Tækifæriskirkjur

Hvað á að gera við gamla kirkju sem ekkert er notuð vegna þess að íbúarnir á svæðinu eru fluttir burt? Í Danmörku eru tugir slíkra guðshúsa, flest mjög gömul. Nú eru uppi hugmyndir um að breyta sumum slíkum kirkjum í svokallaðar tækifæriskirkjur.

Kirkja í Holte í Danmörku.
Kirkja í Holte í Danmörku.
Auglýsing

Í Danmörku eru 2354 kirkjur, sem tilheyra þjóðkirkjunni, Folkekirken. Tæp 70 prósent Dana eru í þjóðkirkjunni en sóknir í landinu eru 2123.

Fyrstu kirkjur í Danmörku voru byggðar á 9. öld, önnur í Slésvík en hin í Ribe. Þær voru timburkirkjur, reistar með konungsleyfi. Þrjár af hverjum fjórum kirkjum landsins voru byggðar á tímabilinu 1000 – 1500, stærstur hluti þeirra á 11. og 12. öld.

Miðaldakirkjurnar, eins og Danir kalla þær, eru margar hverjar keimlíkar, án þess þó að vera nákvæmlega eins: hvítkalkaðar með turni í sama lit, og bröttu brúnrauðu þaki. Þessar kirkjur blasa hvarvetna við þegar farið er um danskar sveitir. Meiri fjölbreytni gætir í nýrri guðshúsum, sem oftast eru í nýjum hverfum og bæjarhlutum.

Auglýsing

Úr sveit í bæ

Á undanförnum áratugum hefur íbúum í dreifbýli fækkað mjög í Danmörku eins og víðar. Sífellt fleiri velja að flytjast í þéttbýlið, einkum í stærri bæi og borgir. Þótt mikið sé talað um að „stöðva flóttann úr dreifbýlinu“ virðist það hægara sagt en gert. 

Fólksfækkun á landsbyggðinni hefur margháttaðar breytingar í för með sér, verslanir, verkstæði, bankar og bensínstöðvar hverfa, skólum er lokað o.s.frv. Fólksfækkunin hefur líka mikil áhrif á kirkjustarfið. Kirkjurnar eru lítið notaðar. Fáir mæta í messur, brúðkaup, skírnir og jarðarfarir eru örfáar á hverju ári.

Sóknarnefndir

Í Danmörku eru eins og áður var nefnt 2123 sóknir. Í hverri sókn er sóknarnefnd (menighedsråd) sem ber ábyrgð á rekstri og umsjón kirkjunnar.  Lög um sóknarnefndir voru sett árið 1903, þar var gert ráð fyrir að í hverri sókn væri sóknarnefnd. Þeim lögum var síðar breytt þannig að sama sóknarnefndin getur nú tekið til nokkurra sókna. Sóknarnefndir í Danmörku eru nú um 1700 talsins.

Í sóknarnefnd situr prestur viðkomandi sóknar og síðan minnst fimm en mest fimmtán fulltrúar íbúa í sókninni. Þeir eru valdir með íbúakosningu, sem fer fram á fjögurra ára fresti. Hlutverk sóknarnefnda er að halda utan um starfið í viðkomandi sókn og verksviðið er nákvæmlega útlistað í lögum, þeim var síðast breytt árið 2013. Meðal þess sem heyrir undir sóknarnefndina er rekstur viðkomandi kirkju, þar með talið viðhald hússins.

Reksturinn mörgum sóknum ofviða

Rekstur danskra kirkna er fjármagnaður með sérstökum skatti, kirkeskat, sem um gilda sérstakar reglur. Hann er hlutfall af tekjum viðkomandi einstaklings og það hlutfall er mismunandi eftir sveitarfélögum. Fækkun íbúa í mörgum sveitarfélögum hefur leitt til þess að tekjurnar hafa skroppið saman og rekstur flestra sveitarfélaga þungur. Þetta bitnar á allri starfsemi, kirkjunum þar meðtöldum. Samkvæmt lögum ber sóknarnefndum að halda kirkjunum í „viðunandi ástandi” eins og það heitir í lögunum. Það þýðir að sjá til þess kirkjan sé upphituð og húsið liggi ekki undir skemmdum vegna veðurs og vinda. Eins og fyrr var nefnt er stór hluti danskra kirkna gamall og eru því hluti dansks menningararfs, samkvæmt lögum.

Kirkjan í Skørping.

Byggingar sem falla undir þessa skilgreiningu má ekki rífa eða taka til annarra nota, nema með sérstöku leyfi, þetta gildir reyndar um allar kirkjur. Innan kirkjunnar hafa farið fram miklar umræður um hvað sé til ráða varðandi rekstur guðshúsanna.

Dagblaðið Jótlandspósturinn hefur að undanförnu fjallað talsvert um þessi mál. Fyrir skömmu birtist í blaðinu viðtal við Kirsten Sanders formann sóknarnefndar kirkjunnar í Blidstrup á Mors á Norðvestur- Jótlandi. Sóknin er mjög fámenn, sóknarbörnin aðeins 122. Nú standa yfir umfangsmiklar viðgerðir á kirkjunni, sem var vígð árið 1140. Kostnaður við viðgerðirnar er áætlaður um 6 milljónir danskra króna (110 milljónir íslenskar).

Í viðtalinu varpaði sóknarnefndarformaðurinn fram þeirri spurningu hvort réttlætanlegt væri að verja svo miklu fé til viðgerða á kirkju sem er lítið notuð og fáir sækja. „Þetta er ekki auðvelt, okkur ber að halda kirkjunni við og nú var komið að viðgerðum og endurbótum sem hafa setið á hakanum árum saman.”  Jótlandspósturinn ræddi líka við Ullu Kjær, sérfræðing á Þjóðminjasafninu, sem sagði að  „ekki mætti gleyma því að í Danmörku eru kirkjurnar nánast einu byggingarnar sem til eru frá miðöldum, og þær eru menningarverðmæti”.

Tækifæriskirkjur 

Innan dönsku þjóðkirkjunnar hefur að undanförnu mikið verið rætt um framtíð guðshúsanna í landinu. Margir mega ekki til þess hugsa að gömlum kirkjum verði lokað og þær teknar úr notkun. Ein þeirra leiða sem rætt hefur verið um er að kirkjum í fámennum sóknum, einkum þar sem stutt er í næstu kirkju, verði breytt í svonefndar tækifæriskirkjur (lejlighedskirker). Þá yrði viðkomandi kirkju lokað nema um stórhátíðar og við sérstök tækifæri.

Með þessu móti væri hægt að halda rekstrarkostnaði í lágmarki, til dæmis væri ekki þörf á sérstökum kirkjuverði, kynding miðaðist við að halda húsinu frá skemmdum o.s.frv. Prófastur sem Jótlandspósturinn ræddi við taldi þetta góða hugmynd, með þessu móti héldi viðkomandi guðshús reisn sinni, eins og hann komst að orði, en kostnaðurinn yrði mun minni. Þetta mál er á byrjunarstigi, áðurnefndur prófastur sagði að ákvarðanir af þessu tagi yrðu ekki teknar í einum grænum en mikilvægt væri að umræðan væri komin í gang.

Kirkjugarðarnir

Víða í Danmörku eru stórir kirkjugarðar. Þetta á ekki hvað síst við í dreifbýlinu þar sem landrými er meira en í borgum og bæjum. Í  mörgum görðum í smáum sóknum eru dæmi um allt niður í eina jarðsetningu á ári. Líkbrennslur verða sífellt algengari og á síðasta ári voru einungis 16 prósent þeirra Dana sem létust jarðsett í kistu, 84 prósent voru brennd.

Duftker taka mun minna pláss en hefðbundin kista og þess vegna hafa sóknarnefndir víða um land viðrað hugmyndir um breytingar á kirkjugörðunum. Til dæmis að þeir verði að hluta til gerðir að eins konar skrúðgörðum. Nokkrum kirkjugörðum hefur reyndar þegar verið breytt í þessa átt, þar á meðal Vester Hassing kirkjugarðinum skammt frá Álaborg á Jótlandi. Umsjónarmaður garðsins sagði í blaðaviðtali að fólk kynni vel að meta þessa breytingu og kvaðst þess fullviss að á næstu áratugum yrðu miklar breytingar á dönskum kirkjugörðum. 


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Helgason
Kominn er tími á umbætur á kosningakerfinu
Kjarninn 3. ágúst 2021
Minnsti álútflutningur í átta ár
Þrátt fyrir hækkandi álverð á heimsvísu hefur magn útflutts áls minnkað á síðustu mánuðum. Heildarútflutningur á síðasta árshelmingi hefur ekki verið minni síðan árið 2013.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr efst hjá Sósíalistaflokknum í Reykjavík suður
Listi Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hefur verið kynntur. „Þetta er fjölbreyttur listi og kraftmikill. Fólk sem vill breyta samfélaginu þannig að allir hafi tækifæri til blómstra, hafi öruggt og gott húsnæði og góð laun,“ segir oddvitinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigmundur Ernir ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins
Jón Þórisson, sem hefur ritstýrt blaðinu frá því haustið 2019 ætlar að snúa sér að öðrum störfum. Sigmundur Ernir verður einnig aðalritstjóri Torgs.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Bólusetningin hafi ekki skapað það hjarðónæmi sem vonast var til
Flest smit að undanförnu má rekja til hópatburða en delta afbrigði veirunnar hefur breiðst út á ótrúlegum hraða að sögn sóttvarnalæknis. Til stendur að bjóða þeim sem fengu Janssen bóluefni upp á aðra bólusetningu sem og að bólusetja 12 til 15 ára börn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir
Náttúruspjöll í Vatnajökulsþjóðgarði
Kjarninn 3. ágúst 2021
Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festis segir félagið ekki ætla að reyna fyrir sér í byggingargeiranum.
30 þúsund fermetra uppbygging í stað bensínstöðva
Samkvæmt samkomulagi Festis við Reykjavíkurborg á Festi byggingarrétt á lóðum þar sem til stendur að loka bensínstöðvum N1. Félagið hyggst selja byggingarréttinn í stað þess að byggja. „Það er ekki okkar bissness, það eru aðrir í því,“ segir forstjórinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans – 5. þáttur: „Vits er þörf þeim er víða ratar“
Kjarninn 3. ágúst 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar