Mynd: EPA

Heilt ár á Hótel Tindastól

Brexit í fimm þáttum með óvæntum sveiflum og óvissum endi.

Varla hefur verið hægt að kveikja á fréttum þetta árið öðru­vísi en að rekast á græn­bólstraða bekk­ina í breska þing­inu við bakka Thames. Sak­lausir sjón­varps­á­horf­endur með áhuga á erlendum mál­efn­um, hafa þurft að setja sig inn í ein­hverja dramat­ísk­ustu sápu­óp­eru seinni ára, Brex­it, og reynt að átta sig á atburða­rásinni, skilja hvað um er að vera og rýna hvað ger­ist næst. Frétt­irnar fjalla um samn­ing eða ekki samn­ing, tolla­hlið og trygg­ing­ar, van­traust, afsagn­ir, tap­aðar atkvæða­greiðslur og allra­handa upp­nám. Að vera eða ekki vera í Evr­ópu­sam­band­inu – það hefur verið stóra spurn­ing­in.

Árinu lýkur svo með ævin­týra­legri end­ur­komu. Ljós­fexti ridd­ar­inn, sem fyrir skemmstu lá næstum dauður úti í skurði, situr nú uppi með pálmann í hönd­un­um, brot­hætt kon­ungs­ríkið í fang­inu og fram­tíð­ina á teikni­borð­inu. En líka ábyrgð­ina á herð­un­um. Hans villt­ustu draumar munu ræt­ast snemma á næsta ári þegar Bret­land gengur form­lega úr Evr­ópu­sam­band­inu þótt eng­inn viti í raun hvað nákvæm­lega tekur við. 

Ringl­aðir póli­tískir keppi­nautar sleikja sárin og reyna að skilja hvað í ver­öld­inni hafi nú eig­in­lega gengið yfir. Frétta­skýrendur klóra sér í koll­in­um, sér­fræð­ingar velta vöng­um. En spurn­ing­unum er ei auð­velt að svara, frekar en hjá Ara um árið: Tekst að halda Stóra-Bret­landi sam­an? Verður áfram friður á Norð­ur­-Ír­landi. Kjósa Skotar sjálf­stæði? Hvernig samn­ingur verður til milli Breta og ESB, og hvað mun það kosta breska hag­kerf­ið? Hvaða hlut­verk verður Bretum ætlað á heims­svið­inu, eiga þeir sér við­reisnar von, eða hnígur sól hins gamla heims­veldis enn dýpra í sæinn? Árið 2019 í breskum stjórn­málum gæti verið leik­rit eftir Shakespe­are eða saga eftir Dic­kens, eða sjón­varps­þátta­sería frá BBC, með ótal sveiflum og sögu­per­són­um. En kannski er nær­tæk­ast að líkja þessu ári við grín­þætti um von­lausa hót­el­eig­endur við breska sól­ar­strönd (!) frá því fyrir 40 árum. Þætti sem valdir hafa verið bestu bresku sjón­varps­þættir allra tíma og hétu á íslensku: Hótel Tinda­stóll.

Á Hótel Tinda­stóli var alltaf allt í klessu. Allt hið bres­kasta hlægi­legt, þjóð­ar­ein­kenn­in, mat­ar­hefð­in, sam­skipta­mynstr­ið. Stór­veld­is­þótt­inn, yfir­lætið og hug­myndin um and­lega yfir­burði og sögu­legt hlut­verk. Í stað þess að Bret­land og Bretar nytu virð­ingar sem heims­veldi og fyr­ir­mynd í menn­ingu og stjórn­málum – með móður allra þjóð­þinga og allar sínar fornu og fal­legu hefð­ir, drottn­ingu og heið­urs­fólk – hefur þessi síð­ustu þrjú ár verið horft til Bret­lands í for­undran þar sem leið­togar þjóð­ar­innar hafa fengið lýð­ræð­is­legt umboð til að rýra gæði, tapa mörk­uð­um, glata verð­mætum og baka tjón. Ein­faldar lausnir sem byggja á ótt­anum við hið ókunna, hug­myndum um heil­agt full­veldi og fyr­ir­litn­ingu á sér­fræð­ing­unum að sunnan hafa orðið ofaná. Rétt eins og Hótel Tinda­stóll hefur það verið skemmti­legt sjón­varp að fylgj­ast með sveifl­un­um, hrak­förum og upp­námi, vand­ræða­gangi og vit­leysu, póli­tískum andlátum og end­ur­fæð­ing­um.

Mynd: EPA

I Þið munið hana May? 

Fyrir ykkur sem eru búin að gleyma því, þá er rétt að minna á að í byrjun árs­ins og fram á sum­ar, var for­sæt­is­ráð­herra Bret­lands kona að nafni Ther­esa May. Hún hafði unnið for­manns­kjör í Íhalds­flokknum eftir Brex­it­kosn­ing­arnar 2016. Fyrst höfðu verið kall­aðir til sög­unnar for­ystu­menn útgöngu­sinna, þeir Boris John­son og Mich­ael Gove en þeir rugl­uð­ust á tám eins og bræð­urnir frá Bakka, og stungu hvorn annan svo illa í bakið að þeir lágu eftir óvígir og May sigldi hæg­fara í höfn. 

Ther­esa May var lús­iðin og sam­visku­söm, hollur flokks­maður frá unga aldri, og bætti upp það sem upp á skorti í kjör­þokka og til­finn­inga­greind, með tak­marka­lausri seiglu, ákveðin í því að láta ekk­ert stöðva sig í að ná því fram sem hún taldi að hún hefði umboð til að vinna að, samn­ingnum um Brexit og útgöng­unni úr ESB. Hún stóð af sér van­traust flokks­manna og hrika­lega þrauta­göngu á lands­fundi og þingsal, hósta­köst og hrak­far­ir, reis alltaf upp aftur og barð­ist áfram fyrir samn­ingnum sem eng­inn annar vild­i. Fleyg­ustu orð hennar for­sæt­is­ráð­herra­tíðar voru „Brexit þýðir Brex­it“ og „Eng­inn samn­ingur er betri en vondur samn­ing­ur“. Þessi snilld skil­aði henni þó ekki lengra en efni stóðu til, og á end­an­um, eftir langt stríð, rakst hún á vegg þegar þing­menn í hennar eigin röðum töldu skárra að hafa engan samn­ing en þann sem hún bar á borð, og engan for­mann frekar en hana. Eftir að hafa ítrekað þurft að þola þá lýð­ræð­is­legu nið­ur­læg­ingu að þingið felldi mál sem hún lagði alla áherslu á að koma í gegn, þvarr hennar póli­tíska inni­stæða. 

Evr­ópu­sam­bandið hafði séð aumur á ástand­inu og sam­þykkt að fram­lengja útgöngu­frest­inn frá 29. mars eins og bundið hafði verið í lög­um, fram til loka októ­ber. Breska þingið hafði þá tekið völdin af rík­is­stjórn­inni og sam­þykkt að ekki væri heim­ilt fyrir stjórn­ina að yfir­gefa Evr­ópu­sam­bandið án þess að fyrir lægi samn­ing­ur. Stjórnin náði ekki samn­ingi í gegn og allt var frosið fast. Engin útganga, eng­inn samn­ing­ur, eng­inn for­sæt­is­ráð­herra, eng­inn þing­meiri­hluti, engin skýr fram­tíð.

Mynd: EPA

II Snögg­lega birtist, hann Boris

Þegar hér var komið sögu, vetri hafði hallað og vorið brosti við, birt­ist aftur á svið­inu, Alex­ander Boris de Pfeffel John­son, alþýð­legur yfir­stétt­ar­drengur með ljósan makka og lit­ríka sögu. Félags­málatröll úr mesta for­rétt­inda­skóla lands­ins og ræðu­meist­ari frá Oxford sem vandi sig snemma á að hafa hlut­ina eins og þeir betur hljóm­uðu. Ungur hafði hann verið rek­inn af dag­blaði fyrir að skálda ummæli eftir guð­föður sinn í blaða­grein um forn­leif­ar, hann var síðar rek­inn sem skugga­ráð­herra menn­ingar og lista fyrir að segja opin­ber­lega ósatt til um fram­hjá­hald sem hann hafði staðið í um ára­bil með sam­starfs­konu, og hann hefur aldrei viljað svara því skýrt til hversu mörg börn hann ætti, þar sem hann kann­ast ekki við öll þau sem honum eru kennd. 

En þrátt fyrir ýmsa bresti, er John­son með góða stjór­mála­greind, ein­stak­lega mælskur og orð­hepp­inn. Slær um sig með sögu­legum til­vitn­unum í forn­ald­ar­sögur og bók­mennt­irn­ar. Skrifar lipran texta og tekst öðrum betur að koma póli­tískum skoð­un­um, stefnu og slag­orð­um, í bún­ing sem fólk skil­ur, stundum með orða­lagi og aðferðum sem móðga heilu hópana og lýsa í það minnsta kæru­leys­is­legum for­dóm­um. Það sópar að honum þar sem hann kemur og gagn­vart mörgum hefur honum tek­ist að snúa breysk­leik­anum í styrk­leika og hefur nú komið sínum tak­marka­lausa metn­aði til verka. 

En þarna í vor var hann var mættur í fram­boðið sem hann hafði heykst á tveimur árum áður og rúll­aði því upp með yfir­burð­um, dyggi­lega studdur af hvítum og rosknum flokks­mönnum Íhalds­flokks­ins. Í lok júlí var hann svo orð­inn for­sæt­is­ráð­herra Bret­lands en hafði tak­mörkuð völd til að vinna með. Þing­meiri­hlut­inn var fjórir þing­menn. Fyrst missti hann tvo, svo þann þriðja og fjórða. Bróðir hans sagði af sér og þegar hópur íhalds­þing­manna greiddi atkvæði gegn rík­is­stjórn­inni, rak John­son tutt­ugu og einn úr þing­flokkn­um, þar á meðal nokkra helstu reynslu­bolt­ana, og loks gerði hann útaf við stuðn­ing sam­starfs­flokks­ins og missti tíu atkvæði til við­bót­ar. Eng­inn hefur misst stuðn­ing á þingi jafn hratt. Fylgi flokks­ins var við frost­mark í Evr­ópu­þing­kosn­ingum sum­ars­ins. Eng­inn for­sæt­is­ráð­herra hefur áður fengið jafn mörg mál felld fyrir sér í þing­inu í upp­hafi fer­ils. Og ekki var nóg með það, heldur dæmdi Hæsti­réttur að ekki hafi mátt rjúfa þing með þeim hætti sem hann gerði – gefið var til kynna að hinn nýi for­sæt­is­ráð­herra hefði platað sjálfa drottn­ing­una, hann þurfti að taka sitt haf­urtask og fljúga heim frá Sam­ein­uðu þjóð­unum og kalla þingið aftur sam­an. Þingið var á móti hon­um, nokkrir sterk­ustu þing­menn hans voru í upp­reisn, dóm­stól­arnir settu honum stól­inn fyrir dyrn­ar, drottn­ingin ósátt, og Brex­it-draum­ur­inn var að deyja. Yrði Boris John­son skamm­lífasti for­sæt­is­ráð­herra sög­unn­ar?

Mynd: EPA

III Mót­or­kross

En Boris var ekki enn af baki dott­inn og þar sem stjórn­ar­and­stæð­ing­um, stuðn­ings­mönnum áfram­hald­andi veru Bret­lands í Evr­ópu­sam­band­inu, og þeim sem vildu leyfa þjóð­inni að kjósa að nýju um útgöngu eða aðild, tókst ekki að stilla saman strengi, náði eng­inn tökum á atburða­rásinni. Ekki tókst að sam­ein­ast um að fella hinn boru­bratta Boris John­son úr sessi og koma öðrum í Down­ings­stræti 10 fram til kosn­inga sem nú urðu óhjá­kvæmi­lega í grennd. 

And­stæð­ingar John­sons van­mátu alla tíð að hann ætl­aði að ná sínu fram hvað sem það kost­aði. Meðan aðrir hurfu inn í frétta­hring­iðu dags­ins, stöð­una á sam­fé­lags­miðlum og leik­fléttur og klæki inni á þingi, var John­son með augun á bolt­an­um, sem var að klára Brexit og mæta til kosn­inga í sterkri stöðu, sem for­sæt­is­ráð­herra og sækja sér nýtt umboð með því að lofa hverju því sem þyrfti til að geta farið því fram sem hann hefur alltaf viljað – að vera for­sæt­is­ráð­herra. Allt yrði að víkja til að metn­að­inum yrði full­nægt. 

Við félaga sína í rík­is­stjórn sagði hann: Hafið þið prófað mót­or­kross. Nei sögðu þeir og skildu ekki spurn­ing­una. Ef þú hefur prófað mót­or­kross, sagði for­sæt­is­ráð­herrann, þá veistu að hjólið á bara eftir að hrist­ast meira og meira, og það eina sem þú getur gert, er að halda þér fast í stýrið og passa að detta ekki af þangað til þú kemst í mark. Og hann hót­aði að leggja allt í söl­urnar til að ganga út 31. októ­ber, jafn­vel þótt það þýddi að yfir­gefa ESB án samn­ings, með meiri­háttar röskun á milli­ríkja­við­skipt­um. Eng­inn vafi, ekk­ert hik. Þegar þingið sam­þykkti að aldrei mætti ganga út án samn­ings og for­sæt­is­ráð­herr­ann yrði að skrifa bréf til Evr­ópu, sagð­ist hann aldrei nokkurn tím­ann myndu gera það. Heldur myndi hann drep­ast úti í skurð­i... Og svo sendi hann bréf­ið. Og útgangan varð ekki 31. októ­ber, heldur var enn fram­lengt. Honum tókst að opna útgöngu­samn­ing­inn og breyta nokkrum atrið­um, losna við bakk­stoppið sem hefði kostað landa­mæri milli Írlands og Norð­ur­-Ír­lands og setti heldur tolla­landa­mæri í Írlands­haf­ið. Hann kom með nýja samn­ing­inn heim og til þings­ins, sem felldi hann enn og aft­ur. 

Nú tóku stjórn­ar­and­stöðu­flokk­arnir þá afdrifa­ríku ákvörð­un, að í lagi væri að láta undan Boris og ganga til kosn­inga fyrir jól. Það væri frost í þing­inu sem ein­ungis myndi þiðna með nýjum kosn­ing­um. Frjáls­lyndir demókratar voru fullir sjálfs­trausts eftir góðar Evr­ópu­þings­kosn­ingar og Skoski þjóð­ar­flokk­ur­inn vildi endi­lega hespa kosn­ingum af meðan flokk­ur­inn væri á hátindi vin­sælda og sam­keppn­is­flokkar í sárum, áður en að rétt­ar­höld yfir helsta for­ystu­manni þeirra um ára­bil, Alex Salmond hæfust nú í jan­úar fyrir kyn­ferð­is­brot. Verka­manna­flokk­ur­inn, sem hafði kallað eftir kosn­ingum mán­uðum sam­an, gekkst einnig inn á þetta eftir að hafa talið sig hafa tryggt sig gagn­vart því að ekki yrði hægt að ganga út úr ESB án samn­ings. 

Mynd: EPA

IV Þytur í laufi

Fyrst við höfum sótt okkur lík­ingar úr sjón­varps­efni frá árdaga lita­sjón­varps­ins, fangar eng­inn þáttur kosn­inga­bar­átt­una sem í hönd fór betur en Þytur í laufi, teikni­mynda­þætt­irnir upp úr vin­sælli barna­bók sem gerð­ist í fal­legri breskri sveit. Í kosn­ing­unum öttu kappi, hin hóg­væra og mein­lausa mold­varpa og hinn háværi, fjörugi frosk­ur. Á meðan Cor­byn reyndi að koma sínum mál­stað rólega á fram­færi, og vera ekki of afger­andi í málum þar sem fólk var að ríf­ast, gösl­að­ist Fúsi froskur áfram á sínum kappakst­urs­bíl eða keppn­is­hjóli, hann keyrði geyst og lenti úti í skurði, en lifði það af og þeyst­ist í mark, studdur af þeim sem hann sagði það sem þau vildu heyra.

Þrennt skipti meg­in­máli fyrir árangur Boris John­son og Íhalds­flokks­ins í kosn­ing­un­um. Að ryðja Brexit flokki Nigel Farage út úr mynd­inni, kaupa hann til samn­inga um að skipta ekki upp fylg­inu í þeim kjör­dæmum þar sem meiri­hluti var með útgöngu úr ESB. 

Í öðru lagi skipti það Boris John­son miklu að geta háð kosn­inga­bar­átt­una úr hárri stöðu, úr emb­ætti for­sæt­is­ráð­herr­ans sem valdið hefði, og í þriðja lagi virt­ist ekk­ert falla með stjórn­ar­and­stöðu­flokk­un­um. Verka­manna­flokk­ur­inn hrjáður af innri deilum með óvin­sælan for­mann og Frjáls­lyndir demókratar sem fundu engan veg­inn fjöl­ina. 

Hefðu þessir flokkar náð saman með ein­staka flótta­mönnum úr Íhalds­flokknum um að skipta ekki upp atkvæðum þeirra sem vildu tryggja áfram­hald­andi veru í Evr­ópu­sam­band­inu, sem er meiri­hluta­stuðn­ingur við í könn­un­um, hefðu úrslitin getað orðið tölu­vert önn­ur. Í það minnsta hefði dýnamíkin í kosn­inga­bar­átt­unni orðið önn­ur.

Mynd: Úr safni

V Nýtt lands­lag

Við stór­sigur Íhalds­flokks­ins 12. des­em­ber hefur póli­tíska landa­kortið á Bret­landseyjum gjör­breyst og spurn­ingin er hvort það sé var­an­legt. Flokk­ur­inn sigr­aði í kjör­dæmum þar sem hann hefur aldrei áður náð máli, ruddi burt vígi Verka­manna­flokks­ins frá mið­lönd­unum norður til Wales og austur til Grims­by. Mark­miðið tókst um að ná til Work­ington manns­ins, dæmi­gerðs kjós­anda í fátæk­ari héröðum í norðri þar sem áður fyrr var næg vinna fyrir ómenntað vinnu­afl en harð­ara á dalnum síð­ustu ára­tug­i. 

Lands­lagið snýst ekki um hægri og vinstri eins og áður heldur eru aðrir kraftar að störf­um. Hvað kjósa þeir sem eru bundnir átt­högum og ótt­ast breyt­ing­ar? Hvað eiga þeir sam­eig­in­legt með heims­borga­lega sinn­uðu ungu fólki í stór­borg­um? Bilið milli kjós­enda í borgum ann­ars vegar og bæjum hins veg­ar, hefur breikkað mikið og eini flokk­ur­inn sem náði að fanga þá strauma var Íhalds­flokk­ur­inn. 

Íhalds­flokkur Borisar John­sons, flokk­ur­inn sem hefur staðið fyrir aðhalds­stefnu í efna­hags­mál­um, skorið niður opin­bera þjón­ustu um allt land, birt­ist nú með stærstu útgjalda­lof­orð sem sést hafa. Hefð­bund­inn hægri flokkur sem lofar fyrst og fremst auknum rík­is­út­gjöldum og fjölgun opin­berra starfs­manna, er nýj­ung, og áskorun sem ný rík­is­stjórn verður að standa und­ir, ætli hún sér ekki að missa kjós­end­urna sem lof­uðu þeim atkvæð­um. Hvort það tekst í efna­hagslægð­inni sem óum­flýj­an­lega fylgir Brex­it, verður fram­tíðin að leiða í ljós. 

Brexit mun þýða högg fyrir þjón­ustu­grein­arnar sem hafa myndað meg­in­stoð atvinnu­lífs­ins að und­an­förnu. Brexit getur einnig kostað iðnað mikið sem hefur lifað á hnökra­lausum við­skiptum við önnur Evr­ópu­ríki. Það verður ekki hægt að eiga kök­una áfram eftir að hafa étið hana, hvað sem hinn tungulipri for­sæt­is­ráð­herra seg­ir. En það verður léttir fyrir Breta að koma Brexit sög­unni á næsta reit. En hvort kon­ung­dæmið helst sam­an, hvort friður ríki á Norður Írlandi, hvort inn­við­irnir styrk­ist í efna­hagslægð, það er önnur saga og meiri­háttar áskorun fyrir þjóð­ina sem hefur svo margt, hefur gert svo margt gott, en hefur kosið að snúa tafl­inu, sparka upp borð­inu og stokka spilin alveg upp á nýtt, fyrir mjög óvissa fram­tíð. 

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar