Það voru í senn glaðir og hreyknir forsvarsmenn færeyska símafélagsins, Føroya Tele, þegar þeir kynntu nýja 5G háhraðanetið í júní sl. „Færeyjar fara framúr Danmörku með 5G“ var yfirskrift fréttatilkynningarinnar sem send var út af þessu tilefni. Á þessum kynningarfundi var jafnframt greint frá því að lagning háhraðanetsins yrði líklega í samvinnu Færeyska símafélagsins og kínverska fjarskiptafyrirtækisins Huawei, þótt samningur hafi ekki verið undirritaður.
Samvinna Færeyinga og Huawei er ekki ný af nálinni en lagning háhraðanetsins yrði stærsta verkefnið sem Kínverjarnir hafa tekið að sér á eyjunum en þess má geta að Huawei sá um lagningu 4G netsins í Færeyjum. Því verkefni og öðrum slíkum sem Huawei hefur annast á síðustu árum í Færeyjum hefur fyrirtækið skilað bæði fljótt og vel. Forstjóri símafélagsins lýsti, á áðurnefndum fundi, sérstakri ánægju með samstarfið við kínverska fyrirtækið og sagði að framkvæmdir vegna háhraðanetsins myndu hefjast „alveg á næstunni“. Nefndi þó ekki dagsetningu.
Ekkert bólar á netinu
Nú, þegar brátt eru liðnir sex mánuðir síðan forstjóri símafélagsins sagði að framkvæmdir myndu hefjast alveg á næstunni, bólar ekkert á háhraðanetinu. Í viðtali við færeyska útvarpið fyrir skömmu sagði færeyskur þingmaður að stundum taki menn sterkt til orða, en bætti við að „það hljóti nú að fara að styttast í að eitthvað gerist.“
Segja Huawei undir tufflu kínversku stjórnarinnar
Eins og flestum sem fylgjast með fréttum mun kunnugt andar köldu milli Bandaríkjamanna og Kínverja. Klögumálin ganga á víxl í viðskiptastríði sem staðið hefur um margra mánaða skeið. Báðar þjóðir hafa tekið upp verndartolla á fjölmargar vörur hvor frá annarri og viðskiptastríðið veldur mörgum fyrirtækjum í báðum löndum miklum erfiðleikum. Bæði löndin eru þó mjög háð viðskiptum hvort við annað og ástandinu má helst líkja við eins konar „haltu mér slepptu mér“ samband, þar sem hvorugur getur án hins verið. Síaukin starfsemi Kínverja, ekki síst fjarskiptafyrirtækisins Huawei, er þyrnir í augum Bandaríkjamanna. Þeir halda því fram að Huawei sé í raun undir stjórn kínverskra ráðamanna sem geti, þegar þeim þóknast nýtt fyrirtækið til alls kyns njósnastarfsemi um aðrar þjóðir, ekki síst Bandaríkin.
Sendiherrann lætur í sér heyra
Skömmu eftir að tilkynnt var um samvinnu Færeyska símafélagsins og Huawei birti dagblaðið Berlingske viðtal við sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku. Sendiherrann, Carla Sands, lýsti þar áhyggjum vegna fjarskiptasamningsins og sagði hugsanlegt að samningurinn hefði í för með sér að Bandaríkjamenn gætu ekki látið Færeyingum í té mikilvægar upplýsingar.
Í grein sem sendiherrann skrifaði í nýjustu helgarútgáfu Sosialurin hvetur hún Færeyinga til að búa svo um að „þeir ráði sjálfir yfir innviðum samfélagsins en láti þá ekki í hendur fyrirtækja sem ekki fylgja okkar leikreglum og viðmiðum“. Sendiherrann segir yfirlýsingar Huawei um sjálfstæði og að fyrirtækið virði allar reglur um leynd upplýsinga marklausar. Allir viti að kínverskum fyrirtækjum sé skylt að hlýða fyrirskipunum stjórnvalda í landinu, slíkt sé bundið í lög í Kína.
Færeyskir stjórnmálamenn undrandi
Pistill bandaríska sendiherrans hefur vakið mikla athygli í Færeyjum. Sjúrður Skaale, þingmaður Javnaðarflokksins, sagðist í viðtali við dagblaðið Berlingske vera mjög undrandi á orðum sendiherrans. Hann sagðist ekki minnast þess að bandarískur sendiherra hefði fyrr reynt að hafa áhrif á Færeyinga, og ekki skilja hvað sendiherranum gengi til, en benti á að Bandaríkjamenn og Kínverjar ættu í viðskiptastríði.
Fleiri færeyskir stjórnmálamenn hafa talað á svipuðum nótum og bent á að ef Færeyska símafélagið rifti fyrirhuguðu samkomulagi við Huawei myndu Kínverjar telja það gert vegna þrýstings frá Bandaríkjamönnum. Færeyska landstjórnin hefur lagt áherslu á að ákvörðun um samstarf við Huawei, eða aðra, um 5G netið sé í höndum Færeyska símafélagsins og landsstjórnin komi þar hvergi nærri. Nýlegar fréttir benda hinsvegar til að Kínverjar reyni að beita áhrifum sínum gegnum færeysku landsstjórnina.
Fréttin sem ekki mátti segja og hljóðupptakan
Tuttugu mínútum áður en fréttatími Kringvarpsins, færeyska sjónvarpsins, „Dagur og vika“ fór í loftið sl. mánudag (2. des) kom fulltrúi færeyska innanríkisráðuneytisins og krafðist þess að fréttin yrði ekki send út og fógetaúrskurður þar að lútandi væri á leiðinni. Fréttastjóri Kringvarpsins ákvað að fréttin yrði ekki send út. Sagði hinsvegar frá banninu í upphafi fréttatímans. Ástæða lögbannsins var rökstudd með að upplýsingar í fréttinni hefðu verið fengnar með ólögmætum hætti.
Fréttin, sem ekki mátti senda út, fjallaði um fund sem haldinn var 11. nóvember, í Þórshöfn. Fundinn sátu Feng Te, sendiherra Kína í Danmörku, Bárður Nielsen lögmaður Færeyja, og Jørgen Niclasen, fjármálaráðherra landsstjórnarinnar.
Lögmaðurinn segir leyndina nauðsynlega
Í viðtali í færeyska útvarpinu í fyrrakvöld sagði Bárður Nielsen lögmaður að lögbannið á frétt Kringvarpsins sl. mánudag (2.des) hefði verið nauðsynlegt því efni fréttarinnar gæti skaðað færeyska hagsmuni. Fréttastjóri Kringvarpsins er ósammála því að ekki eigi að birta fréttina, „innihaldið varðar hagsmuni Færeyinga og lögbannið er óeðlilegt inngrip í starf fjölmiðla“.
Það getur þú sjálfur reiknað út
11. nóvember, sama dag og „leynifundurinn“ átti sér stað hitti kínverski sendiherrann Jenis av Rana sem fer með utanríkismál í landsstjórninni og nokkra embættismenn. Þegar fréttamaður spurði einn úr hópi embættismannanna eftir fundinn hvort viðskipti og Huawei tengdust og hvort þau mál hefðu verið rædd svaraði embættismaðurinn „það getur þú sjálfur reiknað út“.
Þess má í lokin geta að Kringvarpið hefur áfrýjað lögbanninu. Dómur verður kveðinn upp í síðasta lagi næstkomandi mánudag 9. desember.