„Spillingarmál í Namibíu, sem hefur tengingar hingað til lands en þó óljósar og fjarri því upplýstar að fullu, hefur laðað fram fjölda lýðskrumara hér á landi, ekki síst úr stétt stjórnmálamanna sem hugsa gott til glóðarinnar eftir langa eyðimerkurgöngu. Í stað þess að bíða eftir að málið upplýsist eftir rannsókn yfirvalda hér og erlendis geysast þessir stjórnmálamenn fram nú og krefjast þess jafnvel að íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu verði bylt vegna spillingarmálsins í Namibíu.“ Þetta segir í leiðara Morgunblaðsins í dag.
Þar segir að spillingarmálið umrædda, sem snýst um ætlaðar mútugreiðslur íslenska fyrirtækisins Samherja til namibískra stjórnmálamanna og einstaklinga þeim tengdum, hafi óljósar tengingar hingað til lands og sé fjarri því upplýst að fullu. Leiðarahöfundurinn gerir einnig miklar athugasemdir við að stjórnmálamenn segi að málið kalli á breytingar á stjórnarskrá, með þeim hætti að auðlindaákvæði sem tryggi sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni verði bætt þar við.
Búið er að ákæra sex manns, þar á meðal tvo fyrrverandi ráðherra, fyrir að hafa þegið 860 milljónir króna í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu. Samherjamálið er einnig til rannsóknar í Noregi, þar sem fyrirtækið hefur verið í bankaviðskiptum við DNB, og á Íslandi. Á meðal þess sem er rannsakað er meint peningaþvætti og skattasniðganga.
Ritstjóri Morgunblaðsins segir að þessi framganga þeirra sem hann kallar lýðskrumara, og hafa farið fram á að fiskveiðisstjórnunarkerfinu verði breytt, sé svo fjarstæðukennd að með ólíkindum sé að það nái umræðu. „Ein atvinnugrein hér á landi býr við það að vera sérstaklega skattlögð umfram nokkra aðra. Þetta er sjávarútvegurinn en sem kunnugt er leggur ríkið sérstakt „veiðigjald“, sem þykir hljóma betur en sérstakur skattur á fiskveiðar, á greinina.[...]Þrátt fyrir þennan ofurskatt reyna lýðskrumarar nú eina ferðina enn að ráðast gegn þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og nota til þess ömurlegt mál í fjarlægu landi. Ætlunin virðist vera að hækka skatta á greinina og helst að bylta fiskveiðistjórnarkerfinu,[...]Mikilvægt er að botn fáist í það mál sem upp kom í Namibíu en það þarf að gerast í réttarkerfinu en ekki með aftökum án dóms og laga. Ekki er síður mikilvægt að lýðskrumarar gæti sín áður en þeir hafa valdið þjóðinni mun meira tjóni með óábyrgu framferði sínu en þetta tiltekna mál gat nokkru sinni gert án þeirra atbeina.“
Frumvarp sem umbyltir kerfinu
Á laugardag greindi Kjarninn frá því að þingmenn úr þremur stjórnarandstöðuflokkum: Viðreisn, Samfylkingu og Pírötum, hafa lagt fram frumvarp sem felur í sér kúvendingu á því kerfi sem er við lýði vegna nýtingarréttar á fiskveiðiauðlindinni. Í fréttatilkynningu sem Viðreisn sendi frá sér vegna þessa, en allur þingflokkur þess flokks stendur að frumvarpinu, sagði að frumvarpið hefði „sjaldan verið jafn mikilvægt og nú, í ljósi frétta af úr svonefndum Samherjaskjölum.“
Í frumvarpinu felast þrjár megin breytingar. Í fyrsta lagi verði þeir aðilar skilgreindir sem tengdir sem eiga að minnsta kosti tíu prósent hlutafjár í öðrum sem heldur á meira en eitt prósent kvóta. Sama gildi um kröfur sem geri það að verkum að ætla megi að eigandi þeirra hafi áhrif á rekstur aðila sem ræður yfir eitt prósent hlutafjár eða meira. Samkvæmt gildandi lögum þarf sjávarútvegsfyrirtæki að eiga meirihluta í annarri útgerð til að hún teljist tengd, en eftirlit með því hvað teljist tengdir aðilar hefur auk þess verið í lamasessi.
Í öðru lagi er lagt til að allir þeir sem ráða yfir eitt prósent heildaraflahlutdeildar þurfi að stofna hlutafélag um reksturinn og skrá félagið á markað. Það myndi þýða, að óbreyttu, að 21 sjávarútvegsfyrirtæki þyrftu að skrá sig á markað til viðbótar við Brim, sem er eina fyrirtækið sem heldur á kvóta sem er skráð í dag.
Í þriðja lagi leggur frumvarpið til að að settar verði takmarkanir við hlutafjáreign eða atkvæðisrétt einstakra hluthafa og tengdra aðila í útgerðum sem fara með átta til tólf prósent af kvóta. Í frumvarpinu segir að í slíkum útgerðarfyrirtækjum eigi enginn aðili, einstaklingur, lögaðili eða tengdir aðilar, að eiga „meira en tíu prósent af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti í viðkomandi aðila. Þessu ákvæði er ætlað að koma í veg fyrir frekari samþjöppun eignaraðildar í allra stærstu útgerðarfyrirtækjunum.“
Forsætisráðherra vill auðlindaákvæði
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi einnig þessi mál í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni um helgina. Þar sagði hún að ef nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskránni yrði samþykkt yrði annað hvort hægt að segja upp veiðiheimildum í sjávarútvegi eða þær gerðar tímabundnar.
Þegar frumvarp um málið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda kom fram að lagt verður til að við stjórnskipularlög bætist að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni. Náttúruauðlindir og landsréttindi séu ekki háð einkaeignarétti þjóðareign og enginn geti fengið þessi gæði til varanlegrar eignar eða afnota.
Katrín sagði í þættinum að með þessum breytingum verði tryggt að náttúruauðlindir, eins og fiskurinn í sjónum, verði ekki afhentar neinum með varanlegum hætti.