Skiptastjórar WOW air hafa vísað nokkrum málum til embættis héraðssaksóknara vegna gruns um að þar hafi átt sér stað ólögmæt háttsemi. Á meðal þeirra mála sem þar eru undir eru mál tengd skuldabréfaútboði WOW air, sem lauk í september 2018, og mál tengd húsnæði sem Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, hafði til umráða í London. Heimildir Kjarnans herma að fleiri tilvik hafi einnig verið tilkynnt.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfesti við Kjarnann að tilkynning hefði borist frá skiptastjórum WOW air fyrir nokkrum dögum síðan en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.
Deloitte fengið til að rannsaka
Föstudaginn 16. ágúst 2019 héldu skiptastjórar þrotabús WOW air, Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson, fund með kröfuhöfum félagsins. Þá lá fyrir að kröfum upp á 151 milljarð króna hafði verið lýst í búið, þar af 138 milljarða króna kröfum sem teljast almennar. Eins og staðan var þá voru 1,1 milljarður króna á bankareikningum WOW air upp í þær kröfur. Það þýddi að 0,7 prósent er til upp í lýstar kröfur, sem þó á eftir að taka afstöðu til hvort að verði viðurkenndar eða ekki.
Þar var sú niðurstaða sett fram að WOW air hafi verið ógjaldfært í síðasta lagi um mitt ár 2018. Það þýðir, samkvæmt lögfræðiorðabók Lagastofnunar Háskóla Íslands, að skuldari, í þessu tilfelli WOW air, geti ekki greitt gjaldfallnar skuldir sínar en hefur samt sem áður ekki verið úrskurðaður gjaldþrota. Í skýrslu skiptastjóranna sagði að þeir teldu „óhjákvæmilegt að fram fari nánari greining á því hvenær WOW var sannarlega ógjaldfært.“
Skömmu eftir að skiptastjórar voru skipaðir yfir bú WOW air réðu þeir ráðgjafarfyrirtækið Deloitte til að vinna athugun á málefnum félagsins, fjármálum þess og ráðstöfunum fyrir þrot.
Deloitte skilaði af sér ítarlegri skýrslu í lok júní síðastliðins og helstu niðurstöður hennar voru kynntar á kröfuhafafundinum í ágúst. Eftir skil á skýrslunni tóku skiptastjórar skýrslur af öllum stjórnarmönnum lykilstjórnendum og endurskoðanda WOW air. Þær fóru fram á tímabilinu 5. til 30. júlí.
Kynning ekki talin hafa gefið raunsanna mynd af rekstri WOW air
Slík athugun skipti meðal annars máli fyrir þá þátttakendur í skuldabréfaútboði WOW air sem fram fór í ágúst og september 2018, sem töldu sig hafa verið blekktir.
Í skýrslunni sagði: „Skiptastjórar telja vera til staðar vísbendingar um að upplýsingar og gögn um fjárhagsleg málefni félagsins, rekstur og efnahag og áætlanir, sem fjárfestakynning skuldabréfaútboðsins byggði á, hafi verið ófullnægjandi og ekki gefið raunsanna mynd af rekstri og efnahag WOW á þessum tíma, aukinheldur sem áætlanir hafi ekki verið raunhæfar.“
Leiga á íbúð sögð greiðsla á persónulegum kostnaði Skúla
Í skýrslu Deloitte var einnig greint frá því að WOW air hefði greitt 37 milljónir króna í leigu vegna íbúðar í London, sem Skúli Mogensen og kærasta hans bjuggu í, á tveggja ára tímabili, frá 28. mars 2017 og þangað til að WOW air fór í þrot. Það þýðir að meðaltalsmánaðarleiga hefur verið rúmlega 1,5 milljón króna á mánuði.
Íbúðin var í eigu félags sem hét WOW air Ltd., og var skráð í Englandi. Það var lengi vel í persónulegri eigu Skúla Mogensen en var framselt til WOW air í september 2018, í sama mánuði og skuldabréfaútboð félagsins fór fram. Skiptastjórar WOW air sögðu í skýrslu sinni að enginn samningur hafi verið í gildi milli WOW air og WOW air Ltd. „vegna þessarar íbúðar og þá voru greiðslur WOW vegna hennar ekki samþykktar í stjórn félagsins.“
Leigugreiðslurnar hafi einfaldlega verið vegna greiðslu á persónulegum kostnaði hluthafa WOW air, Skúla Mogensen. Í skýrslunni segir enn fremur að Deloitte telji, að lokinni athugun sinni, að „greiðslur WOW vegna reksturs og leigu fyrrgreindrar íbúðar hafi ekki verið reistar á viðskiptalegum forsendum enda engar vísbendingar um að íbúðin hafi verið nýtt í þágu starfsmanna WOW, hvorki flugfólks né annarra almennra starfsmanna. Skiptastjórar skoða nú að krefjast endurgreiðslu þess fjár sem WOW greiddi vegna fyrrgreindrar íbúðar.“
Skúli Mogensen sagði í yfirlýsingu sem hann sendi á fjölmiðla í ágúst síðastliðnum að þegar WOW air hafi farið að leigja íbúðina, í byrjun árs 2017, hafi flugfélagið verið að undirbúa opnun á nýrri starfsstöð í London eða Dublin og jafnframt verið að skoða mögulega skráningu á markaði í London. „Hvort tveggja kallaði á verulega viðveru forstjóra í London. WOW air skilaði yfir 4 milljörðum í hagnað árið 2016 og því voru þessi áform eðlilegt skref í áframhaldandi uppbyggingu WOW air á þeim tíma og ekkert óeðlilegt við það að félagið skyldi leigja húsnæði fyrir forstjóra félagsins í þeim tilgangi að sinna þeim verkefnum.“
Vilja rifta greiðslum til Skúla
Á grundvelli athugunar Deloitte hefur þrotabúið þegar ráðist í ýmsar aðgerðir, og mun ráðast í fleiri. Flestar snúast þær um samninga og greiðslur sem áttu sér stað milli Skúla Mogensen og félags hans Títan, sem var eigandi WOW air fyrir þrot, og WOW air.
Þegar hefur verið höfðað riftunarmál vegna greiðslu á tæplega 108 milljón króna frá WOW air til Títan, félags Skúla Mogensen, sjö vikum fyrir gjaldþrot flugfélagsins. Það var gert 24. júlí 2019. Greiðslan byggði á því að sumarið 2018, þegar staða WOW air var orðin mjög þröng, keypti WOW air 60 prósent í félaginu Cargo Express af Títan á 2,1 milljarð króna. Kaupverðið var greitt að langmestu leyti með nýju hlutafé í WOW air sem bókfærðist þannig sem hlutafjáraukning, þrátt fyrir að ekkert nýtt hlutafé hafi komið inn í rekstur WOW air við hana. Skiptastjórar eru með það til athugunar hvort að þetta hlutafé í Cargo Express hafi verið tekið yfir á of háu verði og „því hafi ekki verið greitt að fullu fyrir hlutafé í WOW. Þessi viðskipti tengdra aðila sæta nánari skoðun skiptastjóra.“
Þann 6. febrúar 2019 fékk WOW air greiddan 107,6 milljónir króna í arð frá Cargo Express. Sama dag og arðgreiðslan barst greiddi WOW air sömu upphæð til Títan. Sú greiðsla fór fram tæplega þremur mánuðum fyrir umsaminn gjalddaga og sjö vikum fyrir gjaldþrot WOW air. Í skýrslu skiptastjóra sagði: „Á þeim tíma var WOW í miklum fjárhagserfiðleikum. Greiðslan var innt af hendi fyrir gjalddaga og fyrr en eðlilegt var. Þá skerti greiðslan greiðslugetu WOW og er það mat skiptastjóra að greiðslan hafi verið óvenjuleg eftir atvikum.“
Því hefur þrotabúið höfðað riftunarmál og vill endurheimta greiðsluna.
Greiðsla á ábyrgðargjaldi
Annað mál sem Deloitte vakti sérstaka athygli á eftir athugun sína var í tengslum við flugvélarnar TF-MOM, TF-DAD, TF-KID og TF-SON. Þær voru allar seldar til Air Canada um áramótin 2018/2019.
Vélarnar voru upphaflega leigðar af tveimur félögum, Moonsun Leasing og Hawk Bay. Títan, félag Skúla Mogensen sem fór með eignarhald WOW air, gerði samninga við þessa tvo aðila um gagnkvæman sölu- og kauprétt á vélunum. Títan greiddi ekkert fyrir þann kauprétt. Í skýrslu skiptastjóranna segir hins vegar að Títan hafi gert samning við WOW air um að greiða sér alls 12 milljónir dali fyrir kaupréttina. Í dag nemur sú upphæð um 1,3 milljarði króna. Auk þess greiddi WOW air mánaðarlegt ábyrgðargjald til Títan vegna leigu á vélunum.
Hluta af þeim kröfum sem urðu til vegna þessa samnings voru nýttar til að greiða fyrir aukið hlutafé í WOW air. Niðurstaða Deloitte var að erfitt hafi verið að „greina viðskiptalegar forsendur að baki svo hárri þóknun er WOW bar að greiða Títan fyrir kauprétti að flugvélum.“
Undir það tóku skiptastjórar WOW air í skýrslunni og þar kemur fram að málið sé til áframhaldandi skoðunar.
Skúli hefur sagt að það sé ekki rétt að hann hafi fengið milljarða greiðslur út úr WOW air vegna sölu Títan á kaupréttunum, sem félagið hafi fengið frítt, til WOW air.