Þrátt fyrir að íslenskt efnahagskerfi muni taka aftur við sér á næsta ári, og að búist sé við hagvexti þá í kjölfar samdráttar í ár með tilheyrandi minni einkaneyslu og auknu atvinnuleysi, er íslenskur efnahagur viðkvæmur. Viðbrögð stjórnvalda við niðursveiflunni sem varð í ár, sérstaklega í ferðaþjónustu vegna gjaldþrots WOW air og þess að Icelandair getur ekki notað Boeing MAX 737 vélarnar sínar, hafa mildað höggið sem hefði getað skollið á Íslandi. Þar er um að ræða aukin slaka í ríkisfjármálum, sem mun skila því að ríkissjóður verður rekinn í halla í ár, og aðgerðir Seðlabanka Íslands til að reyna að örva kerfið, með því að lækka vexti um 1,5 prósentustig frá því í maí.
Lífskjarasamningarnir sem undirritaðir voru nokkrum dögum eftir að WOW air varð gjaldþrota, þar sem samið var um hóflegar launahækkanir á næstu þremur árum og tengingu launaþróunar við þjóðartekjur, voru líka lykilbreyta í því að takast á við breyttar aðstæður í íslensku efnahagslífi.
Ýmsar ytri aðstæður gætu haft neikvæð áhrif á Ísland án þess að landið hafi neitt með ákvarðanir þeim tengdum að gera, til dæmis Brexit, aukin andstaða við alþjóðasamvinnu og viðskiptastríð stórvelda.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) vegna úttektar á íslensku efnahagslífi sem birt var í dag. Sendinefnd frá sjóðnum, undir forystu Ivu Petrovu hefur verið hérlendis undanfarnar tvær vikur að vinna úttektina og fundað með íslenskum stjórnvöldum og öðrum hagaðilum.
Þarf að koma íslensku „vaxtarvélinni“ í gang
Töluvert púður fer í að benda á leiðir til að uppfæra „vaxtarvél“ íslenska efnahagslífsins. AGS segir að Íslandi þurfi á fleiri sérfræðingum að halda til að auka fjölbreytni í efnahagslífinu og fjölga vaxtasprotum. Í yfirlýsingu sjóðsins segir að þar sem Ísland sé lítið efnahagskerfi þá sé nauðsynlegt fyrir landið að geta treyst á fleiri stoðir en þær fáu sem nú haldi kerfinu uppi. Þar er vitanlega átt við ferðaþjónustu, sjávarútveg og orkusölu, allt geirar sem nýta náttúruauðlindir að uppistöðu, en byggjast ekki fyrst og síðast á hugviti. Þessi staða geri Ísland viðkvæmari fyrir áföllum, líkt og sást í ár þegar loðnubrestur og vandræði flugfélaga skiluðu öllu kerfinu í samdráttarfasa. Þá sé erfiðara að meta áhættu í litla íslenska kerfinu þar sem gagnsæi í rekstri óskráðra fyrirtækja, sem geti haft mikið áhrif á allt efnahagskerfið fari rekstur þeirra illa, sé allt of lítið. Þar er augljóslega verið að vísa til WOW air, en bág fjárhagsstaða þess fyrirtækis varð ekki opinber fyrr en á seinni hluta síðasta árs, þegar reksturinn var þegar kominn í mikið óefni.
AGS leggur líka áherslu á að íslenskar náttúruauðlindir verði varðveittar í þeim tilgangi að styðja við hefðbundnari atvinnuvegi.
Á meðal þeirra leiða sem AGS bendir á að þurfi að fara, til að kveikja aftur í vaxtarmöguleikum Íslands, eru vel skipulagðar kerfisbreytingar í menntakerfinu, aukin áhersla á menntun kennara og aukin áhersla á að hjálpa börnum innflytjenda að aðlagast og þar með gefa þeim betra tækifæri á að nýta hæfileika sína til fulls. Innflytjendum til Íslands hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum og nú eru um 46 þúsund erlendir ríkisborgarar sem búa í landinu. Fyrir örfáum árum síðan voru þeir um 20 þúsund. Þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífinu í ár hefur þeim haldið áfram að fjölga og því fátt sem bendir til þess að um tímabundna aukningu sé að ræða.
Áhyggjur af orðspori Íslands vegna peningaþvættis
Þá þarf Ísland að taka það alvarlega að komast sem fyrst af gráum lista Financial Action Task Force (FATF) og draga þar með úr orðsporsáhættunni sem sú vera skapar fyrir Ísland. AGS bendir á að íslensk stjórnvöld hafi tekið stór skref í að uppfæra varnir sínar gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka frá því að landið fékk falleinkunn hjá FATF í apríl 2018. Þær uppfærslur hafa fyrst og síðast verið á lagaumhverfi og regluverki en enn vantar að sýna hversu vel varnirnar virki þegar á reyni.
Þrátt fyrir að Ísland hafi verið sett á gráa listann í október þá hefur það ekki haft mikil áhrif á þátttöku Íslands á alþjóðlegum fjármálamörkuðum né á greiðslur til íslenskra fyrirtækja, en ljóst sé að áframhaldandi árvekni sé nauðsynleg til að tryggja að það gerist ekki.