Mynd: Bára Huld Beck

Fleiri Pólverjar atvinnulausir á Suðurnesjum en Íslendingar

Atvinnuleysi á Íslandi hefur ekki verið jafn hátt og það mælist nú síðan vorið 2013. Aukið atvinnuleysi bitnar harðast á erlendum ríkisborgurum sem hingað hafa flust. Þeir eru 39 prósent atvinnulausra. Atvinnuleysið er hæst á Suðurnesjum og þar eru fleiri Pólverjar án atvinnu en Íslendingar.

Fjórir af hverjum tíu atvinnulausum á Íslandi, alls 39 prósent allra, er erlendur ríkisborgari. Alls þýðir það að 3.266 erlendir ríkisborgarar eru án atvinnu. Þeim hefur fjölgað um 1.542 á einu ári, eða um 89 prósent. Á sama tíma hefur íslenskum ríkisborgurum sem eru án atvinnu fjölgað um 1.660, eða 49 prósent. 

Þetta kemur fram í tölum frá Vinnumálastofnun um fjölda atvinnulausra á Íslandi eftir ríkisfangi sem birtar voru nýverið. Þær sýna að aukið atvinnuleysi – það hefur nær tvöfaldast á tveimur árum – kemur harðar niður á erlendum ríkisborgurum en íslenskum. 

Alls mældist atvinnuleysi 4,1 prósent í nóvember. Það hefur ekki mælst jafnt hátt frá því í apríl 2013. 

Langflestir þeirra erlendu ríkisborgarar sem eru án atvinnu eru frá Póllandi, eða 55 prósent þeirra. Við það bætist að um 26 prósent eru frá löndum sem gengu í Evrópusambandið á árinu 2004 eða síðar. Þar er um að ræða lönd frá mið- og austur-Evrópu, þar á meðal Eystrasaltslöndin. Meginþorri þessa hóps kemur enda frá Litháen og Lettlandi. Samanlagt mynda ríkisborgarar þessara landa og Póllands því 81 prósent af atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi.

Pólverjar taka fram úr Íslendingum á Suðurnesjum

Atvinnuleysi er hæst á Suðurnesjum. Það þarf kannski að koma mikið á óvart enda samdrátturinn í efnahagslífinu í ár afar tengdur falli WOW air og Icelandair og áhrifum þess á ferðaþjónustu í heild, en Suðurnesin þjónusta Keflavíkurflugvöll, eina alþjóðaflugvöll landsins. Þar mælist atvinnuleysið nú 8,4 prósent og hefur aukist hratt það sem af er ári. 

Á Suðurnesjunum voru fleiri Pólverjar atvinnulausir en íslenskir ríkisborgarar í lok nóvember. Það er í fyrsta sinn sem það gerist. Alls eru 45 prósent þeirra sem eru án atvinnu, en búsettir á Suðurnesjunum, Pólverjar, 42 prósent eru íslenskir ríkisborgarar og tæp 13 prósent frá öðrum löndum. 

Suðurnesin eru eina landsvæðið á Íslandi þar sem fleiri Pólverjar eru án atvinnu en Íslendingar. 

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað gríðarlega á Íslandi á undanförnum árum samhliða efnahagsuppgangi þjóðarinnar. Þeir hafa mannað flest þau á þriðja tug þúsunda starfa sem orðið hafa til vegna vaxtar í ferðaþjónustu og mannvirkjagerð. Flest störfin eru í þjónustugeirum eða byggingaiðnaði. 

Í árslok 2011 voru erlendir ríkisborgarar 6,5 prósent af íbúum landsins. Í lok september síðastliðins voru þeir 13,4 prósent þeirra. Þá eru ekki með taldir þeir sem vinna fyrir starfsmannaleigur (900 alls í lok nóvember) né þeir útlendingar sem hafa hingað komið og fengið íslenskan ríkisborgararétt. 

Alls hefur erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgað um 27.710 frá lokum árs 2011, eða um 133 prósent. Íbúum landsins hefur á sama tíma fjölgað um 43.770. Erlendu ríkisborgararnir eru 63 prósent af þeirri aukningu. 

Hefur ekki fækkað í niðursveiflunni

Á Þjóðarspegli Háskóla Íslands, sem fór fram nýverið, sagði Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri í félags- og barnamálaráðuneytinu og fyrrverandi forstjóri Vinnumálastofnunar,  að það væri mikill kostur að á Íslandi væri svo einfalt að losa sig við erlent vinnuafl um leið og samdráttur byrjaði í efnahagslífinu. Þau ummæli hafa verið gagnrýnd víða, meðal annars af borgarfulltrúanum Sabine Leskopf sem skrifaði opið bréf til félags- og barnamálaráðherra vegna þeirra.  

Mjög hefur hægst á efnahagsvexti hérlendis á þessu ári og samkvæmt nýlega birtum þjóðhagsreikningum var hagvöxtur 0,2 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. Frá byrjun árs 2015 og út árið í fyrra var hann á bilinu 4,4 til 6,6 prósent. Því er um verulegan samdrátt á vexti að ræða. 

Þessi breyting, sem ræðst meðal annars af áföllum sem fylgja gjaldþroti WOW air, erfiðleikum Icelandair og loðnubresti, hefur ekki hægt á komu erlendra ríkisborgara til landsins. Þeim hefur þvert á móti fjölgað á árinu 2019, þótt fjölgunin sé ekki jafn mikið og árin tvö á undan, sem voru metár. Það sem af er ári hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um 4.330 talsins, eða um tæplega tíu prósent. Það þýðir að þrír af hverjum fjórum nýjum íbúum á Íslandi sem bæst hafa við á árinu 2019 eru erlendir ríkisborgarar. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar