Réttast að senda pöndubirnina heim

Upplýsingar um fund kínverska sendiherrans í Danmörku með færeyskum ráðamönnum um fjarskiptasamning hafa valdið fjaðrafoki í Færeyjum og meðal danskra þingmanna. Sendiherrann neitar að reyna að beita Færeyinga þrýstingi.

Færeyski fáninn
Auglýsing

Fyrir hálfum mánuði ætlaði færeyska sjónvarpið, Kringvarp Føroya að senda út frétt um fund sem haldinn var í Þórshöfn 11. nóvember sl. en lögbann var sett á útsendingu fréttarinnar, að kröfu færeysku landsstjórnarinnar. 

Mikil leynd hvíldi yfir fundi þessum en hann sátu Feng Tie, sendiherra Kína í Danmörku, Bárður Nielsen, lögmaður Færeyja, Jørgen Niclasen, fjármálaráðherra færeysku landstjórnarinnar og einn ráðuneytisstjóri. Sendiherrann hafði óskað eftir fundinum og gagngert komið til Þórshafnar af því tilefni. 

Nokkrum dögum seinna komust fréttamenn Kringvarpsins á snoðir um fund þennan, fyrir tilviljun. Út af fyrir sig er það hvorki óleyfilegt né óeðlilegt að sendiherrann hitti færeyska ráðamenn en það var fundarefnið sem valdið hefur uppnámi í Færeyjum og Danmörku. 

Auglýsing

Lögbannið og hótun sendiherrans

Eins og áður var nefnt var það færeyska landstjórnin sem krafðist lögbannsins. Lögum samkvæmt fór lögbannskrafan fyrir dómara sem staðfesti að lögbannið stæði þangað til dæmt verði í málinu, sá málarekstur getur tekið nokkra mánuði. 

Þrátt fyrir lögbannið hefur innihald fréttarinnar lekið út. Færeyskir og danskir fjölmiðlar hafa birt orðrétt samtal yfirmanns ráðuneytis utanríkismála í Færeyjum og færeyska utanríkisráðherrans, þar sem sá fyrrnefndi greindi ráðherranum frá „leynifundinum“. Hvorugur vissi að samtalið væri tekið upp, og reyndar vissi fréttamaður sjónvarpsins ekki um upptökuna fyrr en eftir á. 

Samkvæmt frásögn ráðuneytisstjórans, sem var viðstaddur „leynifundinn“, greindi kínverski sendiherrann lögmanninum og fjármálaráðherranum frá því að samningur færeyska símafélagsins, Føroya Tele við kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei myndi opna „allar dyr“ varðandi viðskiptasamning (frihandelsaftale) Færeyja og Kína. Ráðuneytisstjórinn sagði að ekki hefði farið á milli mála að í orðum sendiherrans hefði falist hótun. Hótun um að ef ekki yrði samið við Huawei um lagningu 5G háhraðanets í Færeyjum yrði ekki gerður viðskiptasamningur milli þjóðanna. Það var þessi frásögn ráðuneytisstjórans sem færeyska sjónvarpið ætlaði að greina frá. Fréttaþulurinn sagði frá lögbanninu í upphafi fréttatímans, en ekki efni fréttarinnar. 

Hér er rétt að geta þess að lagning 5G háhraðanets stendur fyrir dyrum í Færeyjum en Huawei annaðist bæði uppsetningu og rekstur 4G netsins sem 5G á að leysa af hólmi. Færeyingar hafa árum saman unnið að því að ná sérstökum viðskiptasamningi við Kína og hann yrði þeim mjög mikilvægur, ekki síst vegna útflutnings á laxi.

Kínverski sendiherrann neitar hótunum 

Í tölvupósti frá Feng Tie sendiherra til fréttastofu danska útvarpsins neitar hann algjörlega að hafa haft uppi hótanir á fundi sínum með færeyskum ráðmönnum. Fundurinn hafi snúist um samskipti landanna. Bárður Nielsen lögmaður Færeyja, sem sat „leynifundinn“ segist ekki hafa túlkað orð sendiherrans sem hótun. Sendiherrann segir ennfremur í tölvupóstinum að ásakanir um hótanir megi rekja til Bandaríkjamanna. 

Þar vísar hann til viðtala og greinaskrifa bandaríska sendiherrans í Danmörku. Carla Sands sendiherra hefur í viðtölum og blaðagreinum lýst áhyggjum vegna hugsanlegs fjarskiptasamnings Færeyinga við Huawei. Fyrirtækinu, eins og öllum kínverskum fyrirtækjum, sé skylt að hlýða fyrirskipunum kínverskra stjórnvalda. Færeyskir þingmenn hafa, sumir hverjir, túlkað orð sendiherrans sem hótun og íhlutun í færeysk málefni. Færeyska landsstjórnin hefur lagt áherslu á að allar ákvarðanir varðandi 5G háhraðanetið sé í höndum færeyska símafélagsins. 

Þingmenn ósáttir við afskipti kínverska sendiherrans

Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmörku. Mynd:EPA.Fréttirnar af „leynifundinum“ hafa ekki farið framhjá dönskum þingmönnum. Málið var rætt á fundi utanríkismálanefndar danska þingsins, Folketinget sl. fimmtudag. Jeppe Kofod utanríkisráðherra sagði þar að ákvörðun um 5G háhraðanetið væri algjörlega í höndum Færeyinga sjálfra. Lars Løkke Rasmussen fyrrverandi forsætisráðherra, sem á sæti í nefndinni, sagði í viðtali að hugsanlegur samningur við Huawei um 5G háhraðanet í Færeyjum, sé ekki bara venjulegur viðskiptasamningur „við erum ekki að tala um samning um innkaup a gúmmískóm“. 5G geti snúist um öryggis- og varnarmál og þess vegna geti danska ríkisstjórnin ekki yppt öxlum og sagt að þetta sé einkamál Færeyinga. 

Fleiri nefndarmenn töluðu á svipuðum nótum og sögðust telja samning um 5G flokkast undir utanríkis- og varnarmál og þar með væri það ekki einkamál Færeyinga. Naser Khader þingmaður Íhaldsflokksins sagði ríka ástæðu til að hafa áhyggjur af hótunum sendiherrans og benti í því sambandi á Afríku þar sem Kínverjar notað yfirburði til að ná sínu fram. Søren Espersen talsmaður Danska þjóðarflokksins í utanríkismálum segir að ekki þurfi að velkjast í vafa um hvað kínverski sendiherrann meinti með orðum sínum. 

„Þetta er þrýstingur frá Kínverjum og það er ekki í fyrsta skipti sem þeir blanda saman viðskiptum og pólitík“. Og bætti við „við eigum ekki að láta hótanir frá kommúnista Kína yfir okkur ganga, réttast væri að skila þeim pöndunum sem þeir lánuðu okkur“. Þarna vísaði þingmaðurinn til tveggja panda sem Kínverjar lánuðu Dýragarðinum í Kaupmannahöfn en pöndurnar komu til Danmerkur í apríl á þessu ári. Søren Espersen gagnrýndi á sínum tíma þennan „vináttuvott“ eins og hann kallaði lánið á pöndunum. „Það að Kínverjar láni Dönum pöndurnar merkir að Danir hafi samþykkt utanríkisstefnu Kínverja“ sagði þingmaðurinn.

Ekki er ljóst hvenær ákveðið verður hvaða fyrirtæki mun annast uppsetningu og rekstur 5G háhraðanetsins í Færeyjum. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Lífskjarasamningurinn leiðir launaþróun en ekki opinberir starfsmenn
Kjarninn 6. maí 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir
Vonandi hægt að aflétta nokkuð hratt á næstu vikum
Helsta áskorunin í faraldrinum nú er sá fjöldi ferðamanna sem hingað er að koma sem er umfram spár. Breyta gæti þurft fyrirkomulagi á landamærum því heildargeta til skimunar takmarkast við 3-4.000 sýni á dag.
Kjarninn 6. maí 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 36. þáttur: Nunnusjóguninn II
Kjarninn 6. maí 2021
Deilan snýst um verksamning á milli ÍAV og 105 Miðborgar um fyrstu þrjú húsin sem eru þegar risin á reitnum í Laugarnesi. Hér má sjá tölvuteikningu af því hvernig áformað er að svæðið líti út í framtíðinni.
ÍAV stefna og setja fram 3,8 milljarða kröfur vegna deilu á Kirkjusandsreit
Íslenskir aðalverktakar eru búnir að stefna Íslandssjóðum og félaginu 105 Miðborg til greiðslu 3,8 milljarða króna vegna deilu um verksamning á Kirkjusandsreit. Verktakafyrirtækið missti verkið í febrúarmánuði.
Kjarninn 6. maí 2021
Andrés Ingi Jónsson
Þegar Tyrkir þjörmuðu að þingmönnum
Kjarninn 6. maí 2021
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.
Síldarvinnslan einnig í vandræðum með tæknilegu hliðina á aðalfundi SFS
Mistök urðu þess valdandi að Síldarvinnslan náði ekki að greiða atkvæði í kjöri til stjórnar SFS á aðalfundi á föstudaginn. Tillaga um að greiða atkvæði á ný var þó samþykkt í kjölfarið, en þá lentu Samherji og Nesfiskur í svipuðum vandræðum.
Kjarninn 6. maí 2021
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í dómsal í dag.
„Hér er ekki um leikaraskap, slysni eða eitthvað grín að ræða“
Það er mat ákæruvaldsins að Marek sé ekki að segja nákvæmlega allt sem hann muni frá deginum sem bruninn á Bræðraborgarstíg varð. Verjandi fer fram á að ef hann verði fundinn sekur og ósakhæfur verði hann ekki dæmdur til öryggisgæslu.
Kjarninn 5. maí 2021
Birna Einarsdóttir bankastjóri segir ljóst að spennandi tímar séu framundan, vegna fyrirhugaðrar sölu ríkisins á hluta af hlut sínum í Íslandsbanka.
Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða á fyrsta ársfjórðungi
Eigið fé Íslandsbanka nam 185 milljörðum króna í lok mars. Bankastjórinn segir spennandi tíma framundan, í ljósi þess að stefnt sé að skráningu bankans á verðbréfamarkað að undangengnu útboði á hluta af hlut ríkisins í honum.
Kjarninn 5. maí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar