Það eru ekki ný tíðindi að illa gangi hjá B&O. Árum saman hafa danskir fjölmiðlar með reglulegu millibili greint frá erfiðleikum í rekstri þessa gamalgróna fyrirtækis sem var stofnað árið 1924 í Struer á Jótlandi, þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru enn í dag. Stofnendurnir, Peter Bang og Svend Olufsen, ætluðu sér að framleiða tæki sem gæti tekið við útvarpsbylgjum. Reksturinn gekk þokkalega og tvímenningarnir mörkuðu sér snemma þá stefnu að framleiða gæðavöru með sérstakri áherslu á hljómgæði og útlitshönnun.
Sjötti og sjöundi áratugur síðustu aldar voru miklir uppgangstímar hjá B&O, sjónvörp, útvarps- og hljómflutningstæki voru að verða almenningseign. Tækni og þróun, ásamt framleiðslunni, hefur starfsfólk B&O í Struer annast en útlitshönnunin verið í höndum þekktra fagmanna á sínu sviði. „Sjónvarpstæki er ekki bara sjónvarpstæki, það er líka húsgagn. Mjög áberandi húsgagn“ sagði Jacob Jensen, sem starfaði lengi fyrir B&O, einhverju sinni í viðtali. Verð á tækjum B&O hefur ætíð verið hátt, samanborið við vörur margra annarra framleiðenda. B&O hefur ætíð reynt að höfða til þess hóps sem vill vandaða vöru og leggur mikið upp úr útliti en setur verðið kannski ekki fyrir sig.
B&O er dvergur í heimi tækjaframleiðenda, á síðasta ári seldust um það bil 221 milljón sjónvarpstækja í heiminum, af þeim framleiddi B&O innan við 30 þúsund. Samsung er lang stærst á þessum markaði en LG næst stærst.
Eftirhrunsárin
Árin eftir bankahrunið 2008 einkenndust af samdrætti á flestum sviðum. Fólk hélt fastar um budduna, fór sér t.d. hægar í að skipta út heimilistækjum og bílum. Það voru ekki síst framleiðendur svonefnds lúxusvarnings sem urðu fyrir barðinu á samdrættinum. B&O var eitt þeirra fyrirtækja sem máttu horfa upp á minnkandi sölu.
Á árunum 2011 og 2012 setti B&O á markaðinn nýja vörulínu, sem nefndist Play. Play vörurnar voru einfaldari og ódýrari en áður hafði þekkst frá B&O, en kostuðu eigi að síður meira en margt sambærilegt frá öðrum framleiðendum. Tilkoma Play línunnar dugði ekki til að hleypa lífi í reksturinn og veltan jókst ekki. Það gerði tapið hinsvegar, tapreksturinn hefur haldið áfram undanfarin ár og slíkt gengur vitaskuld ekki árum saman. Stjórnendur B&O hafa gripið til ýmissa ráða í því skyni að að snúa rekstrinum til betri vegar og árið 2015 seldu þeir bílahljómtækjaframleiðsluna til Harman fyrirtækisins.
Á fréttamannafundi þegar greint var frá sölunni sagði forstjóri B&O að fyritækið ætlaði að stórefla sölustarfsemi sína í Asíu og nefndi sérstaklega Kína. Ekki hefur það gengið eftir, miðað við sölutölurnar. Í mars árið 2016 greindi DR, danska útvarpið frá því að félagið Sparkle Roll, sem er í eigu Kínverjans Qi Jianhong vildi kaupa öll hlutabréf í B&O. Ekki varð af því þá, en Sparkle Roll átti fyrir 15% hlut í B&O. Svo virðist sem áhugi Kínverjans hafi síðan fjarað út því ekki hefur verið minnst á hugsanleg kaup hans á B&O. Tilraunir stjórnenda B&O til að fá þekkta framleiðendur (Sony, LG og fleiri) til að taka fyrirtækið undir sinn verndarvæng, ef svo mætti að orði komast, hafa ekki borið árangur.
Fill your home with astonishing sound. With multiroom, you can connect up your speakers and have your holiday playlist follow you throughout your home. #Multiroom #BangOlufsen
— Bang & Olufsen (@BangOlufsen) December 24, 2019
Enn sígur á ógæfuhliðina
Þegar stjórnendur B&O kynntu ársreikninga síðasta árs (fyrirtækið miðar rekstrarárið við 1. júlí) voru tölurnar ekki uppörvandi. Meira tap. Það segir líka sína sögu að í dag eru starfsmenn um 900 talsins en í árslok 2015 voru þeir 2300 og hafði þá fækkað talsvert frá árunum á undan. Eins og stundum áður við kynningu ársreikninga voru stjórnendur B&O fullir bjartsýni um að ,,bráðum kæmi betri tíð“ en í afkomuspá yfirstandandi rekstrarárs, sem lögð var fram skömmu fyrir jól er reiknað með áframhaldandi tapi út rekstrarárið.
Hvað veldur?
Þessa spurningu lagði dagblaðið Berlingske fyrir nokkra sérfróða rekstrarmenn og konur og ennfremur nokkra sem vel þekkja til í ,,tækniheiminum“ eins og blaðið orðaði það. Svörin voru undantekningalítið á þann veg að vörur B&O væru of dýrar og fyrirtækið hefði ekki lengur þá sérstöðu sem það hafði fyrir áratugum. Tæknin hefði breyst mikið ,,nú eru fáir að kaupa hljómflutningsgræjur í stofuna, nema kannski hátalara“ sögðu nokkrir viðmælendur Berlingske. ,,Einu sinni voru sjónvarpstækin frá B&O þau alflottustu á markaðnum.
Það eru þau kannski ennþá en aðrir framleiða líka vel hönnuð tæki, og jafnframt miklu ódýrari“ sagði einn viðmælenda blaðsins. Þá var á það bent að fyrir lítið fyrirtæki á Jótlandi væri nær útilokað að keppa við risana í Asíu. Einn sérfræðinganna sem Berlingske ræddi við vakti athygli á að á allra síðustu árum hefðu orðið miklar breytingar í tækniheiminum og það hefði til dæmis kostað marga evrópska, ekki síst þýska, raftækjaframleiðendur lífið.
Hvað verður um B&O
Viðmælendur Berlingske og DR, danska útvarpsins, sem líka hefur fjallað ítarlega um erfiðleika B&O virðast allir sammála um að framtíð fyrirtækisins sé ekki björt. Greiðslugeta fyrirtækisins hefur farið dvínandi undanfarið og tilraunir stjórnenda til að fá nýja fjársterka aðila til liðs við fyrirtækið hafa ekki borið árangur. Meðal stórra hluthafa í B&O er APT lífeyrisstjóðurinn, Augustinussjóðurinn og Færchsjóðurinn.
Tveir þeir síðarnefndu styrkja margs konar menningarstarfsemi og frumkvöðlastarf. Hvort stjórnendur þessara sjóða eru tilbúnir í að auka hlut sinn í B&O liggur ekki fyrir en í apríl á næsta ári ætlar stjórn B&O að kynna þriggja ára áætlun. Ef stjórnendum fyrirtækisins tekst ekki að leysa með einhverjum hætti úr vandanum sem við blasir getur svo farið að þetta rótgróna danska fyrirtæki komist í þrot. Það finnst mörgum Dönum óhugsandi en þótt þeim sé hlýtt til B&O dugir það ekki til að halda fyrirtækinu á lífi.
Það er við hæfi að slá botn í þennan pistil með orðum blaðamanns Berlingske ,,Ef þú situr með 1,7 milljarð (31 milljarð íslenskra króna) geturðu keypt eitt þekktasta fyrirtæki Danmerkur, Bang & Olufsen eins og það leggur sig. Og hver veit nema þú getir prúttað.“