Samkvæmt umfjöllun Simple Flying þá er fyrirtækið að reyna að útvega 10 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 1.250 milljörðum króna, til að takast á við aukinn kostnað vegna kyrrsetningar og framleiðslustoppi á 737 Max vélum félagsins.
Búið að hækka bótafjárhæðina
Boeing hafði gefið það út, að félagið væri búið að taka til hliðar samtals 4,9 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 600 milljörðum króna, til að mæta kostnaði viðskiptavina félagsins, þar á meðal flugfélaga og birgja sem framleiða ýmsa aukahluti, en nú er sú upphæð komin í 6,1 milljarða Bandaríkjadala.
Boeing hefur þegar samið við nokkur flugfélög um bætur, þar á meðal við eitt stærsta flugfélag heims, Turkish Airlines.
Margir lausar endar eru þó eftir ennþá, og ekki ljóst í mörgum tilvikum hvernig gengið verður frá samningum um bætur, enda hafa vandamálin hjá Boeing verið að hrannast upp að undanförnu, meðal annars vegna upplýsinga sem Bandaríkjaþing hefur dregið fram í dagsljósið við rannsókn sína á sambandi bandarískra flugmálayfirvalda (FAA) og Boeing.
An expert study that was never made public found that Boeing bore significant responsibility for a deadly 737 crash in 2009. Our review of the evidence reveals striking parallels with recent 737 Max crashes. https://t.co/ajEkhSsDPJ
— The New York Times (@nytimes) January 20, 2020
Mikil áhrif á Íslandi
Kyrrsetning á Max vélunum hefur mikil áhrif á Íslandi, og eru efnahagsleg áhrif á landið - sem birtast í minna sætaframboði til landsins og minni umsvifum í ferðaþjónustu - verulega mikil.
Icelandair reiknar ekki með Max vélunum á háannatímanum í ferðaþjónustu næsta sumar, en telur að áhrifin af því verði óveruleg. Tilkynningin kom fram um þetta skömmu eftir miðnætti, en Boeing tilkynnti um það í gær að ólíklegt væri að Max vélarnar færu í loftið fyrr en í fyrsta lagi í júní eða júlí.
Alþjóðleg kyrrsetning á Max vélunum hefur verið í gildi frá því í lok mars, en flugmálayfirvöld um allan heim gripu til hennar eftir að Max vél hrapaði í Eþíópíu, 13. mars, með þeim afleiðingum að allir um borð létust. Skömmu áður, 29. október, hrapaði Max vél í Indónesíu og allir um borð létust þar líka, samtals 346 í slysunum tveimur.
Þegar er horft er til baka, til ársins 2019, þá er óhætt að segja að marsmánuður hafi verið afdrifaríkur og dramtískur, fyrir íslenskt atvinnulíf.
Með falli WOW air og kyrrsetningunni á Max vélunum, með nokkurra vikna millibili, þá kúventist staðan í íslensku efnahagslífi og einu kröftugasta hagvaxtarskeiði í hagsögu þjóðarinnar, á árunum 2011 til 2018, lauk. Hagvöxtur var á bilinu 3,5 til 6 prósent á ári á fyrrnefndu tímabili, en spár gera nú ráð fyrir að hann verði á bilinu 0 til 2 prósent á næstu misserum. Hægagangur er tekinn við.
🇺🇸 US President Trump calls Boeing a "big, big disappointment".
— air plus news (english) (@airplusnews_EN) January 22, 2020
Via AFP pic.twitter.com/23Kkqgo1Uj
Sökin liggur hjá Boeing
Rannsóknarnefndir í Indónesíu og Eþíópíu hafa komist að því, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum, að sökin á slysunum liggi hjá Boeing, vegna galla í vélunum. Þar beinast spjótin meðal annars að MCAS-kerfi í vélunum, sem á að sporna gegn ofrisi.
Boeing er kerfislægt mikilvægt fyrirtæki fyrir heimsbyggðina, þar sem það hefur áratugum saman verið stærsti framleiðandi flugvéla í heiminum. Eftir erfiðleikaár félagsins í fyrra, þá komst Airbus fram úr Boeing sem stærsti framleiðandi flugvéla í heiminum.
Heildartekjur Boeing árið 2018 námu 101,1 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 12.600 milljörðum króna. Markaðsvirði félagsins hefur farið lækkandi undanfarin misseri og er nú 176 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 22 þúsund milljörðum króna. Einn stærsti viðskiptavinur félagsins hefur í gegnum tíðina verið bandaríska ríkið, í gegnum fjölmörg verkefni sem Boeing hefur unnið fyrir Bandaríkjaher.