Mynd: Bára Huld Beck

Fleiri Pólverjar atvinnulausir á Suðurnesjum en Íslendingar

Atvinnuleysi á Íslandi hefur ekki verið jafn hátt og það mælist nú síðan vorið 2013. Aukið atvinnuleysi bitnar harðast á erlendum ríkisborgurum sem hingað hafa flust. Þeir eru 39 prósent atvinnulausra. Atvinnuleysið er hæst á Suðurnesjum og þar eru fleiri Pólverjar án atvinnu en Íslendingar.

Fjórir af hverjum tíu atvinnu­lausum á Íslandi, alls 39 pró­sent allra, er erlendur rík­is­borg­ari. Alls þýðir það að 3.266 erlendir rík­is­borg­arar eru án atvinnu. Þeim hefur fjölgað um 1.542 á einu ári, eða um 89 pró­sent. Á sama tíma hefur íslenskum rík­is­borg­urum sem eru án atvinnu fjölgað um 1.660, eða 49 pró­sent. 

Þetta kemur fram í tölum frá Vinnu­mála­stofnun um fjölda atvinnu­lausra á Íslandi eftir rík­is­fangi sem birtar voru nýver­ið. Þær sýna að aukið atvinnu­leysi – það hefur nær tvö­fald­ast á tveimur árum – kemur harðar niður á erlendum rík­is­borg­urum en íslensk­um. 

Alls mæld­ist atvinnu­leysi 4,1 pró­sent í nóv­em­ber. Það hefur ekki mælst jafnt hátt frá því í apríl 2013. 

Lang­flestir þeirra erlendu rík­is­borg­arar sem eru án atvinnu eru frá Pól­landi, eða 55 pró­sent þeirra. Við það bæt­ist að um 26 pró­sent eru frá löndum sem gengu í Evr­ópu­sam­bandið á árinu 2004 eða síð­ar. Þar er um að ræða lönd frá mið- og aust­ur-­Evr­ópu, þar á meðal Eystra­salts­lönd­in. Meg­in­þorri þessa hóps kemur enda frá Lit­háen og Lett­landi. Sam­an­lagt mynda rík­is­borg­arar þess­ara landa og Pól­lands því 81 pró­sent af atvinnu­leysi á meðal erlendra rík­is­borg­ara á Íslandi.

Pól­verjar taka fram úr Íslend­ingum á Suð­ur­nesjum

Atvinnu­leysi er hæst á Suð­ur­nesj­um. Það þarf kannski að koma mikið á óvart enda sam­drátt­ur­inn í efna­hags­líf­inu í ár afar tengdur falli WOW air og Icelandair og áhrifum þess á ferða­þjón­ustu í heild, en Suð­ur­nesin þjón­usta Kefla­vík­ur­flug­völl, eina alþjóða­flug­völl lands­ins. Þar mælist atvinnu­leysið nú 8,4 pró­sent og hefur auk­ist hratt það sem af er ári. 

Á Suð­ur­nesj­unum voru fleiri Pól­verjar atvinnu­lausir en íslenskir rík­is­borg­arar í lok nóv­em­ber. Það er í fyrsta sinn sem það ger­ist. Alls eru 45 pró­sent þeirra sem eru án atvinnu, en búsettir á Suð­ur­nesj­un­um, Pól­verjar, 42 pró­sent eru íslenskir rík­is­borg­arar og tæp 13 pró­sent frá öðrum lönd­um. 

Suð­ur­nesin eru eina land­svæðið á Íslandi þar sem fleiri Pól­verjar eru án atvinnu en Íslend­ing­ar. 

Erlendum rík­is­borg­urum hefur fjölgað gríð­ar­lega á Íslandi á und­an­förnum árum sam­hliða efna­hags­upp­gangi þjóð­ar­inn­ar. Þeir hafa mannað flest þau á þriðja tug þús­unda starfa sem orðið hafa til vegna vaxtar í ferða­þjón­ustu og mann­virkja­gerð. Flest störfin eru í þjón­ustu­geirum eða bygg­inga­iðn­að­i. 

Í árs­lok 2011 voru erlendir rík­is­borg­arar 6,5 pró­sent af íbúum lands­ins. Í lok sept­em­ber síð­ast­lið­ins voru þeir 13,4 pró­sent þeirra. Þá eru ekki með taldir þeir sem vinna fyrir starfs­manna­leigur (900 alls í lok nóv­em­ber) né þeir útlend­ingar sem hafa hingað komið og fengið íslenskan rík­is­borg­ara­rétt. 

Alls hefur erlendum rík­is­borg­urum á Íslandi fjölgað um 27.710 frá lokum árs 2011, eða um 133 pró­sent. Íbúum lands­ins hefur á sama tíma fjölgað um 43.770. Erlendu rík­is­borg­ar­arnir eru 63 pró­sent af þeirri aukn­ing­u. 

Hefur ekki fækkað í nið­ur­sveifl­unni

Á Þjóð­ar­spegli Háskóla Íslands, sem fór fram nýver­ið, sagði Gissur Pét­urs­son, ráðu­neyt­is­stjóri í félags- og barna­mála­ráðu­neyt­inu og fyrr­ver­andi for­stjóri Vinnu­mála­stofn­un­ar,  að það væri mik­ill kostur að á Íslandi væri svo ein­falt að losa sig við erlent vinnu­afl um leið og sam­dráttur byrj­aði í efna­hags­líf­inu. Þau ummæli hafa verið gagn­rýnd víða, meðal ann­ars af borg­ar­full­trú­anum Sabine Leskopf sem skrif­aði opið bréf til félags- og barna­mála­ráð­herra vegna þeirra.  

Mjög hefur hægst á efna­hags­vexti hér­lendis á þessu ári og sam­kvæmt nýlega birtum þjóð­hags­reikn­ingum var hag­vöxtur 0,2 pró­sent á fyrstu níu mán­uðum árs­ins 2019. Frá byrjun árs 2015 og út árið í fyrra var hann á bil­inu 4,4 til 6,6 pró­sent. Því er um veru­legan sam­drátt á vexti að ræða. 

Þessi breyt­ing, sem ræðst meðal ann­ars af áföllum sem fylgja gjald­þroti WOW air, erf­ið­leikum Icelandair og loðnu­bresti, hefur ekki hægt á komu erlendra rík­is­borg­ara til lands­ins. Þeim hefur þvert á móti fjölgað á árinu 2019, þótt fjölg­unin sé ekki jafn mikið og árin tvö á und­an, sem voru metár. Það sem af er ári hefur erlendum rík­is­borg­urum fjölgað um 4.330 tals­ins, eða um tæp­lega tíu pró­sent. Það þýðir að þrír af hverjum fjórum nýjum íbúum á Íslandi sem bæst hafa við á árinu 2019 eru erlendir rík­is­borg­ar­ar. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar