Ríkisstjórnarflokkarnir þrír: Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, myndu fá samtals 43,1 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem sýnir stöðu fylgis stjórnmálaflokka í nóvember. Það er 9,8 prósentustigum minna fylgi en þeir fengu í kosningunum haustið 2017. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem átti tveggja ára afmæli á laugardag, hefur því tapað tæplega fimmtungi af kjörfylgi sínu.
Allir ríkistjórnarflokkarnir hafa tapað fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað mestu fylgi flokkanna þriggja frá kosningum, eða 3,6 prósentustigum. Hann nýtur nú stuðnings 21,7 prósent kjósenda en það er alveg við lægsta fylgi sem hann hefur mælst með í könnunum Gallup frá upphafi. Það hefur tvívegis gerst að flokkurinn mældist með 21,6 prósent fylgi, í ágúst 2015 og júlí 2019.
Vinstri græn mælast með 13,6 prósent fylgi og hafa tapað 3,3 prósentustigum frá haustinu 2017.
Þorri stjórnarandstöðunnar bætir umtalsvert við sig
Fjórir af fimm stjórnarandstöðuflokkum mælast með meira fylgi en þeir fengu síðast þegar talið var upp úr kjörkössunum. Mest hefur Viðreisn bætt við sig, eða 4,1 prósentustigi, og alls segjast 10,8 prósent kjósenda að þeir myndu kjósa flokkinn í dag. Það er fylgisaukning upp á rúmlega 60 prósent og myndi skila Viðreisn í svipað fylgi og flokkurinn fékk í kosningunum 2016, en eftir þær settist hann í skammlífa ríkisstjórn.
Samfylkingin mælist nú með 15,8 prósent stuðning og hefur bætt við sig 3,7 prósentustigum frá síðustu kosningum. Píratar eru á svipuðum slóðum og þeir voru í kosningunum 2017 með 10,3 prósent fylgi, sem er 1,1 prósentustigi meira en flokkurinn fékk fyrir tveimur árum síðan.
Samanlagt eru þessir þrír flokkar, sem hafa staðið hugmyndafræðilega náið saman á yfirstandandi kjörtímabili í mörgum lykilmálum, með 36,9 prósent fylgi sem er 8,9 prósentustigum meira en þeir fengu 2017. Fylgisaukning flokkanna þriggja nemur því tæplega þriðjungi það sem af er kjörtímabili.
Miðflokkurinn er einnig á siglingu og hefur bætt við sig tveimur prósentustigum frá síðustu kosningum. Það er þó minni fylgisaukning en hjá bæði Viðreisn og Samfylkingu. Alls nýtur Miðflokkurinn stuðnings 12,9 prósent kjósenda samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup sem gerir hann að fjórða stærsta flokki landsins, líkt og hann var eftir kosningarnar 2017.
Reykjavíkurstjórn möguleg
Ef vilji væri til að endurnýja það mynstur sem nú stýrir í Reykjavíkurborg, sem samanstendur af Samfylkingu, Viðreisn, Pírötum og Vinstri grænum og var myndað eftir borgarstjórnarkosningarnar í fyrravor, myndi slík ríkisstjórn hafa 50,5 prósent fylgi.
Þegar við bætist að Flokkur fólksins (3,9 prósent fylgi) og Sósíalistaflokkurinn (3,0 prósent fylgi) myndu taka til sín 6,9 prósent sameiginlegt fylgi án þess að ná inn á þing, og atkvæði til þeirra því falla niður dauð, gæti rúmlega helmings fylgi dugað til að mynda rúman meirihluta.
Sú staða gæti einnig boðið upp á aðra tegund af fjögurra flokka mynstri þar sem Viðreisn yrði skipt út fyrir Framsókn. Slík ríkisstjórn hefði þó ekki stuðning meirihluta kjósenda, sem gæti orðið flókið fyrir fjögurra flokka stjórn, og mjög tæpan meirihluta þingmanna.
Önnur leið til að mynda ríkisstjórn með tvo af þremur sitjandi stjórnarflokkum væri ef Framsókn og Sjálfstæðisflokkur næðu saman við klofningsframboðin Miðflokk og Viðreisn um að vinna á ný með fyrrverandi móðurflokkunum. Slík ríkisstjórn væri með 53,2 prósent fylgi og rúman meirihluta. Líklegt verður þó að teljast að persónulegur ágreiningur og vantraust milli einstaklinga, ásamt ýmsum sýnilegum og mögulega óyfirstíganlegum hugmyndafræðilegum árekstrum, myndu koma í veg fyrir að slíkt samstarf yrði að veruleika.
Mikill munur milli MMR og Gallup
Athygli vekur hversu ólík staða ýmissa flokka, sérstaklega Miðflokksins, er í könnunum Gallup annars vegar og könnunum sem MMR, hitt fyrirtækið sem birtir reglulega kosningaætlan, hins vegar. Í síðustu könnun MMR mældist fylgi Miðflokksins 16,8 prósent sem gerði hann að næst stærsta flokki landsins á eftir Sjálfstæðisflokknum, auk þess sem munurinn á flokkunum tveimur mældist innan vikmarka.
MMR hefur líka mælt fylgi Sjálfstæðisflokksins umtalsvert lægra en Gallup, en það hefur mælst undir 20 prósent í flestum könnunum fyrirtækisins síðustu mánuði og náði nýjum botni í þeirri síðustu, þegar fylgi mældist einungis 18,1 prósent.
Þá hefur fylgi Vinstri grænna tilhneigingu til að mælast lægra hjá MMR en fylgi Flokks fólksins umtalsvert hærra en hjá Gallup. Þannig hefur Flokkur fólksins mælst yfir fimm prósent í þremur síðustu könnunum MMR – og fór hæst í átta prósent fylgi í október – á meðan að fylgi flokksins hefur ekki mælst yfir fimm prósent hjá Gallup síðan í desember 2018, í kjölfar Klausturmálsins.