Sitjandi ríkisstjórn væri kolfallinn, einu tölulegu mögulega þriggja flokka ríkisstjórnirnar sem væri hægt að mynda ganga ekki upp í raunveruleikanum og hægt væri að mynda ríkisstjórn þeirra flokka sem stýra málum í Reykjavík sem hefði þægilegan meirihluta en minnihluta atkvæða á bak við sig.
Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýjustu könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokka sem byggir á svörum 2.057 einstaklinga 28 ára og eldri. Könnunin var framkvæmd daganna 3. til 13. janúar 2020.
Allar líkur eru á því að kosið verði næst vorið 2021, eða eftir rúmt ár. Verði það niðurstaðan má búast við því að eiginleg kosningabarátta hefjist að einhverju leyti síðar á þessu ári, og að þeir flokkar sem ætla að boða til prófkjöra haldi þau jafnvel fyrir lok þess.
Allir ríkisstjórnarflokkarnir tapa fylgi
Samkvæmt henni væri Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkur landsins með 20,3 prósent fylgi ef kosið yrði í dag. Það myndi þýða að flokkurinn fengi fimmtungi minna fylgi en hann fékk í síðustu kosningum. Hinir ríkisstjórnarflokkarnir tveir tapa líka umtalsverðu fylgi. Rúmlega þriðji hver kjósandi hefur yfirgefið flokk forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, Vinstri græn, og hann mælist nú með 11,1 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn hefur tapað tæplega fjórða hverjum kjósanda og mælist með 8,2 prósent fylgi. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna nær ekki 40 prósentum samkvæmt könnuninni, en þeir fengu alls 52,8 prósent í kosningunum í októberlok 2017.
Þeir þrír flokkar sem eru í stjórnarandstöðu og starfa nú saman í meirihluta í Reykjavík myndu fá samtals 38,3 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag, eða 10,3 prósentustigum meira en haustið 2017. Þegar Miðflokknum er bætt við mælist fylgi þeirra fjögurra stjórnarandstöðuflokka sem mælast nú með kjördæmakjörna þingmenn með 51,2 prósent stuðning.
Dauðu atkvæðin gætu ráðið úrslitum
Alls gætu 8,1 prósent atkvæða fallið niður dauð ef niðurstaða kosninga yrði eins og nýjasta könnun MMR gerir ráð fyrir. Það eru atkvæði sem myndu falla til Sósíalistaflokks Íslands (4,1 prósent), Flokks fólksins (3,5 prósent) og fara í „annað“ (0,5 prósent).
Það myndi þýða að sitjandi ríkisstjórn væri fallinn, enda næði fengi hún undir 40 prósent atkvæða ef kosið væri í dag. Það myndi einungis skila Sjálfstæðisflokki (14 þingmenn), Vinstri grænum (átta þingmenn) og Framsóknarflokki (sex þingmenn) 28 þingmönnum, sem er ansi langt frá 32 manna lágmarksmeirihlutanum.
Slík staða myndi gera það að verkum að hægt þeir flokkar sem mynda meirihlutann í Reykjavíkurborg, Samfylking (ellefu þingmenn), Píratar (átta þingmenn), Viðreisn (sjö þingmenn) og Vinstri græn (átta þingmenn), myndu að óbreyttu geta myndað rúman 34 manna meirihluta. Aðrir flokkar á þingi myndu þá fá 29 þingmenn. Slík ríkisstjórn myndu samt sem áður ekki njóta stuðnings meirihluta landsmanna þar sem sameiginlegt fylgi flokkanna fjögurra væru 49,4 prósent.
Það væri einnig hægt að mynda 33 manna meirihluta með því að skipta Viðreisn út fyrir Framsóknarflokkinn eða 32 manna meirihluta ef Framsókn tæki sæti Vinstri grænna við borðið.
Ef vilji væri til að mynda ríkisstjórn á hægri ás stjórnmálanna myndi þurfa til fjóra flokka líka. Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur (níu þingmenn) og Viðreisn næðu einungis 30 þingmönnum og þyrfti Framsóknarflokkinn til að ná meirihluta upp á 36 þingmenn.
Eini möguleikinn til að mynda þriggja flokka meirihlutastjórn væri ef að tveir stærstu flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, myndu ná saman og taka einn af Miðflokki, Vinstri grænum, Pirötum eða Viðreisn með sér.