Krónan fyrir hrun: Vopn gegn almenningi
Íslenska krónan, gagn hennar og lestir, er eitt helstu þrætuepli íslenskrar þjóðar. Frá aldarmótum hafa farið fram þrjár mismunandi tilraunir í að stýra henni þannig að gagnsemi krónunnar sé sem mest, en að lestir þessa örgjaldmiðils láti sem minnst á sér kræla. Þessar tilraunir hafa gengið misjafnlega. Næstu þrjá daga mun Kjarninn fjalla um þær. Í dag verður tímabilið frá árinu 2001 og fram yfir hrun greint.
Íslensku krónunni var fleytt í marsmánuði 2001. Þegar það er gert þá ræðst virði hennar á því hversu mikið markaðsaðilar eru tilbúnir að borga fyrir hana í erlendri mynt, á hverjum tíma. Það þýddi að fyrri fastgengisstefna, um að halda henni innan ákveðina marka, var yfirgefin. Ráðist var í þessa peningastefnulegu tilraun á sama tíma og Ísland var að opnast verulega hratt, sérstaklega fyrir fjármagnsflutningum. Það gerðist meðal annars samhliða því að íslensku viðskiptabankarnir voru einkavæddir og hófu síðan útrás inn á aðra markaði með fulla vasa af ódýra lánsfjármagni sem há lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins gerði þeim kleift að nálgast.
Afleiðingin af þessari tilraun varð sú að viðskiptajöfnuður var verulega neikvæður árum saman (verðmæti útflutningsvara og þjónustu var miklu minna en verðmæti varnings sem var fluttur til landsins, aðallega vegna þess að það streymdi svo mikið erlent lánsfjármagn inn) og spákaupmenn gátu „spilað“ á krónuna í svokölluðum vaxtamunaviðskiptum.
Í einföldu máli snérust þau viðskipti um að erlendir fjárfestar tóku lán í myntum þar sem vextir voru lágir og keyptu síðan íslensk skuldabréf, vegna þess að vextir á þeim eru háir í öllum alþjóðlegum samanburði. Því gátu fjárfestarnir hagnast vel umfram þann kostnað sem þeir báru af lántöku sinnar. Og ef þeir voru að gera viðskipti með eigin fé þá gátu þeir auðvitað hagnast enn meira.
Þessi vaxtamunaviðskipti áttu stóran þátt í að blása upp þá bólu sem sprakk á Íslandi haustið 2008. Það erlenda fé sem leitaði í íslenska skuldabréfaflokka var endurlánað til viðskiptavina íslensku bankanna og við það stækkaði umfang þeirra gríðarlega. Við hrun, þegar setja þurfti fjármagnshöft á til að hindra útflæði gjaldeyris, voru vaxtamunafjárfestingar vel á sjöunda hundrað milljarða króna.
Allt ofangreint olli Íslandi, og íslensku samfélagi, stórskaða. Til að takast á við þá stöðu þurfti að setja fordæmalaus neyðarlög, sem breyttu kröfuhafaröð eftir á og ekkert lá í raun fyrir í upphafi að myndu halda, og fylgja þeim svo eftir með uppsetningu fjármagnshafta, sem héngu uppi í næstum áratug eru enn ekki að öllu leyti afnumin.
Stöðutökur í krónuspilavíti
Það voru ekki einungis vaxtamunaviðskipti og óvarleg lántaka sem skóp áhættu fyrir almenning og fyrirtæki landsins fyrir bankahrun. Svokölluð stöðutaka innlendra aðila gegn krónunni varð líka fyrirferðamikil þegar leið á tímabilið.
Á nokkrum árum, snemma á þessari öld, styrktist íslenska krónan mikið vegna þess að hingað til lands streymdi áðurnefnt ódýrt erlent lánsfjármagn. Krónan var augljóslega ofmetin og ljóst að hún myndi hrynja þegar enginn myndi vilja lengur taka við íslenskum krónum fyrir erlendan gjaldeyri.
Íslensku bankarnir vissu um þennan óumflýjanleika og gátu að einhverju leyti stýrt því hvernig hann myndi eiga sér stað. Þeir, og fylgitungl þeirra, tóku sig saman og hönnuðu risastórt veðmál um það hvernig íslenska krónan myndi þróast. Á fjármálamarkaðarstofnanamáli var þetta kallað stöðutaka og oftar en ekki var hún rökstudd með því að bankarnir, og fylgitunglin, væru orðin svo stórir alþjóðlegir leikendur, með svo stóran hluta af eignum sínum erlendis, að þeir þyrftu að „verja“ þá stöðu með því að eiga gjaldeyri.
En raunveruleikinn var sá að bankarnir, og fylgitunglin, voru að taka miklu stærri stöðu gegn krónunni en slíkt umfang gaf tilefni til. Þeir voru einfaldlega að veðja á að krónan myndi falla, og að það myndi skila þeim miklum hagnaði. Í kjölfarið beittu þeir sér markvisst fyrir því að veðmál þeirra myndi örugglega ganga upp.
Hægt að fella krónuna með handafli
Þegar fór að líða á árið 2007 fóru sífellt fleiri að átta sig á því að kannski væru endalok íslenska bankaundursins væri framundan. Þeir sem höfðu vitneskju og skilning á því hvernig bankarnir voru raunverulega uppbyggðir, og hversu viðkvæm staðan raunverulega var, fóru að huga að því að bjarga eigin skinni. Það var meðal annars gert með því að safna gjaldeyri sem var síðan framseldur til stærstu hluthafa og vildarviðskiptavina í gegnum afleiðusamninga.
Kaupþing, stærsti íslenski bankinn, var stórtækastur í þessu. Hann keypti gríðarlegt magn af gjaldeyri á millibankamarkaði í lok árs 2007 og í upphafi árs 2008. Þessi uppkaup leiddu meðal annars til þess að íslenska krónan féll í mars 2008 og svo aftur í september sama ár, samtals um 70 prósent. Einn banki gat keypt svo mikið af gjaldeyri á markaði að hann felldi íslensku krónuna með handafli.
Hugmyndin var að ef þetta veðmál gengi upp gætu þessir aðilar bjargað sér þegar krónan myndi hrynja, og þeir gætu leyst út stjarnfræðilegan hagnað af því. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis stendur að „frá því í nóvember 2007 og fram til janúar 2008 keyptu fimm innlend fyrirtæki, það er Exista, Kjalar, Baugur og tvö félög tengd Baugi, 1.392 milljónir evra í framvirkum samningum og stundarviðskiptum við íslensku bankana. Meirihluti þess gjaldeyris var keyptur af Kaupþingi. Þetta vekur óneitanlega athygli sérstaklega í ljósi þess að viðskiptin voru mjög umfangsmikil miðað við fyrri viðskipti flestra þessara fyrirtækja“. Ólafur Ólafsson, eigandi Kjalars, var einn af stærstu eigendum Kaupþings. Það var Exista, þar sem Lýður og Ágúst Guðmundssynir voru stærstu eigendur, líka. Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi Baugs, var á meðal stærstu eigenda Glitnis og stór viðskiptavinur Kaupþings og Landsbanka Íslands.
Það var vitneskja um hvað væri að eiga sér stað í stjórnkerfinu, án þess þó að gripið væri inn með ákveðnum hætti. Seðlabankinn hafði til að mynda áhyggjur af því að bankarnir, og sérstaklega Kaupþing, væri meðvitað að fella krónuna. Í bréfi sem Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason, sem þá voru tveir af þremur seðlabankastjórum landsins, sendu 2. apríl 2008 sagði að Kaupþing og Exista kynnu að hafa nýtt stöðu sína á gjaldeyrismarkaði til að „stuðla að og hagnast á gengislækkun íslensku krónunnar“.
Tryggðu sér áfram völd
Þessir aðilar sem tóku þessar stóru stöður gegn íslensku krónunni fyrir hrun reyndu svo að fá að gera samninganna upp á markaðsgengi krónunnar hjá evrópska seðlabankanum eftir að það var um garð gengið, þegar hún hafði magalent. Í byrjun árs 2009, svo dæmi sé tekið, var krónan skráð þar á 290 krónur en á 167 krónur hjá Seðlabanka Íslands.
Svo þetta sé sett upp í ímyndað dæmi þá væri fjárfestingafélag, sem hefði t.d. keypt evrur í gegnum framvirkan samning þegar gengi þeirra var 100 krónur, að reyna að fá að gera upp þann samning á genginu 290 krónur. Þ.e. það ætlaðist til þess að fá næstum þrisvar sinnum fleiri krónur út úr veðmálinu en það lagði inn. Þessar krónur áttu svo að notast, aðallega, til að skera viðkomandi niður úr skuldasnöru í hinu fallna bankakerfi.
Þótt gjaldmiðlasamningarnir hafi ekki verið greiddir út þá nýttust þeir mörgum þegar þeir sömdu um skuldir sínar, og áframhaldandi yfirráð yfir stærstu fyrirtækjunum sem þeir höfðu komist yfir fyrir hrunið. Þeir gátu haldið áfram að vera ríkir og valdamiklir.
Almenningur og lífeyrissjóðir töpuðu
Það er þó þannig að þegar einhver græðir þá þarf einhver að tapa. Til að byggja upp gjaldmiðlajöfnuð þurftu bankarnir að finna aðila til að taka hina hliðina á veðmálinu, að veðja á styrkingu krónunnar. Það var fyrst og fremst gert með framvirkum samningum við lífeyrissjóði, útflutningsfyrirtæki og jöklabréfaeigendur.
Lífeyrissjóðir landsins unnu að því eftir hrun að gera upp gjaldmiðlasamninga sína við stóru bankanna þrjá. Lengst tók að semja við Kaupþing, en viðræðum við þrotabú þess banka lauk ekki fyrr en í janúar 2013. Heildartap sjóðanna á þessum samningum nam um 70 milljörðum króna.
Á sama tíma og bankar voru að ryksuga upp gjaldeyrismarkað og vinna að því að fella gengi krónunnar, til að græða á því, þá var verið að lána íslenskum heimilum og fyrirtækjum, sem höfðu tekjur í íslenskum krónum, í erlendum myntum.
Fjallað er um þetta í bók Sveins Haralds Øygard, sem um tíma var seðlabankastjóri á Íslandi, sem ber nafnið „Í víglínu íslenskra fjármála“ og kom út á íslensku í fyrra.
Að hans mati voru ein afdrifaríkustu mistökin sem áttu sér stað hérlendis fyrir bankahrun að banna ekki skuldsetningu í öðrum gjaldmiðlum en íslensku krónunni. Við lestur bókar hans kemur nokkuð augljóslega fram að Øygard ofbýður það hvernig bankarnir höguðu sér í stöðutökum gegn krónunni.
Hann telur að öllum hafi átt að vera það ljóst að íslenska krónan var ofmetin, en samt héldu bankarnir áfram að dæla út þessum lánum til heimila og fyrirtækja allt fram á það síðasta. Þegar allt hrundi voru 84 prósent bílalána til að mynda í erlendum gjaldmiðlum.
Bankarnir þrír voru þá, líkt og áður sagði löngu farnir að verja sig fyrir óumflýjanlegri lækkun. Øygard segir að Kaupþing hafi byrjað á því árið 2005, Landsbankinn um haustið 2007 og Glitnir í árslok 2007. „Bankarnir höfðu allir keypt erlendan gjaldmiðil fyrirfram, með öðrum orðum höfðu þeir aðgang að erlendum gjaldmiðli á fyrir fram ákveðnu verði einhvern tíma í framtíðinni. Nú skyldi grætt ef íslenska krónan veiktist.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði