Mynd: Samsett ásmundurárauðu.jpg

Ásmundur Friðriksson orðinn dýrastur í akstri á ný

Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2019 hafa þingmenn fengið um 25 milljónir króna endurgreiddar vegna aksturs. Ásmundur Friðriksson hefur endurheimt toppsætið yfir þá þingmenn sem kosta mest vegna aksturs. Níu þingmenn fá 63 prósent allra endurgreiðslna.

Kostnaður Alþingis vegna aksturs þingmanna á eigin bifreiðum rúmlega tvöfaldaðist á síðustu mánuðum ársins 2019. Fyrstu sjö mánuði ársins nam hann tæplega 2,4 milljónum króna en á næstu þremur mánuðum sem fylgdu, frá byrjun ágústmánaðar og út október, jókst hann upp í rúmlega fimm milljónir króna. Ef kostnaðurinn hefur verið sá sami síðustu tvo mánuði ársins þá mun heildarkostnaður vegna aksturs eigin bíla verða tæplega 6,1 milljónir króna. 

Notkun þeirra á bílaleigubílum tók einnig verulega við sér á haustmánuðum, eftir að þingstörf hófust að nýju. Á fyrstu sjö mánuðum ársins leigðu þingmenn sér bílaleigubíla fyrir 11,1 milljón króna en í lok október var sú tala komin í 17,1 milljón króna. Til viðbótar fengu þeir 2,7 milljónir króna endurgreiddar vegna eldsneytiskostnaðar, greiðslna vegna notkunar á jarðgöngum og töku leigubíla. 

Alls hefur kostnaður þingmanna vegna aksturs á fyrstu tíu mánuðum ársins 2019 því verið 24,8 milljónir króna. Framreiknað má búast við því að heildarkostnaðurinn á árinu 2019 verði um 29,8 milljón króna, ef notkunin i nóvember og desember verður sú sama og á meðalmánuði fyrr á árinu. 

Allt árið 2018 námu greiðslur vegna notkunar á eigin bifreiðum 8,4 milljónum króna og því stefnir allt í að þær lækki um 27 prósent milli ára að óbreyttu. Þá notuðu þingmenn líka bílaleigubíla fyrir alls 19,3 milljónir króna og fengu endurgreiðslur vegna eldsneytis, jarðganga og leigubíla upp á tæplega 3,2 milljónir króna. Samanlagt var því kostnaðurinn í fyrra 30,7 milljónir króna, eða mjög svipaður og hann stefnir í að verða í ár. 

Þetta má sjá í tölum um greiðslur til þingmanna sem birtar eru á vef Alþingis

Ásmundur aftur upp í fyrsta sætið

Sá þingmaður sem kostar skattgreiðendur mest vegna keyrslu er Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er hættur að notast við eigin bifreið í keyrslu, líkt og hann gerði árum saman, en hefur þess í stað keyrt bílaleigubíla fyrir rúmlega 2,8 milljónir króna á fyrstu tíu mánuðum ársins. Auk þess hefur Ásmundur fengið 628 þúsund krónur greiddar frá Alþingi vegna eldsneytiskostnaðar. Heildarkostnaður vegna aksturs Ásmundar frá byrjun árs og út októbermánuð var því tæplega 3,5 milljónir króna. Það er um 40 prósent aukning á kostnaði við aksturs hans allt árið í fyrra, þegar hann nam samtals 2,5 milljónum króna. Aksturskostnaður Ásmundar er rúmlega 14 prósent af öllum aksturskostnaði þingmanna það sem af er ári.

Frá 2013 og út árið 2017 námu endurgreiðslur til Ásmundar alls 23,5 milljónum króna vegna notkunar hans á eigin bifreið, en hann sætti mikilli gagnrýni þegar tölurnar voru opinberaðar í upphafi árs 2018 og hætti í kjölfarið að nota eigin bifreið jafn mikið og áður.

Því hafa endurgreiðslur til Ásmundar vegna aksturs verið 29,5 milljónir króna frá því að hann var kjörinn á þing vorið 2013 og fram til loka októbermánaðar 2019. 

Enginn þingmaður hefur fengið nærri jafn mikið greitt vegna aksturs síns. Ásmundur býr á Suðurnesjunum. 

Níu taka 63 prósent af endurgreiðslum

Sá þingmaður sem kostar næst mest vegna akstursendurgreiðslna er samflokksmaður Ásmundar, Vilhjálmur Árnason, sem býr einnig á Suðurnesjum. Hann hefur alls fengið 2,3 milljónir króna endurgreiddar vegna notkunar á eigin bifreið, leigu á bílaleigubílum og eldsneytiskostnaðar á fyrstu tíu mánuðum ársins. Akstur Ásmundar kostaði samt sem áður 52 prósent meira en akstur Vilhjálms á fyrstu tíu mánuðum ársins.

Í þriðja sæti er Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins og íbúi í Vogum, með heildaraksturskostnað upp á 1,6 milljónir króna. Á eftir þeim þremur koma þrír þingmenn úr þremur mismunandi flokkum, en sem eru allir úr Norðvesturkjördæmi, með aksturskostnað upp á um 1,5 milljón króna á mánuði á fyrstu tíu mánuðum ársins. Þeir eru Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingar, Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins. 

Þrír aðrir þingmenn hafa náð að keyra þannig að endurgreiðslur nemi yfir einni milljón króna. Þeir eru Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna úr Norðausturkjördæmi (1,4 milljónir króna), Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi (1,2 milljónir króna), og Líneik Anna Sævarsdóttur úr Framsókn og Norðausturkjördæmi (1,0 milljónir króna).

Ofangreindir níu þingmenn, sem eru alls um 14 prósent þingheims, fá því tæplega 63 prósent af öllum endurgreiðslum Alþingis til þingmanna vegna aksturs til sín. 

Níu þingmenn sem keyra mest:

  • Ásmundur Friðriksson 3,5 milljónir króna
  • Vilhjálmur Árnason 2,3 milljónir króna
  • Birgir Þórarinsson 1,6 milljónir króna
  • Guðjón S. Brjánsson 1,5 milljónir króna
  • Sigurður Páll Jónsson 1,5 milljónir króna
  • Haraldur Benediktsson 1,5 milljónir króna
  • Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir 1,4 milljónir króna
  • Lilja Rafney Magnúsdóttir 1,2 milljónir króna
  • Líneik Anna Sævarsdóttir 1,0 milljónir króna

Almenningi neitað um upplýsingar árum saman

Fjöl­miðlar reyndu árum saman að fá upp­lýs­ingar um hvaða þing­menn fái end­ur­greiðslu vegna akst­urs, en án árang­urs. Kjarn­inn fjall­aði til að mynda um málið í frétta­skýr­ingu árið 2015 þar sem fram kom að alls 28 þing­menn hefðu fengið end­ur­greiðslu á árinu 2014, þar af 18 yfir eina milljón króna. Ekki var hins vegar hægt að fá upp­lýs­ingar um hvaða þing­menn var að ræða. Þær upp­lýs­ingar þóttu þá sem nú of per­sónu­leg­ar.

Í byrjun febr­úar 2018 svar­aði for­seti Alþingis fyr­ir­­spurn Björns Leví Gunn­­ar­s­­sonar, þing­­manns Pírat­­ar, um akst­­ur­s­­kostn­að.

Í svari for­­seta var greint frá því hversu háar greiðslur þeir tíu þing­­menn sem fengu hæstu skattlausu end­­ur­greiðsl­­urnar þáðu á síð­­­ustu fimm árum. Ekki var hins vegar greint frá nafni þeirra. Í töl­unum mátti þó sjá að fjórir þing­menn sem þáðu hæstu end­ur­greiðsl­urnar fengu sam­tals 14 millj­ónir króna, eða tæp­lega helm­ing allra end­ur­greiðslna vegna akst­urs. 

Greiðslurnar harðlega gagnrýndar

Upp­lýs­ing­arnar vöktu upp mikla reiði og ásak­anir um mögu­lega sjálftöku þing­manna. Í kjöl­farið varð það krafa þings, þjóðar og fjöl­miðla að allar greiðslur vegna akst­urs yrðu gerðar opin­berar og að þær yrðu per­sónu­grein­an­leg­ar. Þá varð það einnig krafa að allar aðrar greiðslur sem þing­menn fá vegna starfa sinna yrðu gerðar opin­ber­ar, sund­ur­lið­aðar og mörg ár aftur í tím­ann. Hvort sem um væri að ræða hús­næð­is­styrk, greiðslur vegna flugs eða kostn­aður vegna bíla­leigu­bíla. Allt ætti að koma upp á borð­ið.

Forsætisnefnd ákvað að bregð­ast við og allar upp­lýs­ingar um kostnað sem fylgir störfum þing­manna er nú birtur mán­að­ar­lega. Auk þess var ákvæði í reglum um þingfarakostnað, sem fjallar um bíla­leigu­bíla, gert skýr­ara til að tryggja að slíkir séu frekar teknir en að þing­menn séu að nota eigin bif­reið­ar. Breyt­ing­arnar náðu einkum til þing­manna sem falla undir svo­­kall­aðan heim­an­akst­­ur, þ.e. akstur til og frá heim­ili dag­­lega um þing­­tím­ann. Það eru þing­­menn sem búa í nágrenni Reykja­víkur (á Suð­­ur­­nesjum, Vest­­ur­landi, Árnes­­sýslu o.s.frv.). Akstur á eigin bif­­reið­um, sem kemur til end­­ur­greiðslu, varð eftir breyt­ing­arnar bund­inn hámarki við 15.000 km. Eftir þann kíló­metra­fjölda á skrif­stofa Alþingis láta umræddum þing­manni í té bíla­leigu­bíl.

Gagnsæið skilar minni kostnaði

Þegar heildarkostnaður vegna bílaleigubíla, eldsneytis, jarðganga og leigubíla er talinn með var kostnaðurinn vegna aksturs þingmanna á árinu 2017 alls 42,7 milljónir króna. Kostnaðurinn mun því dragast saman, í krónum talið og án tillits til verðbólgu, um tæplega 30 prósent ef sama notkun hélst að meðaltali í nóvember og desember og fyrstu tíu mánuði ársins, frá því sem var á síðasta árinu áður en að akstursgreiðslurnar voru loks gerðar opinberar. Það er, líkt og áður sagði, afar svipaður heildarkostnaður og var í fyrra.

Vert að taka fram að árið 2017 var ansi sérstakt. Þá voru einungis 66 þingfundardagar og 14 dagar teknir frá undir nefndarfundi. Ástæðurnar voru meðal annars stjórnarmyndunarviðræður eftir kosningarnar 2016, sem drógust inn á árið 2017, stjórnarslit í september 2017 og svo kosningar í október 2017, sem leiddu í kjölfarið til nýrra stjórnarmyndunarviðræðna sem lauk ekki fyrr en 30. nóvember það ár. Til viðbótar fór þingmenn í jólafrí, páskafrí og langt sumarfrí. Þeir unnu því ekki mikið á árinu 2017. 

Því er ljóst að í kjöl­far mik­illar umfjöll­unar fjöl­miðla um akst­urs­kostnað Alþing­is­manna, sem var opin­ber­aður í fyrsta sinn í byrjun árs í fyrra, þá hefur end­ur­greiðslu­beiðnum þing­manna vegna notk­unar á eigin bílum fækkað veru­lega. Raunar hefur allur kostnaður vegna aksturs þingmanna dregist umtalsvert saman, jafnt á árinu 2018 og það sem af er árinu 2019.


Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar