Að undanförnu hefur talsvert verið fjallað í fjölmiðlum um miklar breytingar, sem framundan eru í fjarskiptaheiminum, með tilkomu hins nýja háhraðanets 5G. Prófanir og uppsetning tækjabúnaðar er víða komin vel á veg og í mörgum löndum verður 5G komið í notkun á næsta ári. Uppbygging þessarar nýju tækni kostar mikla fjármuni og því mikið í húfi fyrir framleiðendur að ,,hreppa hnossið“ ef svo mætti að orði komast. Eitt stærsta fyrirtækið á þessum vettvangi er hið kínverska Huawei, sem einnig er næst stærsti framleiðandi gsm síma í heiminum, á eftir Samsung.
Huawei er tákn hins nýja Kína
Fyrir nokkru voru gerðar breytingar á kínverskri löggjöf. Þessar breytingar gera kínversku leyniþjónustunni kleift að þvinga kínversk fyrirtæki til samvinnu. Þar á meðal Huawei. Þessi lagabreyting hefur vakið athygli og jafnvel grunsemdir. Ekki síst vegna tímasetningarinnar, en eins og áður sagði er 5G handan við hornið og Huawei ætlar sér stóran hlut í uppbyggingu þess. Forsvarsmenn Huawei hafa í viðtölum lagt mikla áherslu á að fyrirtækið sé algjörlega sjálfstætt og á engan hátt undir hæl kínverskra stjórnvalda.
Fyrir nokkru var fjallað ítarlega um Huawei í breska dagblaðinu The Guardian. Þar segir meðal annars að Huawei sé tákn hins nýja Kína, landið hafi lengst af verið hráefnisseljandi, og að þar í landi hafi einkum verið ýmis konar grófiðnaður, eins og greinarhöfundur The Guardian orðar það. Nú ætli Kínverjar sér stærri hluti og Huawei tákn þess að Kínverjar séu að verða, eða orðnir, jafnokar þeirra þjóða sem fremst standa þegar kemur að tæknilegum lausnum og framleiðslu slíks búnaðar.
Bandaríkjamenn og Kínverjar þrýsta á Færeyinga
Færeyingar eru meðal þeirra þjóða sem eru búnar að ákveða að taka upp 5G háhraðanetið. Prófanir hafa þegar farið fram og þær annaðist Huawei fyrirtækið. Færeyingar hafa góða reynslu af samvinnu við Huawei, fyrirtækið setti upp og annaðist rekstur 4G netsins á eyjunum og Huawei hefur lagt áherslu á áframhaldandi samvinnu. Nú eru Færeyingar hins vegar tvístígandi og enn hefur ekki verið skrifað undir samning um 5G þótt tilkynnt hafi verið fyrir hálfu ári að ,,þetta væri allt á næstu grösum“ eins og talsmaður Føroya Tele, færeyska símafélagsins, orðaði það. Færeyingar hafa undrast þessa seinkun en fyrir skömmu kom ástæðan í ljós: þrýstingur frá Bandaríkjamönnum um að semja ekki við Huawei. Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku hefur tekið stórt upp í sig í viðtölum við danska fjölmiðla og sömuleiðis í aðsendum greinum í dönskum blöðum.
China Threatens Retaliation Should Germany Ban Huawei 5G https://t.co/djVt1N6eyj
— Robert Fife (@RobertFife) December 15, 2019
Segir ríka ástæðu til að óttast að stjórnvöld í Kína noti Huawei til njósna um önnur lönd. Kínverjar hafa ekki setið þegjandi hjá en á fundi kínverska sendiherrans í Danmörku með Lögmanni Færeyja og einum ráðherra sagði sendiherrann að samningur við Huawei myndi opna allar dyr (orðalag sendiherrans) en ef ekki yrði samið við Huawei væri viðskiptasamningur (fríverslunarsamningur) Færeyja og Kína fyrir bí. Slíkur samningur, sem árum saman hefur verið unnið að, skiptir Færeyinga miklu, einkum vegna útflutnings á laxi.
Bretland, Tékkland, Slóvakía, Kanada og Þýskaland
Færeyingar eru ekki þeir einu sem finna fyrir miklum þrýstingi Kínverja vegna 5G netsins. Í maí á þessu ári var Chen Wen, staðgengill kínverska sendiherrans í Bretlandi, í viðtali hjá breska sjónvarpinu, BBC. Þar sagði hann að það myndi hafa margháttaðar afleiðingar varðandi fjárfestingar Kínverja í Bretlandi ef Huawei yrði útilokað frá að taka þátt í uppbyggingu 5G á Bretlandseyjum. Breska dagblaðið Financial Times greindi frá því fyrr á árinu að sendiherra Kína í Kanada hefði talað á svipuðum nótum í viðtali við blaðið. Fjölmiðlar í Tékklandi og Slóvakíu hafa greint frá þrýstingi kínverskra stjórnmála- og embættismanna á þarlanda ráðamenn.
Nýjasta dæmið um slíkan þrýsting er frá Þýskalandi. Wu Ken, sendiherra Kína í Þýskalandi, tók í síðustu viku þátt í málþingi sem viðskiptablaðið Handelsblatt hélt. Þar var einnig Sigmar Gabriel fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands sem skiptist á skoðunum við sendiherrann. Sendiherrann vitnaði í orð þýska utanríkisráðherrans Heiko Maas sem í viðtali í nóvember sagði að rétt væri að íhuga að banna Huawei að taka þátt í uppbyggingu 5G netsins í Þýskalandi. Sendiherrann rifjaði ummælin upp og sagði að ef Huawei yrði útilokað frá Þýskalandi myndi það hafa afleiðingar, nefndi sérstaklega að Kínverjar fluttu á síðasta ári inn þýska bíla, og bílhluti, fyrir upphæð sem samsvarar 2.750 milljörðum íslenskra króna.
Þetta er fyrir utan allan annan innflutning frá Þýskalandi. Boðskapur sendiherrans fór ekki milli mála, Kínverjar myndu láta hart mæta hörðu ef Huawei yrði útilokað frá Þýskalandi. Ríkisstjórn Þýskalands undirbýr nú löggjöf þar sem þýskum fjarskiptafyrirtækjum verður bannað að skipta við ,,ótrúverðug“ fyrirtæki varðandi 5G tæknina. Þýskir fjölmiðlar segja þetta frumvarp beinlínis sniðið til að útiloka Huawei. Spænska fjarskiptafyrirtækið Telefónicas, sem er með starfsemi í fjölmörgum löndum, tilkynnti hinsvegar fyrir tíu dögum að Nokia og Huawei muni í sameiningu standa að uppbyggingu 5G í Þýskalandi. Talsmaður fyrirtækisins gaf lítið fyrir hugsanlega löggjöf sem ætlað væri að útiloka Huawei frá þýskum markaði. ,,Slíkt bann hlyti að brjóta í bága við alþjóðasamninga.“
Bandaríkjamenn óttast njósnir
Bandaríkjamenn hafa að undanförnu þrýst á bandamenn sína að semja ekki við Huawei um uppsetningu og rekstur 5G. Segjast óttast njósnir. Sá þrýstingur hefur meðal annars orðið til þess að norræn fjarskiptafyrirtæki hafa verið mjög tvístígandi, og sum ýmist sagt upp samningum við Huawei eða tilkynnt að núgildandi samningar verði ekki endurnýjaðir. Norska ríkisstjórnin tilkynnti fyrir nokkrum dögum nýjar fjarskiptareglur, þar er tekið fram að fyrirtæki sem ekki séu í samvinnu við norsk yfirvöld í öryggismálum megi ekki ráða yfir meira en helmingi móðurstöðva fjarskiptafyrirtækja.