Mynd: EPA

Árið 2019: Þegar WOW air fór á hausinn

WOW air og forstjóri þess flugu hátt um nokkurra ára skeið og ætluðu sér að verða heimsmeistarar í flugrekstri. Draumurinn brotlenti harkalega í lok mars 2019 þegar flugfélagið fjólubláa fór í þrot, með þrjár milljónir króna inni á reikningum sínum. Kjarninn fer yfir helstu fréttamál ársins 2019.

Þann 15. ágúst 2018 birti Kjarn­inn frétt um skulda­bréfa­út­boð sem flug­fé­lagið WOW air ætl­aði sér að ráð­ast í. Fréttin byggði á fjár­festa­kynn­ingu um fyr­ir­liggj­andi áætlun WOW air út úr þeim vanda sem félagið virt­ist hafa ratað í. Hlekkur á fjár­fest­ing­ar­kynn­ing­una, sem hafði verið sett á opin net­þjón á vegum verð­bréfa­fyr­ir­tæk­is­ins Par­eto Securities í Stokk­hólmi, sem hafði umsjón með skulda­bréfa­út­gáf­unni, fylgdi með frétt­inn­i. 

Í þess­ari kynn­ingu komu fram nákvæm­ari upp­lýs­ingar um svarta fjár­hags­stöðu WOW air en nokkru sinni höfðu verið birtar opin­ber­lega, meðal ann­ars að eig­in­fjár­hlut­fall félags­ins hefði verið komið undir fimm pró­sent í júní 2018. 

22 mín­útum eftir að fréttin birt­ist barst blaða­manni Kjarn­ans póstur frá yfir­manni þeirrar deildar hjá Par­eto sem sá um skulda­bréfa­út­boð­ið. Í póst­inum sagði að honum hefði verið gert við­vart um að Kjarn­inn væri að birta trún­að­ar­upp­lýs­ingar um WOW air. Þeim upp­lýs­ingum ætti að eyða sam­stundis til að koma í veg fyrir aðgerðir að hálfu Par­eto. 

Kröf­unni var sam­stundis hafnað á grund­velli þess að um væri að ræða upp­lýs­ingar sem ættu sann­ar­lega erindi við íslenskan almenn­ing, meðal ann­ars í ljósi þess að WOW air væri kerf­is­lega mik­il­vægt fyr­ir­tæki. Auk þess var bent á að Par­eto hefði sjálft gert upp­lýs­ing­arnar aðgengi­legar á Inter­net­inu og þar væri enn hægt að nálg­ast þær. 

Yfir­mað­ur­inn, rétt rúm­lega þrí­tugur Svíi, svar­aði því til að þar sem það væri til­tekið í skil­málum fjár­festa­kynn­ing­ar­innar að hún væri trún­að­ar­mál þá væri ólög­legt að deila henni. Auk þess sagði hann að ef það væri skoðun rit­stjórnar Kjarn­ans að WOW air væri kerf­is­lega mik­il­vægt fyr­ir­tæki, „af hverju eruð þið þá vilj­andi og ólög­lega að reyna að skaða fyr­ir­tæk­ið?“

Fyr­ir­tæki á barmi þess að falla

Þessa daga, um miðjan ágúst 2018, var að birt­ast mynd af WOW air sem hafði ekki birst áður, en margir höfðu ótt­ast að væri raun­veru­leik­inn. Mynd af fyr­ir­tæki á barmi þess að falla. Þrátt fyrir að Skúli Mog­en­sen, for­stjóri og eig­andi WOW air, hefði ítrekað komið fram á þessum tíma með dig­ur­barka­legar yfir­lýs­ingar um að allt myndi vera í himna­lagi, og að fram undan væru enn frek­ari land­vinn­ing­ar, þá var hljóðið í þeim sem kunna að lesa efna­hags­reikn­inga og rekstr­ar­tölur þungt. WOW air var í gríð­ar­legum vanda og miklu meiri en áður hafði opin­ber­ast.

Leiðin út úr þeim vanda átti að vera skulda­bréfa­út­boð­ið. Þar stóð til að selja skulda­bréf fyrir að minnsta kosti 50 millj­ónir evra en helst fyrir 100 millj­ónir evra. Útboðið hafði verið lengi í und­ir­bún­ingi þegar það varð skyndi­lega for­síðu­frétt nær allra fjöl­miðla á Ísland­i. 

Þegar leið á útboðið varð mjög tví­sýnt um hvort að takast myndi að ná lág­marks­upp­hæð­inni eða ekki. Ef það hefði ekki tek­ist þá hefðu allir þeir sem höfðu skráð sig fyrir skulda­bréfum í útboð­inu verið óbundnir af sínu boði, og útboðið í raun fallið niður með þeim afleið­ingum að engir pen­ingar hefðu skilað sér til WOW air. 

Það náð­ist þó á end­anum að selja skulda­bréf fyrir 50,15 millj­ónir evra og sigri hrós­andi var það til­kynnt að WOW air væri fyrir vind, að minnsta kosti í bili. En það reynd­ist skamm­góður verm­ir. 

Í kjöl­farið var reynt að selja WOW air til Icelandair (tvisvar) og Indigo Partners. Þau áform gengu ekki eft­­­­ir. Íslenska ríkið taldi sig enn fremur ekki hafa neinar for­­­sendur til að ganga inn í rekstur WOW air, þrátt fyrir mik­inn þrýst­ing þar um. 

Og að morgni 28. mars 2019 fór félagið í þrot.

Átti ekki fyrir skuldum um mitt ár 2018

Föstu­dag­inn 16. ágúst 2019 héldu skipta­stjórar þrota­bús WOW air, Sveinn Andri Sveins­son og Þor­steinn Ein­ars­son, fund með kröfu­höfum félags­ins. Þá lá fyrir að kröfum upp á 151 millj­arð króna hafði verið lýst í búið, þar af 138 millj­arða króna kröfum sem telj­ast almenn­ar. Eins og staðan var þá voru 1,1 millj­arður króna á banka­reikn­ingum WOW air upp í þær kröf­ur. Það þýddi  að 0,7 pró­sent er til upp í lýstar kröf­ur, sem þó á eftir að taka afstöðu til hvort að verði við­ur­kenndar eða ekki.

Í skýrslu skipta­stjór­anna bst farið yfir hver raun­veru­leg staða mála var hjá WOW air þegar skellt var í lás með hvelli í lok mars. Þar var meðal ann­ars opin­berað að við gjald­þrot félags­ins hafi verið um þrjár millj­ónir króna lausar til ráð­stöf­unar á banka­reikn­ingum WOW sam­stæð­unn­ar. Til að setja þá tölu í sam­hengi má benda á að við gjald­þrot störf­uðu alls 963 manns hjá WOW air. Lausafé sam­stæð­unnar hefði ekki dugað til að greiða nema örfáum þeirra sem þar störf­uðu laun í byrjun apríl 2019. 

Þar var sú nið­ur­staða sett fram að WOW air hafi verið ógjald­fært í síð­asta lagi um mitt ár 2018. Það þýð­ir, sam­kvæmt lög­fræði­orða­bók Laga­stofn­unar Háskóla Íslands, að skuld­ari, í þessu til­felli WOW air, geti ekki greitt gjald­fallnar skuldir sínar en hefur samt sem áður ekki verið úrskurð­aður gjald­þrota. Í skýrslu skipta­stjór­anna segir að þeir telji „óhjá­kvæmi­legt að fram fari nán­ari grein­ing á því hvenær WOW var sann­ar­lega ógjald­fært.“

Skömmu eftir að skipta­stjórar voru skip­aðir yfir bú WOW air réðu þeir ráð­gjaf­ar­fyr­ir­tækið Deloitte til að vinna athugun á mál­efnum félags­ins, fjár­málum þess og ráð­stöf­unum fyrir þrot. 

Deloitte skil­aði af sér ítar­legri skýrslu í lok júní síð­ast­lið­ins og helstu nið­ur­stöður hennar voru kynntar á kröfu­hafa­fund­inum í ágúst. Eftir skil á skýrsl­unni tóku skipta­stjórar skýrslur af öllum stjórn­ar­mönnum lyk­il­stjórn­endum og end­ur­skoð­anda WOW air. Þær fóru fram á tíma­bil­inu 5. til 30. júlí. 

Mögu­legar blekk­ingar í útboði

Slík athugun skiptir meðal ann­ars máli fyrir þá þátt­tak­endur í skulda­bréfa­út­boði WOW air sem fram fór í ágúst og sept­em­ber 2018, sem telja sig hafa verið blekkt­ir. 

Í skýrsl­unni sagði: „Skipta­stjórar telja vera til staðar vís­bend­ingar um að upp­lýs­ingar og gögn um fjár­hags­leg mál­efni félags­ins, rekstur og efna­hag og áætl­an­ir, sem fjár­festa­kynn­ing skulda­bréfa­út­boðs­ins byggði á, hafi verið ófull­nægj­andi og ekki gefið raunsanna mynd af rekstri og efna­hag WOW á þessum tíma, auk­in­heldur sem áætl­anir hafi ekki verið raun­hæf­ar.“

Það væri nið­ur­staða skipta­stjór­anna að þátt­tak­endur í skulda­bréfa­út­boð­inu hafi verið blekkt­ir. Þar var meðal ann­ars vísað í að eigið fé WOW air hefði með réttu átt að vera nei­kvætt um mitt ár 2018 þegar farið var af stað með útboð­ið. Í efna­hags­reikn­ingi sem birtur var í fjár­festa­kynn­ing­unni var því hins vegar haldið fram að eigið fé væri jákvætt. Þ.e. að WOW air ætti meiri eignir en skuld­ir. 

Hlutur Arion banka

Skulda­bréfa­út­boð­inu lauk 17. sept­em­ber 2018. Dag­anna fyrir leit ekki út fyrir að Skúla og WOW air tæk­ist að safna lág­marks­upp­hæð­inni, 50 millj­ónum evra, sem nauð­syn­legt var að safna til að gera þá sem þó höfðu skráð sig fyrir bréfum bundna af þeirri skrán­ingu. Á end­anum skreið heild­ar­upp­hæðin yfir þá tölu, og end­aði í 50,15 millj­ónum evr­a. 

Þar skipti aðkoma Arion banka, sem átti mikið undir sem lán­veit­andi WOW air, miklu máli. 

Í skýrsl­unni sagði að skömmu áður en að skulda­bréfa­út­boð­inu lauk hafi verið gert sam­komu­lag milli WOW air og Arion banka um þátt­töku bank­ans í útboð­inu. Í sam­komu­lag­inu sagði: „WOW leit­aði til bank­ans og hefur óskað eftir því að bank­inn taki þátt í skulda­bréfa­út­boð­inu fyrir því sem upp á vantar til að WOW nái fyrr­greindri lág­marks­fjár­hæð útboðs­ins.“ Til­gangur sam­komu­lags­ins hafi verið að aðstoða WOW air í greiðslu­örð­ug­leikum og í því sam­þykkti Arion banki að skrá sig fyrir 4,3 millj­ónum evra, um 560 millj­ónir króna á þeim tíma, gegn því að WOW air myndi greiða yfir­drátt­ar­skuld sína hjá bank­anum upp „án tafar eftir að félagið fengi and­virði fyrr­greinds skulda­bréfa­út­boðs til sín. Þá skyldi fella niður yfir­drátt­ar­heim­ild­ina í kjöl­far­ið,“ segir í skýrsl­unni. Sú yfir­drátt­ar­skuld var upp á fimm millj­ónir dali, sem er nán­ast sama upp­hæð og Arion banki greiddi fyrir skulda­bréf í útboð­inu, eða tæp­lega 560 millj­ónir króna. Með þessu dró Arion banki úr tapi sínu á WOW air. Ef yfir­drátt­ar­heim­ildin væri enn ógreidd þá væri hún ein­fald­lega almenn krafa í bú WOW air og feng­ist ekki greidd. Í stað­inn á bank­inn kröfur vegna skulda­bréf­anna.

Til við­bótar við upp­greiðslu yfir­drátt­ar­ins fékk Arion banki, í kjöl­far útboðs­ins, greidda þóknun vegna aflétt­ingar á lána­skil­málum upp á 11,2 millj­ónir króna. 

Kröfu­hafar WOW air sem Kjarn­inn ræddi við sögð­ust ekki hafa haft neinar upp­lýs­ingar um hvers eðlis aðkoma Arion banka var að skulda­bréfa­út­boð­inu í aðdrag­anda þess og fram að falli flug­fé­lags­ins. Þeir tor­tryggja einnig að þáver­andi fram­kvæmda­stjóri Fjár­fest­inga­fé­lags­ins Tít­an, Ólafur Hrafn Hösk­ulds­son, sem hélt utan um eign Skúla Mog­en­sen í WOW air, sé sonur þáver­andi banka­stjóra Arion banka, Hösk­uldar Ólafs­son­ar, sem hætti störfum í apríl 2019, og töldu að þar hafi skap­ast hags­muna­á­rekstr­ar. Þeim áhyggjum var komið á fram­færi við skipta­stjóra þrota­bús­ins. Ólafur Hrafn starfar nú hjá Arion banka. 

Sumir fengu greitt strax

Deloitte vakti athygli á því í athugun sinni að það hafi ekki ein­ungis verið Arion banki sem tók þátt í útboð­inu, og fékk síðan upp­greiddar aðrar skuldir strax að því lokn­u. 

Sam­tals hafi 20,3 millj­ónir dal­ir, tæp­lega 2,3 millj­arðar króna, af þeim rúm­lega 50 millj­ónum evra, um 6,5 millj­örðum króna, sem söfn­uð­ust farið í slík verk. Flug­véla­leigan Air Lease Cor­poration (ALC) hafi fengið tvær kröf­ur, aðra gjald­fallna og hina í ágrein­ingi, greiddar sam­tals upp á 10,4 millj­ónir dala, eða tæp­lega 1,2 millj­arð króna. Írska fjár­mögn­un­ar­fyr­ir­tækið Avolon fékk sam­tals grett tæp­lega fimm millj­ónir dala, tæp­lega 560 millj­ónir króna. 

Skipta­stjórar þrota­bús WOW air eru með það til skoð­unar hvort að til­efni sé til að rifta greiðslum til ofan­greindra þátt­tak­enda í útboð­inu. Þ.e. Arion banka, ALC og Avolon. „Þá eru ýmis önnur atriði til skoð­unar hjá skipta­stjórum er tengj­ast fyrr­greindu skulda­bréfa­út­boð­i,“ sagði í skýrsl­unni.

Skúli Mogensen var eigandi og forstjóri WOW air.
Mynd: WOW air.

Þar var einnig greint frá því að í skil­málum skulda­bréfa­út­boðs­ins sé til­greint hvernig hafi átt að ráð­stafa þeim fjár­munum sem söfn­uð­ust í því. Hluti, 7,5 millj­ónir evra, átti að fara á sér­stakan vaxta­reikn­ing til að standa straum að vaxta­greiðslum af skulda­bréf­unum og afgang­ur­inn inn á rekstr­ar­reikn­ing WOW air, að frá­dreg­inni þóknun Par­eto. Þegar kom að fyrsta vaxta­greiðslu­degi, sem var á aðfanga­dag 2018, voru ekki til staðar fjár­munir á vaxta­reikn­ingnum til að greiða vext­ina, enda hafði WOW air þá nýtt það fé í ann­að. 

Vilja rifta greiðslu til Skúla

Á grund­velli athug­unar Deloitte hefur þrota­búið þegar ráð­ist í ýmsar aðgerð­ir, og mun ráð­ast í fleiri. Flestar snú­ast þær um samn­inga og greiðslur sem áttu sér stað milli Skúla Mog­en­sen og félags hans Tít­an, sem var eig­andi WOW air fyrir þrot, og WOW air. 

Þegar hefur verið höfðað rift­un­ar­mál vegna greiðslu á tæp­lega 108 milljón króna frá WOW air til Tít­an, félags Skúla Mog­en­sen, sjö vikum fyrir gjald­þrot flug­fé­lags­ins. Það var gert 24. júlí síð­ast­lið­inn. Greiðslan byggði á því að sum­arið 2018, þegar staða WOW air var orðin mjög þröng, hafi WOW air keypt 60 pró­sent í félag­inu Cargo Express af Títan á 2,1 millj­arð króna. Kaup­verðið var greitt að lang­mestu leyti með nýju hlutafé í WOW air sem bók­færð­ist þannig sem hluta­fjár­aukn­ing, þrátt fyrir að ekk­ert nýtt hlutafé hafi komið inn í rekstur WOW air við hana. Skipta­stjórar voru síð­sum­ars með það til athug­unar hvort að þetta hlutafé í Cargo Express hafi verið tekið yfir á of háu verði og „því hafi ekki verið greitt að fullu fyrir hlutafé í WOW. Þessi við­skipti tengdra aðila sæta nán­ari skoðun skipta­stjóra.“

Þá áttu 150 millj­ónir króna að greið­ast frá WOW air til Títan í reiðufé 30. apríl 2019 vegna söl­unn­ar. Sú greiðsla átti að vera háð því að Cargo Express myndi greiða arð til WOW air vegna árs­ins 2018 sem næmi að minnsta kosti sömu upp­hæð. Í skýrslu skipta­stjóra segir að í samn­ing­unum hafi komið skýrt fram að ef arð­greiðslan yrði hærri en 150 millj­ónir króna myndi WOW air halda þeirri við­bót­ar­greiðslu. Ef arð­greiðslan yrði hins vegar lægri en sú upp­hæð „skyldi mis­mun­inum umbreytt í hluta­bréf í kaup­anda handa selj­anda.“

Þann 6. febr­úar 2019 fékk WOW air greiddan 107,6 millj­ónir króna í arð frá Cargo Express. Sama dag og arð­greiðslan barst greiddi WOW air sömu upp­hæð til Tít­an. Sú greiðsla fór fram tæp­lega þremur mán­uðum fyrir umsam­inn gjald­daga og sjö vikum fyrir gjald­þrot WOW air. Í skýrslu skipta­stjóra seg­ir: „Á þeim tíma var WOW í miklum fjár­hags­erf­ið­leik­um. Greiðslan var innt af hendi fyrir gjald­daga og fyrr en eðli­legt var. Þá skerti greiðslan greiðslu­getu WOW og er það mat skipta­stjóra að greiðslan hafi verið óvenju­leg eftir atvik­um.“ Því hefur þrota­búið höfðað rift­un­ar­mál og vill end­ur­heimta greiðsl­una. 

Greiðsla ábyrgð­ar­gjalds

Annað mál sem Deloitte vakti sér­staka athygli á eftir athugun sína var í tengslum við flug­vél­arnar TF-MOM, TF-DAD, TF-KID og TF-­SON. Þær voru allar seldar til Air Canada um síð­ustu ára­mót. 

Vél­arnar voru upp­haf­lega leigðar af tveimur félög­um, Moonsun Leasing og Hawk Bay. Tít­an, félag Skúla Mog­en­sen sem fór með eign­ar­hald WOW air, gerði samn­inga við þessa tvo aðila um  gagn­kvæman sölu- og kaup­rétt á vél­un­um. Títan greiddi ekk­ert fyrir þann kaup­rétt. Í skýrslu skipta­stjór­anna segir hins vegar að Títan hafi gert samn­ing við WOW air um að greiða sér alls 12 millj­ónir dali fyrir kaup­rétt­ina. Í dag nemur sú upp­hæð um 1,3 millj­arði króna.  Auk þess greiddi WOW air mán­að­ar­legt ábyrgð­ar­gjald til Títan vegna leigu á vél­un­um. 

Hluta af þeim kröfum sem urðu til vegna þessa samn­ings voru nýttar til að greiða fyrir aukið hlutafé í WOW air. Nið­ur­staða Deloitte var að erfitt hafi verið að „greina við­skipta­legar for­sendur að baki svo hárri þóknun er WOW bar að greiða Títan fyrir kaup­rétti að flug­vél­u­m.“ 

Undir það tóku skipta­stjórar WOW air í skýrsl­unni og þar kemur fram að málið sé til áfram­hald­andi skoð­un­ar. 

Skúli hefur sagt að það sé ekki rétt að hann hafi fengið millj­arða greiðslur út úr WOW air vegna sölu Títan á kaup­rétt­un­um, sem félagið hafi fengið frítt, til WOW air. „Hið rétta er að Títan fékk umræddan kaup­rétt gegn því að ábyrgj­ast allar greiðslur WOW air í tíu ár upp á tugi millj­arða vegna umræddra kaupa. Þetta var skil­yrði af hálfu flug­véla leig­and­ans. Það skal líka tekið fram að Títan fékk ekki umræddan millj­arð í reiðufé heldur að mestu leyti í formi fleiri hluta­bréfa í WOW air. WOW air seldi umræddar flug­vélar til Air Canada gegn greiðslu í reiðufé og því aug­ljós­lega rangt að tala um að engin verð­mæti hafi skap­ast eða átt sér stað,“ sagði Skúli í yfir­lýs­ingu sem hann sendi frá sér í ágúst.

Skúli segir að WOW hefði ekki átt að falla

Þar sagði Skúli einnig að heild­ar­tap sitt og félaga í hans eigu vegna falls WOW air væri  hátt í átta millj­arðar króna. Það sé eðli­legt að rýna í og læra af vexti og falli WOW air. „Það er hins vegar mjög auð­velt að vera vitur eftir á og sorg­legt að sjá hvernig sumir kepp­ast við gera við­skipti WOW air tor­tryggi­leg. Það er frá­leitt að halda því fram að ég og mitt fólk höfum ekki unnið að heil­indum í einu og öllu við upp­bygg­ingu og síðan við það að reyna að bjarga félag­inu frá fall­i.“ 

Það er skoðun sem skipta­stjórnar WOW air og hluti kröfu­hafa félags­ins deila ekki með stofn­anda flug­fé­lags­ins. 

Í nóv­em­ber var Skúli aftur mættur á Face­book til að tjá sig um fall WOW air og sagði þá að það væri „löngu orðið ljóst að það hefði verið mun hag­­kvæm­­ari fyr­ir ríkið að koma að björg­un WOW held­ur en að leyfa því að falla.“ Hann benti á þau áhrif sem þrotið hafi haft á aukin útgjöld rík­is­sjóð í fjár­auka­lög­um, þar sm greiðslur vegna at­vinn­u­­leys­is­­bóta og í ábyrgð­ar­sjóð launa átti að nema 7,6 millj­­örðum króna.

„Það var hörmu­­legt að horfa á WOW falla og allt okk­ar frá­­­bæra fólk missa vinn­una. Svo það sé sagt þá er ég ekki að kenna rík­­inu um hvernig fór né að draga úr minni ábyrgð held­ur aðeins að benda á þá stað­reynd að það hefði verið mun skyn­­sam­­legra að tryggja áfram­hald­andi rekst­ur WOW öll­um til hags­­bóta,“ sagði Skúli.

Tvö ný félög í far­vatn­inu

Það má segja að uppúr hræ­inu á WOW air hafi sprottið tveir nýir fugl­ar, sem hvor­ugum hefur tek­ist að hafa sig á loft. Ann­ars vegar hefur banda­ríska athafna­konan Michelle Beller­in, einnig þekkt sem Michelle Roos­evelt Edwards, leitt banda­rískt félag sem hefur keypt ákveðnar eignir WOW air, meðal ann­ars vöru­merk­ið, og boðað að flug­fé­lagið verði end­ur­reist. 

Á blaða­manna­fundi sem hún hélt á Grill­inu á Hótel Sögu 6. sept­em­ber síð­ast­lið­inn sagði Bellerin að WOW air myndi hefja lág­far­gjalda­flug­­rekstur til Banda­­ríkj­anna og Evr­­ópu í októ­ber. Enn bolar ekk­ert á því.

Play var kynnt með pompi og prakt í byrjun nóvember.
Mynd: Bára Huld Beck

Hinn fugl­inn fékk nafnið Play. Að til­urð hans stóðu nokkrir fyrr­ver­andi lyk­il­starfs­menn WOW air og við­skipta­fé­lagar þeirra. Þann 5. nóv­em­ber kynnti hóp­ur­inn þetta nýja íslenska lág­far­gjald­ar­fé­lag með pompi og prakt og greindu frá því að ein­ungis ætti eftir að hnýta nokkra lausa enda til að hefja það á flug. Sala á miðum átti að hefj­ast í nóv­em­ber. 

Kjarn­inn greindi frá því 8. nóv­­em­ber síð­­ast­lið­inn að áform Play gerðu ráð fyrir því að innan þriggja ára verði félagið komið með tíu flug­­­­­vélar í rekstri og að verð­mið­inn á félag­inu, miðað við rekstr­­­­ar­hagnað fyrir fjár­­­­­­­magnsliði og afskriftir (EBID­T.) upp á 100 millj­­­­ónir Banda­­­­ríkja­dala, eða um 12,5 millj­­­­arða króna, geti numið um 630 millj­­­­ónum Banda­­­­ríkja­dala, eða sem nemur um 78 millj­­­­örðum króna, í lok árs 2022. 

Til sam­an­­­­burðar hefur Icelanda­ir verið metið á rétt yfir 40 millj­arða króna und­an­farin miss­er­i. 

Play hefur hins vegar gengið illa að ná í það hlutafé sem félagið þarf á að halda til að hefj­ast handa, en upp­haf­leg við­skipta­á­ætlun stofn­enda gekk út á að þeir myndu eiga 50 pró­sent í félag­inu og fjár­festar sem myndu láta því í té 1,7 millj­arð króna myndu fá 50 pró­sent. Ef það tæk­ist myndi breskur sjóður auk þess lána 5,5-11 millj­arða króna í verk­efn­ið. 

Í byrjun des­em­ber var greint frá því að Play hefði ekki getað greitt laun fyrir nóv­em­ber­mánuð og að stjórn­end­urnir væru nú að bjóð­ast til að minnka sinn hlut úr 50 pró­sent í 30 pró­sent. Þar stóðu mál síð­ast þegar af frétt­ist.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar