Nafnlausi áróðurinn gegn Vinstri grænum og „Skatta-Kötu“ virkaði
Í nýrri bók sagnfræðings er sögð 20 ára saga Vinstri grænna. Þar er meðal annars fjallað ítarlega um tímabilið frá þingkosningunum í október 2016 og fram til febrúar 2019 og rætt við marga stjórnmálamenn um hvernig það tímabil hafi verið. Í þeim samtölum koma fram áður óbirtar skoðanir og upplýsingar.
Nafnlaus áróður gegn Katrínu Jakobsdóttur og Vinstri grænum, sem birtur var á samfélagsmiðlum og annars staðar á netinu í aðdraganda kosninganna 2017, virkaði. Það er mat Katrínar sjálfrar sem bendir á að fylg flokksins hafi fallið jafnt og þétt eftir að áróðurinn, myndbönd sem snérust um „„Skattaglöðu Skatta-Kötu“, hóf að birtast. Enn þann dag í dag hefur ekki verið opinberað hverjir stóðu á bakvið félagsskapinn Kosningar 2017, sem bjó til áróðursmyndböndin og greiddi fyrir mikla dreifingu þeirra.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í bókinni Hreyfing rauð og græn – Saga VG 1999-2019 eftir Pétur Hrafn Árnason sagnfræðing, sem kom út fyrr í þessum mánuði í tilefni af 20 ára afmæli Vinstri grænna.
Þar er meðal annars fjallað ítarlega um tímabilið frá þingkosningunum í október 2016 og fram til febrúar 2019.
Í þeim kosningum voru sjö flokkar kjörnir á þing, sitjandi stjórn kolféll og engin sýnileg stjórn var í kortunum. Því þurfti að leita óhefðbundinna leiða til að mynda ríkisstjórn og úr varð stjórnarkreppa sem stóð fram í janúar 2017.
Leiðinlegasti tíminn á pólitískum ferli Katrínar
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir í bókinni að stjórnarmyndunarviðræðurnar sem áttu sér stað eftir kosningarnar 2016, og drógust í marga mánuði, hafi verið mjög óvenjulegur tími í íslenskri pólitík. „Ég myndi segja að hann hafi verið sá leiðinlegasti sem ég hef upplifað á mínum pólitíska ferli. Ég eiginlega lærði í þessum stjórnarmyndunarviðræðum – í eitt skipti fyrir öll – að maður þarf mjög að gæta þess hverjum maður treystir í pólitík. Þetta er staðreynd sem stjórnmálin standa frammi fyrir eftir hrunið, traust milli manna er af mjög svo skornum skammti.“
Hún greinir einnig frá því að í síðari tilrauninni til að mynda fimm flokka ríkisstjórn Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, hafi Vinstri grænum og Viðreisn aldrei samið,enda hefðu margir innan Vinstri grænna talið að Viðreisn væri harður hægriflokkur sem stæði þeim jafnvel fjær á hinu pólitíska sviði en Sjálfstæðisflokkurinn. Benedikt Jóhannesson, þáverandi formaður Viðreisnar, hefði meðal annars hringt í hana og með ýmsum rökum gert nokkurs konar tilkall til að leiða næstu ríkisstjórn.
Svandís Svavarsdóttir segir í bókinni að margir í Viðreisn hefðu haft „einlægan áhuga á þessu fimm flokka mynstri. En vissulega er Viðreisn hægriflokkur sem hefur m.a.s. meiri áhuga á að einkavæða í heilbrigðisgeira en sjálfstæðismenn og þar við bættist að skorti á heilindi á milli manna.“
Eftir þetta hófst samtal milli Framsóknarflokks og Vinstri grænna um að skoða ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Í bókinni segir hins var að á „fundi milli forystu VG og Framsóknar 3. janúar [2017] fékk hins vegar Lilja Alfreðsdóttir skeyti um að þetta væri um seinan, ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar með aðild Viðreisnar og Bjartrar framtíðar væri að fæðast. Lengsta stjórnarkreppa frá árinu 1947 var á enda.“
Hægt að sjá úr flugvél hve slæm stemmning var í stjórninni
Haft er eftir Katrínu í bókinni að það hafi mátt greina það strax við stefnuræðu hins nýja forsætisráðherra, 24. janúar 2017 eða 13 dögum eftir að hún tók við völdum, að stemmningin í nýja stjórnarliðinu hafi ekki verið góð. Í bókinni segir: „Innan Bjartrar framtíðar voru strax frá upphafi svo miklar efasemdir um þennan ráðahag, einkum í grasrót og á sveitarstjórnarsviði, að það yrði kraftaverki næst að þessi stjórn með einungis eins manna meirihluta héldi út í fjögur ár.
Eftir erfiða fyrstu mánuði, og langt sumarfrí þar sem ríkisstjórnin hélt ekki fund í 30 daga, var komið að stefnuræðu Bjarna Benediktssonar 13. september 2017. Landsréttarmálið og Uppreist æru-málið höfðu verið allsráðandi um sumarið og valdið stjórninni margháttuðum erfiðleikum. Í bókinni er haft eftir Katrínu að það „þetta septemberkvöld á Alþingi hefði mátt sjá úr flugvél hve stemmningin í stjórnarliðinu var döpur“. Katrín segist hafa hugsað: „Þessi stjórn er ekki að fara að lifa lengi“.
Stjórnarsamstarfinu slitið
Daginn eftir, 14. september úrskurðaði kærunefnd upplýsingamála að það ætti að afhenda fjölmiðlum upplýsingum um hverjir hefðu skrifað undir meðmælabréf fyrir þá sem höfðu fengið uppreist æru. Í ljós kom að faðir Bjarna Benediktssonar hefði verið einn þeirra sem gerði slíkt fyrir dæmdan barnaníðing. Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, greindi frá því síðar sama dag að hún hefði fengið upplýsingar um þetta í júlí 2017 og sagt Bjarna Benediktssyni frá því samstundis.
Björt framtíð taldi Sjálfstæðisflokkinn hafa orðið uppvís að trúnaðarbresti og ákvað á stjórnarfundi þá um nóttina að kjósa rafrænt um hvort að slíta ætti stjórnarsamstarfinu. Það var samþykkt með 87 prósent greiddra atkvæða.
15. september dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur að Sigríður hefði brotið gegn lögum þegar hún skipaði dómara við Landsrétt. Það bætti gráu ofan á svart.
Bjarni Benediktsson hafði fá önnur úrræði en að boða til nýrra kosninga. Í lok október 2017 var svo kosið í annað sinn á einu ári.
Í kosningar með tóman kosningasjóð
Í bókinni kemur fram að kosningasjóður Vinstri grænna hafi verið „svo gott sem tómur“ þegar þetta gerðist og einungis sex vikur í kosningar.
Katrín segir þar að hún líti ekki glaðbeitt aftur til þessarar kosningabaráttu. „Þessi kosningabarátta var eins og að taka þátt í sjónvarpsþætti í endurtekningu, sömu sviðsmyndirnar, sömu stefin, sömu spyrlarnir og sömu spurningarnar. Þó var sú nýbreytni nú að mörgum reið á að vita „hvaða starfhæfu ríkisstjórn væri hægt að mynda sem situr út kjörtímabilið?“ Reyndum við þá að gera út á þá ímynd að vera afl staðfestu í íslenskri pólitík.“
Í kosningabaráttunni var áhersla Vinstri grænna á Katrínu og fyrir lá að stefna flokksins snerist um að hún ætti að leiða næstu ríkisstjórn sem forsætisráðherra.
Nafnlausi áróðurinn virkaði
Í bókinni er farið yfir það að þegar flokkur leggi slíka ofuráherslu á eina persónu sé alltaf hætta á því að pólitískir andstæðingar reyni að sverta orðspor þess einstaklings. Það hafi reynst raunin í kosningabaráttunni 2017.
Birtingarmyndin var meðal annars myndbönd, frá nafnlausri áróðurssíðu sem bar nafnið Kosningar 2017, með „Skattaglöðu Skatta-Kötu“ sem klifaði á skattahækkunum og hótaði „eignaupptöku að sósíalískri fyrirmynd. Í bókinni segir: „Í lok eins myndbandsins runnu samklippur úr ræðum Katrínar á Alþingi inn í níð frá búsáhaldarbyltingu og myndum af upplausnarástandi með brennandi íslenska krónu í miðpunkti.“
Myndböndunum var dreift með ærnum tilkostnaði á Facebook og YouTube. Áhorfið mældist í tugum þúsunda hið minnsta.
Katrín er spurð að því í bókinni hvort þessi áróður hafi haft áhrif’? Hún segir að hún sé nokkuð viss um að svo hafi verið. „Tillögur VG í skattamálum voru gerðar tortryggilegar og það hafði heilmikil áhrif. Fylgið féll jafnt og þétt og að lenda í slíkri vörn strax í upphafi er þrælerfitt í kosningabaráttu.“
Fylgi VG, sem hafði mælst í kringum 25 prósent í lok september, fór að falla. Á endanum fékk flokkurinn 16,9 prósent, sem gerði hann að næst stærsta flokki landsins. Niðurstaðan var samt sem áður vonbrigði. Flokkurinn hafði tapað umtalsverðu fylgi, sem hefði getað breytt hinni pólitísku stöðu umtalsvert, á síðustu dögum kosningabaráttunnar. Á endanum bættu Vinstri græn einungis við sig einum þingmanni.
Í bókinni er reynt að leita skýringa á því hvað fór úrskeiðis. Ein skýringin sem þar er viðruð er að Flokki fólksins, sem hafi höfðað til hinna minna megandi, hafi náð umtalsverðum árangri á lokametrunum sem skilaði flokknum í fyrsta sinn inn á þing. Fylgi flokksins hefði, samkvæmt könnunum, lækkað hjá þeim sem höfðu einungis grunnskólapróf en var hærra en hjá nokkrum öðrum flokki hjá þeim sem voru háskólamenntaðir.
Verst geymda leyndarmálið í pólitíkinni
Næsta skref voru stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna, Samfylkingar, Pírata og Framsóknarflokks heima hjá Sigurði Inga Jóhannssyni í Hrunamannahreppi. Þeim var slitið eftir fjóra daga.
Í kjölfarið fóru af stað þreifingar milli Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, enda segir í bókinni að áhugi innan allra þeirra flokka á slíku samstarfi hafi verið „verst geymda leyndarmálið í pólitíkinni“ á þeim tíma.
Skiptar skoðanir voru um þetta innan Vinstri grænna og Svandís Svavarsdóttir segir meðal annars í bókinni að henni hafi þótt „mikilvægt af sögulegum og pólitískum ástæðum að VG og Samfylkingin fylgdust að“. Síðarnefndi flokkurinn hafði hins vegar útilokað stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum.
Í bókinni segir að snemma í viðræðunum hafi náðst samkomulag um að Katrín yrði forsætisráðherra og að Vinstri græn myndu þar með leiða stjórnina. Svandís segir þar að efasemdir hennar um stjórnarsamstarfið hafi fljótlega farið að eyðast. „Mér fannst þetta vissulega djörf ákvörðun en að sama skapi ótrúlega spennandi. Um leið og við vorum svo komin yfir þann hjalla að vega og meta hvort skyldi leggja út í þetta þá vann ég að því heils hugar. Mér finnst bakþankar leiðinlegir.“
Þegar afrakstur viðræðna var kynntur þingflokknum 13. nóvember 2017 var Kolbeinn Óttarsson Proppé einna fyrstur úr þingliðinu til að lýsa stuðningi við það að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Steingrímur J. Sigfússon segir í bókinni að það ætti ekki að einblína á að flokkarnir tveir sem verið var að fara að mynda ríkisstjórn með bæru ábyrgð á hruninu. Það hafi ekki verið flokkarnir „sem stofnanir sem ollu hruninu heldur sú stefna sem ákveðnir einstaklingar reyndu að framfylgja“. Ekki væri hægt að festast í sögulegri hefndarhyggju.
Í stjórnarmyndunarviðræðunum reyndist erfiðast að ná saman um skatta-, umhverfis- og jafnréttismál.
Ríkisstjórnin tók formlega við völdum í lok nóvember 2017. Í bókinni segir: „„Eyðimerkurganga“ VG hin síðari var á enda.“
Vantrauststillagan erfiðust fyrir þingflokkurinn
Í raun fækkaði strax um tvo í stjórnarmeirihlutanum, sem taldi 35 þingmenn eftir kosningarnar, þar sem Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir studdu ekki myndun stjórnarinnar né stjórnarsáttmálann. Þegar kom að skipun þingnefnda voru þau ekki reiknuð með hjá stjórnarflokkunum heldur þingmenn Vinstri grænna taldir níu í stað ellefu. Andrés Ingi, sem nýverið yfirgaf þingflokk Vinstri grænna og situr nú sem óháður þingmaður, segir í bókinni að þau tvö hafi „strax í upphafi verið sett á annan bás en restin af þingflokknum.“ Rósa Björk segir að hún hafi strax skynjað að sjálfstæðismenn hefðu lagst gegn því að hún og Andrés Ingi myndu fá áhrifastöður í þingnefndum sem skerti á móti styrk Vinstri grænna í þeim. Flokkurinn hefði átt að fá formennsku í einni nefnd í viðbót.
Skömmu eftir að ríkisstjórnin tók við kom dómur Hæstaréttar í Landsréttarmálinu, þar sem lögbrot Sigríðar Andersen voru staðfest. Í kjölfarið lagði stjórnarandstaðan fram vantrauststillögu á Sigríði sem var felld með 33 atkvæðum gegn 29. Andrés Ingi og Rósa Björk studdu hana, og upplifðu sig jaðarsett í kjölfarið.
Í bókinni segir Katrín að eitt flóknasta verkefnið í pólitík sé að búa til og halda utan um liðsheild. „Hver þingmaður er t.d. ekki eingöngu hluti af gangverki þingflokks, hann er líka sjálfstæð stofnun í samkeppni við aðra þingmenn. Eitt lærðum við a.m.k. af stjórnartíðinni 2009-2013, þar er ekki hægt að þvinga einstakling til að breyta gegn betri vitund. Vantrauststillagan reyndi vissulega mjög á, hún var fyrirsjáanleg en samt það erfiðasta sem þingflokkurinn hafði til þessa tekist á við. Og þá datt fylgi VG niður i skoðanakönnunum.“
Tilefni til að vera hugsi
Viðhorfskönnun sem Vinstri græn gerðu í fyrrahaust, til að taka saman upplýsingar um stöðu flokksins, gáfu félagsmönnum tilefni til að vera hugsi yfir stöðu mála.
Í könnuninni var leitað álits 2.437 einstaklinga úr félagaskrá Vinstri grænna og 2.979 úr handahófskenndu úrtaki. Í bókinni segir: „Niðurstaða könnunarinnar var kynnt á flokksráðsfundi VG 12. október [2018]. Samkvæmt henni voru 44 prósent flokksmanna sem tóku þátt í könnuninni „frekar ánægðir“, „mjög ánægðir“ eða „að öllu leyti ánægðir“ með störf ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.[...]Þá sögðu 47 prósent kjósenda VG 2017 að þátttaka hreyfingarinnar í ríkisstjórn hefði ekki haft neikvæð áhrif á val sitt í borgarstjórnarkosningunum og voru neikvæðu áhrifin enn minni utan Reykjavíkur. Þessi niðurstaða var mjög í takti við niðurstöðu sveitarstjórnarkosninganna þar sem árangur VG var rýr á höfuðborgarsvæðinu.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars