Mynd: EPA

Heilt ár á Hótel Tindastól

Brexit í fimm þáttum með óvæntum sveiflum og óvissum endi.

Varla hefur verið hægt að kveikja á fréttum þetta árið öðruvísi en að rekast á grænbólstraða bekkina í breska þinginu við bakka Thames. Saklausir sjónvarpsáhorfendur með áhuga á erlendum málefnum, hafa þurft að setja sig inn í einhverja dramatískustu sápuóperu seinni ára, Brexit, og reynt að átta sig á atburðarásinni, skilja hvað um er að vera og rýna hvað gerist næst. Fréttirnar fjalla um samning eða ekki samning, tollahlið og tryggingar, vantraust, afsagnir, tapaðar atkvæðagreiðslur og allrahanda uppnám. Að vera eða ekki vera í Evrópusambandinu – það hefur verið stóra spurningin.

Árinu lýkur svo með ævintýralegri endurkomu. Ljósfexti riddarinn, sem fyrir skemmstu lá næstum dauður úti í skurði, situr nú uppi með pálmann í höndunum, brothætt konungsríkið í fanginu og framtíðina á teikniborðinu. En líka ábyrgðina á herðunum. Hans villtustu draumar munu rætast snemma á næsta ári þegar Bretland gengur formlega úr Evrópusambandinu þótt enginn viti í raun hvað nákvæmlega tekur við. 

Ringlaðir pólitískir keppinautar sleikja sárin og reyna að skilja hvað í veröldinni hafi nú eiginlega gengið yfir. Fréttaskýrendur klóra sér í kollinum, sérfræðingar velta vöngum. En spurningunum er ei auðvelt að svara, frekar en hjá Ara um árið: Tekst að halda Stóra-Bretlandi saman? Verður áfram friður á Norður-Írlandi. Kjósa Skotar sjálfstæði? Hvernig samningur verður til milli Breta og ESB, og hvað mun það kosta breska hagkerfið? Hvaða hlutverk verður Bretum ætlað á heimssviðinu, eiga þeir sér viðreisnar von, eða hnígur sól hins gamla heimsveldis enn dýpra í sæinn? 


Árið 2019 í breskum stjórnmálum gæti verið leikrit eftir Shakespeare eða saga eftir Dickens, eða sjónvarpsþáttasería frá BBC, með ótal sveiflum og sögupersónum. En kannski er nærtækast að líkja þessu ári við grínþætti um vonlausa hóteleigendur við breska sólarströnd (!) frá því fyrir 40 árum. Þætti sem valdir hafa verið bestu bresku sjónvarpsþættir allra tíma og hétu á íslensku: Hótel Tindastóll.

Á Hótel Tindastóli var alltaf allt í klessu. Allt hið breskasta hlægilegt, þjóðareinkennin, matarhefðin, samskiptamynstrið. Stórveldisþóttinn, yfirlætið og hugmyndin um andlega yfirburði og sögulegt hlutverk. Í stað þess að Bretland og Bretar nytu virðingar sem heimsveldi og fyrirmynd í menningu og stjórnmálum – með móður allra þjóðþinga og allar sínar fornu og fallegu hefðir, drottningu og heiðursfólk – hefur þessi síðustu þrjú ár verið horft til Bretlands í forundran þar sem leiðtogar þjóðarinnar hafa fengið lýðræðislegt umboð til að rýra gæði, tapa mörkuðum, glata verðmætum og baka tjón. Einfaldar lausnir sem byggja á óttanum við hið ókunna, hugmyndum um heilagt fullveldi og fyrirlitningu á sérfræðingunum að sunnan hafa orðið ofaná. Rétt eins og Hótel Tindastóll hefur það verið skemmtilegt sjónvarp að fylgjast með sveiflunum, hrakförum og uppnámi, vandræðagangi og vitleysu, pólitískum andlátum og endurfæðingum.

Mynd: EPA

I Þið munið hana May? 

Fyrir ykkur sem eru búin að gleyma því, þá er rétt að minna á að í byrjun ársins og fram á sumar, var forsætisráðherra Bretlands kona að nafni Theresa May. Hún hafði unnið formannskjör í Íhaldsflokknum eftir Brexitkosningarnar 2016. Fyrst höfðu verið kallaðir til sögunnar forystumenn útgöngusinna, þeir Boris Johnson og Michael Gove en þeir rugluðust á tám eins og bræðurnir frá Bakka, og stungu hvorn annan svo illa í bakið að þeir lágu eftir óvígir og May sigldi hægfara í höfn. 

Theresa May var lúsiðin og samviskusöm, hollur flokksmaður frá unga aldri, og bætti upp það sem upp á skorti í kjörþokka og tilfinningagreind, með takmarkalausri seiglu, ákveðin í því að láta ekkert stöðva sig í að ná því fram sem hún taldi að hún hefði umboð til að vinna að, samningnum um Brexit og útgöngunni úr ESB. Hún stóð af sér vantraust flokksmanna og hrikalega þrautagöngu á landsfundi og þingsal, hóstaköst og hrakfarir, reis alltaf upp aftur og barðist áfram fyrir samningnum sem enginn annar vildi. 


Fleygustu orð hennar forsætisráðherratíðar voru „Brexit þýðir Brexit“ og „Enginn samningur er betri en vondur samningur“. Þessi snilld skilaði henni þó ekki lengra en efni stóðu til, og á endanum, eftir langt stríð, rakst hún á vegg þegar þingmenn í hennar eigin röðum töldu skárra að hafa engan samning en þann sem hún bar á borð, og engan formann frekar en hana. Eftir að hafa ítrekað þurft að þola þá lýðræðislegu niðurlægingu að þingið felldi mál sem hún lagði alla áherslu á að koma í gegn, þvarr hennar pólitíska innistæða. 

Evrópusambandið hafði séð aumur á ástandinu og samþykkt að framlengja útgöngufrestinn frá 29. mars eins og bundið hafði verið í lögum, fram til loka október. Breska þingið hafði þá tekið völdin af ríkisstjórninni og samþykkt að ekki væri heimilt fyrir stjórnina að yfirgefa Evrópusambandið án þess að fyrir lægi samningur. Stjórnin náði ekki samningi í gegn og allt var frosið fast. Engin útganga, enginn samningur, enginn forsætisráðherra, enginn þingmeirihluti, engin skýr framtíð.

Mynd: EPA

II Snögglega birtist, hann Boris

Þegar hér var komið sögu, vetri hafði hallað og vorið brosti við, birtist aftur á sviðinu, Alexander Boris de Pfeffel Johnson, alþýðlegur yfirstéttardrengur með ljósan makka og litríka sögu. Félagsmálatröll úr mesta forréttindaskóla landsins og ræðumeistari frá Oxford sem vandi sig snemma á að hafa hlutina eins og þeir betur hljómuðu. Ungur hafði hann verið rekinn af dagblaði fyrir að skálda ummæli eftir guðföður sinn í blaðagrein um fornleifar, hann var síðar rekinn sem skuggaráðherra menningar og lista fyrir að segja opinberlega ósatt til um framhjáhald sem hann hafði staðið í um árabil með samstarfskonu, og hann hefur aldrei viljað svara því skýrt til hversu mörg börn hann ætti, þar sem hann kannast ekki við öll þau sem honum eru kennd. 

En þrátt fyrir ýmsa bresti, er Johnson með góða stjórmálagreind, einstaklega mælskur og orðheppinn. Slær um sig með sögulegum tilvitnunum í fornaldarsögur og bókmenntirnar. Skrifar lipran texta og tekst öðrum betur að koma pólitískum skoðunum, stefnu og slagorðum, í búning sem fólk skilur, stundum með orðalagi og aðferðum sem móðga heilu hópana og lýsa í það minnsta kæruleysislegum fordómum. Það sópar að honum þar sem hann kemur og gagnvart mörgum hefur honum tekist að snúa breyskleikanum í styrkleika og hefur nú komið sínum takmarkalausa metnaði til verka. 

En þarna í vor var hann var mættur í framboðið sem hann hafði heykst á tveimur árum áður og rúllaði því upp með yfirburðum, dyggilega studdur af hvítum og rosknum flokksmönnum Íhaldsflokksins. Í lok júlí var hann svo orðinn forsætisráðherra Bretlands en hafði takmörkuð völd til að vinna með. Þingmeirihlutinn var fjórir þingmenn. Fyrst missti hann tvo, svo þann þriðja og fjórða. Bróðir hans sagði af sér og þegar hópur íhaldsþingmanna greiddi atkvæði gegn ríkisstjórninni, rak Johnson tuttugu og einn úr þingflokknum, þar á meðal nokkra helstu reynsluboltana, og loks gerði hann útaf við stuðning samstarfsflokksins og missti tíu atkvæði til viðbótar. Enginn hefur misst stuðning á þingi jafn hratt. Fylgi flokksins var við frostmark í Evrópuþingkosningum sumarsins. Enginn forsætisráðherra hefur áður fengið jafn mörg mál felld fyrir sér í þinginu í upphafi ferils. Og ekki var nóg með það, heldur dæmdi Hæstiréttur að ekki hafi mátt rjúfa þing með þeim hætti sem hann gerði – gefið var til kynna að hinn nýi forsætisráðherra hefði platað sjálfa drottninguna, hann þurfti að taka sitt hafurtask og fljúga heim frá Sameinuðu þjóðunum og kalla þingið aftur saman. Þingið var á móti honum, nokkrir sterkustu þingmenn hans voru í uppreisn, dómstólarnir settu honum stólinn fyrir dyrnar, drottningin ósátt, og Brexit-draumurinn var að deyja. Yrði Boris Johnson skammlífasti forsætisráðherra sögunnar?

Mynd: EPA

III Mótorkross

En Boris var ekki enn af baki dottinn og þar sem stjórnarandstæðingum, stuðningsmönnum áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu, og þeim sem vildu leyfa þjóðinni að kjósa að nýju um útgöngu eða aðild, tókst ekki að stilla saman strengi, náði enginn tökum á atburðarásinni. Ekki tókst að sameinast um að fella hinn borubratta Boris Johnson úr sessi og koma öðrum í Downingsstræti 10 fram til kosninga sem nú urðu óhjákvæmilega í grennd. 

Andstæðingar Johnsons vanmátu alla tíð að hann ætlaði að ná sínu fram hvað sem það kostaði. Meðan aðrir hurfu inn í fréttahringiðu dagsins, stöðuna á samfélagsmiðlum og leikfléttur og klæki inni á þingi, var Johnson með augun á boltanum, sem var að klára Brexit og mæta til kosninga í sterkri stöðu, sem forsætisráðherra og sækja sér nýtt umboð með því að lofa hverju því sem þyrfti til að geta farið því fram sem hann hefur alltaf viljað – að vera forsætisráðherra. Allt yrði að víkja til að metnaðinum yrði fullnægt. 

Við félaga sína í ríkisstjórn sagði hann: Hafið þið prófað mótorkross. Nei sögðu þeir og skildu ekki spurninguna. Ef þú hefur prófað mótorkross, sagði forsætisráðherrann, þá veistu að hjólið á bara eftir að hristast meira og meira, og það eina sem þú getur gert, er að halda þér fast í stýrið og passa að detta ekki af þangað til þú kemst í mark. 


Og hann hótaði að leggja allt í sölurnar til að ganga út 31. október, jafnvel þótt það þýddi að yfirgefa ESB án samnings, með meiriháttar röskun á milliríkjaviðskiptum. Enginn vafi, ekkert hik. Þegar þingið samþykkti að aldrei mætti ganga út án samnings og forsætisráðherrann yrði að skrifa bréf til Evrópu, sagðist hann aldrei nokkurn tímann myndu gera það. Heldur myndi hann drepast úti í skurði... Og svo sendi hann bréfið. Og útgangan varð ekki 31. október, heldur var enn framlengt. Honum tókst að opna útgöngusamninginn og breyta nokkrum atriðum, losna við bakkstoppið sem hefði kostað landamæri milli Írlands og Norður-Írlands og setti heldur tollalandamæri í Írlandshafið. Hann kom með nýja samninginn heim og til þingsins, sem felldi hann enn og aftur. 

Nú tóku stjórnarandstöðuflokkarnir þá afdrifaríku ákvörðun, að í lagi væri að láta undan Boris og ganga til kosninga fyrir jól. Það væri frost í þinginu sem einungis myndi þiðna með nýjum kosningum. Frjálslyndir demókratar voru fullir sjálfstrausts eftir góðar Evrópuþingskosningar og Skoski þjóðarflokkurinn vildi endilega hespa kosningum af meðan flokkurinn væri á hátindi vinsælda og samkeppnisflokkar í sárum, áður en að réttarhöld yfir helsta forystumanni þeirra um árabil, Alex Salmond hæfust nú í janúar fyrir kynferðisbrot. Verkamannaflokkurinn, sem hafði kallað eftir kosningum mánuðum saman, gekkst einnig inn á þetta eftir að hafa talið sig hafa tryggt sig gagnvart því að ekki yrði hægt að ganga út úr ESB án samnings. 

Mynd: EPA

IV Þytur í laufi

Fyrst við höfum sótt okkur líkingar úr sjónvarpsefni frá árdaga litasjónvarpsins, fangar enginn þáttur kosningabaráttuna sem í hönd fór betur en Þytur í laufi, teiknimyndaþættirnir upp úr vinsælli barnabók sem gerðist í fallegri breskri sveit. Í kosningunum öttu kappi, hin hógværa og meinlausa moldvarpa og hinn háværi, fjörugi froskur. Á meðan Corbyn reyndi að koma sínum málstað rólega á framfæri, og vera ekki of afgerandi í málum þar sem fólk var að rífast, göslaðist Fúsi froskur áfram á sínum kappakstursbíl eða keppnishjóli, hann keyrði geyst og lenti úti í skurði, en lifði það af og þeystist í mark, studdur af þeim sem hann sagði það sem þau vildu heyra.

Þrennt skipti meginmáli fyrir árangur Boris Johnson og Íhaldsflokksins í kosningunum. Að ryðja Brexit flokki Nigel Farage út úr myndinni, kaupa hann til samninga um að skipta ekki upp fylginu í þeim kjördæmum þar sem meirihluti var með útgöngu úr ESB. 

Í öðru lagi skipti það Boris Johnson miklu að geta háð kosningabaráttuna úr hárri stöðu, úr embætti forsætisráðherrans sem valdið hefði, og í þriðja lagi virtist ekkert falla með stjórnarandstöðuflokkunum. Verkamannaflokkurinn hrjáður af innri deilum með óvinsælan formann og Frjálslyndir demókratar sem fundu engan veginn fjölina. 

Hefðu þessir flokkar náð saman með einstaka flóttamönnum úr Íhaldsflokknum um að skipta ekki upp atkvæðum þeirra sem vildu tryggja áframhaldandi veru í Evrópusambandinu, sem er meirihlutastuðningur við í könnunum, hefðu úrslitin getað orðið töluvert önnur. Í það minnsta hefði dýnamíkin í kosningabaráttunni orðið önnur.

Mynd: Úr safni

V Nýtt landslag

Við stórsigur Íhaldsflokksins 12. desember hefur pólitíska landakortið á Bretlandseyjum gjörbreyst og spurningin er hvort það sé varanlegt. Flokkurinn sigraði í kjördæmum þar sem hann hefur aldrei áður náð máli, ruddi burt vígi Verkamannaflokksins frá miðlöndunum norður til Wales og austur til Grimsby. Markmiðið tókst um að ná til Workington mannsins, dæmigerðs kjósanda í fátækari héröðum í norðri þar sem áður fyrr var næg vinna fyrir ómenntað vinnuafl en harðara á dalnum síðustu áratugi. 

Landslagið snýst ekki um hægri og vinstri eins og áður heldur eru aðrir kraftar að störfum. Hvað kjósa þeir sem eru bundnir átthögum og óttast breytingar? Hvað eiga þeir sameiginlegt með heimsborgalega sinnuðu ungu fólki í stórborgum? Bilið milli kjósenda í borgum annars vegar og bæjum hins vegar, hefur breikkað mikið og eini flokkurinn sem náði að fanga þá strauma var Íhaldsflokkurinn. 

Íhaldsflokkur Borisar Johnsons, flokkurinn sem hefur staðið fyrir aðhaldsstefnu í efnahagsmálum, skorið niður opinbera þjónustu um allt land, birtist nú með stærstu útgjaldaloforð sem sést hafa. Hefðbundinn hægri flokkur sem lofar fyrst og fremst auknum ríkisútgjöldum og fjölgun opinberra starfsmanna, er nýjung, og áskorun sem ný ríkisstjórn verður að standa undir, ætli hún sér ekki að missa kjósendurna sem lofuðu þeim atkvæðum. Hvort það tekst í efnahagslægðinni sem óumflýjanlega fylgir Brexit, verður framtíðin að leiða í ljós. 

Brexit mun þýða högg fyrir þjónustugreinarnar sem hafa myndað meginstoð atvinnulífsins að undanförnu. Brexit getur einnig kostað iðnað mikið sem hefur lifað á hnökralausum viðskiptum við önnur Evrópuríki. Það verður ekki hægt að eiga kökuna áfram eftir að hafa étið hana, hvað sem hinn tungulipri forsætisráðherra segir. En það verður léttir fyrir Breta að koma Brexit sögunni á næsta reit. En hvort konungdæmið helst saman, hvort friður ríki á Norður Írlandi, hvort innviðirnir styrkist í efnahagslægð, það er önnur saga og meiriháttar áskorun fyrir þjóðina sem hefur svo margt, hefur gert svo margt gott, en hefur kosið að snúa taflinu, sparka upp borðinu og stokka spilin alveg upp á nýtt, fyrir mjög óvissa framtíð. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar