Samanlagður kostnaður vegna aksturs þingmanna var 28,9 milljónir króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2019. Þar er um að ræða kostnað vegna aksturs eigin bifreiða, kostnað vegna bílaleigubíla sem Alþingi greiðir fyrir þingmenn og kostnað vegna eldsneytis, aðgengiskostnaðar í jarðgöng og leigubíla.
Allt árið 2018 var kostnaðurinn 30,7 milljónir króna. Það stefnir því í að kostnaður vegna aksturs þingmanna verði meiri í fyrra í krónum talið en hann var árið 2018.
Á milli október og nóvembermánaðar jókst kostnaðurinn um 4,1 milljón króna. Einn þingmaður, Ásmundur Friðriksson, er með tæplega fjögurra milljóna króna aksturskostnað og þrír til: Vilhjálmur Árnason, Birgir Þórarinsson og Haraldur Benediktsson er með aksturskostnað yfir tveimur milljónum króna frá byrjun árs 2019 og út nóvembermánuð sama ár.
Þetta má sjá í tölum um greiðslur til þingmanna sem birtar eru á vef Alþingis.
Upplýsingar óaðgengilegar árum saman
Árum saman tíðkaðist það á meðal þingmanna að fá endurgreitt svokallað akstursgjald vegna notkunar á eigin bifreið. Það er greitt samkvæmt akstursdagbók þar sem þingmenn halda utan um allan akstur á sínum eigin bifreiðum. Ferðakostnaðarnefnd, sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, ákveður aksturgjald í aksturssamningum ríkisstarfsmanna og ríkisstofnana. Gjaldið skiptist í almennt gjald, sérstakt gjald og svokallað torfærugjald. Almenna gjaldið á við akstur á malbikuðum vegum innanbæjar og utan, sérstaka gjaldið á við akstur á malarvegum utanbæjar og torfærugjaldið miðast við akstur við sérstaklega erfiðar aðstæður, gjarnan utan vega og einungis jeppafært.
Fjölmiðlar reyndu árum saman reynt fá upplýsingar um hvaða þingmenn fengu endurgreiðslu vegna aksturs, en án árangurs. Á því varð breyting í upphafi árs 2018 þegar það var fyrst gert opinbert. Greiðslurnar reyndust afar háar og ollu mikilli reiði í samfélaginu.
Nota miklu frekar bílaleigubíla
Á árinu 2018, sem var það fyrsta eftir að greiðslur til þingmanna voru gerðar opinberar, stökk kostnaður vegna bílaleigubíla upp í 19,3 milljónir króna samhliða því að kostnaður vegna notkunar eigin bifreiða dróst verulega saman. Á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs var kostnaður vegna bílaleigubíla aðeins meiri en allt árið 2018, eða um 20 milljónir króna.
Til viðbótar bætist endurgreiðanlegur kostnaður vegna eldsneytiskostnaðar, jarðganga sem kostar að fara í gengum og leigubíla. Alls nam sá kostnaður 2,9 milljónum króna á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs, sem er aðeins minna en allt árið 2018, þegar hann var 3,1 milljónir króna.
Heildarkostnaður vegna aksturs þingmanna hefur dregist verulega saman frá því að ákveðið var að birta yfirlit um hvað hver þeirra fær endurgreitt vegna keyrslu.
Árið 2013, sem var kosningaár, var hann til að mynda 59,8 milljónir króna og ári síðar 51,5 milljónir króna. Kjarninn hefur áður sýnt fram á að aksturskostnaður þingmanna eykst til muna á kosningaárum, sem bendir til þess að hluti þeirra sé að krefjast endurgreiðslu vegna aksturs sem farinn er í prófkjörs- eða kosningabaráttu.
Ásmundur í sérflokki
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, er sem fyrr sá þingmaður sem kostar skattgreiðendur mest vegna aksturs. Ásmundur er hættur að nota eigin bifreið í vinnunni, og fá endurgreiddan kostnað vegna þess, en leigði þess í stað bílaleigubíla fyrir um þrjár milljónir króna á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs og fékk tæplega 700 þúsund krónur endurgreiddar vegna eldsneytiskaupa. Þetta er 48 prósent aukning á kostnaði vegna aksturs Ásmundar milli ára, þótt að desember 2019 vanti enn inn í tölurnar frá því í fyrra.
Frá 2013 og út árið 2017 námu endurgreiðslur til Ásmundar alls 23,5 milljónum króna vegna notkunar hans á eigin bifreið, en hann sætti mikilli gagnrýni þegar tölurnar voru opinberaðar í upphafi árs 2018. Því hafa endurgreiðslur til Ásmundar vegna aksturs verið 29,7 milljónir króna frá því að hann var kjörinn á þing vorið 2013 og fram til loka nóvembermánaðar 2019.
Tólf þingmenn keyrðu fyrir meira en milljón
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, er með næst mesta heildarkostnaðinn, en alls keyrði hann eigin bíl, bílaleigubíl og tók eldsneyti fyrir um 2,5 milljónir króna. Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi, fylgir fast á hæla þeirra með aksturskostnað upp á tæpar 2,5 milljónir króna á tímabilinu. Haraldur Benediktsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í Norðvesturkjördæmi, er svo með aksturskostnað upp á 2,2 milljónir króna. Þessir fjórir þingmenn eru þeir einu sem ná að vera með aksturkostnað sem er yfir tveimur milljónum króna.
Tólf þingmenn fengu meira en milljón krónur greiddar í aksturskostnað:
- Ásmundur Friðriksson 3,7 milljónir króna
- Vilhjálmur Árnason 2,5 milljónir króna
- Birgir Þórarinsson 2,5 milljónir króna
- Haraldur Benediktsson 2,2 milljónir króna
- Guðjón S. Brjánsson 1,7 milljónir króna
- Sigurður Páll Jónsson 1,7 milljónir króna
- Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir 1,6 milljónir króna
- Lilja Rafney Magnúsdóttir 1,3 milljónir króna
- Líneik Anna Sævarsdóttir 1,2 milljónir króna
- Páll Magnússon 1,1 milljónir króna
- Halla Signý Kristjánsdóttir 1,0 milljón króna
- Albertína Friðbjörg Elíasdóttir 1,0 milljón króna
Alls fór því 21,5 milljónir króna af þeim 28,9 milljónum króna sem akstur þingmanna kostaði skattgreiðendur á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs til ofangreindra tólf þingmanna, eða um 74 prósent af öllum akstursgreiðslum. Umræddir þingmenn eru 19 prósent allra þingmanna.
Eðlisbreyting á notkun eigin bifreiða
Akstur á eigin bifreiðum hefur, líkt og áður sagði, dregist verulega saman á síðustu árum, eftir að ákveðið var að opinbera hver kostnaður vegna hans var í upphafi árs 2018. Á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs fengu þingmenn rúmlega sex milljónir króna vegna notkunar á eigin bifreiðum. Sú upphæð var 8,4 milljónir króna 2018 en 29,6 milljónir króna árið 2017. Því hefur orðið algjör eðlisbreyting á endurgreiðslu kostnaðar til þingmanna vegna notkunar á eigin bifreiðum.
Í raun eru það bara sex þingmenn sem virðast nota eigin bifreið af miklum þrótti og fá endurgreiddan kostnað vegna þessa frá þinginu. Fremstur í flokki fer Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi, sem féll alls rúmlega eina milljón króna endurgreiddar vegna notkunar á eigin bifreið á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2019. Samflokksmaður hans Vilhjálmur Árnason hefur fengið rétt tæplega milljón króna endurgreiddar vegna notkunar á eigin bifreið frá byrjun síðasta árs og út nóvembermánuð. Vilhjálmur notar bílaleigubíla einnig af miklum móð sem skilar því að heildaraksturskostnaður vegna hans er mun hærri en Páls, sem er með mjög lítinn bílaleigukostnað.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, kemur þar á eftir með tæplega 900 þúsund krónur í endurgreiðslur vegna notkunar á eigin bifreið, Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hafði fengið 637 þúsund krónur í nóvemberlok, og Miðflokksmennirnir Karl Gauti Hjaltason (621 þúsund krónur) og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (508 þúsund krónur) komu þar næst. Þessir fjórir þingmenn eiga það sameiginlegt að notast lítið eða ekkert við bílaleigubíla.
Ofangreindir sex þingmenn sem keyra mest á eigin bifreiðum, og eru 9,5 prósent af öllum þingmönnum, fá 77,5 prósent af öllum endurgreiðslum sem Alþingi greiðir vegna notkunar á eigin bifreið.