þeirra verið það, og þar af leiðandi 39 prósent óverðtryggð. Þorri þeirrar sveiflu átti sér þó stað á fyrri hluta árs þegar verðbólga var umtalsvert hærri en hún er nú og virðast íslenskir húsnæðislántakendur hafa verið vel á tánum gagnvart þeim áhrifum sem hærri verðbólga hefur á verðtryggð lán. Í janúar síðastliðnum voru til að mynda meirihluti nýrra útlána lífeyrissjóða til sjóðsfélaga óverðtryggð. Það er einungis í annað sinn í sögunni sem það gerist. Hitt var í desember 2018, þegar verðbólgan fór í 3,7 prósent.
Á þessu ári hefur verðbólgan hins vegar hjaðnað hratt og er nú 2,8 prósent. Spár gera ráð fyrir því að hún verði komin við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, 2,5 prósent, fyrir áramót. Samhliða hefur verðtryggð lántaka aukist skarpt. Í september 2019 voru 67 prósent allra útlána lífeyrissjóða verðtryggð, sem er nánast sama hlutfall og var í sama mánuði árið áður.
Hafa rúmlega tvöfaldað markaðshlutdeild
Lífeyrissjóðirnir hófu að bjóða upp á skaplegri lánaskilyrði og kjör að nýju haustið 2015. Síðan þá hefur umfang þeirra á lánamarkaði vaxið hratt. Í nýlegri skýrslu Greiningar Íslandsbanka um íslenska íbúðamarkaðinn kom fram að íslenskir lántakendur, sem uppfylla skilyrði lífeyrissjóða fyrir lántöku, taka frekar lán hjá þeim, enda geta sjóðirnir boðið miklu betri kjör en t.d. bankar og íbúðalánasjóðir. Það sést á því að lífeyrissjóðir landsins eru nú beinir mótaðilar að 21 prósent af skuldum heimilanna og hlutfallið hefur aldrei verið hærra. Það hefur tvöfaldast á mjög skömmum tíma, en árið 2016 var það tíu prósent.
Afdrifarík ákvörðun verzlunarmanna
Lífeyrissjóður verzlunarmanna, greindi til dæmis frá því í byrjun október að sjóðurinn hefði breytt lánareglum sínum og lækkað fasta vexti á verðtryggðum lánum. Breytingarnar á lánsréttinum fela í sér að skilyrði fyrir lántöku eru þrengd mjög og hámarksfjárhæð láns er lækkuð um tíu milljónir króna. Þá hefur sjóðurinn ákveðið að hætta að lána nýjum lántakendum verðtryggð lán á breytilegum vöxtum, en þau hafa verið einna hagkvæmustu lánin sem í boði hafa verið á undanförnum árum.
Vextir þeirra lána standa áfram í stað í 2,26 prósentum þrátt fyrir að stýrivextir hafi lækkað þrívegis frá því að þeir voru festir þar í byrjun ágúst og aðrir lífeyrissjóðir hafi lækkað sína breytilegu verðtryggðu vexti skarpt. Lægstu slíkir sem nú eru í boði eru 1,63 prósent. Þeir vextir eru helmingur af skástu vöxtum sem íslenskir bankar bjóða sínum viðskiptavinum upp á á sambærilegum lánum.
Um er að ræða viðbragð við því að Lífeyrissjóður verzlunarmanna var kominn út fyrir þolmörk þess sem hann ræður við að lána til íbúðarkaupa. Annað hvort þurfti sjóðurinn að fara að selja aðrar eignir til að lána sjóðsfélögum eða takmarka útlán. Hann valdi síðari kostinn. Sjóðsfélagslán voru um sex prósent af heildareignum sjóðsins í lok árs 2015 en þau eru nú um 13 prósent. Alls námu sjóðsfélagalánin um 107 milljörðum króna í byrjun október og um 25 milljarðar króna til viðbótar áttu að bætast við þá tölu þegar tekið var tillit til fyrirliggjandi umsókna um endurfjármögnun.
Stýrivaxtalækkanir skila sér ekki til neytenda
Raunar er það svo að hröð stýrivaxtalækkun Seðlabanka Íslands – vextir hafa lækkað um 1,5 prósentustig síðan í maí – skilar sér ekki nema að takmörkuðu leyti í lánakjör á húsnæðismarkaði.
Lífeyrissjóðalán, sem standa sífellt þrengri hópum sjóðsfélaga til boða, bjóða áfram sem áður langbestu kjörin þar en aðrir, sem uppfylla ekki lántökuskilyrði lífeyrissjóða, eiga lítið eigið fé eða þurfa að taka lán umfram hámark sjóðanna, þurfa að taka lán hjá viðskiptabönkunum. Þegar horft er á það lánaform sem hefur verið hagstæðast undanfarin ár, breytilega verðtryggða vexti, eru lægstu slíkir vextir banka (Landsbankans, sem býður upp á 3,25 prósent vexti á grunnlán upp að 70 prósent af lánsfjárhæð) nánast tvisvar sinnum hærri en lægstu vextir lífeyrissjóðs (Almenna lífeyrissjóðsins, sem býður upp á 1,63 prósent vexti fyrir 70 prósent af lánsfjárhæð).